Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

25.03.2009 15:05

Best væri bara að þegja

    Boðunardagur Maríu meyjar er í dag 25. mars. Þá tilkynnti Gabríel erkiengill að hún skyldi ala son Guðs, enda eru þá níu mánuðir fram að jólum en það er eitthvað hik á vorinu. Ég taldi það víst að það væri hægt að reiða sig á að vorið kæmi á morgun eða hinn því páskatungl kviknar á morgun í SV. En svona er þetta nú bara þó erfitt sé að kyngja því. Maður var alveg sáttur við það að síðasti tunglmánuður væri leiðinlegur einfaldlega vegna þess að þá kviknaði tungl í norðri. En hvað sem öðru líður þá eru álftirnar farnar að streyma í heimahagana frá Bretlandseyjum. Sá nokkra hópa í gær á leið minni til og frá Reykjavík. Fyrst var ég var við þær á Torfalækjartúninu. Síðan sá ég nokkra álftir á flugi yfir þjóðveginn við Hnausa og svo loks nokkrar við Gauksmýri.

    Skógarþrösturinn hefur nánast upp á dag byrjað að syngja fyrir okkur á Árbrautinni þann 31. mars en það varð á því töf í fyrra. Hinsvegar bætti hann það upp í ár því hann söng hástöfum í grenitrénu hjá Hauk Ásgeirs nágranna mínum í fyrradag . Grun hef ég um að þessi ágæti fugl muni hafa hægt um sig næstu daga og einbeita sér að því að halda á sér hita.

    Eins og stundum hefur komið fram hjá mér þá erum við að minnsta kosti tveir í götunni sem höfum áhuga á fuglum. Höskuldur köttur er ekki síðri í áhuga en ég og fer hann mun gætilegar yfir og horfir fuglana allt öðrum augum en ég. Ég verð töluvert var við Höskuld kött þessa dagana því nægilegt framboð er af auðnutittlingum og svo hefur rjúpan bæst í hópinn.

    Við Rúnar erum núna komnir á FACEBOOK og orðnir gildandi í samfélagi mannanna. Maður er búinn að eignast fjölda vina hina síðustu daga og veit nú orðið alveg hvað þeir eru að hugsa, hverjum þeir eru líkir sem og hversu ungir þeir eru í anda. Það er hægt að senda fólki blóm og kransa, páskaegg, já bara nefna það.

    Það eru flestir mjög jákvæðir á þessari bók sem mig langar að kalla "sálarspegil". Ég hef ekki enn rekist á neinn sem lemur konuna sína eða stundar einelti. Ef maður rækist á slíka færslu og ætlaði að blanda sér í umræðuna gæti maður óvart ýtt á "líkar þetta" og þá sæju allir vinar manns hjá sér " Jón Sigurðsson líkar þetta". Svo hef ég ekki rekist á neinn sem hefur stofnað hóp um að standa við bakið á nýrri reglugerð um það að sælgæti eigi ekki að vera í sjónhæð barna, a.m.k. hefur mér ekki verið boðið þann hóp. En engu að síður, með því að sína andlit sitt í sálarspeglinum þá grefur maður upp gamla vini sem maður lék sér við í æsku og það er svona þægileg "nostalgía".

