Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

30.07.2008 10:43

Í leit að sólinni

    Þegar manni er sagt frá brakandi blíðu allt í kring, staddur í þokubrælu þá er það eðlilegasti hlutur í veröldinni að leita út úr þokunni í sólina. 
    Á mínum vinnustað kemur fjöldi fólks í ýmsum erindagjörðum og hefur frá mörgu að segja. Til dæmis kom til mín í gær þekktur skógarbóndi ættaður úr Svínavatnshreppi hinum forna. Til að gera málið einfaldara þá skulum við bara kalla hann Erling. Hafði þessi ágæti bóndi mörg orð um það hversu blíðan væri stórbrotinn í sínu nærumhverfi (tískuorð) og hafði með okkur sem Blönduósbæ byggjum, mikla samúð vegna þokunnar. Reyndar hafði hann ekki í frammi jafn sterk lýsingarorð við mig um veðrið en farinn frá mér heyrði ég hann lýsa veðrinu mun fjálglegar fyrir konu minni. Þessi veðurblíði skógarbóndi hafði slík áhrif á konu mína að við ákváðum að taka okkur klukkutíma sumarfrí og stefnan sett á Gunnfríðastaða skóg. 
    Magga klæddi sig strax í stuttbuxurnar því stutt var í sólina. Ég sagði si svona enda maður sem marga fjöruna hefur sopið í lífinu sama hvar á það er litið "Heldurðu ekki að þú ættir að vera í hlífðarbuxum svona til að byrja með". Min samþykkti það með smá semingi og lagt var af stað fram Svínvetningabraut til móts við sumarblíðu eins og hún best getur orðið. Ég hafði svona heldur hraðan á því ég vildi sem fyrst komast í sólina. Er við vorum á móts við Hnjúkahlíð og sáum til Hjartar í heyönnum hvarflaði ekki annað að okkur en stutt væri í sólina. Á hæðinni við Sauðanes sáum við grylla í Laxárvatn og tókum eftir því að Kristján flugumaður hafði lagt bíl sínum við veginn og var líklega við veiðar í Laxárvatni. Ekki sáum við sólina enn en vorum samt vongóð um að til hennar sæist þegar við kæmum að Köldukinnar afleggjaranum og í síðasta lagi þegar við kæmum í Kagaðarhólsbeygjuna framan við Grænuhlíð. Ekki gekk það eftir og var ákveðið að fara ekki í skóginn heldur halda áfram sem leið liggur fram hjá Tindum og Búrfellsbæjunum. 


    Þegar komið var upp á Sólheimahálsinn og litið yfir vatnið og bæina allt í kring sást bara ekki nokkur skapaður hlutur. Ég fór út úr bifreið minni vopnaður minni myndavél, staðráðin í því að taka mynd af Sólheimum, Svínavatni og hugsanlega mynd af Valdimar á Kúlu ef vera kynna að hann væri að smala heimalandið. Ég tók mynd en það sást bara hvítt rakaþrungið loft sama hvert litið var. 


    Efst á Sólheimahálsi var ákveðið að snúa við og fara Orrastaðahringinn. Hugsanlega væri sólin vestar því eins og flestir vita þá sest sólin í vestri og því rökrétt að elta hana enda degi tekið að halla. Þrátt fyrir þessa brakandi þoku blíðu þá var ýmislegt að sjá í vegkantinum.


    Á heimleiðinni rákumst við til dæmis á Raimund B Brockmeyer Urbschat bónda á Litla-Búrfelli við búfjáreftirlit. Við spurðum hann eftir sólinni og gaf hann greinargóð svör. "Hún var hér áðan" sagði hann og með þeim orðum héldum leið okkar áfram. Skömmu áður en við hittum Raimund bónda þá varð marg-reyfa ær á vegi okkar og má þakka það að hún varð ekki fyrir bifreið minni það að ekki var hægt að aka mjög greitt vegna þess hve skyggni var lítið. Skammt utan við Stóra- Búrfell fór um veginn vaskur hópur hestamanna á fákum sínum og svona mætti lengi upp telja. 
    Eins og fyrr greinir þá var Orrastaðahringurinn tekinn í heimleiðinni og er skemmst frá því að segja að eina sem við sáum á þeirri leið var vegurinn og erum við þakklát fyrir það. Þegar komið var niður undur Beinakeldu sofnaði frú Margrét og sá hún ekkert eftir það fyrr en hún vaknaði endurnærð á Blönduósi 20 mínútum síðar.

    Þessi ferð sem farin var í þeim tilgangi að leita að sólinni breyttist í ferð þar sem leitað var að því fjölmarga sem býr í þokunni og seint verður skógarbóndinn góðkunni sólkonungur í mínum huga líkt og Ólafur F. Magnússon borgarstjóri. Við hjónin erum búin að fyrirgefa skógarbónda og höfum áttað okkur á því að þokan getur farið víða.

Út í loftið nokkrum orðum sleppi
í von um sólarstund á ofnu teppi.
Þessi sólarvon brást
því eingöngu sást
einmuna þokan í Húnavatnshreppi.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 62
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 68637
Samtals gestir: 12467
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 07:19:11