Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

06.05.2009 14:49

Vatnsberinn og hrúturinn standa með krónunni

     En og aftur lenti ég í því að geta ekki kíkt í tímaritið "Séð og heyrt" hjá Bryndísi í gær þegar ég fór í klippingu. Það sem þó gladdi mig var að aðrir gátu heldur ekki notið þess að gleypa í sig sögurnar af fræga og fína fólkinu meðan ég var klipptur. Það kalla ég huggun harmi gegn. "Jón Sigurðsson (57) sér aldrei Séð og heyrt  hjá Bryndísi (49)." Skyldi þessi fyrirsögn selja? Ekki gott að segja.

 
     "Höskuldur, vörður laganna (43) syngur sig inn í hjörtu verkalýðsins" hljómar meira "kúl". Og textinn yrði eitthvað á þessa leið  "Hér má sjá Höskuld lögregluforingja ásamt Elínu (44) vinkonu sinni á leiðinni að syngja fyrir örþreytta alþýðuna í félagsheimilinu þann 1. maí. Höskuldur stóð vörð um lögin og söng, alþýðan fagnaði og fór glöð heim."
     Ég áskildi mér rétt til þess að fjalla frekar um gæsirnar okkar hér á Blönduósi. Eitthvað virðist farið að þrengjast á varpsvæðum bæjarins því ég sá í fyrsta sinn í gær tvær gæsir á vappi inni á gömlu kirkjulóðinni. Þetta ágæta par hefur síðan þá fært sig yfir á lóðina til hennar Siggu Gríms og gerir sig líklegt til að hefja þar varp. Ekki veit ég hvernig minn ágæti nágranni tekur þessum nýju gestum í viðbót við grjótflutningamennina.
     Ég hef heyrt það utan af mér að búið sé að ráða nýjan hótelstjóra á Hótel Blönduós. Heimildir mínar frá því fyrr í vetur að búið væri að ráða annan Magnús til hótelstjórnar reyndust ekki réttar eða eitthvað farið úrskeiðis í þeim málum. En nú berst mér til eyrna að fyrrum hótelstjóri á Hvolsvelli hún Bryndís á bæjarsskrifstofunni hafi verið ráðinn til starfans og er næsta víst að þar hefur Óli Werners ratað á réttan mann að margra mati.
     Eins og áður hefur komið fram þá er ég í eðli mínu í peysufötum undir mína hrjúfa yfirborði. Þetta segi ég vegna þess að ég ætla að leggja því fyrirbrigði í íslensku samfélagi sem hefur fengið einna versta umtalið undanfarin misseri, lið. Það er blessuð krónan sem svo margir tala niður til og kenna henni um allar þær ófarir sem á þjóðinni dynja. Krónan er gjaldmiðillinn OKKAR, líkt og strákarnir eða stelpurnar okkar. Ekki dettur okkur í hug að tala hin síðarnefndu niður og naga af þeim skóna. Við erum stolt af þeim og stöndum við bakið á þeim. Öðru gegnir um blessaða krónuna. Helstu liðþjálfar ríkisins og legátar þeirra hamast við að úthúða krónunni og er alþýðan farin að trúa þessu. Það getur ekki annað verið en þessi dæmalausa króna sé uppspretta alls ills segir fólkið eftir margra mánaða illt umtal. Í mínum huga er krónan hæfileikarík og hefur allt til að bera til að gera góða hluti ef einhver hefur trú á því að fela henni það verkefni. Krónan er mælikvarði á það hvað við erum að framleiða og skapa í þessu landi og hvernig við komum því á framfæri. Árinni kennir illur ræðari og á það við um þjálfara krónunnar í þessu tilfelli. Ef þjálfarar og fyrirliðar krónunnar tækju nú upp á því að hvetja þennan lítilsvirta gjaldmiðil til dáða og þar með þjóðina er ég ekki í nokkrum vafa um að sú litla króna sem nú gengur smáð manna í millum hér á landi fengi aukið sjálfstraust og tæki til við að blómstra áður en langt um líður. Maður hendir ekki ósyndum manni í laugina og segir honum að synda til sigurs. Fyrst er að læra sundtökin, samhæfa huga og hönd og takast svo á við verkefnin í samræmi við það. Svo mörg voru þau orð og gætu orðið mikið fleiri en mér þykir vænt um krónuna, sólina, vorið, land mitt og þjóð.
     Fyrir utan gæsaparið á kirkjulóðinni, já og nýja hótelstjórann þá er það helst að frétta úr Aðalgötunni og nágrenni að Jón Sigurðsson hundur er við góða heilsu, grjótflutningar halda áfram og Krákur og Bjössi eru á fullu í nýja trésmíðaverkstæðinu í Krútthúsinu. Fúsa hund hef ég ekki séð en Jónas bauð upp á kaffi í Ljóninu þann 1. maí. Jónas var svo ánægður með viðtökurnar að hann sagði við mig. "Fullt út úr dyrum, þetta er komið til að vera." Og Jóhannes á Blöndubyggðinni er nú vopnaður malaskóflu og vinnur að jarðvegsskiftum við Aðalgötu 6b. og undirbýr hellulögn. Siggi er alltaf eitthvað að brasa í Þorsteinshúsi og þrösturinn er líklega orpinn í gerfihnattardisknum á hótelinu.

