Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

12.12.2007 15:24

Allt með kyrrum kjörum

    Ég var stoppaður um daginn af Blönduóslöggunni fyrir utan bankann og beðinn um að anda. Mér var hugsað til Halldóru Björnsdóttur en það er konan með morgunleikfimina í útvarpinu " Færum beinan hægri fótinn vel aftur og rólega til baka og hristum svo kálfana. Við slöppum af og hristum vinstri handlegginn og síðan öndum við að okkur og rólega frá okkur" Þarna kom það sér vel að hafa hlustað á Halldóru í gegn um tíðina. Þegar Kristmundur einkennisklæddur veifaði löggubláu luktinni sinni fyrir framan mig akandi norður Húnabrautina brá mér ögn. Ég var nefnilega að koma af barnum hjá honum Mumma og búinn að drekka þónokkuð af öli þ.e.a.s. jólaöli. Reyndar fékk ég með ölinu, graflax, nautatungur og annað smálegt góðgæti. " Viltu anda fyrir mig" sagði Kristmundur prúðmannlega. Ég greip andan á lofti og gleymdi Halldóru augnabliksstund en mundi svo allt einu eftir henni og andaði frá mér beint framan í Kristmund. Það glaðnaði yfir pilti og tjáði hann mér að út úr mér streymdi bara ómengaður jólaandi og ég mætti halda áfram ótrauður á vit föstudagskvöldsins. Þegar ég var að hugsa um þetta núna rétt í þessu rifjaðist upp fyrir mér vísa eftir Sigrúnu Harldsdóttur sem mun vera ættuð úr okkar ágætu sýslu:

Vökul, röggsöm, vakir glögg,
veldur skröggum kvíða.
Blönduóslöggan býsna snögg
bregður flöggum víða.

    Þetta undirstrikar í það minnsta hjá mér að rétt er að fara um sitt samfélag með aðgát og tillitssemi og þá einkum og sér í lagi í svartasta skammdeginu og gott til þess að vita að Blönduóslöggan bregði flöggum víða.

    Magga er búin að ljósaskreyta heimili okkar að utan og er ég afar stoltur af henni fyrir framtakið. Það hefur verið afar notalegt að vita af henni í garðinum allt í kringum húsið meðan ég hef getað horft með öryggi og ánægju á Liverpool leggja Marsei ( skrifað eitthvað öðruvísi) að velli með fjórum mörkum gegn engu. Svona leikir lýsa upp húsið að innan en Magga lýsir það upp að utan og saman lýsir þetta upp sálartetrið.

    Allt er með kyrrum kjörum á Aðalgötunni þessa dagana. Reyndar eru Lára og Árni flutt úr götunni og búin að koma sér fyrir í nýju húsi fyrir utan á. Ég sakna þeirra því það var notalegt að sjá til þeirra þegar þau óku hjá á Subaróinum sínum. Stundum rak Árni inn nefið og kíkti á mig í horninu mínu, sagði sögur og skellti upp úr á sinn einstæða hátt. Þeir félagar Stefán Hermannsson og Jón Sigurðsson hundur eru á sínum stað og Helgi Braga er bara nokkuð brattur þó svo að á hann hafi ráðist ruslatunna í vindganginum í fyrrinótt.

Horfðu á nafna þinn segir Stefán með stóískri ró.

    Ég hef alltaf gleymt að spyrja hvaða hlutverki gamla bakaríð eigi að gegna í
framtíðinni. Að minnsta kosti tvær bifreiðar eru komnar í hús og eitt hjólhýsi. Flestir ef ekki allir verkamenn Kráks eru horfnir frá breytingavinnu þannig að ég verð hreinlega að spyrja Lárus sjálfan hvað sé í pípunum. Og síðast en ekki síst þá eru allar innréttingar kyrrar á sínum stað hjá ÁTVR.

    Núna er maður farinn að kannast við Gluggann, Krákur farinn að auglýsa. Það er gleðilegt að sjá Gluggann gildna því það þýðir einfaldlega að það er eitthvað að gerast. Það er boðið upp á jólatré í skógi og innanhúss, jólatónleika og möndlugraut og hrossaeigendur eiga að vera búnir að fjarlægja hrossin sín úr kúagirðingunni fyrir 16. des. Potturinn og pannan er farin að örva bragðlauka fólks og búa það undir skötuna á Þorláksmessu. Vísa vikunnar er á sínum stað og segir okkur frá því að saman geta gengið lífsins veg þeir Megas og herra Sigurbjörn Einarsson með íslenskuna að vopni. Við Rúnar erum farnir að auglýsa eftir því hvort ekki finnist í sýslunni maður ( konur eru líka menn) sem getur ort eitthvað sem kveikir líflegar umræður í samfélaginu. Manni dettur alltaf í hug kveðskapurinn hans Valla heitins Ásgeirs. Vísur sem frá honum komu voru svo dæmalaust hugmyndaríkar og góð undirstaða fyrir frekari umræður og vangaveltur.

    Úr höfðum okkar Rúnars detta nú allar lýs og það dauðar. Birtist ekki dyrunum hjá okkur sendiherra Bótu í Danmörku hann Siggi Davíðs. Siggi fylgdist með gjörðum okkar í nokkurn tíma og yfirgaf okkur þegar hann taldi það víst að við færum ekki fram úr okkur. En það er engu að treysta í þessum málum og Rúnar gaukaði að mér vísu sem hann lærði af Hávarði á sínum tíma og gæti alveg átt heima á þessum stað og Rúnari fannst vísan vera svolítið í anda vísu Sigrúnar hér á undan:

Nú stormur hvass um hugann fer,
hérna skass eitt komið er.
Hrefna rassinn rétti að mér
og reyndi að passa hitt á sér.

    Líta ber á vísuna sem bragfræði fyrir byrjendur á öllum aldri en ekki neinar meiningar út í bæ. Rúnar var örlítuð smeykur við það að láta þessu vísu fjúka svona út í loftið og lét fylgja með sem mótvægisaðgerð, hlýlega vísu til Hrefnu sem hann orti fyrir margt löngu:

Þegar að Kiddi byggði bú,
brátt kom það á daginn.
Að þegar hann gerði þessa frú,
þá var hann býsna laginn

    Við Rúnar auglýsum hér með eftir brag- Hávum og -Völlum svo heimurinn verði örlítið léttari yfirferðar og endilega farið varlega í skammdeginu.

PS Eftir að ég birti þessa færslu kom á daginn að Lára og Árni eru enn á Aðalgötunni en þau eru næstum því flutt og ég sakna þeirra samt
js

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 35
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 719
Gestir í gær: 392
Samtals flettingar: 65849
Samtals gestir: 12075
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 01:13:33