Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

08.10.2014 16:00

að laðast að því sem tortímir manni


Gamla kirkjan á Blönduósi hefur tekið stakkaskiftum í sumar

Í dag er fallegur haustdagur og það má að skaðlausu þakka fyrir undanfarna daga sem bæði hafa verið mildir og hægir . Þrátt fyrir rólyndisdaga þá hefur  þung alda leikið við ströndina. Það er eitthvað seiðmagn við þessar öldur sem eru tignarlegar en ógnvænlegar. Sjálfsagt er það brennt í undirmeðvitundina að hrífast af ógnaröflum, öflum sem maður hefur ekki nokkur tök á að hemja. Það er merkilegt að laðast að því sem tortímir manni. Ætli þetta eigi eitthvað skylt við freistingarnar sem verða á vegi manns, falli maður þá er voðinn vís. Ég skal ekki segja.

Ég brá mér í hálfs mánaðar frí til sólarlanda til að upplifa þá mestu rigningu sem ég hef á minni lífsfæddri ævi séð. Göturnar breyttust í stórfljót á örskotsstundu og fengu mann til að hugsa lítillega um syndarflóðið. Kannski hefur þetta verið vísbending að ofan, góðlátlegt olnbogaskot frá æðri máttarvöldum en hvað veit ég syndugur maðurinn sem þrammar áfram hinn breiða veg en sveigi þó frá stærstu keldum sé þess nokkur kostur.



Auðugt fuglalíf við Blöndu ós

Nú er ég búinn að vera við störf á Vesturbakkanum í rétta viku eftir frí og farinn að átta mig á staðreyndum lífsins. Það er greinilegt á öllu að ferðamanna tímabilið þetta árið er að líða undir lok. Þetta skynja ég á Jónasi vert á Ljóninu sem segir mér daglega að hann viti bara ekkert hvað hann eigi að gera því gestum hjá honum hefur stórlega fækkað hina síðustu daga. Ef ég á að vera heiðarlegur þá fer um mig ónotatilfinning þegar ég heyri þetta frá Ljóninu því ljón sem veit ekki hvað það á að gera getur tekið upp á öllum fjandanum eins og til dæmis að eltast við allt stjórnsýslukerfið með kærur í hverjum vasa. Það er sem sagt þannig að verkefnalausir baráttumenn eiga bágt og geta tekið upp á ólíklegustu hlutum sem í einhverjum tilfellum væri betur ógerðir.

Það eru ýmsar blikur á lofti hér á vesturbakkanum þessa haustdaganna. Má þar nefna að Erlendur listamaður Magnússon hefur auglýst húsið sitt sem kallað er Hemmertshús og stendur við hafið rétt neðan við hótelið. Gamalt fallegt hús með stórkostlegu útsýni yfir Húnaflóann.  Einnig hefur ÁTVR auglýst eftir húsnæði fyrir verslun sína sem hefur verið við Aðalgötu 8 alla daga frá því að þeir hófu verslunarrekstur á Blönduósi. Sjálfsagt er eitthvað fleira í gerjun sem ég hef ekki hugmynd um en það sem upp er talið eru töluverð tíðindi.


Þessi hrafn er ekki málaður á vegginn heldur átti bara leið um

Hef eiginlega ekkert orðið var við Rúnar vin minn Agnarsson síðan ég kom til vinnu eftir frí og finnst mér það  líkt og áður, heldur miður. En Glugginn er kominn og er svo sem ekkert með neinn stór boðskap en þó mikilvægan þeim  þurfa á honum að halda.  Píanóstillingar, kirkjuskóli  og Hyundai Accent árgerð 1999 og er tekið fram í auglýsingu að honum fylgi lyklar.  Vísa vikunnar er eins og svo oft áður eftir Rúnar Kristjánsson skáld á Skagaströnd og yrkir hann að ég tel að þessu sinni um útilistaverkasýningu sem nú er í gangi á Skagaströnd. "Grundahóla hækka ris/ heiðursvistar merkin, /er þar róla rangsælis / ryðguð listaverkin !"


Mál er að linni á fullu tungli. Dagurinn fyrir utan flokkast undir fallegan haustdag og ég mun glaður  teyga  brennisteinslausa súrefnið eftir klukkustund eða svo þegar vinnu lýkur og ég kemst út.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 95
Gestir í dag: 66
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65083
Samtals gestir: 11657
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 18:38:15