Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2013 Febrúar

26.02.2013 16:53

andspænis ókomnum stundum

Mér var sagt það (á nútíma máli: það var sagt mér það) fyrir rúmu ári þegar ég fagnaði 60 ára afmæli mínu að það væri létt verk og löðurmannlegt, tóm gleði og hamingja að verða 60 ára. En bíddu bara þangað til þú verður sextíu og eins árs þá verða sporin þyngri og þú ferð að finna þunga áranna hellast yfir þig. Reyndar fékk ég heldur betur að finna fyrir því á 61. árs afmælisdaginn og varð mér hugsað til ofanritaðra orða. Satt best að segja hélt ég smá stund að ég þyrfti ekkert að hafa frekari áhyggjur af þeim en nú er liðin rúm vika frá þessum atburðum  og hér stend ég og get ekkert annað, frammi fyrir ókomnum stundum.  En það er svo merkilegt með þetta allt og sama hvað maður veltir vöngum um ókomna tíð að maður hefur bara einn möguleika í stöðunni og það er að standa frammi fyrir hinu ókomna. Ég skrifaði í mars 2007 eftir að hafa verið á námskeiði hjá Þorvaldi Þorsteinsyni listamanni sem nú er ný látinn. "Ég er ekki frá því að ég hafi eitthvað lært í það minnsta það að geyma það ekki til morguns það sem þú getur gert í dag því tíminn sem maður hefur, á maður að nýta og gefa öðrum að smakka úr sálarkistunni. "  Ég er nokkuð viss um að ég hef ekki fylgt þessum ráðleggingum Þorvaldar út í ystu æsar en þessi skrif mín einu sinni í viku er viðleitni mín til hella svolítið úr sálarkistunni og er ég nokkuð viss að þar á ég Þorvaldi svolítið að þakka sem ég geri hér með um leið og ég bið Guð að blessa minningu hans. Það er eins með mig sem og alla aðra sem lífsandann draga að það veit enginn sína ævina.


Hér hafa margir draumar sveitapiltanna ræst. Kvennaskólinn og þoka í grennd

Þennan miðvikudaginn er ég ekki staddur á mínum hefðbundna stað í lífinu heldur hef ég varið deginum í höfuðstað norðurlands, Akureyri.  Þegar maður hverfur úr sína hefðbundna umhverfi þá hverfur með manni hinn sanni andi Vesturbakkans. Jafnframt er helsti stríðsmaður Vesturbakkans, Jónas á Ljóninu kominn til Kaupmannahafnar og er án nokkurs vafa farinn að kynna sér stjórnsýsluna á þeim bænum. Maður hefur séð hina íbúana svona tilsýndar í blíðunni viðra sig og hunda sína en þeir hafa ekkert verið að viðra hugmyndir sínar sérstaklega hjá mér. Vegna þessa verður þessi kafli pistisins knappari en ella.


Gæðastund hjá frú Margréti á Akureyri

Ég var ekki til staðar að taka á móti Glugganum þannig að ég veit ekki hvort Rúnar vinur minn hafi verið á ferðinni með sína fjölbreyttu harmonikkuhljóma. Hugsandi um harmonikkutóna þá fæ ég það allt í einu  á tilfinninguna að þeir í morgunútvarpi Rásar 2  hafi stolið þessari hugmynd frá okkur Rúnari og hengt hana við vísnagátuna sína rétt fyrir 8 fréttir.  Það færist svo mikil gleði yfir þáttargerðarfólkið þegar harmonikkutónarnir fara að hljóma í viðtækjunum og það sama hefur nákvæmlega gerst hjá okkur Rúnari nánast hvern einasta miðvikudag undanfarin ár. Við lítum þennan þjófnað ekki alvarlegum augum heldur fögnum honum. Sumu má stela en menn verða að hafa þroska til að átta sig á því hvað það er.

     En nú er ég ný kominn inn úr dyrunum eftir Akureyrarferð þar sem maður nam ýmis fræði og skoðaði nýasta barnabarnið sitt. Litla stúlkan þeirra Hjalta og Láru hefur þroskast heilmikið síðustu 17 daganna og það hefur ræst sem Jóhann tæplega 5 ára bróðir hennar sagði þegar hann sá hana nýfædda. "Hún á eftir að verða fallegri". 

