Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2014 Febrúar

26.02.2014 16:05

dæmalaust helvíti slysinn

" Þú ert ekki til stórræðanna fyrri part dags en munt bæta það upp seinnipartinn. Láttu því slag standa áður en þú bognar undan álaginu". Svona hljóðaði stjörnuspáin mín í Mogganum í dag. Ég er ekki frá því að stjörnuspámaður Morgunblaðsins sé forvitur því ég var varla mættur til vinnu í morgun þegar tveir félagar mínir komu í heimsókn. Fyrst kom  höfðinginn Hilmar Snorrason (Himmi) , unglingur á tíræðisaldri  og skömmu seinna afmælisbarn dagsins og stríðsmaðurinn Jónas á Ljóninu. Við Himmi voru ekki nærri búnir að skipuleggja afmælisdaginn hjá Jónasi þegar hann birtist glaður í bragði í dyrunum nýkominn úr höfuðborginni.  Já, Jónas er kominn til stuttrar dvalar og hann á líka 73 ára afmæli. Ég get svo svarið það að kallinn gæti verið á aldur við mig. Hann tjáði okkur Himma að hann hefði verið að endurnýja atvinnuskírteinið sitt og fékk staðfestingu á því að hann hefði góða sjón. Sagði hann okkur að hann geti lesið gleraugnalaust í miðlungs birtu. Það hrökk nú út úr mér eftir þessa sjónræðu að líkast til væri þetta hans helsta vandamál því hann sæi meira heldur en góðu hófu gengdi. Hann kímdi og sagði að bragði, "helvískur". Þeir voru nokkuð þaulsetnir félagarnir og drjúgir í brjóstsykurskálinni, þannig að stjörnuspáin hefur ræst hvað fyrri part dags snertir.  Nú er bara að sjá hvernig seinni partur spár gengur fram.

 

Afmælisbarnið og stríðsmaðurinn Jónas Skaftason að taka á móti afmælisóskum.

En veðrið þennan miðvikudaginn er svona skítsæmlegt.  Vindur er norðanstæður og bíður upp á svona 7 - 9 metra vindhraða á sekúndu og hitinn nálgast 3 gráðurnar fyrir ofan frostmarkið. Sólin vakir í suðrinu en þykkur dökkur skýjabakki hylur norðrið af mikilli kostgæfni. Maður tekur eftir því að sólin sem núna nær 15,8 gráður yfir sjóndeildarhringinn er farin að setja mark sitt á lífið og leggur sitt af mörkum til að létta á klakaböndunum.

Rúnar er kominn og með honum í för var hinn ástsæli norski harmonikkuleikari Arnt Haugen og lék af sinni alkunnu snilld "strekkebuksepolke" sem að öllum líkindum heitir upp á íslensku "Teygjubuxnapolki" Reyndar munar bara einum staf þ.e. I, að þessi hressilegi polki héti því ágæta nafni prjónabrókapolki. Rúnar var líkt og Jónas og Himmi bara nokkuð hress og taldi hann vel við hæfi að spila strekkebuksepolka í svona strekkingi sem utandyra er.

Glugginn er líka kominn og líkt og síðustu miðvikudaga kom Skarphéðinn Ragnarsson með hann.  Ýmislegt er að finna í Glugganum  sem menn geta séð inni á huni.is og Gluggavísu vikunnar á nú sem fyrr vísnasmiðurinn kunni Rúnar á Skagaströnd. Hann yrkir jafnan dýrt og koðnum við Rúnar oft niður þegar við erum búnir að berja saman vísu og lesum síðan dýrt kveðna hringhendu eftir Skagastrandarskáldið. En við erum bara samt svo assskoti forhertir að við látum ekkert stöðva okkur í vísnasmíðum þó komi fyrir að við séum nokkuð stuðlagrænir.


"Nostalgía" Jón Sigurðsson áður en svo margt gerðist

Við duttum um þessa vísu sem líklega er eftir Lúðvík Kemp og fannst hún passa við undirritaðan sem undanfara daga hefur verið að lýsa fyrir Birgittu skáldkonu á S-Löngumýri hremmingum sínum á lífsleiðinni en sú lýsing mun birtast almenningi áður en mjög langt líður:

Maðurinn allur er magur og rýr,

en montinn og andskoti visinn.

Svo er hann óhappa djöfulsins dýr

og dæmalaust helvíti slysinn.

