Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

24.09.2008 15:10

Engin hopp og molakaffi selt á staðnum

    


    Byrjum á mynd af meistarflokki knattspyrnuliðs Hvatar sem endaði í fjórða sæti 2. deildar í knattspyrnu. Dágóður árangur það. Þeir stóðu sig vel og voru eins og skáldið sagði "Sprækir eins og lækir".

    Það hafa kannski einhverjir heyrt söguna af bóndanum sem réð til sín fjóra fílelfda karlmenn til að bera son bóndans í burðarstól um akurinn. Ástæðan var sú að sonur bóndans átti að reka krákur og annan fénað sem sóttist í kornið en gallinn var bara sá að stígvél drengsins voru svo stór að þau tróðu svo mikið niður kornið á akrinum og því var gripið til þessa ráðs. Ég veit það ekki en þessi saga kom upp í huga mér þegar verið var að ræða málefni lögreglunnar á dögunum. Maður fékk það einhvern veginn á tilfinninguna að það þyrfti tiltölulega marga yfirmenn til að stjórna hverjum lögreglumanni.

    Athugasemdir við myndir á síðuni eru vel þegnar því ég þekki ekki nærri alla sem ég tek myndir af.

    Ég er í félagsskap sem kallar sig Árbakkabræður. Árbakkabræður er bræðralag sem kemur saman hvern einasta föstudag nema á sumrin, eftir vinnu á veitingastaðnum Við árbakkann til þess að setja saman getraunaseðil í enska boltanum. Hópurinn er vel mannaður og er þar að finna hverja mannvistbrekkuna upp af annarri. Við höfum vit á öllu og höfum alltaf rétt fyrir okkur og ekkert er svo smátt í samfélaginu að það fái ekki tilhlýðilega umfjöllun. Þó svo styrkleiki hópsins sé mikið mannvit þá er það jafnframt hans veikasti hlekkur. Þar sem koma saman margir vitringar þá vill það oft æxlast svo að það verði vitsmunalegir árekstrar. Þessi eiginleiki endurspeglast kannski best í því að við erum afar sjaldan með mjög marga leiki á seðlinum rétta. Bara til að það komi fram þá er 16 raða seðillinn minn sem ég geri persónulega, oftast með fleiri rétta en 400 raða seðill Árbakkabræðra. Af þessu geta menn auðveldlega séð hver hefur mesta vitið í hópnum en enginn má við margnum.

    Ástæðan fyrir því að ég fór að ræða um Árbakkabræður er sú óumflýjanlega staðreynd að um áramót verður veitingarekstri hætt á Árbakkanum þannig að við félagarnir stöndum uppi heimilislausir. Félagsskapur sem kennir sig við Árbakkann á eðli samkvæmt að vera við árbakkann. Ég reikna með að við munum senda bæjarstjórn formlegt erindi ekki innan svo langs tíma um að komið verði fyrir í nágrenni Árbakkans, vistlegu getraunaskýli sem við gætum kallað Árbakkabræðraborg. Ég vona að erindinu verði vel tekið á réttum stöðum. Reyndar er til ein lausn í þessu máli en hún er sú að hópurinn færi að hittast við árbakkann fyrir innan á, nánar tiltekið á sveitakránni Ljóni norðursins eða Blöndubóli öðru nafni.

    Það er fleiri fyrirtæki en Árbakkinn sem hætta rekstri um áramót. Starfsemi Mjólkurstöðvarinnar verður hætt og hverfur þá starfsemi sem hefur verið mikil þungmiðja í atvinnusögu sýlunnar til 60 ára. Ég get ekki neitað því að dálítil sorg sest í sálina. Mjólkurstöðin hefur alltaf verið til staðar og sent til himins reyk sem oftast er hvítur en á einstökum dögum gat orðið kolsvartur. Þessi reykur hefur verið til merkis um það að innan dyra eru menn að störfum. Þetta fyrirtæki hefur verið vottur þess að við sem sýsluna byggjum erum til hvort fyrir annað. Þarna voru Blönduósingar að vinna úr afurðum bænda, þarna mættist þéttbýli og dreifbýli. Um áramót hættir að rjúka og menn ganga frá borði sumir eftir áratuga starf fyrir fyritækið og kannski vita menn ekki hvert för skal heitið. Það er söknuður í mínum huga.

    Í gættinni Rúnar stendur með hendur fullar af Glugga. Það er hlýtt í veðri, fuglarnir í ósnum eru kvikir og hugsa um það eitt að komast af.

    Hún er athyglisverð auglýsingin frá Ólafi á Sveisstöðum. " Er að fara af stað með tamningar haustsins, hef laus pláss" og bætir svo við " tökum einnig hross í þjálfun" Við Rúnar erum sammála því að þörf er á því að temja haustið svolítið a.m.k. hina vindasömu daga og alveg tilvalið hjá Óla að þjálfa hrossin í leiðinni. Gott framtak.

    Lionsmenn eru að leggja í hann með ljósperurnar sínar. Samkvæmt áræðanlegum heimildum þá hefur pakkinn lækkað umtalsvert. Sem dæmi þá kostaði 12 peru pakki í fyrra 17,4 evrur en í dag kostar sami pakki 10,7 evrur. Nú er bara að taka upp evruna og borga glaður fyrir perupakkann.

    Það verða enginn hopp hjá sjúkraþjálfurunum í vetur enda kostar bara hver tími 450 kr en eftir molasopa og gúlsopa af gosi geta menn hoppað og skoppað að vild með harmonikkuklúbbnum en það kostar reyndar 1.000 kr. Það er eins og karlinn sagði: "Það kostar minna að halda sig á jörðinni".

    Ekki getur hún Bebe minn kæri nágranni tilkynnt sveitarfélaginu að girðingin hennar sé í lagi en nokkuð er ég viss um að viðgerð ljúki innan tíðar. Þannig að Vegagerðin verður að bíða með úttekt á girðingunni á Árbraut 14 eitthvað lengur sbr auglýsing frá Vegagerðinni.

Ekki er kyn þó bændur á Sveinstöðum brosi
og brjóstgóðir þjálfar um stirnaða vöðvana losi
Ég líkamann strekki
og hoppa alls ekki
En hoppa með nikkunni birgur af kaffi og gosi.

    Þegar við vorum í djúpum þönkum birtist hjá okkur Elín, konan sem passar upp á handverk kvenna í Heimilisiðnaðarsafninu. Elín brosti allan hringinn þegar hún sá okkur og bar fram erindið sem var eins og svo oft áður tengt hennar þrotlausu baráttu fyrir starfsemi safnsins.

    Rúnar orti að bragði vísu og var eins og slokknaði ljós í augum Elínar. Rúnar, þetta góðmenni sá strax að vísan var ekki ættuð frá hjartanu þannig að hún lenti í ruslafötunni:

Geislandi af gleði
Gekk hún inn af götunni
Og ráðdeild því réði
Að Rúnar lenti í fötunni

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 238
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 35
Gestir í gær: 8
Samtals flettingar: 64650
Samtals gestir: 11477
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 17:59:36