Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2012 Janúar

25.01.2012 14:42

Ef heiðríkt er og himinn klár

Í dag er Pálsmessa þar sem veður skiptir  miklu máli , jafnt hér á landi sem annarsstaðar.

Ef heiðríkt er og himinn klár
á helga Pálus messu,
mun þá verða mjög gott ár
maður upp frá þessu.

(Höf. ókunnur)

         Á Blönduósi byrjaði dagurinn með snjókomu og hægum vindi frá suðaustri. Löngum var reynt að ráða í veðurlag þennan dag og nema af því lærdóm um framhald vetrar eða komandi sumar. Hið sama gildir um marga forna messudaga, eins og til dæmis Kyndilmessu (2.febrúar), Höfuðdag (29.ágúst) og Egedius (1.september). Þannig að ef þessi dagur klikkar í veðurfarslegu tilliti þá er bara að bíða fram á annan dag febrúarmánaðar. Þjóðsögur benda til þes að víða hafi verið venja að gefa hröfnunum eitthvað gott í gogginn á Pálsmessu, en bændur töldu að hrafnar minntust þeirra sem gerðu þeim vel til og létu því lömb þeirra í friði þótt veikbyggð væru. Sunnar í álfunni merkir Pálsmessa að veturinn sé hálfnaður


Húsið hans Halls og Elínar séð frá Bakkastíg

Þorrablót Vöku var haldið um síðustu helgi. Þar fór allt hið besta fram. Matur góður og skemmtiatriði þóttu takast vel.  Það fór sem mig grunaði  að Vesturbakkabúar þar með talinn Jónas á Ljóninu fengu sinn skammt. Það var félagi hans og nágrani Ívar Snorri sem fór með hlutverk Jónasar. Ívari tókst vel upp í hlutverkinu, skilaði allri hegðun hið besta þannig að aldrei var vafi að um Jónas væri að ræða. En þar sem Ívar er örlítið smávaxnari maður en Jónas og auk þess holdskarpari í vöngum þá fannst mér hárið og skeggið taka helst til of mikið pláss á andlitinu. Þetta var svona líkast því að simpansi væri að gægjast út út þykku skógarrjóðri.  Kiljumenn fengu líka sitt og leikarar þóttu skila þeim Friðriki og Jóni vel til áhorfenda.

Þá er Rúnar blessaður mættur og með honum á tónlistarsviðinu í för eru hin geðþekku Therése og Peter harmonikkuleikarar með sinn "Marsch pannkaka" disk. Tónlistin sem blandaðist hríðargarginu í Aðalgötunni  og ber nafnið "polka variata" var ef satt skal segja mun hlýlegri en veðrið . Já, Pálsmessuveðrið er ekki það sem óskað var eftir en við því er lítið að gera og við Rúnar verðum víst að taka því líkt og aðrir.  

En Glugginn er kominn og þar er ýmsan fróðleik að finna eins og venjulega. Kynningarfundir og því um líkt er nokkuð fyrirferðamikið  í auglýsingablaðinu að þessu sinni. Sú auglýsing sem ég staldraði lengst við var "Köttur í óskilum ! Lítill köttur, dökkbröndótturmeð hvítt nef er í óskilum á Fornastöðum." Hvað er verra en vera týndur um miðjan vetur en það er þó huggun harmi gegn að kötturinn er ekki týndari en það að hann er fundinn en umsjónamenn kattarins vita það ekki. Vonandi lesa þeir Gluggann svo kötturinn komist til sín heima og færi gleði í hjörtu þeirra sem sakna.

          Vísa vikunnar er enn og aftur á sínum stað og er að þessu sinn eftir Rúnar stórskáld á Skagaströnd  og fjallar um sérstakar matarvenjur landans á þorranum.

Mikill fögnuður var á Vesturbakkanum eftir frækilega framgöngu Ívars Snorra í hlutverki Jónasar á Ljóninu  og Friðriks á Kiljunni

Þorrinn er genginn í garð og Ívar Snorri ásamt öðum félögum úr Leikfélaginu "brilleruðu á Þorrablótinu. En hvar var liggur samhengið í dag, það er okkur Rúnari í Lindarbrekku 1 ætlað að finna.

 

Upplit var mikið á Ívari Snorra,

eldhress, brattur, var ekkert að korra

Nema´ er Frikka hann tók

og Ljónið svo skók.

