Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2015 September

30.09.2015 15:13

Guðbrandur köttur, minningarorð


Haustið sækir á

Upp er runninn síðasti dagur september þessa árs. Þessi dagur kemur ekki til baka líkt og gengnir dagar. Vindur kemur á 12 metra hraða á sekúndu úr suð suð vestri. Það er til þess að gera bjart að horfa til vesturs en þungt er yfir norðrinu og virðist sá þungi færast í aukana. En síðasta septembersól þessa árs er risin og aldrei hún kemur til baka. Rétt er líka að að geta þess að það gránaði í efstu toppa á Langadalsfjalli í gærmorgun og er það líklega fyrsti grámi haustsins.


Langadalsfjallið gránaði í toppinn í gærmorgun

Það er alltaf  eitthvað sem er á síðasta snúningi. Þetta gildir um dagana, árin, og líftíma allra sem byggja þessa jörð. September er við það að kveðja en einn er sá köttur sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir hefur yfirgefið þessa jarðvist. Ég er að tala um hann Guðbrand kött á Árbraut 16. Þessi högni var afar sérstæður og til af honum nokkrar ótrúlegar sögur. Hann hefur komið með lifandi önd til húsbænda sinna um miðja nótt í gegnum þröngan eldhúsglugga sem olli miklu fjaðrafoki. Auk þess kom hann með í vor spriklandi silung sömu leið og skildi hann eftir á eldhúsgólfinu. Húsbændur héldu að Guðbrandur hefði náð þessum fiski úr heimilistjörn eins af forsvarsmönnum Laxasetursins en við nákvæma rannsókn á því máli er það ekki rétt heldur var hér um vænan Blöndusilung að ræða. Guðbrandur kom stundum óboðin í heimsókn til okkar hjóna að næturlagi. Þegar maður mætti honum á svefnherbergisganginum , hann á útleið en ég sjálfur á leið í eldhúsið  var ekki um annað að ræða en víkja úr vegi og fylgja honum eftir inn í svefnherbergi og draga gluggatjöldin frá svo hann kæmist óhindrað út. Þess skal getið að hann þakkaði aldrei fyrir næturgistingu en kettir með sömu stöðu í virðingarstiganum og Guðbrandur  þurfa ekki að standa í slíkum smámunum.


Það fór vel á með þeim Guðbrandi og Elísu dótturdótturdóttur hennar Bebe (Elísabet Finnsdóttir) í sumar

Vesturbakkinn er enn á sínum stað og mannlífið þar er með svipuðum hætti frá degi til dags. Eitt er þó aðeins að breytast  en það er að hinir erlendu gestir sem hafa gist á gisthúsunum hér allt um kring í sumar fer nú fækkandi með lækkandi sól.  Gæsum fer ört fækkandi úr bæjarlandinu og eru líkast til búnar að finna sér næringarríka bithaga á óþoskuðum kornökrum bænda í nágrenninu. Mávarnar , a.m.k. nokkrar tegundir þeirra eru ekki á förum og virðast hafa nægt æti í ósnum.

Ívar Snorri sem nýlega festi kaup á bátnum Margréti HU-22 hefur flutt bátinn frá Hvammstanga landleiðina því eins og greint var frá í síðasta pistli þá leist Ívari ekki á að sigla út Miðfjörðin vopnaður þeim siglingatækjum sem báturinn hafði að geyma. Margrét HU-22 er semsagt komin á Blönduós og nú getur Ívar tekið til óspilltra málanna við að gera bátinn klárann fyrir átök næsta sumars. Ekki veit ég hvort hann hyggi á strandveiðar en kunnugir sæfarar segja mér að Ívar verði ætíð hálfnaður á miðin þegar hinn hefðbundni strandveiðibátur mæti honum með leyfilegan hámarksafla á leið í land. Ástæðan er einföld og bláköld, ganghraði. En Ívar Snorri er kominn með bát og vonandi fáum við sem fyrst að heyra notalegt tvígengishljóð berast inn yfir ósinn og smá dofna með aukinni nálægð við miðin.

