Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

06.02.2008 15:03

Stjörnuspár og vinir Gluggans komir fram í dagsljósið

    Ég hef verið að velta fyrir mér gildi og gagnsemi stjörnuspáa fyrir sjálfan mig. Stjörnuspáin í Mogganum er það sem ég les alltaf áður en ég held út í lífið hvern einasta dag jafnvel þó tíminn sé knappur. Þetta gengur algjörlega fyrir, síðan les ég önnur atriði í blaðinu eftir því sem tími vinnst til. Þó svo að ég skrifi endrum og eins í Morgunblaðið og hef verið fréttaritari þess frá árinu 1985 veit ég ekki hver er stjörnuspámaður Moggans. Svona ykkur að segja þá gætu margir á þessu ágæta blaði komið til greina. En aftur að mikilvægi stjörnuspáa. 
    Vatnsberi: "Þín tegund bjartsýni er blind - það er betra en fullkomin sjón. Þannig sérðu meira en aðrir í aðstæðum. Gerðu ráð fyrir að allt muni ganga upp og það mun." Hver fer ekki glaður út í daginn með spá sem þessa í farteskinu. Reyndar fór ég í blóðprufu þennan dag en fékk engar niðurstöður vegna þess að vélin sem les úr blóðsýnunum bilaði. Einnig átti ég að fá nýtt lyf þennan sama dag en pósturinn komst ekki norður vegna ófærðar þannig að ekki kom lyfið. Reyndar áttaði ég mig á því að Mogginn var ekki kominn þegar ég fór í blóðprufuna því hann tafðist vegna ófærðar en hann var hinsvegar kominn þegar ég kom heim úr blóðprufunni. Þetta skýrir náttúrulega það sem hér er að framan ritað því ég fór ólesinn á stjörnuspánna út í daginn. Rétt er að taka það fram að læknir sá sem átti að lesa úr blóðsýninu og taka ákvarðanir um frekari aðgerðir um framgang heilsu minnar verður hættur störfum þegar niðurstöður blóðsýna liggja fyrir. Þessi litla saga undirstrikar svo ekki verður um villst að óráðlegt er að halda út í daginn án þess að lesa í stjörnurnar. 
    Nú er kannski full langt gengið í að draga ályktanir því dagurinn er rétt rúmlega hálfnaður og þar sem ég las stjörnuspánna aftur á mbl.is strax eftir hádegi þá gæti nú eitthvað ræst úr málum. Viti menn, ég var rétt búinn að skrifa þetta og lesa stjörnuspána yfir einu sinni enn þá hringir síminn. Lyfið var komið í apótekið. Varla var ég búinn að leggja tólið á þegar síminn hringdi aftur og var méð tjáð af til þess bærum lækni að blóðsýnavélin væri komin í lag og niðurstöður sýna lægju fyrir. Niðurstöðurnar voru eins og við var búist og hægt að taka ákvarðanir. Þetta sýnir bara að þó að maður missi af stjörnuspánni áður en maður fer út á morgnana er ekki fokið í öll skjól. En mín niðurstaða í þessu máli er sú að betri er góð stjörnuspá en slæm. Ég reikna með því að hið sama gildi um það að betra er að víkja góðu að náunganum en illu. Ennfremur ráðlegg ég fólki að lesa um stúlkuna sem stjörnurnar eltu vegna þess að þær höfðu hug á sleikibrjótsykri hennar en þá sögu er að finna á Húnahorninu. Stjörnur eru stórmerkilegar og gaman að spá í þær.

    Glugginn er kominn og á honum heldur betur bragabót og það í orðsins fyllstu merkingu. Fjórar eru vísur vikunnar skal ég segja ykkur og hefur slíkt ekki gerst síðan í maí árið 1986. Nú hefur heldur betur hlaupið á snærið hjá þeim Óla og Hédda. Við Rúnar vissum það að Glugginn ætti vini og þeir brugðust ekki þegar neyðin var mest. "Lítið bæði og lúið blað, löngum sama tuggan" eru orð sem lagt er af stað með en HÖS er eins og flestir menn, réttsýnn og jákvæður og sér að Glugginn þarf uppörvun í smæð sinni og umkomuleysi og bætir um betur. "Ljúft er þetta litla blað, lífgar vetrarskuggann". Hugsandi um vetrarskuggann rákum við Rúnar augun í að það á að fara að herða innheimtuna hjá Blönduósbæ og má búast við því að einhverjir verði hraktir út úr vetraskugganum eftir 20. febrúar. 
    
Merkilegt fannst okkur að sjá íbúð auglýsta til sölu án afskifta Domus gengisins. Svona uppákoma vekur alltaf forvitni og fórum við Rúnar að sjálfsögðu inn á ja.is og komust að því að verið var að selja ofan af skrásetjara, sem sagt hæðina fyrir ofan ríkið. Það verður að segjast eins og er að gegnum hugann fóru margar minningar tengdar Stefáni og Nonna hundi og þær langflestar mjög góðar. Það væri sjónarsviftir mikill ef þeir hyrfu úr götumyndinni, já úr bæjarmyndinni allri eða eins og skáldið sagði: Svo virðist að Stefán og Nonni hundur/ séu á förum./ Sár og sorgleg eru þau undur,/ saltbragð á vörum.

    Harðfiskur í bitum er nýjung í tekjuöflun hjá Hvöt og skemmtileg viðbót við lakkrísinn sem við Rúnar höldum að sé svolítið losandi. Ef okkur bregst ekki þekking á efnasamsetningu matvæla þá kemur harðfiskurinn til með að auka til muna prótín í Hvatarfæðinu. Reyndar er komin inn einhver aukaskýring á WC-pappírnum hjá þeim Kára og Vigni en það er 25 m á 2.000 kr og 35 m á 4.000 kr. Spurningin er þessi, ef þetta m stendur fyrir metra er þá hver rúlla 25 eða 35 metrar eða allur pakkinn? Þetta getur skift máli og engin hægðaleikur fyrir leikmenn eins og okkur Rúnar að átta sig á svona.

    Menn ætla að tölta þ.e.a.s. ætla að reyna að fá fákana til að tölta í Reiðhöllinni nk. föstudagskvöld og ekki að efa að keppni verður hörð og skemmtan góð. Okkur Rúnari finnst eðlilegt að menn gefi upp aldur og lit og allt það áður en keppni hefst en upp á hvað hönd verður riðið kom okkur eins og ódýrt frí á Spáni fyrir sjónir. Helvíti verður spennandi að sjá menn ríða upp á hægri höndina á Hirti hestamanni. Eflaust verður það sárt en Hjörtur ræður við það vegna þess að hann er handlaginn og hagorður.

    Við Rúnar urðum sammála um það að ljúka þessum pistli á þessari samantektarvísu um leið og við lýsum ánægju okkar með að vinir Gluggans eru komnir fram í dagsljósið:

Það er svo margt sem menn þurfa að vita
þá sól gyllir húnvetnska ströndina.
Þá er handhægt að fá sér einn harðfisksbita
og hraðtölta upp hægri höndina.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 80
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 75
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 64968
Samtals gestir: 11574
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 16:33:05