Svona er lífið hjá okkur á þorra.

18.01.2012 14:50

Á milli nýárs og þorrablóta

Það var dimmt og það var hvasst í byrjun þessa miðvikudags. Hitinn hangir núna rétt fyrir ofan núllið og gerir sig ekki líklegan að komast neitt hærra. Gærdagurinn var fallegur og sólin náði að baða öll húsin á austubakkanum og húsmæna í gamla bænum. Smátt og smátt gægist sólin lengra og lengra ofan í gamla bæjarhlutann og skyldi engan undra því hún er á uppleið.

Dagarnir á milli nýárs og þorrablóta eru svona dagar sem lítið láta yfir sér nema hjá þeim sem strengdu áramótaheit. En núna fer að styttast í fyrsta þorrablótið og Jónas Skafta hringdi í mig í gær og hafði fyrir því áræðanlegar heimildir að hann yrði tekinn fyrir þá blótinu. "Þó það nú væri" varð mér á orði "annað væri bara stílbrot eða í versta falli klúður" . Leikfélagið á svo gott "Jónasaroutfit" (á góðri íslensku Jónasargerfi); gerfi sem saman stendur af yndislega neonljógrænum íþróttagalla , ljógrárri síðhærðri hárkollu og yfirskeggi í sama lit. Þessi persónugjörningur er svo trúverðugur að margir halda að þarna fari Jónas sjálfur.   Jónas sagði mér að Ívar Snorri (sægreifinn) gengdi stóru hlutverki í skemmtinefndinni. Þessi uppljóstrun Jónasar segir mér bara eitt að persónugreining á Jónasi verður góð því fáir þekkja betur til Jónasar en Ívar Snorri, hann er hreinlega sérfræðingur í honum.

Ég er að velta því fyrir mér hverjum fleiri verði sýnd virðing af leikfélaginu á þorrablótinu. Ég sé fyrir mér Lárus Björgvin á á tali við ætlaðan Tansaníubúa í niðamyrkri á tjaldsvæðinu í brunagaddi í nóvember. Reyndar var maðurinn frá Tasmaníu en það er erfitt að greina í frosti og niðamyrkri. Ég sé fyrir mér Mumma Haralds standa í strandvarðarbúrinu með gjallarhorn og kenna Húnvetningum og gestum einfaldar umgengnisvenjur á baðstað. Reyndar læra mun fleiri en sundlaugargestir þessar reglur því þær berast yfir bæinn og fer þá svolítið eftir vindátt hverjir læra hverju sinni. Ég sé fyrir mér fleiri en suma hef ég lofað að nefna ekki á nafn og gerir það mér svolítið erfitt fyrir í atburðalýsingum á Vesturbakkanum. En leikfélaginu ætti að vera í lófa lagið að afgreiða málið því ekki veit ég til þess að það sé bundið neinum trúnaði við einn eða neinn nema þá þorrablótsgesti.


Grágæsirnar á Buddutúni. Myndin er dálítið óskýr svona eins og myndasmiðurinn en gæsirnar eru þrjár

Ég heyrði í útvarpinu áðan að sjaldan eða aldrei hefði verið eins blómlegt fuglalíf á Breiðafirði á þessum árstíma. Hér norður við botn Húnafjarðar finnast líka ýmsir fuglar í svartasta skammdeginu. Á túninu fyrir sunnan við hann Ragnar Þórarinsson má stundum sjá tvær grágæsir en þær voru lengi vel þrjár framan af vetri. Reyndar fór ég í smá bíltúr eftir hádegið og rakst þá á 3 grágæsir í kvosinni sunnan við Buddutún og voru þær bara bragglegar.


Hrafninn er að allt árið og er ótrúlega seigur að bjarga sér

Aldrei þessu vant þurfti Rúnar að bíða eftir mér. Skýringin var einföld því ég var að leita að gæsum sunnan við Héraðshælið eins og fyrr greinir. En ég náði í tæka tíð og líkt og fyrir viku þá var Gylfi Ægison undir geislanum í Súkkunni og hljómaði "Gústi Guðsmaður" um alla Aðalgötuna og lýsti upp skammdegið. Já Rúnar er kominn með Gluggann sem segir frá þorrablótum í bak og í fyrir.

