Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2007 Mars

29.03.2007 14:28

Höskuldur og 7,5 metrarnir

    "Skrifað var undir viljayfirlýsingu í gær á milli sveitarfélagsins Skagafjarðar, Lilju Pálmadóttur, Hofi á Höfðaströnd, og Steinunnar Jónsdóttur, Bæ á Höfðaströnd, um að þær Lilja og Steinunn færi íbúum Hofsóss og nágrennis 25 metra sundlaug að gjöf með tilheyrandi aðstöðu." Þetta las ég á Mbl.is núna áðan en Mbl hafði þetta úr Feyki.
    Alltaf leggst þeim eitthvað til í Skagafirði hugsaði ég öfundarlaust. Mikið væri það nú gott ef einhver svona sæmilega efnaður, þyrfti ekki að vera ríkur, gæfi okkur bæjarrbúum  svona eins og 7,5 metra langa sundlaug. Það er jú sú lengd sem vantar uppá að bæjarfélagið geti fært okkur 25 metra laug. Ég hefði verið kátur ef þessar ágætu konur hefðu gefið Hofsósbúum 17,5 metra laug og okkur 7,5 metra sundlaug en það er víst ekki boði.
    Reyndar kom Höskuldur köttur í heimsókn til okkar hjóna  í gær og nefndi sundlaugina ekki einu sinni á nafn. Allt hans látbragð var með þeim hætti að honum þætti örlítið vænt um okkur. Það gæti hugsast að hann hafi verið að þakka fyrir Möllu mús eða aðgengileg hreiðurstæði í garðnum okkar. Höskuldi var fylgt til dyra og sýnd fyllsta kurteisi þrátt fyrir að hann hafi komið óboðinn og það inn um svefnherbergisgluggann. Mikið déskoti öfunda ég Höskuld. Hann þarf ekki að velta fyrir sér misvitrum umræðum um nýtingu auðlinda eða lengd sundlaugar á Blönduósi. Hann fer bara sínar leiðir í náttúrunni óháður því hvaða skoðun menn hafa á því með hvað hætti fuglar og mýs deyja. Svona er þetta bara. 

27.03.2007 17:50

Mikki refur og Gústi Guðsmaður

    Andri Snær Magnason er maður og skáld sem hefur sannfæringu og er á allan hátt hið besta skinn. Hann hefur lyft náttúruumræðunni, já bara umræðunni um það að allir í fermingarveislunni ættu að vera vinir ( prufið að tengja þetta við ræfilstuskuna hann Mikka ref). Ég hef  miklar mætur á þeim sem bera hag þeirra sem minna mega sín án þess að þiggja fyrir það sérstök  laun eða vegtyllur. Svona í fljótu bragði kemur upp í hugann Gústi Guðsmaður.  Andri Snær kennir ríkisstjórninni um að ágreiningur um stóriðju geti verið friðspillir í þessum fyrrgreindu veislum  og líklega getur þessi "andfélagslega" sýn ríkistjórnarinnar spillt mun fleiri veislum en marga grunar. Framtíðarsýn famtíðarlandkönnuðarins er í stuttu máli sú að við sem teljum okkur upplýsta og  jafnvel illa upplýsta getum fetað sömu slóðina í átt til "betra" lífs einfaldlega með því að hafa sömu skoðun og hann hvernig nýta eigi auðlindir landsins. Þegar maður veltir vöngum yfir framkomu hinnar "hræðilegu" ríkisstjórnar í garð sinna þegna kemst maður ekki hjá því að leiða hugann að því hvort  þetta sé allt henni að kenna? Heyrt hef ég um aðra friðspilla í samkvæmum sem gert hafa  menn ósátta.Nægir að nefna gjörðir forsetans, framkomu spaugstofunar, stöðu aldraðra og öryrkja, framvirka kaupréttarsamninga, launamun kynjana, notkun nagladekkja, útrýmingu sílamáva og síðast en ekki síst hve Davíð Oddsson er mikill örlagavaldur í lífi þjóðarinnar frá öllum hliðum séð. Mín niðurstaða í þessum bollaleggingum er sú hafandi séð kindagötur að betra sé að dreifa hjörðinni svolítið svo ekki myndist niðurgrafnir slóðar sem vindur og vatn getur breytt í hvað sem er allt eftir því hver á það lítur. Kindagötur geta verið til góðs þegar þarf að fara um torleiði en eins og stendur í kvæðinu góða. Ég vil fara minn veg, þú skalt fara þinn veg og svo hittumst við á miðri leið. Tökum upp léttara hjal í fermingaveislunum þegar blessuð börnin taka gylltar álumbúðirnar utan af góðum gjöfum.

