Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2008 Apríl

30.04.2008 22:21

Örlítið spældur

    "Í gær var stjórn Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi afhent ný sjúkrabifreið til afnota og var það Einar Óli Fossdal sjúkraflutningabílstjóri sem afhenti hana fyrir hönd Sjúkrabílasjóðs Rauða kross Íslands. Bifreiðin er af gerðinni Mercedes Benz árgerð 2007 og hefur ekki verið keyrð mikið. Bifreiðin er öll mjög rúmgóð og er mjög vel tækjum búin." Þetta er frétt sem ég fékk ekkert að vita um og étin upp af Húnahorninu. Þar af leiðandi kemur hún ekki í Moggann á morgun eða hinn af mínum völdum en ef satt skal segja þá finnst mér súrt í broti að fá ekki upplýsingar inn á mitt borð þegar atburðir sem þessir gerast á mínu svæði. Svona fréttir eru jákvæðar og eiga fullt erindi hvar sem er
og ekki síst í því ljósi að uppá síðkastið hafa bara borist eða verið túlkaðar neikvæðar fréttir frá Héraðshælinu. Það sem heldur geðheilsu minni í lagi þrátt fyrir þetta og sjálfsmark Ríse er það að lífið heldur áfram og ráða þar mestu  kostir okkar og gallar. Einnig þakka ég  þér fuglar himins sem leggja það á sig að koma norður á Blönduós ár hvert og telja okkur trú um að hér sé von að finna. Með ykkur fylgist ég því þið hafið engann blaðafulltrúa nema vorið sem kemur ár hvert með misjöfnu viðmóti.

30.04.2008 14:49

Forsetaveiki, sei,sei, sei, sei, já!

    Aldrei fór það svo að forseti vor hefði ekki haft einhver áhrif í heimsókn sinni í Skagafjörðinn. Skagfirðingar tala núna um forsetaveikina, því eftir að forsetinn hvarf til síns heima hafa margir skagfirðingar ekki á heilum sér tekið og lagst margir hverjir veikir. Hvers vegna svona fór er erfitt um að segja en sumir telja að sjaldan eða aldrei hafi jafn margir skagfirðingar komið saman ófullir, sem sagt ekki búnir að sótthreinsa sig. Aðrir segja að forsetinn hafi í sínum fjölmörgu ferðum um veröldina safnað saman öllum þeim veirum og bakteríum sem hann hafi komist yfir og sleppt þeim lausum í Skagafirði, koltrefjalaust því hann veit sem er að skagfiðingar kalla ekki allt ömmu sína. Reyndar er ég ekki frá því að ég hafi fengið snert af forsetaveikinni því ég hef verið raddljótur og afllítill að undanförnu þrátt fyrir að ég taki lýsi daglega. Líklega skýrist þetta af austanáttinni stífu sem lék um héraðið um daginn.

    Lyftum okkur upp á tábergið, göngum á táberginu og drögum djúpt andann og andið síðan rólega frá ykkur og hristið kálfana. Þetta gerði ég í gær undir handleiðslu Halldóru Björnsdóttir og gekk svo rösklega á Sjálfsbjargar (göngu)brettinu undir stjórn annarar Björnsdóttur þ.e. Ingu Mæju og er ég ekki frá því að forsetaveikinn hafi lekið af mér við þetta allt. Eins og flest ykkar vita er Sjálfsbjargarbrettið staðsett í kjallara Heilbrigðisstofnunarinnar sem ég kýs að kalla Héraðshælið. Þetta bretti hefur reynst mér vel og er ég ekki frá því að ég hafi gengið um 100 km á þessu bretti í vetur án þess að komast spönn frá rassi og oft hefur verið á brattann að sækja (5-7 gráðu halli). 
    Talandi um Héraðshælið þá hafa margir verið talandi um Héraðshælið nema gæsirnar sem bíta þar grasið og oftar en ekki hefur læknadeilan komið til tals. Nú skilst mér að þessi ágæta stofnun sé farin að líkjast Hálsaskógi eftir að samningar tókust við lækna en þó verði verkið ekki fullkomnað fyrr en yfirstjórn spítalans verði komin úr héraðinu sé rétt eftir Héðni lækni og formanni bæjarráðs haft í fjölmiðlum!?

