Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

14.12.2011 15:05

Þú ert nú meiri kalkhúnninn

Ég horfi á minnkandi tugl á vesturhimni og velti vöngum. Ég leit aðeins í dagatalið og sá að  Imbrudagar að vetri hefjast í dag.  Ekki ætla ég að dvelja lengi við Imbrudaga  að öðru leiti en því að þeir munu vera fjórum sinnum á ári og þrír í senn og er einhverskonar föstuinngangur.


Dagarnar halda áfram að styttast en það styttist líka í það að það breytist og nyrðri hluti jarðarinnar fari aftur að snúa sér til ljóssins. Það er merkilegt hvað þetta ljós hefur stórt hlutverk í lífi sérhvers manns og hve snjöll hugmynd það er að hafa myrkur á nóttinni og ljós á daginn. Það segir sig sjálft að maður hefur ekkert með ljós að gera á nóttinni því þá er maður hvort sem er með lokuð augum. Öðru máli gegnir á daginn þegar við þurfum birtu til að sjá hvað við erum að gera í hinu daglega amstri. Skaparanum er ekki fisjað saman hvað þetta snertir því þetta sá hann allt saman fyrir. Reyndar eru dagarnir langir yfir hásumarið en það er hægt að rökstyðja það með því að við sem norðlægar slóðir byggjum þurfum lengri birtutíma yfir há bjargræðistímann til að afla fanga fyrir veturinn. Þetta er allt þaulhugsað frá A-Ö og ef maður hefur vit og þroska þá hlusta menn eftir hjartslætti náttúrunnar og taka tillit til hans.


Þó öldurnar brjóti á ströndinni lætur Jónas ekki brjóta á sér þegjandi og hljóðalaust

En mennirnir eru misjafnir sem þeir eru margir og það sannast best á vertinum á Ljóninu honum Jónasi Skafta. Jónas hefur fengið áheyrn hjá Innanríkisráðuneyti Íslands sem mun vera undanfari stefnu gegn Blönduósbæ, sýslumanni og lögreglu. Jónas ætlar sem sé að hitta Ömma frænda eins og hann er kallaður hér í Húnaþingi. Ögmundur er eins og margir vita, ættaður frá Torfalæk og á mikinn frændgarð í Húnavatnssýslu. En Jónas hefur ekki sagt sitt síðasta í stríðinu við yfirvöld og hefur nú í hyggju að fá Ömma frænda til liðs við sig gegn bæjaryfirvöldum og sýslumanni og hans mönnum.  Ég vona bara að Bellu, grábröndóttu kisunni hans Jónasar verði ekki meint af þessu öllu saman en held þó ekki því Bella og Jónas eru lík að því leiti að þau fara sínar eigin leiðir.

Annað kvöld verður samkoma háð í gömlu kirkjunni þar sem sitt lítið af hverju verður á dagskrá. Ekki er að efa að þetta verði áhugaverð samkoma því það er einmitt hugmynd kirkjueigenda að gamla kirkan verði griðarstaður fyrir menningu af ýmsum toga. Af óviðráðanlegum ástæðum get ég ekki sótt þessa samkomu og þykir það miður. Svona er nú lífið einu sinni, maður verður að velja og hafna.


Þetta fallega hús sem kallað er Þorsteinshús lúrir undir brekkunni og hýsir um þessar mundir mann sem fylgist með stórgripum síðustu ævidaga þeirra. Glugginn lengst til hægri á austurgafli er oft opinn fyrir húnvetnsku lofti.


Rúnar kom að venju með Gluggann og nú í ljúfu vetrarveðri. Nú eins og svo oft áður hafði hann Strákabandið með í för. Þeir félagar léku við hvern sinn fingur hið þekkta lag "kveikjum eld" og það var engu líkara að þessir ágætu listamenn hefðu kveikt í Rúnari því hann lá á flautunni til að stugga við bíl sem stóð fyrir utan dyrnar hjá mér. Bíllinn haggaðist hvergi en ég spratt úr sæti og bauð Rúnar velkominn með ákveðinni handahreyfingu í dyragættinni. Rúnar kom um síðir með Gluggann en stoppaði stutt en nógu lengi til að gefa miðvikudeginum dýpri tilgang.

Gluggi dagsins er hófstilltur miðað við að jólin eru á næsta leiti. Flatskjáir, hangikjöt og kalkúnar og fleira góðmeti er auglýst. Páll Ingþór verður í Gunnfríðarstaðaskógi á sunnudaginn og sendir fólk inn í skóginn í leit að jólatré. Skrifstofa USAH og Hvatar er flutt á þann stað sem Kjalfell hafði áður sína verslun og þar verður tekið á móti jólapósti síðustu daga fyrir jólin. Gunna Ben verður í Eyvindarstofu með jólaskreytingar. Meðan ég man þá leist mér leist ansi vel á hátíðarsalatið sem Samkaup er með uppskrift að í Glugganum. Ég segi nú eins og þeir sem vitið hafa "þetta er svona ansi mikið ég".

Svona í blálokin þá staldraði ég aðeins við orðið kalkúnn. Fór að velta því fyrir mér hvort ætti kannski að skrifa það "kalkhúnn" . Eftir smá uppflettingar þá varð niðurstaðan sú að háinu skyldi sleppt en mætti ekki nota kalkhúninn um húnvetnskan þverhaus. Það hljómar óneitanlega betur að segja við húnvetning sem augljóslega er ekki með hýrri há, viðskotaillur og þverari en andskotinn: Þú ert nú meiri kalkhúnninn".

        Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og er sú níunda í röðinni um happ skagfirðinga að eiga Þórólf Gíslason kaupfélagsstjóra að.

        Samhengið er eitthvað sem öllum er nauðsynlegt að hafa tiltækt þegar komast þarf að skynsamlegri niðurstöðu eftir vangaveltur út og suður.

 

            Bráðum koma blessuð jólin,

            bráðum fáum pakka í hönd.

            Svo hækkar á lofti heilög sólin,

           hægt við ystu sjónarrönd.

  

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 965
Gestir í dag: 130
Flettingar í gær: 719
Gestir í gær: 392
Samtals flettingar: 66779
Samtals gestir: 12186
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 22:31:07