Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

28.12.2011 14:12

Lýs milda ljós

Í dag er barnadagur, minningardagur um börnin sem Herodes lét taka af lífi eftir að vitringarnir höfðu sagt fyrir um fæðingu Krists segir í sögu daganna. Það hefur mikið gengið á í henni Versu gegn um tíðina og gildir þá einu hvort í hlut eiga konur eða karlar, óháð aldri (reyndar kvarta konur yfir því að hlutur þeirra sé fyrir borð borinn í sögunni). En hvað sem sagan segir þá erum við stödd á þessum stað á þessum tíma og verðum, gjörið þið svo vel, að höndla staðinn og stundina.  Mönnum er það mislagið eins og gengur og getur einum þótt fallin orð eða framkoma óviðeigandi, meðan öðrum þykir mismikið til koma. Það er sem sagt með öðrum orðum, erfitt að gera öllum til hæfis.


Eyðibýli Gríms Sæmundsen undir Brekkunni

Fjórði í jólum er dagurinn sem skiptir máli, dagurinn í dag og jólasveinarnir farnir að snúa til síns heima og styttist í áramót. Það var um daginn í útvarpinu að tveir jólasveinar sátu fyrir svörum í beinni útsendingu. Lítill drengur spurði sveinana í einlægni hvort Grýla borðaði ennþá börn. Það kom fát á jólasveinana við þessari einföldu spurningu og svöruðu þeir eitthvað á þessa leið. "Um, ja, nei! hún er hætt að borða börn því hún er komin á "diet"" svöruðu þeir og önduðu léttar og fannst bara þeir hafa sloppið nokkuð vel frá þessari grunnspurningu. Ég held að næsta spyrjanda hafi verið hleypt að í kjölfar þessa svars. Ég var hugsi yfir þessu svari og ég held að ungi drengurinn hafi verið það líka án þess þó að vita það.  Það var ekki slettan "diet" sem truflaði mig heldur setti ég mig í spor umboðsmanns barna þegar ég heyrði þetta. Er þetta ekki frekleg aðför að æsku landsins, alhæfing á hæsta stigi að segja að grýla sé hætt að borða börn vegna þess að þau séu of feit. Hér á árum áður borðaði Grýla börn því þau voru holdrýr og ekki fituörðu að finna en núna er hún komin á "diet", sem sagt borðar ekki feitt kjöt. Söngli nú nikrar í neðra, hingað og ekki lengra. Í dag snýst allt lífið um kíló, staðalímyndir . Auðvitað á Grýla að halda í sínar venjur óháð einhverjum vel skipulögðum, markaðssettum tíðaranda.

Það koma oft menn til mín í hornið á Aðalgötunni  á ferð sinni um óravíddir veraldarvafstursins og hafa yfirleitt frá ýmsu að segja. Í gær kom til mín í smáspjall, snillingurinn og sögumaðurinn Magnús Sigurðsson frá Hnjúki (nú á Flögu) og hafði hann undir hendi hrásalatsdós sem reyndist full af peningum, íslenskri mynt í dós, sem sagt. Eftir frekari eftirgrenslan kom í ljós að í hrásalatsdósinni var hluti af sjóði Lomberklúbbsins í Húnaþingi. Þetta var sá hluti Lombersjóðsins sem var ætlaður til kaupa á ölföngum fyrir jólaspilakvöld klúbbsins sem verður haldið í Flóðvangi næst síðasta kvöld ársins. Þessi hrásalatdós var síðan uppspretta frekari umræða um hvernig menn geymdu peninga hér áður fyrr meir. Rifjaðist upp fyrir Magnúsi margt seðlabúntið í höndum bændahöfðingja í Vatndal fyrr á árum, þéttvafið með teygju. Það var notalegt að ræða um peninga við Magga og eitthvað svo manneskjulegt hvernig hann skaut augunum annað slagið á hrásalatsdósina yfir efri brún gleraugnanna. Maður fékk það á tilfinninguna að þarna færi maður sem hefði vit á peningum. En hvað sem öðru líður þá er alltaf gaman að fá Magnús frá Hnjúki í heimsókn því ekki fylgir honum þögnin.


Kjarni gamla bæjarhlutans á Blönduósi

Á Vesturbakkanum hefur ríkt mikill friður um hátíðarnar.  Hugsanlega getur það stafað af því að ég veit ekki betur vegna meiri fjarveru. Þegar ég skifa þessi orð þá rennur upp fyrir mér að ég hef ekki í langan tíma heyrt í Jónasi Skafta á Ljóninu en hann er eins og farfuglarnir enn fyrir sunnan okkur með söguna sína endalausu um baráttu Ljónsins við sýslumann og bæjaryfirvöld.

Það er enginn Gluggi í dag þannig að maður gefur sér bara tíma í staðinn til að lesa aftur yfir jólakveðjurnar í síðasta Glugga. Af því að ég ritaði hér fyrr um Jónas og stríð hans við yfirvöld  datt mér ekki annað í hug en að jólakveðjan frá Sýslumannsembættinu yrði svona:  Óskum öllum íbúum umdæmisins nema Jónasi Skafta o.s.frv. ............. Nei, nei lesendur góðir! Yfirvaldið var milt og var enginn skilinn útundan í jólakveðjunni. "Lýs milda ljós" var það fyrsta sem kom upp í huga mínum við þessa uppgötvun en mundi þá allt í einu að þetta voru upphafsorð í útfararsálmi.Þetta er ekki viðeigandi , hélt ég áfram að hugsa. En sem betur fer hélt ég áfram að hugsa. Það skyldi þó aldrei verða að þessi hugljómun hafi verið fyrirboði um það að allar deilur Jónasar við yfirvöld verði settar niður á árinu sem senn gengur í garð. Guð láti gott á vita.

Eitt er víst, árið hverfur  í bláinn,

öruggt  í aldanna skaut.

Og bjartsýn blundar þráin

um blessun og lausn á þraut.

 

Með þessum orðum lýkur 52. pistli ársins 2011

 

Gleðilegt ár þið öll sem lítið hér inn á síðuna og lesið ritæfingar mínar, það er notalegt að vita af ykkur.

 

 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 310
Gestir í dag: 78
Flettingar í gær: 719
Gestir í gær: 392
Samtals flettingar: 66124
Samtals gestir: 12134
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 10:39:42