Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

22.10.2014 16:26

styrktartónleikar og litur rjúpunnar


Loksins sást yfir á Standir eftir langan huliðshjálm náttúruaflanna.

Dagurinn byrjaði með hægri austlægri át og frostið var -3 gráður um klukkan níu. Í dag er meiri ró yfir veðrinu en verið hefur en ásýnd jarðar hefur breyst mikið því hinn hvíti litur rjúpunnar hefur náð yfirhöndinni. Þessi litur á jörðinni kemur sér vel fyrir hænsnfuglinn rjúpuna sem eignast nýjan óvin á föstudaginn.  Ég veit að á föstudaginn ef veður leyfir þá mun fjölmenni fara um fjöll og dali í leit að þessum eftirsótta jólamat , mat sem mér finnst ómissandi á aðfangadagskvöld. Hér áður fyrr meir þegar maður var ungur og sprækur þá gekk maður til rjúpna og oftast nær einn. Það voru ógleymanlegar stundir þegar rölt var um óbyggðir gersamlega aleinn með skapara sínum og bakpokanum sem hafði að geyma kaffibrúsa og samloku með þykkri lifrarpylsu á milli. Það var notalegt að tylla sér á stein og sötra kaffið og gæða sér á orkumikilli samlokunni, horfa yfir héraðið og skynja smæð sína í veröldinni. Eitt þoldi ég ekki í þessum ferðum þegar maður var búinn að leggja á sig stranga göngu í leit að fugli að allt í einu var brunað fram úr manni á vélsleða og skömmu síðar heyrðust skothvellir og snjósleðinn brunaði til baka en ávallt í nægilegri fjarlægð þannig að hann væri ekki í skotfæri eða hægt væri að hafa tal af sleðamanni. Vonandi hafa veiðimenn það í heiðri að ganga til rjúpna í sæmilegu veðri, virða bráð og umhverfi sitt og koma til byggða með hæfilegt samviskubit.


Hluti af gamla bænum á Blönduósi. Hreppshúsið, Samkomuhúsið og Kiljan svo eitthvað sé nefnt

Þegar Ljón norðursins fer að hugsa þá getur allur allt gerst. Núna þegar ferðamannatímabilinu fer að ljúka hjá Jónasi á Ljóninu þá gefst honum aukinn tími til að virkja hið skapandi afl hugans. Hann er "brandsjúr" á því að hann ætlar að stefna nánast öllum yfirvöldum sem finnast á svæðinu og þó víðar væri leitað. Hann gerir sér grein fyrir því að "svoddan"  umstangi fylgja allnokkur útgjöld og nú gengur hann  með þá hugmynd að efna til styrktartónleika sjálfum sér til stuðnings og mun hann koma fram og gefa alla sína vinnu í þágu verkefnisins.  Jónas hefur ekki enn gefið upp stað og stund varðandi þessa tónleika en hann hyggst nota afganginn af ágóðanum til að stofna styrktarsjóð sem ætlað er að nýta í að styrkja siðferðisvitund allra þeirra sem hann ætlar að lögsækja.  Hann reifaði þá hugmynd að sjóðurinn ætti að að heita "Hjálpum þeim" en þar sem það nafn hefur áður verið notað í göfugum tilgangi þá ákvað hann að nefna sjóðinn " Til hjálpar þeim". Ég er ekki í vafa um að hann mun flytja lögin "komdu inn í kofann minn", "Þrek og tár, Hjálpaðu mér upp og "Heyr mína bæn" að ógleymdu laginu "Fúll á móti". Þetta finnast mér tíðindi allnokkur og er þá vægt til orða tekið.


Haustlauf (birkilauf) í garðinum heima áður en litur rjúpunnar lagðist yfir 

Rúnar lét loksins sjá sig eftir allnokkra fjarveru og hafði mér til mikillar ánægju með sér harmonikkulagið "Strekkbuksepolka" með snillingnum Arnt Haugen. Þetta var vel til fundið hjá Rúnari þó svo hann sé ekki búinn  að yrkja neitt af viti. Hann gæti svo sem alveg hafa ort þetta:

Margt er það sem miður fer,

marinn af samviskubiti.

Næstum allur, október

og ekkert ort af viti.

Það er gaman að sjá Rúnar aftur eftir langan tíma því hann leyfir mér að hamast í sér (pönkast) án nokkurra eftirmála.


Horft yfir Húnafjörð með hestana hennar Huldu Leifs í forgrunni

Glugginn er líka kominn og þar er annar Rúnar sem yrkir um Svangrundar -Móra og Vatna - Jón. Ekkert kannast ég við þessar persónur en einasti Vatna - Jón sem mér kemur í hug er athafnamaðurinn í Ölfusi Jón Ólafsson vatnsútflytjandi.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 99
Gestir í dag: 69
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65087
Samtals gestir: 11660
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 20:06:46