Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

29.10.2014 14:14

eins og veruleikinn bak við veruleikann



Kvennaskólinn með Spákonufellið í baksýn

Það er merkilegt við miðvikudaga að þá ber nánast aldrei upp á neina merkilega daga í almanaki Háskólans svona eins og tveggja postula messu sem var í gær. Þrátt fyrir þennan annmarka á miðvikudögunum þá eru miðvikudagar í skammtímaminninu oftast stilltir og bjartir dagar nema í undantekningar tilvikum. Til dæmis er dagurinn í dag stilltur og bjartur en ber í sér -4 gráðu svala úr ASA. Reyndar er þetta ekki heppilegasta áttin hvað varðar gasið úr eldgosinu í Holuhrauni en þegar þetta er skrifað verður maður ekkert var við SO2 í andrúmsloftinu og fyrir það þakkar maður.


         Skuggi sólar varpar krossi á kirkjuvegginn

           Þó svo miðvikudaga beri ekki upp neina merkilega daga í almanaki Háskólans þá hefur Steinn Steinarr gert þennan dag ógleymanlegan með ljóðinu "Miðvikudagur"

 

 Miðvikudagur. ­- Og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
Manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt,
því svona hefir það verið og þannig er það.

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stífið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. ­ Þannig er lífið.

Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl,

og mönnum er lánað, þó enginn skuld sína borgi.
Um malbikuð strætin berst múgsins háværa ös,
og Morgunblaðið fæst keypt niðr'á Lækjartorgi.

Miðvikudagur. ­- Og lífið gengur sinn gang,
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.
Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær,
í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn
.

 

sem svo vel gæti hafa verið ort í dag þó svo ég viti ekki fyrir víst hvort Morgunblaðið fáist keypt niðri á Lækjartorgi . Gunnar Kristjánsson prófastur ritaði á sínum tíma í tilefni aldarafmælis Steins m.a. eftirfarandi: "Í ljóðum Steins er hvort tveggja að finna, annars vegar sterka afneitun á tilgangi lífsins en hins vegar sterka vitund um að lífið sé borið uppi af leyndardómi, af von, draumum og ást. Í "Stiganum" (Rauður loginn brann 1934) lýkur hugleiðingum ljóðsins um stigann með samanburði við lífið sjálft":

Svona undarlegur 

         er þessi stigi, ... 

         eins og lífið sjálft, 

         eins og veruleikinn 

          bak við veruleikann


Endur á flugi með kirkjuna og snævi þakið Langadalsfjallið í baksýn

         Svo skemmtilega vill til að ég rakst fyrir tilviljun á ljóð eftir Stein Steinarr sem ort var í húsi sem nú ber nafnið Blöndubyggð 9 og hýsir nú kaffihúsið "Ljón norðursins". Í þessu húsi hékk ljóðið í ramma uppi á vegg en  Steinn mun hafa gist í þessu húsi þegar Páll Geirmundsson og Hjálmfríður Anna Kristófersdóttir bjuggu þar og má segja að þau séu með þeim fyrstu sem voru með veitinga- og gistiþjónustu fyrir ferðamenn hér um slóðir. Kvæði þetta  er um stigann í þessu húsi sem enn stendur og hljóðar svo:

Þessi stigi er sjálfsagt eins

og aðrir stigar

í öðrum húsum.

Hann liggur niður í kjallara

og upp á efstu hæð,

svona auðmjúkur og kurteis

gagnvart öllum mönnum,

sem um hann fara.

Og hér hefur hann verið

frá því húsið var byggt,

í hálfa öld eða jafnvel lengur,

og heyrt og séð allt, sem gerðist

í þessu húsi,

bæði á sumri og vetri,

vori og hausti.

Svona þögull og alvarlegur

eins og hann er í dag

hefir hann alltaf verið,

hvort sem börn eða gamalmenni

gengu tröppur hans,

hvort sem íbúar hússins

héldu brúðkaup sitt

eða voru bornir til grafar.

Svona undarlegur

er þessi stigi,

svona óskiljanlegur

í sínum einfaldleika,

eins og lífið sjálft,

eins og veruleikinn

bak við veruleikann.  

Þetta ljóð um "Stigann" yrkir Steinn lögnu eftir að hann birti ljóð sitt um "Stigann" sem áður er getið og hann notar niðurlagið úr fyrra ljóðinu í þetta ljóð með smá viðbót. Sagan er allsstaðar og meinlaus miðvikudagur getur verið uppspretta einnar slíkrar.


 Fuglinn í fjörunni á flugi yfir ós Blöndu

Glugginn er kominn og  og ber þar hæst að "Drengjakór íslenska lýðveldisins" undir stjórn Sólveigar Sigríðar Einarsdóttur mun skemmta á Pottinum um helgina og  Jooð Ess yrkir vísu vikunnar. Samkvæmt áræðanlegum heimildum þá mun þessi vísa vera eftir "undrabarnið" Jónas Skaftason á Ljóninu og mun vera 20 ára gömul og ort í tilefni þess að þá fór nýstofnuð vínbúð annað en til hans og Guðsteins í kaupfélaginu. Ekki ætla ég að birta þessa vísu hér því ég óttast að Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum gæti fengið nett bragfræðilegt áfall en bendi áhugasömum á vísuna inni á huni.is (http://www.huni.is/index.php?pid=1).

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 43
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 107
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 65138
Samtals gestir: 11701
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 03:16:38