Nýja hársnyrtistofan sem áður hét Flix heitir núna "gæjar og píur". Klósettpappírinn frá Hvöt hefur aldri skipað jafn háann sess hjá Glugganum og í dag. Opna Gluganns er lögð undir rúllurnar og lakkrísinn  og er auglýsingin þó aðeins ein síða en staðsett á miðri opnunni. Algjör nýjung hjá þeim Óla og Hédda og alveg hreint "brilliant".

Vísa vikunnar er eftir einhvern sem kallar sig E.L. Við Rúnar lágum lengi yfir þessari skammstöfun og datt okkur helst í hug að þetta væri Eysteinn Lárusson íþróttagúru bæjarins.  Fjallar vísan um brjóstafyllinu og þar sem knattspyrnumönnum er mikilvægt að taka boltann á brjóstið til að hafa gott vald á honum finnst okkur Eysteinn líklegur höfundur. Eins er það hversu gott pláss auglýsingin frá Hvöt fékk þá getur ekki annað verið en vísan sé eftir Eystein.

En hætta ber hverjum leik þá hæst hann stendur og nú er ekkert annað eftir en að höndla hið ómótstæðilega samhengi.

Á blótinu Ljónið mun burðarverk leika,

baráttujaxl með alvöruþunga.

Um sviðið á eftir, svipminni reika,

snæðum í lokin súra hrútspunga.  

 

11.01.2012 13:31

Fallerí, fallera

Þegar veður eru válynd þá er gott að eiga þess kost að dvelja í góðu skjóli, þurfa ekki að fara neitt og hafa afsökun fyrir því að gera ekki neitt. Þá er gott að setjast niður og renna í gegnum gömlu dagbækurnar og rifja upp liðna tíð. Ekki er ætlunin að tína hér eitthvað sérstakt til annað en það að stílabók og penni geta gert kraftaverk. Þetta sannaðist best hjá mér þegar ég dvaldi í 11 daga á spítala Guðs Parísar í lok ágúst 1999. Eftir að hafa stöðvað járnbrautarlest með því að bregða mér milli brautarpalls og lestar var ég fluttur á spítala með brotin rifbein og samfallið lunga. Það er óþarfi að segja frá því að þarna hef ég líklega komist einna næst Guði mínum en aftur að pennanum og stílabókinni. Það fyrsta sem ég bað konuna um sem bjargaði veröldinni á þessum tímamótum, sem sagt konunni minni, var penni og stílabók. Í þessa bók sem "litli prinsinn" skreytti kápuna, færði ég í letur flest allt sem á dagana dreif. Ég mundi ekki nöfnin á öllu hjúkrunarfólkinu sem á vegi mínum varð en ég gat tengt það persónum heima, annaðhvort eftir framkomu eða útliti.   En þessi bók og penni var mikil sáluhjálp;  ég gat skrifað mig frá áfallinu, frá hinum "rómaða" franska spítalamat, að höltu dúfunni á spítalalóðinni.  Ég segi það satt að þegar fram var borinn matur á stálfati með kúptu loki úr sama efni og við blasti þegar lokinu var lyft, fuglslæri, þá var mér hugsað til höltu dúfunnar. En eftir stendur að ég er líkast til eini Íslendingurinn sem komið hefur til Parísar sem ekki hefur séð Effelturninn. Þetta sem hér að framan er ritað er veðrinu að kenna, ekki mér.


Rúnar kom með Gluggann eins og hann gerir venjulega á miðvikudögum og honum fylgdu harmonikkutónar eins og venjulega