     Ég nenni ekki að yrkja neina samhengisvísu í kvöld og myndir af fegurð heimsins mun ég ef Guð lofar setja inn á morgunn. 

20.02.2013 15:54

líkið á hjólinu



Dagarnir búa hver og einn yfir miklum töframætti og dýrmætt að geta heilsað þeim á hverjum morgni. Sólstafir í vestri

Megin stefið í þessum miðvikudagspistli verður "stríðsfréttaritarinn" á Vesturbakkanum (á Blönduósi) sjálfur sem er svolítið á skjön við hið hefðbundna því venjulegst hefur hlutverk mitt verið eins og sumra að standa á hliðarlínunni og fylgjast með. En að þessu sinni var fréttaritarinn hæfður í hjartastað og eftir smá umhugsun var tekin ákvörðun að segja frá þessum atburði.


Húnaflóinn er aldrei eins og hefur yfir að ráða ótal myndum oft með Strandafjöllin í bakgrunni

Þegar lagt er upp í ferð að morgni veit maður aldrei hverning hún endar en eitt er víst að hún endar einhvern veginn en kannski ekki alveg á þeim stað sem að var stefnt. Í fyrradag, afmælisdaginn minn þá lagði ég af stað til vinnu minnar líkt og ég geri nánast hvern einasta virkan morgun . Veðrið var yndislegt og mikil ró hvíldi yfir Húnaflóanum, já bænum öllum og þokan læddist allt um kring og setti á morguninn ævintýralegan blæ. Um klukkan hálf ellefu var stefnan sett á heilbrigðistofnunina  (HSB)  og ætlunin að reyna pínulítið á hjartað hjá henni Maríu Jóhönnu sjúkraþjálfara . Ég var settur upp á hjól og látinn hjóla smástund í rólegheitum og síðan látin taka hressilega á því inn á milli. Þetta gekk ágætlega til að byrja með en í þriðja hraðspretti fölnaði ég allur upp , meðvitundin fjaraði út og Maríu leist bara ekkert á blikuna því sá sem á hjólinu sat var líkari líki en nokkurt lík svo hún kallaði í "kollega" sinn hana Tínu (Christine)  sem kom í þann mund sem "líkið" á hjólinu fékk mikið rafstuð beint í hjartað frá tækinu sem það ber undir vinstri brjóstvöðva. Við þetta högg lyftist hin hvíta vera á hjólinu og meðvitundin jókst til mikilla muna. 112 voru fyrstu viðbrögð Maríu og svo er eins og undirveðvitundin segi mér að Tína hafi haldið þegar hún kom inn í þessar aðstæður að Maríu Jóhönnu hefði tekist að fá lík til að hjóla sem má hiklaust flokka undir kraftaverk. Þessi athugasemd er algjörlega sjálfsprottinn  úr hugarheimi manns sem stóð frammi fyrir  ógnvekjandi aðstæðum og er þungamiðja atburðarrásarinnar og er ekki seld dýrari en hún var keypt. Það skal strax tekið fram að bæði María og Tína voru frábærar og raungóðar á raunarstund  þó ég sé ekki í vafa að þeim var verulega brugðið.  Til að gera 7 klukkustunda langa sögu stutta þá stóð heilbrigðisstarfsfólk á Blönduósi sig mjög vel og ég komst heim í saltfisk með rófum um kvöldið og gat tekið á móti góðum vinum eftir kvöldmat.


