Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2008 Ágúst

28.08.2008 10:59

Gert upp við annað sætið

    Það er engum blöðum um það að fletta, að hampa silfurverðlaunum er mikið afrek. Þetta fengum við að sjá þegar að handboltalandsliðið kom til landsins eftir frækna ferð til Kína. Fagnaðarlátunum ætlaði seint að linna og þjóðarstoltið kraumaði í æðarkerfi þjóðarinnar. Annað sætið er mikils virði, á því hefur fengist staðfesting. 
    Ástæða þess að ég leiði að þessu hugann er sú að ég hef staðið í þessum sporum í tvígang. Í fyrsta sinn sem mér hlotnaðist annað sætið var ég himinsæll en ári seinna þegar það urðu ölög mín í annað sinn að lenda í öðru sæti þá var ég ekki eins kátur. Það var ekki fyrr en fögnuður þjóðarinnar yfir öðru sætinu var mikill að ég sættist við það að lenda tvisvar í öðru sæti. Þetta annað sæti sem mér hlotnaðist í tvígang er annað sætið í dægurlagakeppni kvenfélags Sauðárkróks. Reyndar hef ég verið í fyrsta sæti í þessari keppni en þá sem textahöfundur í lagi Þórðar Hauks Ásgeirssonar en það er samkvæmt skilgreiningu Guðna Ágústssonar, hópur. 
    
Ekki minnist ég þess að þegar ég kom heim með silfurverðlaunin sem unnin voru í alþjóðlegri keppni á grund utan minnar heimasveitar að blásið væri í herlúðra og fánar dregnir að húni. Raunar fór ég ekki að hugsa um þetta fyrr heldur en ég sá fólk fjölmenna og fagna á Arnarhóli í gær. Það hefði kannski verið rétt að bæjarstjórn hefði skipulagt móttökur og afhent blóm þegar ég kom heim með silfurverðlaunin af Króknum . Vissulega hafði ég borið hróður míns ágæta bæjar víða og lög mín spiluð endum og eins í Kántrýútvarpinu, menningarútvarpinu við Flóann (oftast eftir að ég hafði hringt inn og sagt að mamma væri heimsókn og langaði að heyra lagið hans Nonna síns í útvarpinu).
    
En niðurstaðan í þessari vangaveltu er einfaldlega sú að annað sætið er frábært. Um það er ég sannfærður núna og neita ég því ekki að fagnaðarlætin hér heima hefðu mátt vera örlítið meiri á sínum tíma en þetta var víst lenskan í þá daga og ekkert við því að segja. Núna eru tímarnir breyttir og er það vel. Til hamingju Ísland.

27.08.2008 14:08

Kominn aftur með harðsperrur í afturfótum

    Þá er aftur kominn sá tími að Glugginn er farinn að berast alþýðunni einu sinni í viku. Reyndar er Glugginn búinn að koma einu sinni út eftir sumarfrí en þá vildi bara þannig til að ég var í kærkomnu sumarfríi. 
    Þetta er svolítið spennandi að byrja að nýju að kíkja inní sýslusálina með aðstoð Rúnars. Hvað skyldi Glugginn í dag bera með sér? Hvernig skyldi Rúnar koma undan sumarfríi? Kannski er hann uppfullur af hugmyndum sem hann þarf að koma á framfæri. Kannski er hann galtómur og fjarrænn með gersamlega nýja sýn á veröldina. Hvað veit ég því ég hef varla svo heitið getur hitt hann í þó nokkurn tíma. 
    Hvað mig varðar þá er ég nokkuð líkur sjálfum mér þó svo ég hafi fengið andstyggilega strengi í aftanverða lærvöðva eftir kartöfluupptöku um helgina. Talandi um lærvöðva þá heyrði ég ansans hreint frábæra íþróttalýsingu frá Sigurbirni nokkrum frá Ólympíuleikunum en þar sagði hann eitthvað á þá leið að spretthlaupari hafi verið dæmdur úr leik því hann hefði komið of snemma með afturfæturna yfir einhverja línu. Sem sagt ég hef verið með harðsperrur í afturfótunum.