    Stundum er maður of fljótur að dæma og taka ákvarðanir. Það getur verið gott að vera snar í snúningum og skjótur til ákvarðana en þá er líka mikilvægt að vita hvað maður er að gera því annars getur farið í verra eins og þeir finnsku bræður Júkka og Pekka fengu að kynnast: Þeir bræður voru einu sinni í ökuferð upp í sveit og óku eftir dæmigerðum mjóum sveitavegi. Pekka sat við stýrið. Svo komu þeir að krappri blindbeygju þegar annar bíll kemur skyndilega á móti þeim, öfugu meginn og átti Pekka fullt í fangi með að forðast árekstur. Stórvaxinn finnsk sveitarkona sat við stýrið í hinum bílnum og um leið og hún skaust framhjá, stakk hún höfðinu út um gluggann og kallaði: - SVÍÍÍÍN!
Pekka var einnig með opinn glugga, stakk hausnum út og öskraði með krepptan hnefa á lofti: BELJA!
Þegar þeir Pekka og Júkka komu út úr beygjunni óku þeir aftan á það stærsta svín sem þeir höfðu á ævi sinni séð!

    Þá er Glugginn okkar kominn í hús þennan hryssingslega lokadag aprílmánaðar og Rúnar með.

    Ansi er hann daufgerður Glugginn að þessu sinni. Rúnar var miklu hressilegri en Glugginn eftir að hafa hlýtt á hið sjálfspilandi píanó á Hótelinu í klukkutíma áður en hann kom til mín. Ekki má kenna harmonikkufólkinu eða Domus genginu um deyfð Gluggans . Hvatarliðið og flugnabaninn eru á sínum stað sem og vísa vikunnar þar sem Njáll Þórðar lætur í sér heyra. Seigur kall, Njalli.

    Rúnar kom reyndar með smá vísna innskot þegar hann kom inn úr kuldanum með harmonikkufréttir og fleira:

Núna úti er ósköp kalt,
ég um með Gluggann reika.
Á Harmonikku hátt og snjallt
heldur vildi leika.

    Það vantar mann (konur eru líka menn) í sundlaugina með Mumma Har og það get ég sagt ykkur sem hug hafið á að sækja um, að þó að Mummi sé eins og hann er þá slær í brjósti hans gullhjarta.

    Mér var hugsað til Hjalta flugnabana í fermingarmessunni á sunnudaginn. Meðal kirkjugesta var ein stór fiskifluga sem angraði nokkra kirkjugesti og þá sérstaklega séra Sveinbjörn. Það var stórbrotið þegar stóra flugan settist í hljóðri bæn á hvirfil prestsins og lét líða úr sér. Fermingabörnin sáu þetta líkt og ég og leyfðu þau sér að brosa örlítið um leið og séra Sveinbjörn beindi flugunni á "rétta" braut.

    "THÝZK STOFNUN "LETS´S GO " SEM ANNAST VISTANIR THÝSKRA UNLINGA Á ÍSLANDI, LEITAR AD LITLU EÍNBÝLISHÚSI Á SVAEDINU MILLI SAUDÁRKRÓKS OG HVAMMSTANGA MED A.M.K. THREM HERBERGIUM FYRIR FULLTRÚA SINN HID FYRSTA. BRUGGAR, RÍFLEGAR GREIDSLUR, I EVRUM EF ÓSKAD ER" Þessa auglýsingu er að finna á Húnahorninu nákvæmlega svona eins og ofan er ritað. Ég segi nú bara " lets?s go" Domus Maggi, Tak bruggbrúsa þinn og gakk til móts við ríflegar evrugreiðslur. Kannski ætti maður ekki að hleypa Domusgenginu í málið heldur leigja bara húsið sitt, loka vínbúðinni og taka upp evruna. Maður veit aldrei hvenær ríkinu verður lokað og evran upp tekin á Íslandi.

    Við Rúnar veltum vöngum lengi yfir því hvernig hægt væri að setja þetta allt saman í eina vísu og þetta er nú niðurstaðan.

Að setja brugg í bögu
er bras sem hér má sjá.
Og segir enga sögu
sei, sei, sei, sei, já.

    Og að lokum birtist hér ljóðið "Draumur hins einfalda manns" sem skýrir sig að mestu leyti sjálft. Ljóðið gæti  heitið eitthvað allt annað en svona er þetta bara:

Nú evruna Jón upp tekur
og arkar í bruggarans slóð.
Möggu og Löggu út rekur
Í augum er æðisleg glóð.

En draumurinn enda tekur
og órarnir hverfa á braut.
Engar konur út rekur,
útbrunnið ráðunaut.


 

23.04.2008 14:04

Gleðilegt flugulaust sumar.