Birtan á Skaganum var sérstök í gær og var líkast því sem Skagamenn væru að senda skilaboð til almættisins

En hverfum afur á HSB þegar allt var farið að róast og mynd að komast á aðstæður, þá yfirgaf  Sigfús Heiðar bráðatæknir sjúkrastofuna og ég las gleraugnalaus á bol hans millum herðablaða "Dyravörður". Sem fyrr og algjörlega sjálfsprottið kom upp í huga minn: Það er frábær þjónusta sem er í boði á  milli himins og jarðar, jafnvel hér í dreifbýlinu. Það eru dyraverðir á  báðum stöðum, Sigfús Heiðar hérna meginn hjá HSB en Pétur hinun meginn við Gullna hliðið og báðir með reynslu og a.m.k.  annar með próf upp á það. Hér er sögð saga af hraðri atburðarás þar sem nokkrum var brugðið og verð ég að vera heiðalegur og segja það hreint út að ég var smeykur og er þá vægt til orða tekið en fólkið sem tók þátt í þessari atburðarrás með mér á hlýjan sess í "Hjarta" mínu.

En hvefum aftur að alvöru Vesturbakkans. Jónas vert á Ljóninu lagði upp í harða bítið í morgun til höfuðborgarinnar til að draga bæjaryfirvöld og sýslumann til ábyrgðar hjá þar til bærum embættismönnum sem ég hef lofað að nefna ekki á nafn að svo stöddu. Það er meiri ró yfir öðrum íbúum á svæðinu þó ég efist ekki um að hin sanna baráttuólga kraumi undir niðri og enginn veit fyrir víst hvort eitthvað gerist eða tíðinda sé að vænta en það er með þetta eins og allt annað að enginn veit hver höfnin verður í upphafi ferðar.

Rúnar kom með Gluggann í dag eða það held ég en hann kom ekki  fyrir ásjónu mína. Að minnsta kosti hékk Glugginn munaðarlaus á hurðahúninum þegar ég kom í vinnu eftir hádegishlé. Það var enginn polki eða ræll úr harmonikkuplötusafni hans sem hefði verið vel við hæfi á þessum ljúfa og milda miðvikudegi í lok þorrans.  En við þetta verð ég að sætta mig þó betra hefði verið að fá hressilega harmonikkutóna til að umlykja lognið hér í Aðalgötunni

Glugginn er sem sagt kominn og ber hann töluvert merki þess að aðalfundir hinna ýmsu félaga eru að bresta á. Árshátíðin í grunnskólanum verður um helgina og vísa vikunnar er eftir okkar stélbratta Magnús Ólafsson ættaðann frá Sveinsstöðum. Yrkir hann snotra vísu um Hjört nokkurn Einarsson hestamann og smið frá Hnjúkahlíð. Magnús er ekkert að erfa við Hjört sem á sínum tíma orti um Magnús þegar hann féll af hestbaki og endaði ofan í smálæk: Magnús heitir maður einn,
mætur er og frækinn.
Hafði heldur svifa seinn
samfarir við lækinn


Sjaldan er ein báran stök

En nú skal látið staðar numið og hið augljósa samhengi fært í samhengisvísu vikunnar.

Ég stöðvaðist snarlega á rólinu

er spólaði á kyrrstæða tólinu.

Eftir átök og puð

kom  forritað stuð
          svo líkið lyftist á hjólinu.

13.02.2013 16:01

Meinlaus miðvikudagur

    

    
Sungið fyrir sælgæti

     Dagurinn í dag er eins og dagurinn í gær, hægur , svalur og bjartur. Þessi miðvikudagur er samt ekki eins og síðasti miðvikudagur því nú á ég sex barnabörn en fyrir viku átti ég bara fimm. Hún er alveg merkileg þessi veröld því hún hefur að geyma eilífð sem tekur stöðugum breytingum. Svona er þetta nú bara og svo sem ekkert meira um það að segja annað en að þessi miðvikudagur er jafnframt öskudagur og á sér átján bræður, ekki amalegt það.


