Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2010 Maí

26.05.2010 14:05

"Léttblúsaður vorfílingur"

    Ég nenni ekki að skrifa mjög langan pistil í dag. Ég er hreinlega ekki í stuði til þess. Jónas Skafta sagði að síðasti pistill hafi verið  heldur leiðinlegur en þegar ég las hann upphátt fyrir hann og skýrði með nokkrum hnitmiðuðum orðum var eins og blessuð skepnan skildi. Það er eingöngu fyrir þessa þrautseigju mína að ég renni fingrum yfir lyklaborðið og kem einhverju frá mér í dag.

    Það er rétt að skella hér inn einni sólarlagsmynd svo hin rétta stemning komist til skila í pistlinum. Sólarlagsstemningin þegar sólin hnígur til viðar að loknu dagsverki. Húmið og kyrrðin leggst yfir og friður sest að í sálinni. Þetta er sólarlagsblús. Ég er viss um það að ef "Harmonikadrengene" semja einhvern tíma lag um þessa mynd þá komi það til með að heita "solen går ned og fuglene flyver í flok"

 

    Það á að kjósa fólk á laugardaginn til að stjórna sveitarfélögunum næstu fjögur árin. Það sem að mér snýr þá hefur bara gengið þokkalega  að stýra okkar samfélagi síðastliðin fjögur ár. Auðvitað má tína eitthvað til en svona  heilt yfir þá held ég að hlutirnir séu í lagi nema umferðarmerkingar á Hnjúkabyggðinni, Sýslumannsbrekkan og skópörin tvö sem hanga á rafmagnslínu yfir Blöndubyggðina. Ég gæti svo sem haldið eitthvað áfram en ég nenni bara ekki að vera leiðinlegur því það hefur sannast að það er betra að vera skemmtilegur en leiðinlegur ætli maður sér að ná eitthvað út úr lífinu. En það væri nú déskoti flott ef núverandi bæjarstjórn léti það verða sitt síðasta verk að fjarlægja skópörin af rafmagnslínunni sem áður er getið og leggja skóna á hilluna. 

    Það er hestur á beit inni á einni lóðinni hér á bakkanum en ég bara má ekki segja frá því eða réttara sagt ég hef lofað að segja ekkert frá því.

    Jónas tók á móti hópi fuglaskoðunarmanna fyrir nokkrum dögum sem voru himimlifandi yfir því að sjá straumöndina á Blöndu. Jónas á von á fleiri áhugamönnum um fugla áður en mjög langt um líður.  Ívar Snorra hef ég bara séð tilsýndar, ekkert við hann talað, einungis veifað honum. Jóhannes og Sigrún eru búinn að slá lóðina á Blöndubyggð 6b aðminnsta kosti tvisvar og svona mætti lengi telja. Eftir að ég skrifaði þetta þá hitti ég Ívar Snorra með varðhundinn sinn og tjáði hann mér að hann ætli ekkert í útgerð að sinni en að öðru leiti væri hann bara hress.

    Rúnar er kominn með Gluggann og "nikkunar óm" en það eru lög eftir Bjarna Halldór Bjarnason. Það var ómþýður vals sem Tatu Kantomaa lék og ber nafnið við fjörðinn. Það eru rólegheit yfir þessari komu sem mér finnst bara gott því eins og fram hefur komið og á eftir að koma fram þá kann ég vel að meta umhverfi sem áreitir sem minnst.

    Glugginn er kominn með þeim einkennum  sem einkenna Glugga á svona tímum en það eru væntanlegar kosningar. Það sem vekur mesta athygli í þessu sambandi  er að það verður KOSTNINGAVAKA í félagsheimilinu á laugardagskvöldið.  Ekki er að efa að hér er um stórmerkan atburð að ræða. Þarna hljóta þeir sem farið hafa á kostum í vetur og vor, svokallaðir kostningar  hafðir til sýnis og vakað yfir hverri þeirra hreifingu. Þær geta verið hreint kostulegar þessar kostningavökur og ætti engin maður að láta þær framhjá sér fara. En E-Listinn í Húnavatnshreppi ætlar hinsvegar að vera með kosningavöku í Húnaveri á sama tíma þannig að það verður ekki á allt kosið á þessum kostulega  kjördegi.