    Ekki skil ég þá sem geta haldið út í lífið hvern dag án þess að lesa Moggann. Að lesa Moggann og taka stöðuna í samfélaginu er jafn mikilvægt og að taka lýsi daglega. 
    Bara svona til að rökstyðja þessa fullyrðingu þá las ég í Mogganum um daginn að hressileg hreingerning einu sinni í viku væri afar góð fyrir geðheilsuna. Þessi uppbyggilega grein greindi frá því sem mig hafði reyndar lengi grunað að athöfnin að ryksuga, skúra, já bara taka ærlega til einu sinni í viku þannig að maður léttsvitaði, væri heilsusamleg. Þetta get ég staðfest því geðbetri manneskju heldur en Margréti hef ég ekki kynnst nema vera skyldi ég sjálfur. Vera má að Margrét sé ekki alveg sammála mér í þessu því hún hefur óskað eftir því að ég ryksugi fyrir hana að minnsta kosti einu sinni í viku og hef ég orðið við þessu. Ef ég á að vera heiðarlegur þá fannst mér geðheilsa mín fyrst í stað versna við þessa ákvörðun Margrétar. 
    En það verð ég að segja að það gerðist í fyrsta sinn nú um helgina að ég hafði bæði af því gagn og ánægju að fara í Kringluna. Þegar Magga var búin að kaupa á mig einn jakka, belti og stuttermabol með brjóstvasa og við á leiðinni aftur út í bíl rak ég augun í eitthvað sem líktist rafdrifnum frisbídisk sem mjakaðist fram og til baka á afmörkuðu svæði. Þar sem ég er nú nýjungagjarn og vakandi fyrir framförum stöðvaði ég för okkar hjóna til að kanna þetta nánar. Ég renndi í grun um að ég hefði séð svona hlut áður og það í Morgunblaðinu. Það fór sem mig grunaði að hér var á ferðinni tækið góða sem frelsað gæti mig undan því að dröslast með 35 ára gamlan Nílarfiskinn um íbúðina einu sinni í viku. Mikið rétt þetta var ryksuga sem ryksyguar án þess að þurfa nokkuð að suða í henni. Hún vinnur sín verk meðan maður er í vinnu og líka þó maður sé heima. Það væri alveg tilvalið að rölta með henni um íbúðina og upplifa frelsið sem manni hefur hlotnast. Reyndar er ég ekki búinn að kaupa svona undratæki en það er mjög ofarlega á óskalistanum.

    Kemur ekki Rúnar inn úr dyrunum og Húnaflóaþokunni, gleiðgosalegur með síðasta Vetrargluggann í bili að minnsta kosti. Kannski finnst sumum að ég sé full hranalegur við Rúnar að segja hann gleiðgosalegann en hann á það bara skilið því að hann " böggaði" mig á mánudag í hádegismat á Bakkanum og lét dynja á mér vísur sem gerður var góður rómur að. Til dæmis þessa: Jón er sæll í sinni sveit/ á sínar bætur kann/ Mogginn alltaf mikið veit/ en mörgu lýgur hann. 
    Það sem bjargaði þessu hádegi fyrir mér var að Siggi í Sölufélaginu er orðinn þriðji maður á D-lista eftir að hafa verið á E-listanum sællar minningar. Þetta stóð í Mogganum og ekki lýgur hann eins og ég hef marg oft bent á en sumir virðast ekki skilja.

    "Vilja ekki allir eiga flugulaust sumar" spyr Hjalti meindýraeyðir í Huldugilinu. Trú hef ég á því að flestir lesendur Gluggans gætu samsinnt því hugsunarlaust. En nokkuð er ég viss um að maríuerlan og margar vængjaðar systur hennar væru ekki sáttar við flugulaust sumar. Hvað ætli silungurinn segði ef hann vissi af þessu. Ekki þýðir að nefna köngulærnar sem finnast flugur góðar því Hjalti ætlar að eyða þeim líka. Væri ekki ráð að stofna einhverkonar baráttuhóp sem stæði vörð um líf flugunnar. Það eru til samtök sem standa á bak við Kvennaskólann, Heimilisiðnaðarsafnið, Hljómskálagarðinn og orkulaust Ísland svo eitthvað sé nefnt. Bitmýi og flóm sem koma upp á yfirborðið eftir mosatætingu má fækka mér að meinalausu.

    Domus gengið gerir allt hvað það getur til að "selja ofan af mér" á Aðalgötunni. "Tilvalin eign fyrir þá sem vilja búa í kyrrðinni í gamla bænum" segja þau. Hægt væri að bæta við " stutt í næstu verslun" og svo mætti líka nota það að Jón Sigurðsson verður áfram á staðnum þó svo einn Jón Sigurðsson fari. Kannski er þetta síðasta hæpið og svolítið sjálfhverft en það mætti þó benda á að yfirleitt er Jón í neðra ekki á svæðinu um helgar.