Hávella um hávetur

     Það er alveg full ástæða til að tala um veðrið sem boðið er upp á dag eftir dag. Hvað höfum við lagt af mörkum til að verðskulda svona veðurblíðu á miðjum þorra. Þegar maður labbar niður í fjöru og horfir á umkomulausar bárur brotna í logninu við ströndina fyllist sálin friði. Maður heyrir í æðarfuglinum og einn og einn mávur hlær stöku sinnum. Hávellur og skarfar eru líka þátttakendur á leiksviði sjávaryfirborðsins. Það er gaman að horfa á æðarfuglinn sem er mjög félagslyndur fugl og myndar stóra hópa. Eitt augnablikið ríkir kyrrð yfir hópnum, skyndilega hleypur fjör í fuglinn og hann tekur á rás og svo á örskotsstundu er eins og hafið hafi gleypt þá því þeir hverfa smá stund af yfirborðinu. Þar sem voru 100 fuglar er kannski ekki fugl að sjá en skömmu seinna eru þeir allir mættir  sem einn, eins og ekkert hafi í skorist.


Þessi er af Röðulskyni

     Glugginn hékk umkomulaus á hurðarhúninum þegar ég kom til vinnu eftir hádegi. Rúnar vinur minn hefur líkast til þurft að flýta ferð og brugðið sér af bæ og þar af leiðandi fæ ég enga harmonikkutóna þennan miðvikudaginn þó svo þessi dagur verðskuldi það.  Enginn Rúnar semsagt og enginn Arnt Haugen eða hormonikkadrenger.


Ær á öskudegi

     Glugginn er kominn og er rýr með mikilvæg skilaboð.  Rúnar á Skagaströnd er með ljúfa hugvekju í vísu vikunnar og bendir réttilega á að meðan maður sér ljósið á maður líf í brjósti sínu.


Líklega hefur snjóað eitthvað á Ströndum svo bræður öskudagsins haga sér liklega eitthvað öðruvísi við vestanverðan Húnaflóa

     Hér skal numið staðar og án nokkurs vafa er veðrið sigurvegari dagsins

06.02.2013 15:15

gríp á stundum eina og eina gæs

"Þetta er meira og minna afmælismánuður vatnsbera og lífið er þeim gott. Nýtt tungl eftir 9. febrúar hjálpar (nýtt tungl kviknar reyndar 10.feb)  þeim að laða að sér ástina svo þetta lofar góðu. Allur mánuðurinn er þeirra , ekki síst 6. febrúar [sem er jú dagurinn í dag] og dagarnir eftir 9. dag mánaðarins".  Það er frekar notalegt að vera vatnsberi og tölta af stað út í tilveruna með svona huggulega spá í nestisboxinu og ekki skemmir að hún er ættuð úr Morgunblaðinu.  Þó ég segi sjálfur frá, þá er ég frekar fyrir ástina en hið gagnstæða í lífinu. Ég ber ekki ástina utan á mér segja mér kunnugir og mér er líka sagt að ég geti verið svolítill köggull sem mér finnst nú skrýtið en læt svo sem kyrrt liggja. Til dæmis er ég ekki mikill knúsari þó svo mér þyki vænt um mann og annan en það kemur fyrir að ég kyssi eina og eina konu við hátíðleg tækifæri en karla læt ég að mestu ósnerta utan hvað ég heilsa þeim oft með handabandi.  Þessu var allt öðru vísi farið fram til sveita hér áður. Þar var það alsiða að bændur kysstu hvern annan hvenær sem þeir hittust. Einhverjir töldu þennan sið vera tilkominn vegna þess að með þessum hætti var það ekki eins áberandi þegar þeir kysstu húsfreyjurnar en ekki skal ég fullyrða neitt hvort þetta sé rétt skýring. Ég man eftir því hvað mér fannst þetta sérkennilegt þegar ég sá bændur kyssast, menn sem áttu í harðvítugu landmerkjamáli eða deilum um veiðirétt eða bara eitthvað annað. Alltaf var byrjað á því að kyssast og svo var tekist á um málefni dagsins. Þetta held ég að sé mikið til hætt og knúskynslóð bænda þ.e eldri kynslóð bænda er á hröðu undanhaldi.