 

Meðan við duttum um ofangreinda vísu þá átti vínbúðarstjórinn hún Margrét leið hjá með vatnsflösku í hendi og hrökk þá "margt er það sem miður fer" maðurinn í gang, þ.e.a.s hann Rúnar og mælti af munni fram:

Margt er það sem miður fer

í minni lífsins tösku.

Magga núna mætt er hér

með óáfengt í flösku.

19.02.2014 14:59

vorboðinn ljúfi er óútreiknanlegur.


Húsapuntur við hafið

Dagurinn í dag er bjartur og kaldur. Áttin er austlæg og vindur fór hægt yfir í morgun en fór að herða á sér þegar kom fram á morguninn.

Það var í fréttum um daginn að lóan væri komin og hefði sést á Seltjarnarnesinu. Þótti lóan vera óvenju snemma á ferðinni en seinna kom í ljós að þessar lóur höfðu bara aldrei farið af landi brott því það þykir víst gott að búa á Seltjarnarnesi þó svo það sé lítið og lágt.

      Ég sagði smá dæmisögu fyrir nokkrum árum sem átti að undirstrika það að fari menn ekki eftir gangi himintunglana, hitanum frá eldinum og umhverfi sínu þá getur farið illa.

    Heiðlóa ein sem hafði þvælst í mörg ár fram og til baka vor og haust til landsins í misjöfnum veðrum og árum, ákvað það að vera um kyrrt á landinu þegar aðrar lóur tóku sig upp og flugu suður á bóginn. Hún sagði við sjálfa sig að þetta hlyti að blessast því vetur á Íslandi væru ekki svo slæmir. Þetta gekk ágætlega fram eftir hausti því tíðarfar var gott. En svo kom fyrsta alvöru hausthretið og lóu litlu varð kalt og lítið var til að borða. "Æi" hugsaði hún með sér. " Mér hefði kannski verið nær að fylgja ættingjum mínum suður á bóginn fyrr í haust. Það er ef til vill ekki orðið of seint" hugsaði hún með sér og hóf sig til flugs af túninu við Hérðashælið. Hún var ekki búinn að fljúga lengi þegar ísing gerði vart við sig á vængjum hennar og hún varð að nauðlenda á túninu í Sauðanesi. Það varð henni til happs að Palli var enn með kýrnar í fóðurkálinu og lóan lenti rétt hjá þeim. Huppa gamla jórtraði spekinglega lyfti hala og skeit á umkomulausa lóuna sem var beint fyrir aftan hana. Eins og gefur að skilja þá hlýnaði lóunni skyndilega við þessa himnasendingu og hóf hún upp söng mikin " dýrðin, dýrðin, dýrðin" söng hún hástöfum. Þessi óvænti gleðisöngur lóunnar barst Brandi, ketti Páls í Sauðanesi til eyrna og var hann satt best segja undrandi í fyrstu, því hann hafði ekki heyrt lóusöng í langan tíma eins og gefur að skilja. Brandur gerði meira heldur en að sperra eyrun því hann lagði leið sína suður fyrir fjós og fór að huga að því af hvaða toga þessi söngur væri. Ekki var hann lengi búinn að ganga þegar hann kom að lóunni fastri í kúadellunni. Það verður bara að segjast eins og er að þau urðu bæði mjög hissa á því að sjá hvort annað og Brandur gerði það sem hann kann best í samskiptum við fugla. Hann dró lóuna þar sem hún sat föst upp úr skítnum og gerði sér hana að góðu.

    Þessi saga kennir okkur það í fyrsta lagi að hlutirnir lúta ákveðnum lögmálum og það þýðir ekkert að berja höfðinu við stein gagnvart staðreyndum lífsins. Lóur fara suður á bóginn á haustin. Í öðru lagi segir þessi saga okkur það að vera ekki að blása það út um allt þó manni líði vel og hafi það gott um stundarsakir heldur lifa lífinu sáttur og af hógværð því ýmsir sem þú kærir þig ekki um geta heyrt í þér. Ennfremur er það nokkuð ljóst að það eru ekki alltaf óvinir þínir sem skíta þig út. Og síðast en ekki síst þá eru það ekki endilega vinir þínir sem draga þig upp úr skítnum og koma þér til hjálpar þegar mest á reynir. Svo mörg voru þau orð. Það er hreint með ólíkindum að sex lóur á Seltjarnarnesi geti eyðilagt góða dæmisögu en svona er lífið og vorboðinn ljúfi óútreiknanlegur.