    Það er annars með hreinum ólíkindum hvað hægt er að ganga langt í því að hafa vit fyrir öðrum. Nú ætlar hið opinbera að taka þann kross af foreldrum að þurfa að segja nei við við börnin sín þegar þau sjá sælgæti úti í búð með því að skylda verslunareigendur til að færa sælgæti úr augsýn barna. Hvað verður næst. Verður leikfangaverslunareigendum gert að mála búðarglugga sína svarta svo börnin sjái ekki leikföngin. Er foreldrum ekki treyst til að segja nei eða já við börnin sín. 
    Í sumum skólum er börnum bannað að ganga með leikfangabyssur og sverð á grímuböllum svo þau verði ekki ofbeldinu að bráð. Ég man eftir því í þá gömlu og góðu daga þegar maður, stubburinn kom heim úr Austurbæjarbíói með strætó nr 3 nýbúinn að sjá Roy Rogers afgreiða bófana á glæsilegan hátt sitjandi á Trigger, vopnaður tveimur skammbyssum líklega Colt. Vagninn iðaði af lífi og menn földu sig á bak við sætisbökinn og skutu hver á annan af hjartans list og þegar maður fór úr vagninum á Laugarnesveginum voru fjölmargir "fallnir í valinn". Ekki minnist ég þess að þeir félagar mínir sem stóðu að þessum "ofbeldisleikjum" séu eitthvað verri menn fyrir bragðið. Ég læt öðrum eftir að dæma mig.

    Svona í lokin áður en Rúnar kemur með Gluggann, nokkrar "gagnlegar" upplýsingar: Fyrsta heimsmeistaramót í bananaáti var haldið þennan dag árið 1979. Nokkrir merkir tónlistarmenn eru líka fæddir þennan dag og nægir að nefna ungverska tónskáldið Bela Bartok (1881), Arethu Franklin (1942) og Elton John (1947).

    Nú læðist inn um dyrnar á lognkyrrum, köldum miðvikudegi Rúnar Agnarsson með helstu viðburði í sýslunni falda í Glugganum.
http://www.huni.is/files/3/20090325193502442.pdf

    Þeir eru óborganlegir þessir hestamenn í sýslunni. Á laugardaginn ætla þeir að standa fyrir sýningu á sjálfum sér eða eins og segir í auglýsingu. "Í ár höldum við 10. sýninguna en Reiðhöllin er 9 ára um þessar mundir. Að þessu sinni er sýningin borin uppi af almennum hestamönnum og konum (eins og konur séu ekki menn) á öllum aldri og u.þ.b. 50 börnum og unglingum. Markmiðið er að sína þá miklu breidd sem er í iðkendahópnum." Við Rúnar erum nokkuð vissir um það að hestamenn eru misbreiðir og allt það og vafalaust afar gaman að sjá þessa breidd.

    Við Rúnar erum mikið að velta vísu vikunnar, sem að þessu sinni er frá Magga frá Sveinsstöðum, fyrir okkur. Gæti verið að Björg hans Magga hafi sagt eitthvað í tveggja daga afmælinu hans Óla sem verðskuldar þessa vísu? Ekki vitum við það

    Það er spurning hversu girnilegur og bragðgóður hann er þessi 3ja rétta tilboðsseðill sem boðið verður uppá á Pottinum og pönnunni.

    Svo sé ég það í Glugganum að Einar Örn Jónsson ætlar að vera hjá foreldrum sínum um páskana og vonandi hefur hann með sér börnin og konuna.

    Hvernig er það eiginlega með þá Gluggamenn. Er ekki með nokkru móti hægt að koma því inn hjá þeim að það eru tvö G í Gluggi hvort heldur orðið er skrifað á hlið eða lárétt.


    Það eru ekki allir sem eiga eins harðsnúinn bæjarstjóra og við Blönduósingar sem stendur vörð um sitt samfélag. Þessi mynd er ekki úr Amerískri hasarmynd heldur er hér á ferðinni hinn geðþekki og einbeitti bæjarstjóri Arnar Þór Sævarsson á vaktinni.

    Þá er bara eftir að setja þetta allt saman í vinjettuform en það versta er að við kunnum það bara alls ekki svo gamla góða aðferðin verður bara að duga.

Það er erfitt hvað nú ætti segja
um þennan Glugga í dag.
En best væri bara að þegja
og blístra eitt angurvært lag.

Og loks þegar lagið er búið
og löng verður tómrúms bið.
Þið ráðið hvort þessu þið trúið
því Glugginn er eins út á hlið.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 200
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 180
Gestir í gær: 54
Samtals flettingar: 64294
Samtals gestir: 11441
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 20:45:26