    Nú er vetri að ljúka, börnin fermast og veiði fer senn að byrja í ám og vötnum og jafnvel sumstaðar byrjuð.

    Lífið finnur sér ætíð farveg og er sá farvegur mótaður af lífsviðhorfum og reynslu hvers og eins. Við Rúnar höfum í vetur alltaf reynt að hafa hið góðlátlega í lífinu sem farveg fyrir okkur með svona hæfilegum "skepnuskap" í bland. "Þeir einir eru barðir sem nógu eru harðir" hefur verið kjörorðið því ljúkum við þessum síðasta miðvikudagspistli þessa vetrar á mildu nótunum:

Við samtímann fært höfum saman í letur
sem sjálfsagt einhverjir gert hefðu betur.
En í auðmýkt við beygjum
okkar höfuð og segjum.
Eigið gleðilegt sumar og takk fyrir vetur.

22.04.2008 21:31

Listin að vera áhyggjulaus

    Það er margt sem bögglast fyrir brjósti hins venjulega manns svo sem verðhækkanir, vaxtahækkanir, og  meintar kjaralækkanir. Þessar gæsir tvær sem leyfa sér þann munað að fara einu sinni á ári til útlanda og dvelja þar í 5 - 6 mánuði hafa ekki áhyggjur af því að einhverjir segja að allt sé að fara til andskotans því þær heyra það ekki, heldur haga lífi sínu í takt við náttúruna. Margir A-Húnvetningar hafa áhyggjur af heilbrigðismálum í héraði og hafa komið því á framfæri en þessar gæsir sem lagt hafa það á sig að koma til Blönduóss í það minnsta síðustu níu ár hafa treyst á mátt gróðursins við Héraðshælið og hann hefur ekki brugðist þeim fram til þessa.

SLN og maki fara einu sinni á ári til útlanda og geta óhikað snúið heim á engi Héraðshælisins án þess að vera uppfullar af áhyggjum. Eina sem þær gætu orðið uppfullar af er blý en þær hafa bara ekki hugmynd um það

16.04.2008 14:58

Persónueiningar í skortstöðu

    Ég heyrði orðið persónueining um daginn úr munni Sigurðar Friðjónssonar eins af forsvarsmönnum Mjólkursamsölunnar (MS). Þetta orð kom upp í tengslum við það að mengun frá mjólkursamlagi á Akureyri hefði verið eitthvað sem nam einhverjum ákveðnum persónueiningum. 
    Ég leit upp frá folaldasnitselinu sem ég var að borða af mikilli innlifun og hjá mér í sömu erindagjörðum sat hún Margrét mín. Ég sperrti eyrun þegar ég heyrði þetta orð og fór að velta vöngum yfir því hvað væri átt við með þessu orði. Mín niðurstaða var sú að persónueining væri sú stærð sem meðalmaður aðhefðist á meðalævi við meðalaðstæður. Hugsanlega má hafa tímabilið ár eða eitthvað meira eða minna. Þetta minnti mig á orðið árskýr sem kemur fyrir í skýrsluhaldi mjólkurframleiðenda og þýðir í stuttu máli, meðalfjöldi kúa sem lifir af eitt skýrsluár. Ég leit á Möggu og hugaði með mér. " Er nú svo komið að við hjónin séum einungis tvær persónueiningar sitjandi yfir málsverði á sunnudagskveldi í miðjum apríl árið 2008. Þegar snitselið var búið og ekki meira til rann upp fyrir mér að við eldhúsborðið á Árbraut 12 sætu núna tvær persónueiningar í skortstöðu. Reyndar var ég hæfilega saddur og allt það en kjötið var búið, skortur án þess að þörf væri fyrir meira. Græddi ég á þessari skortstöðu eða tapaði ég? Satt best að segja fannst mér ástandið orðið býsna alvarlegt. 
    Það eru ekki svo mörg ár síðan fimm einstaklingar sátu við þetta sama borð sáttir við lífið og tilveruna og alls óafvitandi um skortstöður lífsins. Ég er farinn að halda að lífið verði flóknara eftir því sem persónueiningum með lögheimili hjá mér fækkar. Þessa kvöldstund við eldhúsborðið vogaði ég mér að koma þessari upplifun tryggilega fyrir í vogunarsjóði sem ég hlýt að eiga í reynslubankanum. Ef hún tapast, þá það!