    Vísa vikunnar er eftir Rúnar skáld á Skagaströnd og dregur þar upp mjög skýra mynd af því pólitíska samfélagi sem hann lifir í

Kosið er í kringum okkur,

kröfugerðin rík.

En hér er auðvitað enginn flokkur

og engin pólitík !!

Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð.

    Samhengi hlutanna er stundum svo kostulegt en kvefpest, nefstíflur og annað  smálegt hefur truflað mig nokkuð að undanförnu og fara þeir sem næstir eru mér ekki varhluta af því. Ég er stuttur í spuna og á margan hátt ólíkur sjálfum mér og langt í frá að vera kostulegur en mér finnst ég eiga fárra kosta völ í bágindum mínum og bið menn sjá aumur á mér meðan þetta gengur yfir.

Særindi í hálsinum  stöðug nú hef.
Slen, hósta og hæsi og heilmikið kvef.
Í hendinni bólga
í iðrunum  ólga,
á nóttinni lítið sem ekkert ég sef.

    Rúnari þótti miður að gengi I-listans sem settur var saman hér á þessari síðu skildi ekki fá meira brautargengi í kosningabaráttunni og ortum við í sameiningu kveðju- , saknaðar og sorgarljóð um þetta framboð sem átti skilið að ná flugi en gerði það bara ekki. Hér kemur þessi lokahnykkur  frá okkur í blússtíl eins og þessi pistill allur er. Rúnar heldur að þið farið öll að gráta.

Margt er það sem miður fer
og mætti fara betur.
I - listann hér engin sér
því engin listann metur.

19.05.2010 16:11

Það segir fátt af einum

    Dagarnir eru misjafnir, mennirnir eru misjafnir og þegar saman fer misjafn dagur og misjafn maður er ómögulegt að átta sig á því hver útkoman verður. Það er ekki sama hvað sagt er við hvern og á hvaða tíma. Það sem einum þykir  græskulaust gaman, örlítítið gáleysis hjal út í loftið getur öðrum þótt þungbært að lesa og umbera. Það fylgir því mikil ábyrgð að skrifa orð á blað sem fer víða. Það gildir hið fornkveðna að aðgát skal höfð í nærveru sálar. En það er nú samt svoleiðis að það er sama hvað reynt er í þessu tilliti því það er alltaf ein og ein sál sem finnst hún hafa fengið einhvern þann skammt sem ekki sé sæmandi eða  sanngjarn.   Það skal fúslega játað að ég hef gert töluvert af því að byggja mín skrif upp á lífinu í gamla bæjarhlutanum hér á Blönduósi og hef í gamni kallað mig stríðsfréttaritara á V(v)esturbakkanum.  En lífið er einfallt í flóknum heimi. Við fæðumst og deyjum og það gerist eitthvað þarna á milli og við ráðum ekki öllu hvað það er en alltaf komum við þar við sögu og ráðum pínulitlu hvað  það verður.

    Eftir þessa hugleiðingu sem að sjálfsögðu á sér ástæðu fór ég að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að skrifa um fuglana, hunangsflugurnar , blómin, trén  og hið þjóðlega umræðuefni, tíðarfarið. Eftir mikla umhugsun taldi ég það vera besta kostinn en það varð mér til happs að ég er einn af þessum "örfáu" sem fæ Moggann flesta morgna og les hann og það réð úrslitum . Ég ætla að halda áfram á sömu braut og skrifa um alla þá sem ég hef skrifað um og bæta fleirum í safnið en einum mun ég algjörlega sleppa.     
    Það sem réði úrslitum að ég held mínu striki er stjörnuspáin mín fyrir daginn í dag:  VATNSBERI  Vertu ekki með stöðugar áhyggjur af því hvað öðrum kann að finnast um þig. Með góðri skipulagningu tekst þér að komast yfir verkefnin. Af litlu verður Vöggur feginn myndi einhver segja en það gleðilega er að mér er alveg sama.

    Það segir fátt af einum en núna breytist þetta hjá mér og verður einfaldlega "það segir "ekkert" af einum"  en allir hinir eru bara nokkuð  hressir það best ég veit og halda áfram sinni lífsins göngu. Stærsta fréttin héðan af Vesturbakkanum er sú að Nonni hundur er ekki lengur eini hundurinn á Aðalgötu 8 því kominn er til hans í fóstur um einhvern tíma, hvolpur svartskjöldóttur sem gálausir menn eru farnir að kalla Margréti. Þeir segja að það hljómi svo fallega þegar fólk segir hvert við annað á góðviðrisdegi þegar Stefán fer út að ganga með hundana sína. " Þarna er er hann Stefán að viðra hundana sína þau Margréti og Jón."