Í morgun gerðist það sem ekki hefur gerst í vetur. Morgunblaðið var ekki komið í hús áður en ég hélt til vinnu. Allt í einu var kominn upp sú staða sem ég hef ekki oft þurft að glíma við. Hvað á ég eiginlega að gera meðan ég sötra teið og japla á rúgbrauðinu með skólaostinum? Ég fékk létt fráhvarfeinkenni; greip í Sunnudagsmoggann og var farin að lesa þar ýmislegt sem mér myndi aldrei til hugar koma að lesa við venjulegar kringumstæður. Þegar ég var búinn að fara aftur yfir það sem ég les alltaf eins og Reykjavíkurbréfið þá fór ég að lesa um íslenska konu sem farið hafði til S-Afríku, New York og Ítalíu og var í sambandi með ítölskum metsöluhöfundi, manni sem hún vissi ekki að var frægur þegar hún kynntist honum. Þegar ég var að hengja utan á mig vetrarklæðnaðinn fór ég að velta því fyrir mér af hverju Morgunblaðið hefði ekki komið um sexleitið. Erlendur G. Eysteinsson og hans ágæta kona Helga Búadóttir hafa staðið sig einstaklega vel að koma blaðinu til áskifenda undangengin ár. Hvað hafði tafið för þeirra? Reyndar varð Erlendur áttræður í gær og gæti hugsanlega verið þreyttur í morgun eftir afmælisveisluna. Nei, Elli lætur ekki eina afmælisveislu slá sig út af laginu enda kom það á daginn því vita kolófært var á vegum milli höfuðborgar og landsbyggðar í gær og nótt og það var að sjálfsögðu skýringin. Það að Morgunblaðið hafi ekki komist til skila er einfaldlega sönnun þess að veðrið hafi verið afspyrnu slæmt.


Pósturinn hún Anna Aspar kom með póstinn eins og hún gerir daglega og rann á harmonikkutónana

Jónas Skaftason kom norður um daginn en stoppaði stutt. Hann sagði mér að hann ætti áheyrnartíma í Innanríkisráðuneytinu í þessari viku. Það var asi á Jónasi svo lítið annað fór á milli okkar annað en komdu sæll, gleðilegt ár og vertu blessaður.  Þetta er í sjálfu sér alveg nóg og allt sem segja þarf í mannlegum samskiptum; sæll, gleðilegt og blessaður. Margir hafa sagt meira en uppskorið misskilning og tóm vandræði. Semsagt, Jónas kom og Jónas fór og kisan hans Bella var hamingjusöm í tvo daga.

Fallerí, fallera hljómaði úr Súkkunni hans Rúnars á stilltum og björtum miðvikudegi. Þessir töfrandi harmonikkutónar úr smiðju Gylfa Ægissonar náðu eyrum Önnu Aspar póstmanns og áður en Rúnar vissi af var hann farinn að dansa við póstinn Önnu. Þetta var gleðistund í Aðalgötunni; að sjá tvo dansandi útburði báða af Tröllatunguætt, er einstök upplifun, jafnast á við norðurljósinn. Að dansi loknum skiptust þau á útburði. Anna fékk Gluggann og Rúnar fékk póstinn sinn sem hann reyndar gleymdi hjá mér en sótti rétt í þessu.


Pósturinn Anna og Gluggaútburðurinn Rúnar bæði af Tröllatunguætt hringsnerust af gleði í einum allsherjar fallerítakti

Glugginn er kominn og þar má finna auglýsingu frá kvenfélaginu um þorrablótið þann 21. jan. Mig langar að segja "mér hlakkar" svo til því mér rímar svo vel við  harðfisk og smér, en ég geri það ekki en eftirvæntingin er mikil já mjög mikil.

Svæðafélög Vg (vinstri græn) í Húnaþingi og Skagafirði auglýsa fund með Jóni Bjarnasyni og Guðfríði Lilju á mánudaginn. Ég vona að það sé bara tilviljun en Heilbrigðisstofunin auglýsir að bæklunarlæknir verði á staðnum daginn eftir.

Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir eftir Önnu Árnadóttur sem þurfti fyrir skömmu að þola það að vera kennd vísa sem birtist í Feyki fyrir jól en er eftir mig, Jón nokkurn Sig. Önnu var skiljanlega brugðið en vonandi er hún búin að jafna sig á þessum mistökum Feykis en hún átti alla mína samúð þegar þessi misskilningur var í hæstum hæðum.

En nú er komið að því sem alltaf þarf að gera en það er að koma auga á hið flókna samhengi sem fylgir öllum sköpuðum hlutum.

 

Á óveðursdögum er legið í sögum,

ekkert er annað gera.

Því í þessum sögum á óveðursdögum

er ýmsilegt um að vera.

04.01.2012 15:00

"Jæja"

Gott tel ég vera að byrja þennan pistil á því að óska öllum sem hér líta við, gleðilegs árs með von um að þetta ár verði okkur öllum bærilegt.