    Með sólskinsbros og sól í sinni stormaði Rúnar inn með 16 síðna Gluggann sinn. Það lá svo ljómandi vel á honum því hann var með einkatónleika á hótelinu hvar hann lék tónverkið "Hún er aðeins átján sumra", en nánar að því síðar.

        Það má með sanni segja að sumarið hafi haldið innreið sína á síður Gluggans því margar uppákomur eru auglýstar í tilefni af sumarkomu.

    Harmonikkufólkið ætlar að kveða burt snjó og vetur í orðsins fyllstu merkingu og fá Gísla Hólm Geirsson á Mosfelli til að stjórna herlegheitunum. Mikið assskoti erum við Rúnar vissir um að þar verði á kostum farið og riðið upp á hægri og vinstri hönd skáldagyðjunnar fyrirhafnarlítið.

    Sumarskemmtun verður í Húnaveri á sumardaginn fyrsta og um helgina verður " Söngur um sumarmál. " Þessi sönghátíð er árlegur viðburður og standa Björkin og Bólhlíðingakórinn fyrir þessari hátíð. Gestir þeirra að þessu sinni eru Lóuþrælarnir í Vestursýslunni og Landsvirkjunarkórinn. Síðast nefndi kórinn hlýtur að vera sá sem syngur virkjunaframkvæmdum lof. Við höfum heyrt nokkuð mikið í kór virkjunarandstæðinga sem haldið hefur tónleika við ýmsis tækifæri og má kalla þá tónleika " Söngur um ágreiningsmál".

    Eldri borgarar bjóða gestum að skoða handverk sem þau hafa unnið að í vetur. Ekki er að efa að þarna verða til sýnis frábært handbragð en þeim sem sem ætla að skoða þessa sýningu er ráðlagt að skoða fyrst og og fá sér síðan staðgóðar veitingar á eftir.

    Hvöt minnir á fjáröflun sína og kemur nú fram með nýjung sem er WC pappír. Það sem er svo sérstakt við hann er að hann er hágæða og jafnvel meira en það, hann er hágæða extra mjúkur og fást 2,1 kílómetrar á aðeins 4.000 kr. Allir vita af lakkrísnum og harðfisknum sem Hvöt hefur einnig til sölu.

    Fjárræktarfélag Sveinsstaðahrepps auglýsir aðalfund sinn sem er í sjálfu sér ekkert meira um að segja annað en það hvort ekki sé kominn tími til að stofna fjáræktarfélag þar sem ræktuð er fé sem bætir lausafjárstöðuna hjá þeim sem þurfa á því að halda. Ég hlakka til þegar ég sé auglýsingu sem hljómar einhvern veginn svona. " Lausafjáræktarfélag yfirdráttarglaðra persónueininga heldur aðalfund sinn og svo framvegis. Dagskrá: Óvenjuleg aðalfundarstörf. Allir sem eyða meira en þeir afla eru hjartanlega velkomnir þar til upp kemur skortstaða á húsrými. Óstjórnin.

    Reyndar var mig farið að lengja eftir Rúnari og sá að hann var að frílista sig inni á hóteli hjá Magga hótelstjóra spilandi á slaghörpu eina og nánast dró hann út úr vatnstjóni og yfir til mín. Fyrr um morguninn hafði svo illa tekist til að einn gesturinn gleymdi að skrúfa fyrir vatnið í sturtunni og kom mikið vatn niður á neðri hæð hótelsins. Þessi inngangur ætti að skýra efni eftirfarandi vísu.

Á Rúnar ég starði og sat út í glugga,
þá hann spilaði' á slaghörpu af mikilli natni.
Enn eitt var það atvik er varpaði skugga
að tónverk var flutt í hnédjúpu vatni.

Eftir tjónavísuna af hótelinu róuðum við hugann og létum hann reika um ómælisvíddir liðins vetrar og rifjuðum upp "skáldatímana" í vetur.

Við sitjum hér sáttir í rósemd og næði.
Spjöllum um hverfandi rysjóttan vetur.
um traustar rúllur með tvöföld gæði
Tvö þúsund metra og eitthundrað betur.

12.04.2008 00:16

Eilífðin og þrösturinn

    Þrösturinn er kominn eftir langa fjarvist. Hann er farinn að syngja fyrir okkur á Árbrautinni 10 dögum seinna en hann á vana til. Vertu velkominn þröstur og þú hefur leitt með þér norður alla hettumávana sem koma vilja

    Dagurinn í dag er dagur sem maður aldrei gleymir. Dagurinn í dag er dagurinn sem Einar refaskytta var kvaddur frá Blönduóskirkju að viðstöddu fjölmenni. Þetta var dagur sem maður fann að sterk fjölskyldubönd yfirvinna alla hnúta og gera veröldina fagra. Þetta er dagur sem sorgin og gleðin eiga samleið og fyrir slíka daga ber hverjum og einum að þakka. Ég fékk að vera með, fyrir það þakka ég og veit að samfélagið okkar þakkar, lýtur höfði í virðingu og horfir  fram á veginn því þangað liggur leiðin. Einar er horfinn á braut en spor hans í jarðvegi samtímans eru óafturkræf og í því er eilífðin fólgin.