    Það er eitt sem er farið að bögglast svolítið fyrir brjóstinu á mér, að Rúnar er farinn að þvælast um með Gluggann undir glaðværri harmonikkutónlist sem leikin er af diski sem enginn veit hvaða nafn hefur eða hver það er sem leikur þessa léttu tónlist. Hann skondrast um með stolin lög og er bara góður með sig. Þetta leiðir bara til þess að Harmonikkadrengene, Arnt Haugen og og Familien Brix falla í gleymsku. 
    
    En Rúnar er mættur með stolnu harmonikkutónana og Gluggann og þar eru sem fyrr meindýraeyðarnir sem engu smálífi eira og vilja flugurnar feigar. Þeir hefðu átt að heyra í henni Guðríði á ÍNN í gær þar sem hún sagði frá mikilvægi flugna í þroskun jarðarberja.

    Kartöflugarðarnir í Selvík eru að verða klárir líkt og Heimilisiðnaðarsafnið. Þetta tengjum við saman því þarna fer fram mikil ræktun, annarsvegar hins veraldlega fóðurs og hinsvegar hinnar skapandi hönnunar og ræktun og alúð við hinn gamla þjóðararf.

    Golfararnir eru að hefja sumarstarfið og er það vinsamleg ábending til þeirra sem leið eiga framhjá  golfvellinum að hafa framrúðutrygginguna í lagi því stundum eiga menn það til að slá kúlurnar sínar út á Skagastrandarveg á nokkrum brautum .

    Vísa vikunnar er eins og oftast áður á sínum stað og nokkuð ljóst að Guðmundur Valtýsson löngum kenndur við sína föðurarfleið Bröttuhlíð er höfundur hennar.  Hann líkur vísu sinni á rómantískan hátt en það finnst okkur Rúnari svo sætt: "Ef ég mætti höfði halla/ hjartaslætti þínum að"  Gvendur Bratti klikkar ekki í sínum angurværa "vorfíling".

    Hestamenn og frambjóðendur láta líka til sín heyra og ekki má lengur gleyma Domusgenginu sem auglýsir að þessu sinni húseignina Austurhlíð II ásamt 7 hektara lóð.

    Það skemmtilega við þessi skrif er að stundum koma einhverjir í hornið til okkar meðan við veltum vöngum og setja jafnvel svip sinn á þau. Það eiga nefnilega ýmsir erindi í Aðalgötu 8. Að þessu sinni var tekin ein passamynd og Gerður Hallgríms heilsaði upp á okkur Rúnar og kastaði þessu út í loftið:

Rúnar er að rembast við
að rétta Jóni Gluggann

Við sátum yfir þessu smá stund og böggluðum þessu frá okkur ekkert allt of ánægðir með okkur.

Þennan hafa þróað sið,
þráfellt sama tuggan.

    En nú er komið að því sem ekki verður flúið og engin sér betur en við Rúnar en það er einmitt samengi hlutanna. Einn hefur óskað eftir því að vera ekki með þannig að hann verður ekki í samhenginu

Rúnar vildi yrkja öfugmælavísu

Margt er það sem miður fer,
mörgu er breytt með trega.
Engin vísa ort nú er
eins og venjulega.

    En þar sem ég er nú seinþreyttur til vandræða og þekktur þverhaus vildi ég ekki láta hér staðar numið því samengið er svolítið samhengislaust í þessari vísu. Þess vegna yrkjum við saknaðarljóð þar sem ein af persónum okkar hefur sjálfviljug og af fúsum og frjálsum vilja óskað eftir því að koma hvergi nærri þessum skrifum.

Fuglar himins syngja á grænum greinum.
Geltir hundur, ástin er í meinum.
En við segjum það satt
við einn höfum kvatt,
það segir fátt að einum.