    Birtist ekki hann Rúnar í dyrunum með Gluggan í hendi. Reyndar hvarf hann jafnharðan á brott en lofaði að koma fljótt aftur og hér er hann kominn í annað sinn.

    Hvað segir nú Glugginn í dag? Menningarfulltrúinn ætlar að tala við okkur á þriðjudaginn en þá er ég bara kominn til Reykjavíkur. Kannski ég sendi Rúnar og láti hann kanna hvort þessi skrif okkar hafi eitthvað menningarlegt gildi.

    Domus gengið er með eignir til sölu þannig að eitthvað líf er á fasteignamarkaðnum.

    Björn á Hólabaki situr uppi með gradda eins og venjulega og mikið er auglýst eftir starfsfólki. Íslandspóstur, Potturinn og pannan sem og Stígandi vantar fólk til starfa.

    Framsóknarmenn ætla að halda héraðshátíð þar sem aðgangseyrir er misjafn allt eftir því hversu mikið af framsóknarmennsku menn ætla að innbyrða. Framsóknarmaður sem áhuga hefur á upptöku evrunar þarf að borga fullt gjald en stílhreinn dreifbýlis framsóknarmaður með göngulag Guðna kemst inn á hátíð á hálfvirði. Að minnsta kosti látum við Rúnar þetta um hug okkar fara en það getur vel verið að gjaldskráin sé eitthvað öðruvísi uppbyggð. Já og maður þarf að drífa sig í klippingu því Bryndís er að fara í frí.

    Rúnar sagði mér þegar hann kom með Gluggann í síðustu viku þá hafi hann komið að tómum kofanum og verið sagt að ég væri horfinn í frí suður á land. Eðlilega fannst Rúnari þetta mikið ábyrgðaleysi af mér að vera ekki viðstaddur þegar fyrsti Gluggi eftir sumarfrí kæmi út.

Honum varð að orði og var mikið niðri fyrir:

Jón er farinn þessi fjandi,
ferlegt er hans lag
Sigurðsson á Suðurlandi,
sefur vært í dag.

Það er nefnilega það.

14.08.2008 15:13

Ég fer í fríið

    Þá er komið að því. Nú skal haldið af stað í frí og Suðurlandið hefur orðið fyrir valinu. Sem sagt það verður lítið að frétta af mér og mínum í Húnaþingi fyrr en undir helgina 23. - 24. ágúst. Að minnsta kosti er það meiningin en eins og einhver sagði engin veit sína ævina o.s. frv. Það er samt aldrei að vita hvort afmér berist fréttir norður yfir heiðar ef einhver aðgangur er að internetinu á Vaðnesslóðum.  

08.08.2008 13:24

50.000 gesta múrinn er fallinn og vatnið farið

    Ég þakka fyrir allar heimsóknir í gegnum tíðina. Nú þegar Ólympíuleikarnir voru settir í Kína þá féll 50.000 gesta múrinn með glans. 
    Varðandi gáturnar sém ég lagði fyrir gesti fyrir skömmu þá eru öll svörin komin fram og það meira að segja rétt. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem glímdu við gáturnar og sérstaklega vil ég þakka Valda fyrir að benda mér hlýlega á að mér fer betur að mynda en skrifa. Þessi athugasemd varð þess valdandi að þetta varð til:
Ég skil fyrr en skellur í tönnum,
er skila menn kveðjum í hrönnum.
Hættu að skrifa!
Láttu myndirnar lifa
og láttu sem maður með mönnum

    
    
    Svo læt ég hér fylgja með mynd af þeim Bjarna Páls gröfumanni og Andrési Leifs Brandmaster þar sem þeir reyna að virkja kaldavatnið sem að öllu jöfnu á að skila sér til íbúa fyrir innan á. Einhver sem ég veit ekki hver er heyrði Andrés segja við Bjarna inni á lóð Héraðshælisins. " Vatnið er farið Bjarni"