Núna nokkrar "gamlar myndir"


Hér er Bjarni Gaukur að dansa ásamt fleirum


Pétur Brynjólfs, Ragney, ?, Silla, Þórhalla, ? Sturla Þórðar situr líkt og Magga Skúla áhorfandi að leikritinu Stormi í glasi

     Þá klukkan er að slaga í tvö eftir hádegi kjagar þá ekki Rúnar með næfurþunnan Gluggann milli vísi- og þumalfingurs inn úr nöpru vorinu. Ávarpar Helgu hlýlega lætur hana hafa slatta af þunnum Gluggum og skondrar síðan inn í horn til mín með tvo Glugga. http://www.feykir.is/kualubbi/wp-content/uploads/2009/05/glugginn.pdf
     Lúðrasveitartónleikar og 10 daga frí hjá frú Flix er á forsíðu. Hvað skyldi Þórdís ætla að fara að gera í 10 daga?
     Það er spurningamerki sem yrkir vísu vikunnar. Við Rúnar teljum vísuna vera pólitíska og fjalla um ríkisstjórnina þar sem fjallað er um fley sem er á floti. Við erum ekki sammála því eins og fram kemur í vísu að einhver friður verði um þetta fley sem enginn veit hvert er að fara eða hvort það er að fara eitthvað eða hvort það fljóti yfirleitt.
     Á Hjaltabakka verður naglasérfræðingur  um helgina. Við veltum því fyrir okkur við Rúnar hvort fræðingurinn sé fjölmenntaður og ráði jafnt við tre- og fírtommu. En málið er að vera ekki búinn að naga á sér neglurnar áður en til kasta sérfræðingsins kemur.

Sundlaugin gamla segir nú bless,
sú nýja mun stíga á svið.
En svaka við þurfum að þrauka hress,
þar til nýjungin tekur við.
Varð okkur að orði þegar við lásum auglýsinguna frá bæjarstjóranum um eins árs sundlaugarskort á Blönduósi.
 
   En á eftir efninu kemur alltaf amen og þar sem Rúnar er hrútur og ég vatnsberi þá eigum við afar vel saman eða eins og Morgunblaðið segir: Vatnsberi og Hrútur heillast hvor af öðrum, enda trúa báðir statt og stöðugt á framtíðina. Báðir eru trygglyndir og öll sambönd þeirra á milli ættu að verða djúp og einlæg, hversu lengi sem þau endast. Hvorugur veltir sér uppúr gömlum misklíðarefnum og samkomulagið er yfirleitt mjög gott.
Þessvegna endum við pistilinn í dag sælir og sjálfumglaðir á þessum orðum:

Það  er alltaf  ósköp  gaman
Að sitja og blaðra hér saman
Það væri hreint útúr
Að velta sér uppúr
Hversu skrítnir við erum í framan.











Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 57
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 68632
Samtals gestir: 12466
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 06:31:50