09.04.2008 14:30

Uppkölluð, sjálfsækin atferlis hegðun. USAH

    Gærkvöldið var hreint út sagt magnað. Það er með hreinum ólíkindum að fullorðinn karlmaður geti hagað sér eins og óþroskað kjánprik og gersamlega tapað tilfinningalegum áttum. Allt var þetta vegna lokaleiks Liverpool og Arsenal í Meistardeildinni í knattspyrnu. Ekki ætla ég að lýsa atferli mínu neitt nánar en þeir sem áhuga hafa geta spurt Möggu " hvernig gamlir karlar gera" (eins og stendur í kvæðinu) þegar liðið þeirra sigrar í æsilegum knattspyrnuleik. Ég er afar feginn að þurfa ekki að glíma við þær tilfinningar sem fylgja ósigri á stundum sem þessum og fæ fullseint þakkað þeim sem öllu ræður að hafa málin með þessum hætti þriðjudagskvöldið 8. apríl 2008. Um leið langar mig að koma á framfæri samúðar og skilningskveðjum til þeirra sem fylgdu og fylgja Arsenal að málum og ég skal vera hreinskilin að vítaspyrnan sem dæmd var í leiknum var afar hæpin líkt og það hefði verið afar hæpið að dæma vítaspyrnu á Liverpool í fyrri leiknum. Svona í framhjáhlaupi þá sat ég fyrir nákvæmlega tveimur árum á sama stað horfandi á Hemma Gunn í sjónvarpinu en þá varð atburðarrásin í mínu lífi allt önnur og ískyggilegri. Hjartað tók þá svo mikinn kipp að hemja þurfti það með þó nokkrum slatta af rafmagni og þriggja vikna dvöl á Landspítala.

    Reyndar las ég það í Morgunblaðinu í gær (og ekki lýgur Mogginn) að barn sem talar við sjálft sig þegar að það er að leysa verkefni sé miklu líklegra en barn sem þegir við sömu aðstæður, til að ná meiri hæfni og tilfinninagalegum þroska í lífinu. Það stóð reyndar ekkert um það hvort maður á mínum aldri yrði hæfari við það að tala við sjálfan sig. En ef ég segi sjálfur frá þá held ég að niðurstaðan í þessu máli væri sú sama óháð aldri. Ég geri það iðulega að tala við sjálfan mig þegar ég þarf að fara um óravíddir tölvunnar til að ná í hinar og þessar upplýsingar og þá hef ég það fyrir sið að segja fólki sem í kringum mig er að nú þurfi ég að ræða svolítið við sjálfan mig og það skuli ekki hafa neina áhyggjur. Yfirleitt mæti ég miklum skilningi og ég er alls ekki frá því að þessi vinnubrögð séu af hinu góða. Hvað skildi þetta nú vera kallað á fræðimáli. Uppkölluð sjálfsækin atferlis hegðun skammstafað USAH.

    Kemur ekki Rúnar blessaður töltandi inn úr norðanskreytri aprílsólinni með Glugga vikunnar.

    "Keppt verður í tölti unglinga". Er ekki keppt í tölti hesta? Ekki eru það unglingarnir sem tölta , er það? Eru það ekki unglingarnir sem fá hrossin sem þau sitja á til að tölta. Börnin geta keppt í ásetu, taumhaldi og umhirðu hrossa en tæplega í tölti. Nema þau hreinlega tölti sjálf eins og segir í ágætum texta. " Tölta á eftir tófunum. Keppt verður í tölti hrossa sem hafa unglinga á baki sínu haldandi um tauminn.

    Nú eru þau í Domus genginu orðin eignalaus. Þessi setning er í sjálfu sér neikvæð ein og sér en ef við köfum aðeins ofan í málið þá horfir það öðruvísi við. Það er rífandi sala og allir vilja búa í okkar kæra samfélagi en eftirspurnin er meiri en framboðið. Þetta er saga til næsta bæjar og það getum við Rúnar sagt með sanni meðan sólin á himninum skín að gaman var að sjá Ólaf Blómkvist á skrá þó svo eignir vanti.