27.03.2007 10:14

Þrösturinn mættur og við Höskuldur gleðjumst

    Það er ansi góður skriður á vorinu þessa stundina. Í morgun heyrði ég skógarþröstinn skvaldra í fyrsta sinn á þessu vori. Ég notaði ekki orðið syngja því það gerði hann ekki en von mín er sú að það gerist innan fárra daga. Það hefur verið nokkuð föst regla hjá þröstunum í minni götu að byrja ekki að syngja fyrr en 31. mars og hygg ég að þá séu þrestirnir orðnir nógu margir til þess hægt sé að fara að líta í kringum sig eftir maka. Söngur þrastarins er ein af fyrstu sinfoníum vorsins og alltaf hljómar hún vel í mínum eyrum þó svo sungið sé látlaust alla vornóttina. Þessi söngur er Höskuldi ketti líka afar kærkominn (ég held hann heiti Höskuldur). Höskuldur þessi hefur áður komið við sögu í pistlum frá mér og hef ég hann grunaðan um að hafa étið Möllu mús, því músina hef ég ekki lengi séð og áhugi Höskuldar fyrir baklóðinni hjá mér hefur snar minnkað . En nú eru bjartari tímar hjá Höskuldi og fleirum og vafalítið á ég eftir að fjalla um áhuga þessara litlu tígrisdýra á fuglum heimsins fyrst Malla er úr sögunni. 
    
    Á göngu minni eftir Blöndubökkum í morgun hitti ég mæta frú sem var ekki frá því að hún hafi heyrt í grágæs fyrr um morgunin þannig að nú geta Blönduósingar farið að bölva eða blessa gæsina. Eldri borgarar þessa bæjar hafa sumir hverjir kvartað yfir gæsaskítnum á Flúðabakkanum og hafa jafnvel talað um þegar verst lætur að það myndist hálkublettir og varasamt getur verið að ferðast um götuna nema á mannbroddum. En það er allt að gerast í vorinu nú sem stendur og vonandi á þetta bjartsýniskast ekki eftir að hefna sín mjög mikið.

26.03.2007 21:05

Henry Labonne, Skúli Thor og Kornsárhúsið

    Það er alltaf gaman af því að fá viðbrögð við því sem maður er að gera. Viðbrögðin þurfa ekki endilega að vera í halelújastíl en það skemmir ekki. Klapp á bakið, upplýsingar um mynd sem maður hefur tekið og birt, bara eitthvað sem gefur, bæði mér og þér. Ég fékk ansi skemmtilegan tölvupóst frá Skúla Thoroddsen um daginn þar sem hann segir mér frá því að ég sé ekki sá fyrsti sem tók mynd af gamla Kornsárhúsinu. Áður en lengra er haldið þá er rétt að geta þess að Skúli er "þekktastur" fyrir að hafa alist upp á Blönduósi, leikið á saxafón ef mig misminnir ekki og síðast en ekki síst fyrir að hafa ásamt sinni fjölskyldu unnið að endurbyggingu á gamla Kornsárhúsinu á þann glæsilega hátt að eftir er tekið. Mig langar og læt verða af því að birta hér hluta úr bréfi Skúla ef það gæti orðið uppspretta frekari sagna af þessu fallega og fornfræga húsi. 

    "Þú varst raunar ekki sá fyrsti til þess að mynda það [Kornsárhúsið] heldur náttúrufræðingurinn og læknirinn Henry Labonne sem gerði það árið 1886. Og til þess að sanna mitt mál þá sendi ég hér með afrit af henni. Frumkópían hangir uppi á einhverju safni í Frakklandi og undir henni standa orð Henry's (Ég veit þú ert góður í frönsku) "la plus belle maison du Islande"

    Ég verð að játa það að ég kann lítið sem ekkert í frönsku og finnst meira að segja franskar kartöflur ekki góðar. Sem sagt ég þarf að fá aðstoð til að þýða þessi frönsku orð en svona til að undirstrika það sem mér finnst og mörgum öðrum að Korsárhúsið sé með fallegustu húsum á landinu og hefur það fram yfir flest að vera staðsett á einhverjum fallegasta stað á landinu ætla ég að birta hér mynd Henry Labonne og mynd sem ég tók í sumar.

