Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

01.04.2009 14:47

Betra að konur þegi?

    Í dag er 1. apríl um land allt eins og einn ágætur Hafnafjarðarkrati sagði á sínum tíma svo það sé nú á hreinu í þessu upphafi. Og í dag söng skógarþrösturinn í Árbrautinni fyrir okkur degi seinna en hann á venju til.

    Það er langt síðan ég hef fengið fyrirmæli frá öðrum en sjálfum mér. En eins og allir vita þá eru fyrirmæli hinn endinn á eftirmælum. Síðustu fyrimælin sem ég geymi í brjósti mér og fer með yfir um leið og ég nudda úr mér stírurnar fyrir framan spegil morgun hvern, hljóða svona í Birgittu nafni :

Fágætur og fyndinn líka,
fyrirmenni í sjón.
Gott ef ættum aðra slíka
eins og þennan Jón.

    Jæja nú get ég arkað fram minn veg þennan daginn nokkuð sáttur við lífið og tilveruna.

    Meðan ég man þá var ég lítið var við hann nafna minn hund á efri hæðinni á Aðalgötunni í síðustu viku. Það settist örlítill uggur að í sálinni þegar ég, að minnsta kosti í tvo daga heyrði ekki boffs í nafna. Hann svaraði ekki einu sinni kalli bakarahundsins á Brekkunni og Stefán var aldeilis einn á ferð. Þessi tilfinning var eins og bæjarlækurinn hefði þagnað skyndilega, væri hættur að renna og maður vaknaði upp við þessa skyndilegu þögn. Þessari nagandi óvissu var eytt í gær þegar ég mætti þeim Stefáni og Jóni hundi á göngu. Jón hundur fagnaði mér eins og honum einum er lagið. Reis upp á afturfæturna og viðhafði sjálfsögð kurteisishljóð. Mér fannst hann hress og nokkuð líkur sjálfum sér en þegar Stefán var búinn að fá lánaða hjá mér skófluna og kústinn sagði hann mér í óspurðum fréttum að Jón hundur hefði verið lasinn að undanförnu en sé nú allur að koma til. Sem sagt Jón Sigurðsson hundur hefur verið lasinn og það skýrir þessi rólegheit á hæðinni fyrir ofan mig í vinnunni undanfarna daga.

    En það eru ekki nein lognmolla að öðru leyti í Aðalgötunni því verið er að breyta Sæmundsenhúsinu í lúxusvillu. Samkvæmt áræðanlegum heimildum er verið að setja upp billiardstofu og saunabað í kjallara og lúxusíbúðir á hæðum þar fyrir ofan.

    Einnig hefur heyrst að búið sé að ráða mann til að stýra hótelinu og mun sá maður bera sama nafn og fyrri hótelstjóri en föðurnafnið er annað samkvæmt sömu heimild.

    Og ekki eru allar sögur enn sagðar úr Aðalgötunni því heimildir segja að Lárus Krákur ætli að fara að leggja í og það í Krútt bakaríi. Lárus ætlar ekkert að fara á bak við Bjarna sýslumann því ölið í krúsum Kráksins verður allt blessað af þar til bærum yfirvöldum og því öruggt að Sigmundur Davíð veit hvar hann getur keypt ölið. Þetta er allt saman grá upplagt því þegar ölið er á kútunum klárt þá er bara að trilla því yfir og fá frú Margréti til að selja  það í Vínbúðinni. Heimildarmaður minn í þessu máli tók það reyndar fram að timburmenn koma a.m.k. við sögu í nýjum verkefnum á Aðalgötu 9.

    Ég ætlaði að segja frá því þegar við Árbakkabræður vorum truflaðir af Sigmundi Davíð formanni Framsóknarflokksins í nýliðnum mánudagshádegisverði Árbakkabræðra á Pottinum og pönnunni. Lúðan var góð en við einhvernveginn gátum ekkert rætt um lífið og tilveruna því orðið "Við framsóknarmenn" barst okkur stöðugt með digrum karlaróm yfir matarborðið. Á næstu borðum mátti sjá menn (konur eru líka menn) sem létu sér þetta vel líka og sötruðu súpuna sína sælir og glaðir undir verndarvæng flokksformannsins. Þegar við Árbakkabræður báðum um 20% flatan niðurskurð á reikningum fyrir lúðunni vegna áðurgreindra ástæðna, fengum við það svar að það væru ekki margir sem fengju það tækifæri að sjá alla framsóknarmenn í sýslunni samankomna á einum stað. "Nokkuð til í þessu" sögðum við, greiddum uppsett verð og gengum út, reynslunni ríkari.

    Svona rétt áður en Rúnar kemur er rétt að smella inn einni eða tveimur augnabliksmyndum úr fortíðinni


Jón Jóhannsson kenndur við Beinakeldu

Friðgeir Halldórsson  (takk Aðalbjörg), Sunna Gests, Palli Svavars, Lárus B. Jóns, Hafsteinn Pétursson og Gunna Blö

    Núna líður Rúnar inn úr vorblíðunni með Glugga vikunnar í hendi.http://www.huni.is/files/3/20090401195853572.pdf

    Við veltum því fyrir okkur við Rúnar hvers vegna vísa vikunnar eru sú sama og síðast. Eitthvað virðist mönnum brýnt að konur hafi hljótt þessa dagana því enn og aftur er bent á þá vafasömu staðreynd að betra sé að konur þegi. Er ekki allt í lagi heima hjá þessum mönnum sem standa að þessum gjörningi.

    Pöbb kvissið verður í kvöld á Pottinum. Það vekur athygli að spyrlar að þessu sinni verða þeir Ágúst Þór og Auðunn Steinn. Þessir kumpánar hafa mætt á hvert einasta pöbba kviss í vetur og aldrei náð að bera sigur úr býtum. Nú hafa þeir verið fengnir til að búa sjálfir til spurningarnar svo þær ættu einhverja möguleika á sigri.

    Listi framtíðar boðar til fundar á Húnavöllum. Líkast til verður þar rætt um sameiningu sveitarfélaga, fjallskilamál og önnur framtíðarmál.

    Glugginn er svona á heildina litið, lítið auglýsingablað í A5 broti sem segir frá ýmsu sem gagnlegt er að vita en ekki mikið meira en það. Engin meiri háttar afglöp er þar að finna sem hægt er að nærast á og snúa út úr nema vísan hans Magga frá Sveinsstöðum.

    Nú er bara eftir að varpa ljóðrænum helgiblæ á þessar hugleiðingar svo einfaldleikinn fái notið sín á notalegan og mannlegan hátt:

  



Frá Sveinstöðum sagður er Mangi.
Þessi sótrauði fasteigna prangi.
Segir konum að þegja
sem satt best að segja
þrá allar að sjá að hann hangi. (á afturfótunum auðvitað)

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 41
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 67
Gestir í gær: 9
Samtals flettingar: 64854
Samtals gestir: 11521
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 06:58:54