12.05.2010 14:48

Hin blátæra kurteisi

    Hvernig skrifar maður þegar rignt hefur alla nóttina, komin suðvestan átt og skin er milli skúra. Loftið er hreint og það sem vakti sérstaka athygli mína þegar ég kom til vinnu í morgun að allar gæsirnar eru nánast horfnar. Líkt og jörðin hafi hreinlega gleypt þær eða þær skolast burt með rigningarvatninu. Nú, maður fer að velta vöngum yfir þessu öllu saman; hvað varð um rigninguna, gæsirnar? Það fer svo sem ekki langur tími í það að hugsa hvað varð um gæsirnar því þær hverfa alltaf á þessum tíma því þær eru byrjaðar að verpa og eru því ekkert á almanna færi. Þetta með rigninguna er snúnara viðfangsefni því hún kemur og fer og er misjafnlega þokkuð og fer það nokkuð eftir því hverra hagsmuna maður hefur að gæta. Mér fannst rigningin góð sem féll síðasta sólarhringin því hún kom áburðinum sem ég bar á blettinn minn og trén, betur  að rótarkerfinu.  Einnig hreinsaði hún loftið og síðast en ekki síst þá þvingaði hún ánamaðkana ofar í jarðveginn og fyrir það eru þrestirnir ákaflega þakklátir.  Það er víst einhvern veginn svona sem maður skrifar þegar rignt hefur alla nóttina. 
    Áður er lengra er haldið er rétt að birta hér mynd af henni Erlu Evensen og Alex. Á myndina vantar Mumma meiriháttar


    
    Það er mikill friður sem ríkir á Vesturbakkanum nú um stundir.  Samt er alltaf eitthvað að gerast á svæðinu.


    Jóhannes á Blöndubyggðinni er byrjaður að slá og held ég að ég geti fullyrt að hann sé fyrstur til að hefja þessa iðju á þessu ári.


    Svenni kirkjueigandi kom hér fyrir skömmu með hundinn sinn til að líta eftir gömlu kirkjunni.


    Erlendur Magnússon vinnur  af til að sinni skúlptúragerð bakatil á Brimslóðinni. Erlendur er ekki svo ólíkur Hrafni Gunnlaugssyni um margt. Til að mynda þá eru lóðamörk engin hindrun fyrir útbreiðslu listarinnar og svo eru skúptúrar ekki hefbundnar höggmyndir heldur eru hugmyndir sumar hverjar sóttar til Skagastrandar í formi samanpressaðs brotajárns. Erlendur fer ekki hefðbundnar leiðir í listsköpun sinni og  teldi ég það ekki vitlausa hugmynd að skella sér niður fyrir húsin á fjörukambinum og skoða herlegheitin. Ég veit að auðnutitlingarnir elska þessi verk og ég hef það á tilfinningunni að fleiri gætu fetað slóð hinna smæstu fugla himinsins.


    Það er í sjálfu sér óþarfi að minnast á Jónas á Ljóninu því hann er kominn og svo sjálfsagður hluti í veruleika Vesturbakkans og jafnvel þó víðar væri leitað. Það er þó eitt sem leitar á huga minn, því enn eru merkingar við þjóðveg nr 1 sem gefa til kynna að á Vesturbakkanum sé að finna tjaldsvæði . Ég veit núna að það er ekki neitt viðurkennt tjaldsvæði að finna á Vesturbakkanum þó svo reka megi niður tjaldhæla "hist og her". Hvað á ég að segja við erlenda ferðmenn sem álpast í gamla bæinn og spyrja um kaffi og tjaldsvæði.  Þetta rifjar upp ársgamla hugleiðingu um þetta  stórmerka mál en þá lenti ég í stökustu vandræðum sem ég leysti á eftirfarandi hátt "You have to cross the river" eða " find the elderly grey man witch could be the grandfather of the Beatles". Það er svo sannarlega úr vöndu að ráða eða eins og "skáldið" sagði á svo undur ljúfan hátt:

Whatever you are, poor or rich,
elderly grey or smiling kids.
Speculation the same old which?
Should I stay or cross the bridge

    Nú er Rúnar mættur með harmonikkutóna í gamla bæinn en svo illa vill til að þeir eru af disk sem hann hefur sjálfur brennt inn á efni og veit ekkert um lögin annað en að þau eru harmonikkulög. Lagið sem hljómaði um gamlabæinn að þessu sinni var eldfjörugur polki, svo fjörugur að þreyttir fætur tóku ósjálfrátt viðbragð og gátu vart sig hamið.