Eins og kom hér fram fyrr í þessum skrifum þá fækkar ferðamönnum þá líður á haustið. Þetta veit Jónas vert á Ljóninu og mun gistiþjónusta hans taka sér hvíld frá byrjun nóvember fram í byrjun apríl á næsta ári. Sumir hafa af því nokkrar áhyggjur að hann fái fimm mánuði til þess að hugsa upp fleiri aðgerðir gegn hinu opinbera í allra víðasta skilningi þess orðs. Ég veit að hann hefur boðað komu sína í héraðsdóm Vesturlands í næsta mánuði hvort sem mönnum þar líkar betur eða verr. Það verður fróðlegt að sjá hverning varðmenn réttlætis á vesturhelmingi landsins taka þessum gráleita hárprúða manni á hálfgengnum áttræðisaldri.  Kannski bjóða þeir honum í kaffi og kleinur og hlusta á umkvörtunarefni Jónasar sem eru svo mörg að þau komast ekki fyrir í þessum pistli eða afþakka nærveru hans og benda honum í fullri vinsemd á Geirakaffi í Borgarnesi. Þetta á allt eftir að koma í ljós sem og hvenær nýji olíutankurinn undir eldhústrukkinn verður fullsmíðaður og kominn í gagnið. Það eins með smíði olíutanka og  framgang réttlætisins að erfitt er að spá um framvinduna.

Glugginn er kominn út og gat ég þess í síðasta pistli að ég sé hættur að fá hann í einhverju upplagi viku hverja eftir að Ríkið var numið frá mér. Rétt er að geta þess að fyrir viku þá gerði Skarphéðinn (Héddi), faðir Gluggans sérstaka ferð til að afhenda mér eitt eintak. Mér þótti vænt um þetta þó svo eintakið væri bara eitt og við Héddi eyddum sæmilegum tíma í spjall sem náði að spanna nánast allt milli himins og jarðar og jafnvel út fyrir gufuhvolfið. Einn Gluggi þó þunnur sé getur haft drjúg áhrif.


Auk systranna Emmu Karenar og Söru Bjargar Jónsdætra eru á myndinni Þór Jakobsson og eiginkona hans Jóhanna Jóhannesdóttir . Tilefnið var afhjúpun minnisvarða um Sigurð Jónasson frá Eyjólfsstöðum sl. sunnudag.

Og svona í blálokin þá ók hann Rúnar rétt áðan framhjá með hliðarrúðu farþegameginn niðurskrúfaða og lék fyrir alþýðuna taktfastan polka sem Kristófer  mjólkufræðingur og Anna frá Skinnastöðum væru fullsæmd  að fylgja eftir.

23.09.2015 14:16

Það er líkast til líf eftir Ríkið!


Balaskarð í Laxárdal

Nú er nokkuð um liðið  síðan ég setti nokkur orð á blað um lífið og tilveruna hér á Vesturbakkanum og nánasta umhverfi.  Um ástæðuna er erfitt að segja en ég held nú að leti hafi ráðið þar mestu en nokkur fleiri atriði mætti tilgreina eins og brottnám Ríkisins úr mínum húsakynnum og breytingar á atvinnu háttum hjá eiginkonunni. Það má hverjum manni vera ljóst að þegar maður er sviptur aðgengi að fjölda manns á einni nóttu þá hlýtur eitthvað að breytast. Þegar Ríkið hvarf þá hvarf líka gríðarlega stór upplýsingaveita sem var mér oftast til mikilar sáluhjálpar. Sögur af mönnum og málefnum fækkaði mikið og ég sat hálfpartinn eftir í tómarúmi. Vissulega hafa nokkrir góðir menn (konur eru líka menn) kíkt á mig stöku sinnum svona til að kanna sálarástand mitt og hressa upp á það með mis gáfulegum hætti. Og svona til að benda á það hversu alvarlegar afleiðingar fylgdu brotthvarfi Ríkisins þá var hætt að koma með eintök af Glugganum í Aðalgötuna og allt samband mitt við flutningabílstjóra Vörumiðlunar sem komu reglulega með birgðir í vínbúðina rofnaði. Eitt er svo  mikilvægt  að nefna að við hjónin hættum að vinna í sama húsi og fer ég núna einn á bílnum til vinnu og kem heim á bílnum eftir vinnu. Þetta þýddi einfaldlega það að nú er ég hættur að ganga daglega meðfram bökkum Blöndu og fylgjast með tilbrigðum lífríkisins á þeim slóðum. Allir sanngjarnir menn sjá af þessu að soddan breytingar hljóta að hafa einhver áhrif á vanafastann mann á bernskum sjötugsaldri. Líklega segja margir að skrásetjari geti sjálfum sér um kennt og einfaldlega breytt um lífsstíl í samræmi við breytingar. En það er marg sannað að hægara er um að tala en í að komast eða eftir fara.