25.03.2007 22:29

Sullað í reynslubrunninum með Blíðfinni

Núna er ég nýkominn heim úr Reykjavíkinni eftir að hafa verið á námskeiði um helgina hjá Þorvaldi Þorsteinssyni (Blíðfinni) hvernig maður á að skrifa. Í stuttu máli þá er þessi náungi déskoti sjóaður í því að umturna öllu hefðbundnu í heilabúinu og gera mann uppvísan að því að það er hægt að gera allan fjandan á stuttum tíma ef kafað er í reynslubrunn hjartans. Það var svo gaman að fylgjast með því hvernig honum tókst að fá menn til að virkja misjafnlega steinrunninn hjörtu sín og þvera hausa. Hvernig ólíkir einstaklingar grófu upp góða hluti úr sálarfylgnsum sínum  á engri stundu og gerðu það áhugavert fyrir aðra. Ég er ekki frá því að ég hafi eitthvað lært í það minnsta það að geyma það ekki til morguns það sem þú getur gert í dag því tíminn sem maður hefur á maður að nýta og gefa öðrum að smakka úr sálarkistunni. Þorvaldur segir að með því geti maður smitað út frá sér og mestu ólíkindatól geti farið að gera eitthvað sem þau aldrei annars myndu gera þó að þau hafi allt til þess. Ég veit að þetta hljómar svolítið klikkað og ég get svo svarið að ég er allsgáður þegar ég rita þessar línur. Ég vil bara svona í lokin þakka fyrir þessa helgi því við hjónin komumust klakklaust fram og til baka, án þess að valda öðrum skaða. Hittum gott fólk án þess að tilgreina það sérstaklega og heim er kominn ríkari maður.

22.03.2007 18:33

Eldfjallagarður eða bara eitthvað annað

    Margt hefur verið rætt og ritað um náttúruna, landið og miðin og hvernig ætti að umgangast herlegheitin. Stofnaðar hafa verið hreyfingar, flokkar og Guð má vita hvað um það eitt að nýta ekki auðlindir landsins. Þvílíkum ljóma stafar af þessu öllu að margir hafa fengið ofbirtu í augun og sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Þessi umræða er að verða svo manísk og einsleit að hið hálfa væri nóg hin síðustu misseri. Þessi umræða líkist orðið trúarbrögðum af verstu tegund því annaðhvort er maður náttúruvænn eða náttúruníðingur, ekkert er þar á milli. Sem sagt annaðhvort fer maður til fjandans eða himna svo einfalt er það. Því kom mér í huga limmra eftir minn innri mann:

"Frá hægri og vinstri þeir vel hafa kannað
og víðtæka þjóðernistefnuna sannað.
Okkar auðlindaarður
er eldfjallagarður
og eitthvað sem kallað er allt, allt, allt annað.

21.03.2007 19:03

Samkeppnisdrápsfýsn

 