    Halda pokarnir í Pottinum og pönnunni (POP) um helgina? Ef við Rúnar hefðum ekki séð þessa vitleysu hjá okkur þá gæti fólk farið að hugsa hitt og þetta en þar sem við sáum þetta strax þá er gaman að segja frá því að tríóið Haldapokarnir ætla að skemmta gestum og gangandi í POP um helgina og ekki er vafi að glatt verður á hjalla.

    Það virðist vera mikið líf á Heilbrigðisstofnunnini ef marka má auglýsingarnar frá þeim í Glugganum. Þetta ætti nú kannski ekki að koma svo mjög á óvart því það hlýtur að vera hlutverk stofnunarinnar að reyna að halda í okkur lífi eins lengi og kostur er. Reyndar finnst okkur Rúnar nú heimilislegra að nota bara gamla nafnið Héraðshælið eða bara Hælið. Vonandi leysast öll mál uppi í Hæli farsællega því eins og Valgarð Ásgeirsson heitinn (maðurinn henna Önnu Árna, mikill snillingur) sá í hendi sinni og orti um að ef einn af tveimur deyr þá fækkar um einn, það er nokkuð ljóst: Upp í Hæli eru tveir/ Jón og Tolli heita þeir/Ef að annar þeirra deyr/ þá eru þeir ekki lengur tveir. (Komið hefur fram athugasemd að það eigi að vera "Friggi og Tolli heita þeir". Svo mun ekki vera og vísan stendur eins og hún er hér skráð. Jón þessi sem nefndur er í vísunni er Jón Erlendsson maður Sigrúnar Kristinsdóttur frá Kleifum) 

    Harmonikkuklúbburinn okkar bregst ekki og ætlar að halda uppteknum sið að leiða fram hagyrðinga alþýðunni til skemmtunar í vetrarlok. Hverjir það verða veit nú enginn en við um það munum fregnir fá.

        Rúnar iðaði allur í skinninu í lok Glugga yfirferðar því hann langaði svo mikið að senda Kallinum honum Stebba Páls afmæliskveðjur því hann var fertugur á mánudaginn. Hér kemur kveðjan:

Fertugur er frændi minn
Fjölgar hárum gráum.
Kallinn Stebbi er besta skinn
Með smjör á öllum stráum.

06.04.2008 21:38

Jóhann Ingvi Hjaltason

                                       
    Þetta er drengurinn sem þessi litla frásögn snýst um og og gerði þennan dag svo  ljúfan og eftirminnilegan.

                                                                                 
Hvað á barnið að heita? spurði séra Svavar A. Jónsson prestur í Akureyrarkirkju foreldara litla drengsins sem fæddist þann 22. mars sl. þau Láru Sóleyju Jóhannsdóttur og Hjalta Jónsson. Hjalti svaraði hátt og skýrt Jóhann Ingvi



    Þessi litli snáði sem á m.a. ættir sínar að rekja til Húsavíkur og Blönduóss ber nafn móðurafa síns á Húsavík og og millinafn langafa síns á Blönduósi.
Hér má sjá hamingjusama og stolta foreldra ásamt Jóhanni Ingva. Guðspjall dagsins var um góða hirðinn og fundum við það öll í dag að við vorum lánsöm hjörð í góðum höndum.



02.04.2008 14:42

Ein er fluga í glugga

    Það hefur mikið verið að gerast á bak við tjöldin í uppfærslu á 123.is kerfinu undanfarna daga. Þegar þetta er skrifað eru ekki öll kurl komin til grafar en þeir 123 menn segja að allt sé að smella saman. Eins og sum ykkar hafa eflaust séð þá var síðan mín tengd inn á ellimáladeild þjóðkirkunar um tíma og Anna Kr Davíðsdóttir benti svo skemmtilega á þá uppákomu.

    Í dag er 2. apríl um allt land eins og einn góðkrati í Hafnafirði komst svo skemmtilega að orði í ræðu á sínum tíma. Reyndar var dagurinn hjá honum 1. maí og ræðan flutt í tilefni þess dags. 
    Já það er kominn 2. apríl og enn bólar ekkert á skógarþrestinum. Þessi fugl hefur ekki brugðist mér í áratugi að hefja ástarsöngva sína í lok mars. Annar fugl sem er af svipaðri stærð og kallast starri hefur komið sér upp samkomustað í fjarskiptamastrinu sem staðsett er rétt norðan við mig. Fugl þessi hefur þá einstæðu hæfileika að herma eftir nánast hverju sem er og hefur komið fyrir að maður hefur haldið að skógarþrösturinn sé mættur en þá er það bara starrinn sem er að herma eftir honum. 
    Þó svo þrösturinn sé ekki mættur þá eru grágæsirnar farnar að skila sér til heimahaganna. Glöggir menn sáu gæs sl. föstudag og í gær voru að minnsta kosti komnar 7 gæsir og þó nokkuð fleiri í dag.