Á tímamótum  sest maður niður með sjálfum sér,  horfir inná við og hlífir sér við áleitnustu spurningunum en gefur sér lausan tauminn í málum sem litlu sem engu skipta í veraldlegu tilliti. Niðurstaðan verður fegruð ímynd  því hver er sjálfum sér næstur. Í þessu sem öðru þarf samt að gæta hófs því óþarfi er að vera eins og skagfirskur búhöldur sem ekki getur verið úti við í rigningu.

Jæja ! sagði maðurinn þegar hann horfði fram á veginn og hið sama sagði hann þegar hann leit um öxl. Þetta orð "jæja" hefur margar merkingar. Það hefur leyst ýmis mál, hreyft við öðrum og saltað sum. Ég man eftir því að eldri maður í sjónvarpsleikriti fyrir margt löngu var ásakaður um að rífa kjaft af konu sinni bara fyrir það eitt að segja "jæja". "Jæja, það er líkast til kominn tími að litast um í nærumhverfinu (þoli ekki þetta orð) og athuga hvort þar sé eitthvað bitastætt.

Frá síðasta pistli hefur það helst gerst að haldið var eitt áramótaball við misjafna hrifningu eins og gengur. Einnig var ekki haldið jólaball fyrir börnin í sveitarfélaginu. Eftir svona fréttir af skemmtanalífi bæjarbúa er nærtækast að grípa til hins umfangsmikla orðs "jæja!"


Vesturbakki Blöndu síðasta kvöld ársins 2011

Friður og kyrrð ríkir á Vesturbakkanum og var til þess tekið hve lítið var skotið þar upp af flugeldum um áramótin. Þetta var öðruvísi þegar Óskar Húnfjörð hélt utan um sprengiefnið þá komu oft upp í hugann þessar ljóðlínur eftir Friðrik Hansen "Logar heimur loga fagur". En annars þá voru áramótin okkur sem byggjum þetta samfélag við jökulánna Blöndu bara ljúf og ánægjuleg.

Talandi áfram um Vesturbakkann, þá yrði það svolítið stílbrot að minnast ekki á Jónas Skaftason vertinn á Ljóninu. Skemmst er frá því að segja að af honum er ekkert að frétta og ekki heldur, læðunni hans henni Bellu. Það eina sem við vitum að hann hyggur á heimkomu með farfuglunum í vor og þá aðallega grágæsunum. Hugsanlega hefur hann með sér í för Ömma frænda (Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, frændi Jóhannesar á Torfalæk) til að berja á bæjarapparatinu, sýslumanni og lögreglunni en þetta á allt saman eftir að skýrast með hækkandi sól.

Rúnar er mættur  og klukkan farin að ganga þrjú á á þessum bjarta en frostkalda fyrsta miðvikudegi ársins. Rúnar leit vel út og ég heyrði Strákabandið rjúfa kyrrðina í Aðalgötunni með hinum eldfjöruga polka  "vertu sæt við mig". Ég lýg því ekki að þessir hljómar kölluðu fram minningar um þorrablót liðinna ára. Þetta er svona lag sem tilheyrir alþýðutónlist sem sunginn er af öldnum sem ungum á  þjóðlegum hátíðum. Ég er strax farinn að hlakka til þorrablótsins 21. janúar.

En mikið skelfingar ósköp er Glugginn þunnur í dag en allt sem í honum stendur eru nauðsynleg skilaboð út í samfélagið. Við tókum eftir auglýsingu sem ekki var í Glugganum en það er þrettándabrennan. Hvað hefur orðið af henni. Skilaboðin frá leikfélaginu eru skýr: komið til okkar því ykkar er þörf og ritnefnd Húnavöku óskar eftir efni í næsta Húnavökurit.

Vísa vikunnar er á sínum stað og endar á þennan veg. "Drukkið gall af stjórnarstút,/Steingrímur henti Jóni út." Vísan  er að sjálfsögðu eftir Skagastrandarskáldið Rúnar Kristjánsson.


Sigurður Ingþórsson að gefa hrossunum hans Guðmundar Eyþórssonar eftir hádegi í dag

Mál er að linni í þessum fyrsta pistli ársins og tími til kominn að koma auga á samhengi hlutanna:

Við sögu vildum  segja létta,

sem fjalla átti um hitt og þetta.

Svo er vert að geta þess

áður en við segjum bless,

af vertinum Jónasi  er ekkert að frétta.

 

 



  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 632
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 63874
Samtals gestir: 11323
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 11:17:40