Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

16.04.2008 14:58

Persónueiningar í skortstöðu

    Ég heyrði orðið persónueining um daginn úr munni Sigurðar Friðjónssonar eins af forsvarsmönnum Mjólkursamsölunnar (MS). Þetta orð kom upp í tengslum við það að mengun frá mjólkursamlagi á Akureyri hefði verið eitthvað sem nam einhverjum ákveðnum persónueiningum. 
    Ég leit upp frá folaldasnitselinu sem ég var að borða af mikilli innlifun og hjá mér í sömu erindagjörðum sat hún Margrét mín. Ég sperrti eyrun þegar ég heyrði þetta orð og fór að velta vöngum yfir því hvað væri átt við með þessu orði. Mín niðurstaða var sú að persónueining væri sú stærð sem meðalmaður aðhefðist á meðalævi við meðalaðstæður. Hugsanlega má hafa tímabilið ár eða eitthvað meira eða minna. Þetta minnti mig á orðið árskýr sem kemur fyrir í skýrsluhaldi mjólkurframleiðenda og þýðir í stuttu máli, meðalfjöldi kúa sem lifir af eitt skýrsluár. Ég leit á Möggu og hugaði með mér. " Er nú svo komið að við hjónin séum einungis tvær persónueiningar sitjandi yfir málsverði á sunnudagskveldi í miðjum apríl árið 2008. Þegar snitselið var búið og ekki meira til rann upp fyrir mér að við eldhúsborðið á Árbraut 12 sætu núna tvær persónueiningar í skortstöðu. Reyndar var ég hæfilega saddur og allt það en kjötið var búið, skortur án þess að þörf væri fyrir meira. Græddi ég á þessari skortstöðu eða tapaði ég? Satt best að segja fannst mér ástandið orðið býsna alvarlegt. 
    Það eru ekki svo mörg ár síðan fimm einstaklingar sátu við þetta sama borð sáttir við lífið og tilveruna og alls óafvitandi um skortstöður lífsins. Ég er farinn að halda að lífið verði flóknara eftir því sem persónueiningum með lögheimili hjá mér fækkar. Þessa kvöldstund við eldhúsborðið vogaði ég mér að koma þessari upplifun tryggilega fyrir í vogunarsjóði sem ég hlýt að eiga í reynslubankanum. Ef hún tapast, þá það!

    Með sólskinsbros og sól í sinni stormaði Rúnar inn með 16 síðna Gluggann sinn. Það lá svo ljómandi vel á honum því hann var með einkatónleika á hótelinu hvar hann lék tónverkið "Hún er aðeins átján sumra", en nánar að því síðar.

        Það má með sanni segja að sumarið hafi haldið innreið sína á síður Gluggans því margar uppákomur eru auglýstar í tilefni af sumarkomu.

    Harmonikkufólkið ætlar að kveða burt snjó og vetur í orðsins fyllstu merkingu og fá Gísla Hólm Geirsson á Mosfelli til að stjórna herlegheitunum. Mikið assskoti erum við Rúnar vissir um að þar verði á kostum farið og riðið upp á hægri og vinstri hönd skáldagyðjunnar fyrirhafnarlítið.

    Sumarskemmtun verður í Húnaveri á sumardaginn fyrsta og um helgina verður " Söngur um sumarmál. " Þessi sönghátíð er árlegur viðburður og standa Björkin og Bólhlíðingakórinn fyrir þessari hátíð. Gestir þeirra að þessu sinni eru Lóuþrælarnir í Vestursýslunni og Landsvirkjunarkórinn. Síðast nefndi kórinn hlýtur að vera sá sem syngur virkjunaframkvæmdum lof. Við höfum heyrt nokkuð mikið í kór virkjunarandstæðinga sem haldið hefur tónleika við ýmsis tækifæri og má kalla þá tónleika " Söngur um ágreiningsmál".

    Eldri borgarar bjóða gestum að skoða handverk sem þau hafa unnið að í vetur. Ekki er að efa að þarna verða til sýnis frábært handbragð en þeim sem sem ætla að skoða þessa sýningu er ráðlagt að skoða fyrst og og fá sér síðan staðgóðar veitingar á eftir.

    Hvöt minnir á fjáröflun sína og kemur nú fram með nýjung sem er WC pappír. Það sem er svo sérstakt við hann er að hann er hágæða og jafnvel meira en það, hann er hágæða extra mjúkur og fást 2,1 kílómetrar á aðeins 4.000 kr. Allir vita af lakkrísnum og harðfisknum sem Hvöt hefur einnig til sölu.

    Fjárræktarfélag Sveinsstaðahrepps auglýsir aðalfund sinn sem er í sjálfu sér ekkert meira um að segja annað en það hvort ekki sé kominn tími til að stofna fjáræktarfélag þar sem ræktuð er fé sem bætir lausafjárstöðuna hjá þeim sem þurfa á því að halda. Ég hlakka til þegar ég sé auglýsingu sem hljómar einhvern veginn svona. " Lausafjáræktarfélag yfirdráttarglaðra persónueininga heldur aðalfund sinn og svo framvegis. Dagskrá: Óvenjuleg aðalfundarstörf. Allir sem eyða meira en þeir afla eru hjartanlega velkomnir þar til upp kemur skortstaða á húsrými. Óstjórnin.

    Reyndar var mig farið að lengja eftir Rúnari og sá að hann var að frílista sig inni á hóteli hjá Magga hótelstjóra spilandi á slaghörpu eina og nánast dró hann út úr vatnstjóni og yfir til mín. Fyrr um morguninn hafði svo illa tekist til að einn gesturinn gleymdi að skrúfa fyrir vatnið í sturtunni og kom mikið vatn niður á neðri hæð hótelsins. Þessi inngangur ætti að skýra efni eftirfarandi vísu.

Á Rúnar ég starði og sat út í glugga,
þá hann spilaði' á slaghörpu af mikilli natni.
Enn eitt var það atvik er varpaði skugga
að tónverk var flutt í hnédjúpu vatni.

Eftir tjónavísuna af hótelinu róuðum við hugann og létum hann reika um ómælisvíddir liðins vetrar og rifjuðum upp "skáldatímana" í vetur.

Við sitjum hér sáttir í rósemd og næði.
Spjöllum um hverfandi rysjóttan vetur.
um traustar rúllur með tvöföld gæði
Tvö þúsund metra og eitthundrað betur.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 28
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 107
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 65123
Samtals gestir: 11688
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 02:17:51