    "Mjólkuriðnaðurinn er líklega verndaðasta atvinnugrein á Íslandi. Hann hefur nánast enga erlenda samkeppni; hún er útilokuð með ofurtollum. Árum saman hefur landbúnaðarráðherra látið sem vind um eyru þjóta tilmæli samkeppnisyfirvalda um að samkeppnislöggjöfin nái yfir mjólkuriðnað eins og aðrar atvinnugreinar og að opinberri verðstýringu á mjólkurafurðum verði hætt." Þessi tilvitnun er höfð úr mínu ástsæla Morgunblaði sem núna horfir yfir Rauðavatn og sér loksins fegurð heimsins komin á öræfaslóðir fjarri skarkala nafla Reykjavíkur. Eina verndin sem mjólkuriðnaðurinn hefur fengið er sú að einokunaraðilar í einkageiranum sem hafa "velferð" viðskiptavinana að leiðarljósi hefur verið haldið frá því að sundra mjólkurframleiðendum í landinu. Ef svo "vel" tækist til að að sundra mjólurframleiðendum og þeir mundu skiptast í tvö samkeppnishorn þá hyrfi hið græna yfirbragð af landinu. Neytendur myndu í fyrstu fá ódýrari mjólkurvörur? Jafnvel innfluttar að hluta til að fullkomna samkeppnina og síðan algjörlega innfluttar. Þessar lífsnauðsynlegu vörur yrðu fluttar inn frá löndum þar sem réttindi verkafólks eru ekki í hávegum en réttlæti hins fátæka Íslendings sem svo rækilega hefur verið kynntur til sögunnar m.a. af Stefáni Ólafssyni og Þorvaldi Gylfasyni, yrði fullnægt. Eftir sæti hnípinn landsbyggð sem ekki gæti lengur framfleytt sér á öðru en selja jarðir sínar á dágóðu verði til þeirra sem sjá um innflutning á mjólkurafurðunum. Riddarar fákeppninnar gætu þá riðið út, kastað fyrir silung og fyllt hjarta sitt friði í friði fyrir einokuninni . Samkeppnin um hið gróna land þar sem óvægið ofureflið yrði ofaná, verðmæti hins kjarngóða grass norðurslóðanna, orkulinda hins skammvinna sumars yrði kastað á glæ í einni svipan að minnsta kosti til landbúnaðarframleiðslu. Það kæmi svo sem ekki á óvart að einhverjir þeirra sem fé hefðu lagt til þessara "þjóðþrifa mála" þar eð að segja , sundra samstöðu landbúnaðarins, myndu leggja í myndarlegan í sjóð til að fjármagna svo sem einn sýslumann, einn sóknarprest, og ef til vill einn oddvita í hverju héraði til þess að komandi kynslóðir gætu ferðast um landið sjáandi ljóstýru á einum og einum bæ hvar fram færi uppörvandi endurgerð hins gamla tíma. Stöndum vörð um auðlindir sveitanna sem er samstaðan gegn ógnarvaldi fákeppninnar á íslenskum matvælamarkaði. Virkjum auðlindir landsins hverju nafni sem þær nefnast

15.03.2007 13:25

Kringluklám?

Það sem hægt er að (mis)bjóða nútímamanninum þessa dagana. Inn um bréfalúguna hjá okkur hjónun barst í dag auglýsingabæklingur frá Kringlunni með þessari líka vafasömu forsíðu. Ég sá strax að hér var um alvarlegan kynjayfirgang að ræða. Þarna kemur karlinn úr hæstum hæðum, langt yfir konuna hafinn með með einn fótinn á undan sér. Fyrir neðan stendur konan varnarlaus og gleið en þó með ögrandi blik í auga. Ég spurði konuna mína til öryggis hvort hér væri höggvið  nærri hugmynd hins siðmenntaða manns um klám. Mín kona vildi nú ekki taka eins djúpt í árinni og ég, en sagði að með góðum vilja mætti sjá út úr þessu hvað sem er og færi það  töluvert eftir  hugarheimi þess sem ályktanirnar drægi.  Eftir þessar umræður okkar hjóna sem fram fóru meðal annars þegar að ég hjálpaði henni að taka óhreinu diskana af eldhúsborðinu sat ég upp með eigin hugsanir skömmu síðar í hægindastólnum með þægilegan niðinn úr vatnskrananum í eyrum, jafnframt hlustandi á veðurfregnirnar. " Fjandakornið ekki getur það verið að eitthvað sé að mínum huga í þessum málum því að mínu mati er ég nokkuð víðsýnn og algjörlega með það á hreinu að konur eru ákaflega mikilvægar persónur og verðar launa sinna". Núna velti ég því fyrir mér hvernig karlinn hafi komið niður og hvort annað hvort þeirra hafi hlotið nokkurn skaða af þessu öllu saman.

14.03.2007 17:59

Aðalgatan laus úr fjötrum

   Það er yndislegt hvað kurteisleg orð með málefnalegu ívafi fá áorkað. Hér fyrir neðan sjáið þið Molda kallinn úrbeinaðan, úr sér genginn , í einu orði sagt gjörnýttan fjarlægðan úr Aðalgötunni í dag. Moldi þessi var um nokkurt skeið í hagagöngu með Blesa sem líka er horfinn. Blesi greyið var tekinn frá Molda þegar fyrir lá að blessuð skepnan yrði úrbeinuð svo Blesi þyrfti ekki að horfa upp á eigið kyn bútað niður í  neytendavænar stærðir.