Spákonufellið í greipum gröfu

Rúnar vinur minn Agnarsson kom hér í gær með sína harmonikkutóna og lagði bílnum eins og venjulega úti á miðri götu. Undir geislanum hjá honum var sænskur polki sem heitir því einfalda nafni "Fölungen" og þýðir samkvæmt "google translate"  folaldið. Það er ekki svo fráleitt að nefna lag í polkatakti eftir folaldi því það minnir svolítið á folald að leik á fallegum vordegi.  Þegar ég var búinn að lóðsa Rúnar með bílinn nær gangstéttarbrúninni gekk hann í hús þar sem ég tilkynnti honum að ég ætti afmæli og þyrfti að fá afmælisvísu í "Margt er það sem miður fer" stíl. Rúnar hugsaði sig um í smá stund og dembdi þessu yfir mig

Margt er það sem miður fer

Hjá mörgum körlum hrjáðum.

Jón nú ári eldri er

Og eflaust nær mér bráðum.


 Framkvæmdir í ósnum. Strandafjöll standa tignarleg og marka Húnaflóann að vestanverðu. Reykjaneshyrna er lengst til hægri og er hún miðja vegu milli  Gjögurs og Árness. Undir Reykjaneshyrnu vestanverðri kúrir Litla-Ávík þaðan sem við fáum veðurfregnir daglega. (vona að ég sé ekki að klikka í landafræðinni)

Rúnar kom svo aftur í dag og fór minna fyrir harmonikkutónum hjá honum að þessu sinni því Stefán Hafsteinsson sat í horninu hjá mér. Hefur Rúnar talið að Stefán væri ekki eins taktfastur og Kristófer Sverris mjólkurfræðingur. En hvað sem öllu líður þá áttum við félagarnir gott spjall en þurftum að hækka róminn vegna skruðninganna í gaddaskóm Stefáns. Það hrökk svona út úr mér alveg hugsunarlaust:

Á skaflajárnum Stefán fer

skröltandi um bæinn.

Rúnar botnaði á örskotsstundu og kom sér vel yfirburða þekking hans á "Margt er það sem miður fer:

Margt er það sem miður fer

sem margan fyrri daginn.

Glugginn er kominn og er þar sitt lítið að finna og Gluggavísa vikunnar er eftir hinn kunna hagyrðing Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og flögrar hann títt við tálsins stuð hvað svo sem það nú þýðir en það skiptir einu því menning mín er malbikuð. Best að hafa þetta bara samhengi þessarar viku.

12.02.2014 14:51

dagurinn í dag er dagurinn

Dagurinn í dag er dagurinn sem skiptir máli sagði einhver vitringurinn. Gærdagurinn er liðinn og þú færð engu breytt og morgundagurinn er óskrifað blað. Það er heilmikið til í þessu en hvernig höndlar maður svona mikinn sannleik og visku?  Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör en alltaf eru til einhverjir sem eiga svör við öllu saman hversu vel eða illa stendur á. Núna eru að renna upp dagar sem tengja mig við lífið og dauðann. Þann 14. febrúar árið 1992 var ég fluttur fársjúkur með hjartaáfall á Borgarspítalann. Þetta var Valentínusardagurinn, dagur elskenda og ég víðsfjarri minni heittelskuðu. Mín ágæta kona fékk hringingu af Borgarspítalanum að ef hún vildi sjá mig á lífi þá skyldi hún drífa sig suður hvað og hún gerði. Annar dagur sem tengir mig við dauðann og lífið er minn fæðingardagur sem er 18. þessa mánaðar árið 1952. Samkvæmt þessu hef ég "þraukað" í gegnum lífið með hálft hjarta í næstum  22 ár og hef bara haft það déskoti gott. Reyndar hefur ýmislegt gerst í millitíðinni sem telja má minniháttar mál og eru þau hér með úr sögunni og ég er á sæmilegu lífi.

Þetta er svolítið þunglyndisleg byrjun á pistli en febrúar er bara minn tilfinningamánuður, mánuður sálarhreinsunar og á einhverju verður maður að byrja og er þá ekki best að byrja á sjálfum sér.


Það er hryssingslegt við botn Húnafjarðar þessa stundina og dimmt í norðrinu. Tilraun sómir sér vel undir brekkunni.

