Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

30.04.2008 14:49

Forsetaveiki, sei,sei, sei, sei, já!

    Aldrei fór það svo að forseti vor hefði ekki haft einhver áhrif í heimsókn sinni í Skagafjörðinn. Skagfirðingar tala núna um forsetaveikina, því eftir að forsetinn hvarf til síns heima hafa margir skagfirðingar ekki á heilum sér tekið og lagst margir hverjir veikir. Hvers vegna svona fór er erfitt um að segja en sumir telja að sjaldan eða aldrei hafi jafn margir skagfirðingar komið saman ófullir, sem sagt ekki búnir að sótthreinsa sig. Aðrir segja að forsetinn hafi í sínum fjölmörgu ferðum um veröldina safnað saman öllum þeim veirum og bakteríum sem hann hafi komist yfir og sleppt þeim lausum í Skagafirði, koltrefjalaust því hann veit sem er að skagfiðingar kalla ekki allt ömmu sína. Reyndar er ég ekki frá því að ég hafi fengið snert af forsetaveikinni því ég hef verið raddljótur og afllítill að undanförnu þrátt fyrir að ég taki lýsi daglega. Líklega skýrist þetta af austanáttinni stífu sem lék um héraðið um daginn.

    Lyftum okkur upp á tábergið, göngum á táberginu og drögum djúpt andann og andið síðan rólega frá ykkur og hristið kálfana. Þetta gerði ég í gær undir handleiðslu Halldóru Björnsdóttir og gekk svo rösklega á Sjálfsbjargar (göngu)brettinu undir stjórn annarar Björnsdóttur þ.e. Ingu Mæju og er ég ekki frá því að forsetaveikinn hafi lekið af mér við þetta allt. Eins og flest ykkar vita er Sjálfsbjargarbrettið staðsett í kjallara Heilbrigðisstofnunarinnar sem ég kýs að kalla Héraðshælið. Þetta bretti hefur reynst mér vel og er ég ekki frá því að ég hafi gengið um 100 km á þessu bretti í vetur án þess að komast spönn frá rassi og oft hefur verið á brattann að sækja (5-7 gráðu halli). 
    Talandi um Héraðshælið þá hafa margir verið talandi um Héraðshælið nema gæsirnar sem bíta þar grasið og oftar en ekki hefur læknadeilan komið til tals. Nú skilst mér að þessi ágæta stofnun sé farin að líkjast Hálsaskógi eftir að samningar tókust við lækna en þó verði verkið ekki fullkomnað fyrr en yfirstjórn spítalans verði komin úr héraðinu sé rétt eftir Héðni lækni og formanni bæjarráðs haft í fjölmiðlum!?

    Stundum er maður of fljótur að dæma og taka ákvarðanir. Það getur verið gott að vera snar í snúningum og skjótur til ákvarðana en þá er líka mikilvægt að vita hvað maður er að gera því annars getur farið í verra eins og þeir finnsku bræður Júkka og Pekka fengu að kynnast: Þeir bræður voru einu sinni í ökuferð upp í sveit og óku eftir dæmigerðum mjóum sveitavegi. Pekka sat við stýrið. Svo komu þeir að krappri blindbeygju þegar annar bíll kemur skyndilega á móti þeim, öfugu meginn og átti Pekka fullt í fangi með að forðast árekstur. Stórvaxinn finnsk sveitarkona sat við stýrið í hinum bílnum og um leið og hún skaust framhjá, stakk hún höfðinu út um gluggann og kallaði: - SVÍÍÍÍN!
Pekka var einnig með opinn glugga, stakk hausnum út og öskraði með krepptan hnefa á lofti: BELJA!
Þegar þeir Pekka og Júkka komu út úr beygjunni óku þeir aftan á það stærsta svín sem þeir höfðu á ævi sinni séð!

    Þá er Glugginn okkar kominn í hús þennan hryssingslega lokadag aprílmánaðar og Rúnar með.

    Ansi er hann daufgerður Glugginn að þessu sinni. Rúnar var miklu hressilegri en Glugginn eftir að hafa hlýtt á hið sjálfspilandi píanó á Hótelinu í klukkutíma áður en hann kom til mín. Ekki má kenna harmonikkufólkinu eða Domus genginu um deyfð Gluggans . Hvatarliðið og flugnabaninn eru á sínum stað sem og vísa vikunnar þar sem Njáll Þórðar lætur í sér heyra. Seigur kall, Njalli.

    Rúnar kom reyndar með smá vísna innskot þegar hann kom inn úr kuldanum með harmonikkufréttir og fleira:

Núna úti er ósköp kalt,
ég um með Gluggann reika.
Á Harmonikku hátt og snjallt
heldur vildi leika.

    Það vantar mann (konur eru líka menn) í sundlaugina með Mumma Har og það get ég sagt ykkur sem hug hafið á að sækja um, að þó að Mummi sé eins og hann er þá slær í brjósti hans gullhjarta.

    Mér var hugsað til Hjalta flugnabana í fermingarmessunni á sunnudaginn. Meðal kirkjugesta var ein stór fiskifluga sem angraði nokkra kirkjugesti og þá sérstaklega séra Sveinbjörn. Það var stórbrotið þegar stóra flugan settist í hljóðri bæn á hvirfil prestsins og lét líða úr sér. Fermingabörnin sáu þetta líkt og ég og leyfðu þau sér að brosa örlítið um leið og séra Sveinbjörn beindi flugunni á "rétta" braut.

    "THÝZK STOFNUN "LETS´S GO " SEM ANNAST VISTANIR THÝSKRA UNLINGA Á ÍSLANDI, LEITAR AD LITLU EÍNBÝLISHÚSI Á SVAEDINU MILLI SAUDÁRKRÓKS OG HVAMMSTANGA MED A.M.K. THREM HERBERGIUM FYRIR FULLTRÚA SINN HID FYRSTA. BRUGGAR, RÍFLEGAR GREIDSLUR, I EVRUM EF ÓSKAD ER" Þessa auglýsingu er að finna á Húnahorninu nákvæmlega svona eins og ofan er ritað. Ég segi nú bara " lets?s go" Domus Maggi, Tak bruggbrúsa þinn og gakk til móts við ríflegar evrugreiðslur. Kannski ætti maður ekki að hleypa Domusgenginu í málið heldur leigja bara húsið sitt, loka vínbúðinni og taka upp evruna. Maður veit aldrei hvenær ríkinu verður lokað og evran upp tekin á Íslandi.

    Við Rúnar veltum vöngum lengi yfir því hvernig hægt væri að setja þetta allt saman í eina vísu og þetta er nú niðurstaðan.

Að setja brugg í bögu
er bras sem hér má sjá.
Og segir enga sögu
sei, sei, sei, sei, já.

    Og að lokum birtist hér ljóðið "Draumur hins einfalda manns" sem skýrir sig að mestu leyti sjálft. Ljóðið gæti  heitið eitthvað allt annað en svona er þetta bara:

Nú evruna Jón upp tekur
og arkar í bruggarans slóð.
Möggu og Löggu út rekur
Í augum er æðisleg glóð.

En draumurinn enda tekur
og órarnir hverfa á braut.
Engar konur út rekur,
útbrunnið ráðunaut.


 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 107
Gestir í dag: 73
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65095
Samtals gestir: 11664
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 23:14:16