Blesi var settur í hagagöngu með Grána og þessar öndvegis blykkbykkjur eru núna allar horfnar úr  Aðalgötunni. Eftir standa eða eru á ferð um götuna eðalvagnar sem hvarvetna er sómi af. Þess ber einnig að geta að Rauður í Dýralæknishúsinu er farinn en eftir stendur einn hann Búkkarauður og er lítið vitað um hversu lengi hann muni staldra við.
Það má segja að þessu fylgi þó einn örlítill galli en það er að Jón Sigurðsson hundur hefur færri hluti til að míga utan í á leið sinni um götuna en viss er ég um að Nonni hundur og Stefán finna svar við þessu. Á myndinni má líka sjá að þeir félagar eru þegar farnir að líta til annara átta eftir lausn vandans. Eftir stendur að Aðalgatan er aðalgatan hrein og fögur

13.03.2007 20:56

Öræfakyrrð með hæfilegri mennskri blöndu

   Það var margt að gerast hér í sýslu um helgina og nægir þar að nefna heljarinnar hestamót á  Svínavatni og árshátíð hjá Grunnskólanum á Blönduósi. Hið merkilega gerðist að "Húnvetningar og Vestur- Húnvetningar" lögðu saman krafta sína og úr varð glæsilegt hestamannamót á ísilögðu Svínavatni. Þarna í krikanum við Stekkjardal var hin ákjósanlegasta aðstaða til sýningarhalds og var greinlegt að mikið var í lagt. Hestakostur góður og veðrið lék við hvern sinn fingur. Ég hef gaman af hestum og svona skepnum yfirleitt þannig að ferðin fram Svínvetningabraut á laugardaginn var ekki illa til fundin. Þar sem ég ók í mínum fjallabíl út úr Blönduósbæ með útvarpið stillt á Rás 1 hlustandi á fréttaskýringar um hverskyns vandamál nútímannsins fullur hluttekningar varð ég fyrir skyndilegri truflun um það bil 17 km frá Blönduósbæ. Birtist mér ekki hvæsandi grágæs við afleggjarann heim að Litla-Búrfelli. Ég var nokkuð viss um að gæsirnar væru ókomnar frá Skotlandi þannig að þess fugl hlaut að hafa verið í sýslunni í vetur eða nýkominn úr menguninni fyrir sunnan. Hvað um það, ég bauð fuglinn velkominn inn í veröld mína, tók af honum  og nokkrum grönóttum nautgripum nokkrar myndir og hélt svo áfram leið minni á vit hestanna. Komin yfir Sólheimaheiðina sé ég alla dýrðina, hesta, menn og bifreiðar. Þegar ég stíg út úr bifreið minni með myndavél um öxl mætir mér nokkuð sem ég hef aldrei heyrt í jafn ríkum mæli á þessum stað. Sem sagt tónlist í  hærri kantinum. Ég verð að viðurkenna að þetta kom mér pínulítið á óvart því ég hélt að þegar ég  kæmi í svona samkvæmi þá mundi mæta mér hófadynur  og brestir frá ísnum.  Þægilegt mal í mönnum um frammistöðu knapa og dómara. Í stuttu máli, öræfakyrrð með hæfilegri mennskri blöndu. Þessi tónlistarflutningur virtist ekkert trufla gæðingana og menn almennt, jafnvel " tjúna" allt upp í spennuþrungið andrúmsloft. Kannski á þetta að vera svona, jafvel gott því þá heyra menn ekki hver í öðrum og misjafnlega vel heppnaðar athugasemdir alþýðudómstólsins berast ekki milli manna. En ég saknaði svolítið að missa af þessum þætti. Þess ber þó að geta að hávaðinn var ekki meiri en svo elskulegar afgreiðslukonur heyrðu í mér þegar ég bað um pylsu og kók. Sýningin var glæsileg, ekki spurning en að lokum sneri ég heim með útvarpið áfram stillt á Rás 1. Aftur  rakst ég á gæsina og  og grönóttu nautgripina en að auki sá ég til Einars bónda í Grænuhlíð huga að fé sínu. Já við Elly Vilhjálms sungum saman á heimleiðinni á lágu nótunum gullfalleg lög um fegurð heimsins, hún á Rás 1 en ég undir stýri.   

09.03.2007 16:37

Bóta er til bóta, ekki spurning!