    Hvað segir Glugginn í dag, það er hin stóra spurning?  Framboðslistarnir sem ætla að bjóða fram hér í sýslu eru farnir að kynna sig. Það er skemmtileg tilviljun að Glugginn er þannig uppsettur að auglýsingar frá meindýraeyðum eru aldrei víðsfjarri. Hjalti meindýraeyðir er á bakinu á framboðslistum í Húnavatnshreppi en Árni meindýraeyðir er andspænis L- listanum á Blönduósi.

    Það vekur athygli okkar Rúnars að Hjalti spyr í auglýsingu sinni hvort allir vilji ekki eiga flugulaust sumar. Við félagarnir erum nokkuð vissir um að mættu fuglarnir og blómin mæla þá tækju þau ekki undir þessa spurningu Hjalta og myndu hiklaust svara neitandi.

    Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og er ekki sökum að spyrja, handbragðið er snoturt.  Málin leysast af sjálfu sér með því að gera ekki nokkurn skapaðan hlut því  með því móti deyja sjúklinarnir og engann þarf að lækna.

    Samhengi hlutana er eins og allir vita afar mikilvægt. Og við Rúnar erum einstaklega næmir á það. Þess vegna fær þetta sem á eftir fylgir að líða áreynslulaust út í ómælt djúp netsins. Reyndar kom Jónas, vertinn á Ljóninu inn í horn til okkar meðan á pistlaskrifum stóð og reyndi að hafa áhrif á gerðir okkar og hafði meira að segja í frammi þessa vísu:

"Seinna ég skáldabekkinn kannski vermi,
en þangað til fer með hægð.
Baða mig síðan í frægðarljóssins skermi
og öðlast allt í einu heimsfrægð."

    Og lét þau orð falla að ólíkir værum við Magnúsi frá Sveinsstöðum, því hann gerði alltaf athugasemdir við bragfræði sína.  Ekki hvarflar að okkur Rúnari að gera neitt slíkt enda eru menn frjálsir og óháðir í andanum og mikið talað um það þessa dagana " að hugsa út fyrir rammann" . Því segjum við  einfaldlega þetta:

Hann kom hérna og reyndi að beita okkur brögðum.
Af blátærri kurteisi báðir við sögðum.
"Þú mátt yrkja að vild
og telja það snilld"
Að þessu loknu báðir við þögðum.

PS. Það munaði engu að limran hefði endað "Að þessu loknu á flótta við lögðum"

06.05.2010 16:12

X - I

    Rúnar var að detta í þessum skrifuðum orðum  inn um dyrnarnar hjá mér með Gluggann sem ekki kom út. Lagið "Vals" sem er að finna á disknum "Við nikkunar óm"  og hefur að geyma lög eftir Bjarna Halldór Bjarnason hljómaði í vorblíðunni á Aðalgötunni . "Ég elska þig ástin mín" var síðasta setninginn í texta lagsins og vel við hæfi. Prufið bara að setja ykkur í valstakt og syngja þennan texta með eigin nefi og lífið verður strax betra.

    Glugginn er kominn og kennir þar margra grasa. Hjalti meindýraeyðir er kominn á kreik um svipað leiti og framboðslistarnir birtast almenningi.  Og það fór sem mig grunaði að það var vísa vikunnar sem hefur staðið í Gluggaprentvélinni því hún er dýr og ættuð út Torfalækjarhreppi hinum forna.  Fjallar hún um útrás andskotans sem kemur úr undirdjúpum landsins okkar.