Aldursforsetinn í Laxárdals hrossasmölun Haukur Pálsson ásamt vinkonu sinn henni Guðlaugu M. Jónsdóttur

Ég ákvað í morgun að líta svolítið í eigin barm og gera smá tilraun til að rífa mig upp á rassgatinu og hverfa aftur til fyrri tíma og segja örlítið frá lífinu í kringum mig.

Jónas vert á Ljóninu er alltaf til staðar og engar verulegar breytingar hafa orðið á honum og hans lífsviðhorfum frá því síðast var hér um hann ritað. Hann berst enn gegn kerfinu og má segja að ekkert sé honum óviðkomandi. Hann hefur bætt Landsvikjun inn á átakasvæði sitt en lítur þá stofnun enn jákvæðum augum og Vegagerðin sem stundum hefur að hans mati verið Þrándur í götu er nú orðin honum vinsamleg þannig að það er nú ekki allt að fara til fjandans. Eldhústrukkurinn sem hann festi kaup á í vetur er honum afar kær þó svo að vatn hafi komist í olíutankinn og hafi  trukkur af  þeim sökum harðneitað að fara í gang. Yfir þetta vandmál komst Jónas í gær sem ég m.a. gat greint af lyktinni af honum þegar hann kom til mín að viðgerð lokinni og nú  malar gamli Bensinn líkt og forðum.


Hallur Hilmarsson bílstjóri að leiða fáka milli beitarhólfa

Eina stórfrétt er líka hægt að segja af Vesturbakkanum en hún er sú að útgerðrmaðurinn bátlausi hann Ívar Snorri hefur fest kaup á bát. Um er að ræða trébát sem staðsettur er á Hvammstanga og ber nafnið Margrét HU-022. Skrokkurinn er smíðaður árið 1974 úr furu og eik, er 4,55 brúttótonn og gengur 5-6 mílur. Það stendur svolítið í Ívari Snorra að sigla honum fyrir Vatnsnesið og til heimahafnar vegna ótta við skerin í Miðfirði. Mér kunnugir sjómenn segja líka að þegar Margréti verði siglt út úr höfninni á Hvammstanga muni fylgja henni allur botngróður í höfninni. En eitt er víst að undanfarnir dagar með smá undantekningum hafa hentað mjög vel til siglinga fyrir skip að þessari stærðargráðu. Eitt er það í þessu máli sem ég er afar hugsi yfir en það er að Ívar ætlar að breyta nafni bátsins og nefna hann Addy II. Hvers á Margét að gjalda.


Margrét HU-022 bíður þess að komast í heimahöfn á Blönduósi

En sólin skín í dag og enn eru nokkrar gæsir á túnum bæjarins. Rúnar vinur minn í Sólheimum keyrir stundum framhjá með sína hressandi harmonikkutóna og gladdi mig um daginn með því að spila hinn eldfjöruga Strekkebukspolka".

Það er líkast til líf eftir Ríkið!  

     Fuglar í ætisleit í ósnum. Það viðrar vel til skipasiglinga í dag

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 20
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 365
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 67954
Samtals gestir: 12311
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 04:14:48