06.08.2008 10:39

Valdalaus með 50.000 gesti

    Nú hefur sá dagur runnið upp að ég varð valdalaus maður, maður án mannaforráða. Þessi örlagaríki dagur var 4. ágúst en þá varð yngsta barnið mitt hún Ásta Berglind fullveðja, sjálfráða og þarf ekki að spyrja pabba sinn um eitt eða neitt. Núna ræð ég engu lengur en ég rétt ræð því ef ég bý ekki um rúmið að minnsta kosti þrisvar í viku. Reyndar þegar ég renndi augunum yfir Morgunblaðið mitt í morgun þá hresstist ég ögn þegar ég las stjörnuspána mína en þar stóð "Venus hefur blessað þig með góðum smekk. Ef þú passar þig ekki, getur fólk flokkað þig sem snobbara! Næmi þitt fyrir fagurfræði laðar að ást, vini, peninga og völd." Er þetta ekki " akkúrat" það sem allir vilja : ást vini, peninga og völd. Það er gott að sækja sér slíka næringu í Moggann. Þegar mest á reynir þá finnur maður þessa líka frábæru huggun í blaðinu sínu sem bjargað getur fyrir manni deginum.

    Mig langar á þessum meinausa Gluggalausa miðvikudegi og leggja fyrir þá sem þessa síðu heimsækja þrjár myndagátur. Verðlaunin eru ekki af verri endanum því sá sem getur svarað þessum þremur gátum getur átt von á því að geta haldið áfram að heimsækja þessa síðu ef Guð lofar og svo er einnig í boði gönguferð fyrir fjóra vítt og breitt um bæinn með hvíldaraðstöðu úti í Hrútey.

    Fyrsta gátan er einföld í sjálfu sér og er svona. Hvað heitir þessi bær sem myndin er af?


    Önnur gátan er ekki síður einföld: Hvað heitir þessi maður sem ríður þessum örvélfáki um Húnabrautina?



    Þriðja og síðasta gátan gæti verið snúin og mjög líklegt að margir muni flaska á henni en spurt er. Hvað heitir maðurinn sem er að ræða við Kristján málara í blíðunni fyrir innan á, fyrir verslunnarmannahelgi?
 

    Nú fer að líða að því að 50.000. gesturinn komi í heimsókn á síðuna mína. Ef ég satt skal segja þá hefur það komið mér töluvert á óvart hvað margir leggja leið sína inn á síðuna daglega. Í raun eru þessi skrif mín svolítil sálarhjálp mér sjálfum til handa. Ég hef oft gripið til þess ráðs þegar aðstæður í lífinu hafa verið nokkuð snúnar, að skrifa mig eins langt frá þeim og kostur er og er ég ekki í nokkrum vafa að það hefur hjálpað. 
    Eins og fyrr greinir þá kom það mér þægilega á óvart hve margir koma í heimsókn og orðið mér töluverð hvatning að senda endrum og eins eitthvað nýtt inn á síðuna. Þegar talað er um gest þá er átt við IP tölu tölvunar sem er einskonar kennitala hennar. Það koma sem sagt um 90 tölvur í heimsókn að meðaltali hvern einasta dag ársins. Þegar ég fór að gera mér grein fyrir þessu rann upp fyrir mér að mikil ábyrgð fylgir þeim orðum sem send eru út í loftið og öllum aðgengileg. Ég vona að ég hafi ekki valdið neinum teljandi óþægindum með skrifum mínum. Það var að minnsta kosti ekki meiningin nema þá í örfáum undantekningartilfellum sem ég er svo gersamlega búinn að gleyma og mun ekki erfa við sjálfan mig.

    Ég hef ennfremur sett þá kvöð á mig að reyna að bögla saman vísu í vikulegu pistlunum og skemmir ekki að fá Rúnar með í lið við þá yðju því hann hefur af því töluvert gaman.

Ég skrifa það eins og ég segi,
á meinlausum miðvikudegi.
Það er liður í því að lifa,
að láta sig dreyma og skrifa.

Svo mörg voru þau orð.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 164
Gestir í dag: 62
Flettingar í gær: 719
Gestir í gær: 392
Samtals flettingar: 65978
Samtals gestir: 12118
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 06:19:15