Vesturbakkinn eins og hann leggur sig með útsýn yfir Skagafjöll

"Fuglene flyver í flok når de er mange nok" sagði Benny Andersson á sínum tíma í "Svantes lykkelige dag" og hafði þó nokkuð til síns máls. Seinni partinn á mánudaginn hringdi síminn minn líkt og hann gerir oft á dag og á línunni var enginn annar en Jónas fórnarlamb  á Ljóninu. Ég  hélt að hann væri með eitthvað heitt mál á bæjarstjórann eða sýslumanninn en góðir hálsar, það var honum ekki efst í sinni. "Heyrðu Jón, fyrsta grágæsin var að koma í bæinn. Hún flaug yfir  húsið hans Hreins, þú veist sem hann átti og síðan yfir Blönduból  og sveif síðan hægt en af öryggi  og lenti á Blöndu". Þessi gæs flaug ekki í hóp þar sem hún var alein á ferðinni en ég segi nú eins og er að mér  fannst þetta frétt mikil og skemmtileg. Þannig hefur verið nokkur undangengin ár að nokkrar gæsir hafa haft hér vetursetu en í vetur hefur enginn fugl að þessari tegund verið til staðar. Það var eins og jörðin hefði gleypt allar Blönduósgæsirnar í haust þegar vonda veðrið gekk yfir í september eða kannski er réttara að segja að þær hafi allar fokið í burt. En ein gæs er hver ein og þessi er a.m.k 6 vikum á undan fyrstu grágæsunum sem dvelja á Bretlandseyjum yfir veturinn.  Ég hef gert nokkrar tilraunir til að koma auga á hana en án árangurs.


Horft úr menningarhjarta Vesturbakkans út í Bláfjallageim Langadalsins

Ég missti af honum Rúnari mínum þegar hann kom með Gluggann því ég tafðist svolítið á súpufundi með Einsa þingmanni og Halla bónda. Rúnar lét að því liggja að hann gæti hugsanlega litið inn hjá mér seinna í dag en ég get upplýst um það að hann hefur lagt sig í líma við að leika harmonikkulög með snillingnum Arnt Haugen upp á síðkastið. Til að mynda hitti ég hann bæði í gær og fyrradag og í bæði skiftin var hann með Arnt heitinn undir geislanum  og hvort sem það var  tilviljun eður ei þá var "Strekkbuksepolki"  lagið sem leikið var. Ég veit ekki hvort þið trúið mér eða ekki þá finnst mér "Strekkbuksepolki" einhvern veginn vera svo miðvikudagslegur þó svo ég hafi heyrt hann á mánu- og þriðjudegi í þessari viku.   En gaman er að geta þess að Rúnar kom í þann mund sem ég var að leggja lokahönd á þennan pistil og hann klikkaði ekki frekar en fyrr í vikunni. Hann leyfði "Strekkbuksepolka" að flæða yfir Aðalgötuna og þennan ljúfa miðvikudag. Guð býr ekki bara í garðslöngunni, hann býr líka í Strekkbuksepolka. 

Glugginn sá hinn fimmti á árinu er kominn fyrir almenningssjónir. Þar kennir líkt og svo oft áður ýmissa grasa. Kaffitería Sveitabakarísins  er upprisin,  björgunar- og hjálparlið munu aka um bæinn á 112 daginn og sýna gestum og gangandi tól sín og tæki svo og nýju klippurnar sínar og Blönduósbær auglýsir eftir fjármálastjóra. Gluggavísa vikunnar er að þessu sinni hin landsfleyga vísa eftir afmælisbarn dagsins hann Jón Karl Einarsson sem fjallar um vegablæðingarnar sem tröllriðu fréttum og vegfarendum fyrir skömmu.


Oft hlaðast upp ský af ýmsum toga en þessi éljaský skyggðu algjörlega á hin tignarlegu Strandafjöll 

En eins og alltaf þá þarf að þreifa sig af nærgætni eftir samhenginu í lífinu þennan jafnt sem aðra daga og það hlýtur að fjalla um gæsina sem ég greip hjá Jónasi svo og ástina sem er allt um liggjandi samkvæmt áræðanlegum stjörnuspám Morgunblaðsins.

Um fortíðina þarflaust er  að fást.

Á fagra hugsun alls ekki ég blæs.

Gleymi mér við Guðsorð, von og ást
          og gríp á stundum eina og eina gæs.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 62
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 632
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 63897
Samtals gestir: 11333
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 19:45:27