En veðurlýsing þessa morguns er eftir en hún er í stuttu máli þessi. Norðan ellefu metrar á sekúndu og hitinn 2 gráður yfir frostmarki klukkan níu í morgun en vindurinn sótti heldur í sig veðrið eftir því sem á daginn hefur liðið. Það er þungskýjað og má segja að skýjin norður við sjóndeildarhring séu svört af vonsku. Grun hef ég um að þau inniberi líka heilmikið af hvítri mjöll þrát fyrir sinn dökka lit. En svellin eru alltumlykjandi og láta engan bilbug á sér finna. Þegar Rúnar kom hér rétt eftir hádegið með "Muckarpolkan"  í flutningi sænskra listamanna í farteskinu hrökk út úr honum bara si svona.:

Margt er það sem miður fer,

má þó stundum laga.

Vernsnandi nú veður fer

og verður næstu daga.

Já! Svo mörg voru þau orð og er það sem ég segi, "margt er það sem miður fer" fer Rúnar vini mínum afar vel og er gott upphaf.


Það skóf af ölduföldum í hvassri norðanáttinni í morgun

Af vesturbakkanum er tíðindin ekki mikil eða fara í það minnsta ekki mjög hátt. Síðast er ég heyrði í manninum sem verst í vökinni honum Jónasi á Ljóninu þá lá ekki allt of vel á honum. Honum var mikið niðri fyrir og kom ástæðan til þess að gera fljótt í ljós.  Nöldri, sem er dulnefni pistlahöfundar á huni.is hafði gert Jónasi gramt í geði með eftirfarandi ummælum. "Þegar ekinn er þjóðvegur 1 inn í bæinn okkar hvort sem er að norðan eða sunnan blasa við auglýsingar um alls konar þjónustu sem er alls ekki í boði yfir vetrarmánuðina. Þarna auglýsir Hótel Blönduós veitingar og gistingu, Blönduból/Ljón norðursins café-bar og á miða á hurðinni er auglýst að  þar sé upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn!  Árbakkinn auglýsir kaffi og veitingar og  Sveitabakarí kaffi og meðlæti. Við heimamenn vitum kannski að þessi veitinga- og gistihús eru lokuð allan veturinn en það geta ferðamenn sem hér eiga leið í gegn ekki vitað. Þó umferðin sé ekki eins mikil að vetrinum eins og sumrinu fara margir hér um og þetta eru villandi upplýsingar fyrir ferðamenn. Það ætti að vera eigendum þessara staða í lófa lagið annaðhvort að taka þessi skilti niður, eða ganga þannig frá þeim þegar lokað er að hausti að þau séu ekki að beina ferðamönnum að læstum dyrum." Ég spurði Jónas hvort þetta væri ekki satt og taldi hann það af og frá. Hann taldi þetta bara hreina og klára árás á sig og benti á að allir í heiminum vissu að hjá honum væri lokað frá 1. okt og fram í byrjun maí og benti á bókunarkerfið Booking.com því til staðfestu. Ég benti honum á að merki sem víða væri að finna við sveitabæi og upplýstu að kýr gætu átt leið um veginn væru yfirleitt hulin yfir veturinn svo þeir sem um veginn fara geti ekið áhyggjulaust um. Ég spurði hvort það væri nokkuð til of mikils mælt að þessir aðilar gerðu slíkt hið sama. Honum fannst ég ekkert fyndinn og sagðist myndi hafa samband við þá Húnahornsmenn og leggja fram kvörtun eða jafnvel skrifa pistil sér til varnar.


Menn verjast ekki eingöngu yfirvöldum heldur þarf að verjast þungum öldum sem skella á ströndinni. Unnið að styrkingu grjótvarnar í ósi Blöndu

Það er alveg merkilegt að um leið og Rúnar var búinn að fara með veðurvísu sína þá datt hann á með hægviðri og maður sá að það birti í suðrinu.

Margt er það sem miður fer

 í mörgum Rúnars brögum.

Hans spádómsgáfa slitrótt er

því spáð er góðum dögum .

05.02.2014 15:22

vangaveltur á Agötumessu



Þó lognið sé allt um liggjandi þá er þung undiralda við botn Húnafjarðar

Enn einn lognkyrr miðvikudagurinn er runninn upp og þungur niður berst frá hafinu.  Áttin er suðlæg og hitinn er tveimur gráðum undir frostmarki. Svellin eru viðvarandi og sést enginn maður á gangi nema hafa mannbrodda undir skósólum. Ég komst að því í gær að hægt væri að nálgast þessa bráðnauðsynlegu jarðtengingu á þremur stöðum í bænum og samkvæmt lauslegri verðkönnunn eru mannbroddar ódýrastir í Samkaupum.  Það er samt merkilegt að þrátt fyrir þessu miklu svell og hálku þá fréttir maður lítið af slysum þessu tengdu og skýrist það eflaust af því að hættan er augljós og því geta menn varast hana.