    Ég átti von á því að nýtt framboð á Blönduósi kæmi fram á síðum Gluggans til að takast á við Ásynjuna Oddnýju hina einhömu og skjaldmeyjar hennar.  En fyrst að listinn kom ekki fram í hinum seinútgefna Glugga er ekki úr vegi að að stilla upp harðgerðum karlalista sem mögulega gæti staðið Oddnýju hinni einhömu snúning. Hvernig væri að hafa Mumma meinhorn í fyrsta sæti. Alltaf á hann orð sem hæfa tilefninu og hefur þar að auki nýlega fengið yfirráð yfir risasveppum og kallst því með réttu æðsti sveppur. Í öðru sæti sé ég fyrir mér Jónas Skafta , grásprengdan og hokin af reynslu í bæjarmálum og þá einkum og sér í lagi að fást við bæjarstjóra og byggingafulltrúa.  Ívar Snorri myndi sóma sér vel í þriðja sæti þjakaður af sjávarlofti og seltu. Gjörkunnugur sjávarútvegi og uppeldi varðhunda og taktviss með afbrigðum.  Fjórða frambjóðandann skal telja sem hiklaust er maðurinn í baráttusætinu og kemur þar enginn annar en undirritaður  til greina því hjá mér er margbrotinn reynsla í því að þurka út heilu stjórnamálaöflin. Nægir þar að nefna að vorið 1986 var undirritaður næstum búinn að ganga af Sjálfstæðisflokknum dauðum og því vel við hæfi og jafnvel táknrænt þegar Sjálfstæðisflokkurinn er hættur að bjóða fram lista í bæjarstjórnakosningum á Blönduósi . Af þessu má sjá að hér fer saman mikill mannauður og  reynsla sem spannar öll helstu svið hins mannlega samfélags. Nafnið á þessum lista verður "Öxin"  því víða verður höggvið og listabókstafurinn verður I , sem sagt X-I

Nóg er af pólitík, rexi og pexi,
pínd erum við af  pexi og rexi
Snúum bökunum saman
Brátt verður hér gaman
Því bæinn við vinnum með X - I

05.05.2010 14:27

Strikið í reikningnum

    Þegar litið er til sögunnar þá endurtekur sagan sig alltaf, það er víst segin saga. Þetta segir mér nú bara skógarþrösturinn sem er búinn að koma sér upp hreiðri á gerfihnattardisknum sem hangir utan á hótelinu. Þessi ágæti fugl gerir sér ekki hreiður á þessum stað vegna tryggrar afkomu sinnar heldur vegna þess að staðurinn er svo góður með í varnarlegu tilliti gagnvart náttúrulegum óvinum. Og þegar talað er um náttúrulega óvini þá er átt við ketti, hrafna og því um líkt en þröstur minn góði gleymir alltaf sínum versta óvini í náttúrulegu tilliti en það er vindurinn. Sumar eftir sumar höfum við sem störfum á Aðalgötu 8 horft upp á það að hreiðrið fjúki af stalli sínum og varpið misferst. Við horfum í angist og með tárum á þrastarfjölskylduna fljúga um í algjörri örvæntingu í leit að heimili sínu en án árangurs. En það má segja þessum ágætu þrastarhjónum til hróss að þau jafna sig til þess að gera fljótt og koma upp hreiðri í rennunni á húsinu nr  9 við Aðalgötuna.


    Krían er komin í ósinn og í mínum huga er það stór áfangi í að endurheimta vorið. "Hún var nú komin fyrir viku, ég hefði getað sagt þér það" sagði einn ágætur vinur minn sem ég hitti á röltinu í fyrradag þegar ég sá kríurnar fyrst. "En þú sagðir mér það ekki Mummi minn" sagði ég si svona án þess að meina neitt illt með því og bætti svo við einhverju inn í umræðuna  um að sumir gætu ekki greint í sundur kríu og hettumáv. Þessari umræðu lauk á kærleiksnótunum eins og alltaf þegar við Mummi ræðumst við vegna þess að ég þekki Mumma og Mummi heldur að hann þekki mig. Þetta segir manni bara það hvað það er mikilvægt að þekkja viðfangsefnin í lífinu og takast á við þau í samræmi við það.  Ef maður þekkir þau ekki er mikilvægt að viðurkenna það strax og horfast í augu við vanmátt sinn af æðruleysi og auðmýkt. 

    Ég læt hér fylgja með tvær gæsamyndir sem sýna annarsvegar hvernig þær lenda sínum málum sem og hversu mikla virðingu gæsamamma ber fyrir gæsapabba.




   
     Reyndar er ekki svo langt síðan ég stóð í þeim sporum að vita ekki hvað snéri upp eða niður þegar ég hlustaði á viðtal Svavars Halldórssonar fréttamanns við Má Guðmundsson seðlabankastjóra  í kastljósi um daginn. Í því viðtali breyttist launahækkun í launalækkun og niðurstaða viðtalsins varð sú a.m.k. hjá mér að ég var fjær sannleika málsins auk þess að skilja ekki nokkurn skapaðan hlut sem talað var um. Í kjölfarið kom svo viðtal við Jón Gnarr sem ég skildi ekki betur en viðtalið sem á undan fór. Jóhann Már söngvari frá Keflavík  söng svo yfir heila "klabbinu" í lokin og var að öðrum ólöstuðum hápunktur Kastjóssins þetta ágæta að ég held mánudagskvölds.