Eftir að hafa lesið þetta á síðunni hennar Bótu hef ég ákveðið að gera verulega yfirbót með ljúfu geði. "Kæri Jón. Mikið þakka eg falleg orð í minn garð. Það er alltaf gaman að sjá nafnið sitt á prenti því oftast er það á einhverjum rukkunarsneplum. Eins og þú veist Jón minn, þá var löngu orðið tímabært að flitja sig um set úr úthverfinu í sjálfa menninguna, og þó eg saknaði ykkar Möggu og Löggu. Þá sá eg fljótlega að útum gluggann minn sé eg þakið á húsinu ykkar Möggu og beint inn til Löggu, Hún er bara aðeins nær almættinu en eg. Nú þá er er það listaverkið. Eg er nú bara svo heppin að vera eitt af listaverkum þínum, því eins og allir vita átt þú ótal listaverk bæði í myndum máli og tónum. Já kæri Jón Þinn tími mun koma. Með ljúfri kveðju. Bóthildur. (Bóta) " Hvernig getur maður látið fara frá sér setningu eins og þessa. " Er Bóta til bóta?" eftir þennan lestur. Auðvitað gat ég sagt mér  það sjálfum að á því leikur engin vafi að Bóta er til bóta!

09.03.2007 15:23

Með hret í huga í 6 gráðu halla

Það er allveg með ólíkindum þegar maður segir eitthvað upphátt með vonarneista í brjósti þá kemur það í bakið á manni áður en maður veit af. Til dæmis álpaðist ég til að setja inn nokkrar myndir í gær og kallaði myndaflokkinn " Blönduós í vorhugleiðingum". Meira þurfti ekki til. Maður var varla búinn að ljúka verkum en vorhret birtist á glugga. Það er eins og konan sagði " það hefnir sín alltaf góða veðrið" Ég er ekki frá því að sú ágæta kona hafi eitthvað til síns máls. Hretin birtast í ýmsum myndum og væri að æra óstöðugan að tæma hretlistann. Til dæmis kom til mín maður í dag´, nánar tiltekið hann Viðar sem við hér búum köllum í daglegu tali "kjölfestufjárfestinn" og tjáði mér að strax eftir helgina muni Óli Hall eina alvöru fiskiskip Blönduósinga láta úr Blönduóshöfn fyrir fullt og fast og líklega muni útgerð endanlega leggjast af. Viðar sagði að Óli væri á leið til Ísafjarðar. Þessi athöfn er án nokkurns vafa hretkend í atvinnulegu tilliti. Ekki má þó gleyma í þessu sambandi framlagi þeirra Jóa Þórðar og Ívars Snorra til útgerðarmála á Blönduósi. En Óli Hall er samt stærri bátur en Dagbjört Inga og Jakinn til samans. Það er þó ljós í myrkrinu ef það er kveikt á því. Að minnsta kosti koma fram sú hugmynd á íbúaþingi í gærkvöldi að gera hér út þrjá línubáta, koma upp frystihúsi og halda ótrauðir áfram í útgerðarmálum. Það er ekki svo galið að taka sér ærlegan göngutúr á göngubrettinu frá Sjálfsbjörg, setja hraðann á 5 km á klst og stefna 6 gráður upp á við, hugsa sitt lítið af hverju og segja ekki nokkrum einasta manni frá því sem í hugan kemur.

06.03.2007 17:58

þú gengur aldrei einn

"Fundur var haldinn 21. febrúar í Brunavörnum A-Hún. og þ. 27. febrúar 2007 í Slökkviliði Skagastrandar þar sem slökkviliðsmönnum voru kynntar hugmyndir um sameiningu slökkviliðanna. Undirtektir á báðum stöðum voru á þá leið að menn vildu sjá nánari útfærslu áður en ákvörðun yrði tekin um sameiningu. Niðurstaða fundarins er að Ágúst Þór Bragason, muni stýra stefnumótunarvinnu um tilhögun á skipulagi slökkviliðanna miðað við að þau yrðu sameinuð." Þetta getið þið fundið allt saman inni á vefnum blonduos.is. Eftir stendur í mínum huga hver muni stýra umræðunni ef ekki verður af sameiningu. Einfaldast er líklegast að vera ekkert til að sameina þetta þá gætu menn dundað sér áfram hver í sínu horni, hver með sína slöngu. Það er "gæfa" okkar sem sýsluna byggja að vera sífellt að rogast um með allar heimsins birgðar á mörgum herðum. En það grátlega er að herðunum fækkar sem birgðarnar bera. Það er bara svo déskoti margt sem hægt væri að leggja út frá þessum orðum að manni verður orða vant. Mér sýnist vera kominn grundvöllur fyrir nýtt framboð manna sem er algjörlega orða vant í samfélagi hinna mörgu slangna. Einhver vitur maður sagði: "Hver hefur sinn djöful að draga" . Ætli þetta gildi ekki bara um slöngurnar líka og því óþarfi að vera nokkuð að tjá sig um það frekar. En eitt er ljóst að mínir menn í Liverpool verða að vera sameinaðir og samstilltir eigi þeir að eiga möguleika á því að vinna Börsunga á eftir. Þú gengur aldrei einn og síst með þunga brunaslöngu ef árangur á að nást. Áfram Liverpool, Áfram A-Húnavatnssýsla.  