Lárus Blöndal við tamningar á Flúðabakkatúninu

Þá fer nú þorrinn að verða hálfnaður og hef ég ekki farið nema á tvö þorrablót.  Annað var í Skagafirði og hitt hér heima. Ekki ætla ég út í neinn samjöfnuð enda það nokkuð erfitt þar sem um tvo þjóðflokka er að ræða en maturinn og félagsskapurinn var góður á báðum stöðum.


Geitaból er enn uppistandandi en hér átti Ingibjörg Pálsdóttir sem margir kannast við undir gælunafninu Budda, sér skjól og athvarf. Blessuð sé minning hennar

Ég nefndi aðeins Louisu Mattíasdóttur listmálara í síðasta pistli og var  svona að þreifa eftir því hvort einhver vissi af tengslum listamannsins við Blönduós. Einn ágætur brottfluttur Blönduósingur hafði samband við mig og hafði það eftir móður sinni að Louisa hefði dvalið einhverja daga í Sæmundssenhúsinu sumar nokkuð fyrir margt löngu. Gaukaði hann að mér að þær systur Lullí og Silla (Þuríður og Sigurlaug Hermannsdætur)  vissu kannski eitthvað um þetta. Hef reyndar ekki haft við þær samband um þetta en eflaust kemur að því og verður fróðlegt að vita hvort eitthvað kemur út úr því.

Jónas á Ljóninu er enn að berjast í sínum málum og hyggur hann á greinarskrif í Fréttablaðið. Þetta er að verða orðin ansi hreint löng barátta hjá Jónasi við yfirvöld hverju nafni sem þau nefnast. Þegar ég lít yfir farinn baráttuveg Jónasar þá skýtur upp í kolli mínum mynd af manni sem er vel hálfur ofan í vök og sveiflar brandi sínum í allar áttir. Álengdar stendur yfirvaldið og aðhefst ekki neitt.  Og ekki þýðir að kasta til mannsins í vökinni snæri til að draga hann upp  því það er í sundur um leið og brandurinn bítur á því. Lífið er Brattabrekka fyrir mann sem á í vök að verjast. En kisan hans Jónasar  hún Bella saknar hans meðan hann hefst við í höfuðborginni og kallar ákaft til þeirra sem leið eiga fram hjá Ljóninu með einkennishljóði katta  "mjá".


Bella hans Jónasar Skafta kvartar við vegfarendur og segir óhikað að hún sakni eiganda síns

Glugginn er kominn og er svona heldur rýr í roðinu að þessu sinni þó þar megi finna margt gagnlegra upplýsinga. Einar Óli  (og fleiri) minnir á 112 daginn sem er eins og venjulega haldinn 11.2.   Domus gengið er á sínum stað sem og WC pappírinn hjá Hvöt. Og samkvæmt venju er vísa vikunnar líka á sínum stað og nánast samkvæmt venju eftir Rúnar Kristjánsson skáld á Skagaströnd. Yrkisefni hans er hinn nýji útvarpsstjóri og væntir Rúnar þess að hann muni reka fleiri frá RÚV.

Klukkan er farin að halla í seinni part dagsins og ekkert hef ég orðið Rúnars vinar míns var. Ekki veit ég hvar gostæknir Samkaupa heldur sig eða hefur fyrir stafni. Hann vær vís með að bregðast mér á Agötumessu en lengi má manninn reyna. Svona í framhjáhlaupi í lokinn þá má geta að í  Gottskálksannál árið 1339 segir: Hljóp skriða á bæ í Kjós er á Tindsstöðum heitir in festo Agate [Agötumessa er 5. febr.] og létust ix (9) menn. Í öðru framhjáhlaup má geta þess að einn bræðra minna bjó á þessum bæ til nokkura ára. Látum hér staðar numið og horfum til samhengisins sem hverjum manni er svo mikilvægt að koma auga á.


Í vökinni er krafa um krafta,

krafta sem ráða við rafta.

En í baráttugný,

bíður Bella svo hlý

eftir berserknum Jónasi Skafta.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 632
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 63914
Samtals gestir: 11344
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 23:59:20