    Jónas Skafta er komin heim líkt óg krían og stendur núna vaktina á Ljóninu. Ég hef ekki hitt hann en séð hann úr fjarlægð. Hann er ekkert ósvipaður því eins og hann var í fyrra. Gráleitur eldri maður sem ber sig vel og sýnist klár í kaffið, kleinurnar og einn kaldann. Stefán og Nonni hundur er líka á ferðinni en mér finnst fara minna fyrir þeim en oft áður og getur það skýrst af því að Jón Sigurðsson hundur er orðin eldri og þroskaðri og gengur um dyr gleðinnar af meiri festu og agi er kominn í hans grófustu hreyfingar og raddbönd.

    Það er alltaf eitthvað um að vera á Aðalgötu 2 sem hér áður fyrr meir var kallað Sæmundsenhús. En hvað það er sem þar er að gerast veit ég lítið um. Lengi hefur verið talað um að þar ætti að opna einhverskonar sportbar og gistiaðstöðu en enn hefur ekkert verið upplýst hvenær það verður eða hvort nokkuð verði af því. Þannig er það nú bara.

    "Vegna bilunar í tækjabúnaði er óvíst að Glugginn komi út fyrir helgi. Unnið er að viðgerð og nánari upplýsingar koma síðar."  Þetta voru skilaboðin á huni.is núna í þessum skrifuðum orðum. Skyldi þetta leiða til þess að Rúnar komi ekki í heimsókn í dag. Verður þessi bilun til þess að Aðalgatan missi af hressilegum harmonikkutónum úr Súkkunni hans Rúnars. Skyldi þessi bilun verða til þess að ómögulegt verði að koma auga á samhengi hlutana. Verður þessi miðvikudagur bara miðvikudagur sem líður í aldana skaut eins og allir hinu dagarnir.

    Rúnar hringdi og sagði það sem ég óttaðist mest. "Glugginn er bilaður og ég kem ekki, sjáumst seinna." Þar höfum við það.  Bara svona skýjaður miðvikudagur og ég einn með mínum hugsunum. Enginn polki eða vals, engin vitleysisgangur út í bláinn. Núna heyri ég geltið í Nonna hundi og finn fyrir rakanum í þungbúnu miðvikudagsvorblíðunni. Núna finn ég að þetta er ekki eins og það á að vera.

    Núna veltir maður fyrir sér hverju maður hefur misst af. Ætli Jónas á Ljóninu hafi verið að auglýsa með áhrifaríkum hætti sumaropnun  og vélarnar hjá Hédda og Óla ekki þolað álagið. Nú eða vísa vikunnar verið svo dýrt kveðin að tölvukerfi Gluggans hafi hrunið. Hver veit svona lagað. Kannski hefur E-listinn verið að senda inn framboðslista sem er svo frumlegur að kerfi þeirra Gluggamanna  hafi ekki ráðið við hann. Það er svo margt sem getur sett þetta margfræga strik í reikninginn.



     Þessir ágætu menn sem báðir eru bæjarfulltrúar hvor fyrir sinn lista en samherjar í lífinu gætu hugsanlega verið með listann góða sem hugsanlega hefði átt að birta í Glugganum sem ekki kom út. Hér eru þeir heiðursmenn Jón Aðalsteinn Sæbjörnsson (Alli) og Ágúst Þór Bragason

    Svona getur maður lengi haldið áfram án þess að fá neinn botn í þetta. Kannski hefur Óli bara hlustað á viðtalið við seðlabankastjóra og tapað öllum áttum, það þarf ekki að vera flóknara.
    En lífið heldur áfram með eða án Glugga, með eða án Rúnars, það bara heldur áfram og það sem heldur hlutunum saman er hið gamla og góða samhengi sem að þessu sinni er ekki flóknara en þetta:


Í sál minni  hleypur nú gleðin í  hnút.
Hugurinn fyllist af trega og sút.
Því allt sem ég veit
og ei augunum leit
er í Glugganum góða sem ekki kom út.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 76
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 632
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 63911
Samtals gestir: 11343
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 23:14:17