    Það er komið pínulítið sumar í Glugga dagsins. Sumrfrí á Spáni, sumarstarf í Hafíssetri, sumarafleysingar hjá Félagsþjónustunni og síðast en ekki síst þá er auglýst eftir starfsmanni á golfvöllinn.

    Eitt er það sem maður rekur hvað mest augun í er salan á Rafþjónustu HP. Það fara alltaf í gegnum hugann efablandnar hugsanir þegar maður sér auglýst til sölu gamalgróið fyrirtæki. Það sem er og maður þekkir, veldur ekki áhyggjum og maður fer sáttur að sofa. En þegar þetta sem maður hélt að væri óumbreytanlegt fer að bylta sér kemur örlítið, jafnvel þónokkuð rót á sálartetrið. Hafsteinn ætlar að selja fyrirtækið!? Ég er ekki hissa þó skógarþrösturinn hiksti svolítið á því að koma norður á Blönduós. Kannski að Lárus Krákur kaupi bara fyrirtækið og kæli um leið þá ónota tilfinningu að fyrirtækið sé á leið úr bænum (notar bara ísgel kælimottu )

    Maggi á Hnjúki ætlar að skjótast á milli mjalta með kúabændur úr héraði og segja þeim nokkrar skemmtisögur í leiðinni. Við rákum augun í það að allir nautgripabændur og fyrrverandi kúabændur eru velkomnir. Hvers eiga óundirstrikaðir fyrrverandi nautgripabændur að gjalda. En engu að síður þá væri það alveg kjörið að fulltrúi Húnahornsins færi með og safnaði svona eins og tveimur til þremur sögum úr ferðinni til frekari nota á Horninu.

    Áhugafólk um vespur er hvatt til kynna sér þetta fyrirbrigði á Pottinum og pönnunni á morgun. Vespuáhugamenn segja: Sýnd hjól og kynnt verð. Kannski hefði verið betra að snúa þessu við og segja: Kynnt hjól og sýnt verð því ég hef grun um að þetta séu sýnd hjól en ekki gefin. En munið eitt ef þið kaupið ykkur vespu að aka alltaf að sumarlagi með lokaðan munninn því það er afar óþægilegt og jafnvel hættulegt að vespa hrökkvi ofan í mann á ferð. Kannski er ósanngjarnt að tína þetta til því það er svo margt sem ber að varast í lífinu sem ég hef rekist á í orðsins fyllstu merkingu.

    Eitt sem minnir á að sumar er nánd er þegar Vökukonur breiða yfir eineygðu bláklukku sína eða er þetta geim-mér-ei, og taka sér félagsmálahvíld yfir sumarið. Við vonum bara að þeim sem og öðrum gefist gott sumar og þær haldi áfram uppi merkjum súrmetis og gleði á þorranum.

    Eitt er það blóm sem aldrei fölnar en það er Bæjarblómið og minnir á sig reglulega. Ég veit að Rúnar tefst stundum í Bæjarblóminu þegar hann er að dreifa Glugganum í fyrirtæki á staðnum. Glöggir segja að blómailmur og blómálfar séu honum mikil " innsspírasjón" í kveðskaparlegu tilliti.

    Eitthvað var Rúnar andlítill eftir heimsóknina í blómabúðina í dag þannig að ég tók mig saman í andlitinu og skellti þessari á bressaðan drenginn:

Lítið fer fyrir þrasta ger,
þó fingrum um skallann ég strjúki.
Milli mjalta í ferðir fer
Magnús bóndi á Hnjúki.

    Núna rembist Rúnar við að yrkja eftir þetta eitursnjalla innskot hjá mér. Það var eins og það þykknaði örlítið í honum augnabliksstund en þegar hann sá flugu í glugganum hjá mér sem og nokkrar æðarkollur á haffletinum fyrir utan var eins og hann róaðist mikið. Þegar svo hún Kaupþings Gugga birtist skyndilega í dyrunum færðist yfir hann stóísk ró og þetta rann út úr honum:

Æður út um allan sæ,
ein er fluga í glugga.
Upp í nef mitt varla næ!
Nei! Núna birtist Gugga.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 54
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 632
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 63889
Samtals gestir: 11329
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 15:27:19