05.03.2007 21:35

Guðmundur Haralds er úti

Guðmundur Haraldsson forstöðumaður íþróttahúss og Árbakkabróðir er úti í Austurríki á skíðum. Hann hefur miklar og djúpar skoðanir á lengd sundlaugar sem fyrirhugað er að ráðast í byggingu á. Í mínum huga er hann afar rökfastur, hreinlega fastur en hvað lend sundlaugar varðar finnst mér hann vera hálfkafari. Vandamálin eru ærin í litlu samfélagi og því er kallað til íbúaþings jafnvel þótt hrútshausinn á hótelinu sé ófundinn og Guðmundur ekki á landinu. Því varð þetta til:

Þótt sundlaugarlengdum hann stúti
og spyrst ei til höfuðs  af hrúti.
Þá eru yfirvöld slyng
setja' á íbúaþing,
þegar Guðmundur Haralds er úti.

04.03.2007 17:42

Miðdepillinn og naflaskoðunin

Sunnudagar eru kenndir við sólina þennan miðdepil sem allt í okkar sólkerfi snýst um. Að minnsta kosti segir Bubbi að jörðin snúist í kringum sólina. Hvernig tilfinning skyldi það vera að vera miðdepill sem allt snýst í kringum. Vafalítið er hún blendin nokkuð og veldur líklega hver á heldur. Sumir eru fæddir miðdeplar að eigin áliti, og eftilvill annara líka en öðrum er skipað að hringsnúast í kringum miðjuna í mismikilli fjarlægð. Ef við bara skoðum sólkerfið okkar þá er jörðin ekki midepill nema fyrir tunglið en að helstu vísindamanna sýn er eina lífið á jörðinni  að finna. Niðurstaða: Það þrífst ekkert líf í miðjunni, haltu þig í hæfilegri fjarlægð svo þú sjáir sólina. Kannski er þetta eins og skáldið sagði: reyndar man ég ekki hvaða skáld það var, Maður sér ekki skóginn fyrir trjám. Hafið þið ekið  t.d um Finnland þá fattið þið þetta. Eitt er víst í henni veröld fyrir utan það auðvitað að deyja og vera miðdepill útfararinnar að hver er sjálfum sér næstur. Ef menn höndla þann sannleik með nokkrum heiðarleika þá mun þeim farnast vel því í þessu felst einfaldlega það að allt sem sem þú villt að aðrir menn gjöri þér skalt þú og þeim hið sama gera. Þetta sem hér er að framan ritað er svona sjálfsprottin hugleiðing um eigin stöðu í lífinu og flokkast undir naflaskoðun. Naflinn er jú einhversstaðar mitt á milli jarðar og hæð hvers og eins,Tunglið það snýst um jöðina sem sagt miðdepill nema auðvitað að maður liggi útaf í hnipri. Það sem hér er ritað varpar á engan hátt ljósi á þann sem þessar línur ritar því hann hefur alltaf verið talinn miðdepil alls og að allt eigi að snúast í kringum hann, um það geta margir vottað þó svo ég sé langt í frá sammála þessari fullyrðingu. Þar sem ég á þessu augnabliki verð einn heima í kvöld munu örlög mín verða þau að snúast í kringum pottana. Ef við byggjum á tunglinu sem jörðin skyggði á í gærkvöldi sæjum við jörðina og gætum  hugsanlega fattað það hversu yndislegt er að búa á jörðinni þar sem mönnum kemur misjafnlega saman. 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 79
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 63993
Samtals gestir: 11351
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 06:43:45