Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

01.07.2009 14:01

Miðsumarblús

    Dagarnir líða einn af öðrum. Sólin er farin að lækka á lofti og sumar að komast í hámark. Bygginganefnd vill kofa Jónasar Skafta burt en bæjarráð segir allt í lagi fram á haust. Jónas segir ýmislegt um þessi mál sem óþarfi er að fara frekar út í hér. Svona er þetta nú bara, hver hefur sinn kofa að draga. 
    Ég veit ekki hvað það er en það er eins og það vanti í mann neista, neista til að kveikja þó ekki væri nema smá bál í sálararninum. Kannski er þetta bara eðlilegt allt saman. Það er ekki alltaf hægt að vera uppfullur af hugmyndum og iðandi í skinni eftir að hrinda einhverju í framkvæmd. Menn eiga sínar hæðir og lægðir. Reyndar er verið að skipta um járn á þakinu á mínu heimili og endurnýja sjónvarpsloftnetið og framundan er að mála sólpallinn en svoleiðis lagað telur maður ekki með.

    Síðusta daga hafa kvatt þennan heim sem ég lifi og hrærist í, þrír mætir menn. Fyrst dó Jón Ísberg fyrrverandi sýslumaður og heiðursborgari Blönduóss. Þá kvaddi Gestur Guðmundsson á Kornsá og í fyrradag andaðist Stefán Á Jónsson á Kagaðarhóli. Alla þessa menn þekkti ég ágætlega en með misjöfnum hætti. Jón Ísberg og Stefán þekkti ég afar vel og af góðu einu í gegnum félagsmálin en Gestur á Kornsá skipaði sérstakan sess í huga mínum því hann prýðir eina hlýlegustu og jafnframt sterkustu mynd sem sem ég hef tekið. Þetta voru allt saman heilir og traustir menn, ólíkir persónuleikar en menn sem skiptu máli. Menn sem tilheyrðu kynslóð sem skynjaði á hverju þjóðin byggði sína afkomu. Samfylgd við þá vil ég þakka og bið góðan Guð að styrkja þá sem sakna og blessa minningu þessara heiðursmanna.

    Ég læt fylgja með myndina af Gesti Guðmundssyni á Kornsá þar sem hann stendur beinn í baki og beinir fénu sem er að koma af Haukagilsheiðinni niður afleggjarann að Undirfellsrétt.

    Aðgerðarleysið í veðrinu er svona eins og ég er þessa dagana. Lognið allt um lykjandi og líkt og skaparinn haldi niðri í sér andanum. Þetta veðurlag er ekki gott fyrir biðukollurnar sem bíða eftir því að komast að heiman. Þetta veðurlag er ekki gott fyrir þá sem vilja vita hvaðan á þá stendur veðrið. Þetta veðurlag er ekki gott fyrir þá sem fjárfest hafa í skjólveggjum. Þetta sem hér er ritað er svona tilraun til að vera neikvæður yfir því jákvæða. Þegar maður er kominn í svona hugleiðingar þá er gott að renna yfir einræður Starkaðar eftir Einar Benediktsson. Birti hér eitt erindi úr 3 kafla ljóðsins. Það er hvert orð þrungið meiningu og krafti.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti,
sem brast við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

    Núna er Glugginn kominn í sumarfrí þannig að enginn Rúnar er með í spilinu.

    Það hljóp heldur betur á snærið hjá þeim Erlendi Magg, Bjössa smið og Jónasi Skafta í gærkveldi. Um þrjátíu konur sem núna eru að ljúka hannyrðanámskeiði í Kvennaskólanum fóru um gamla bæinn og litu m.a. í heimsókn til Erlendar og nutu veitinga á Ljóninu hjá Jónasi og undu þær hag sínum vel við söng og sólarlag.

    Endum þetta á ljóðrænum og sumarlegum nótum hafandi í huga að enginn er fullkominn og hóf er best í hófi.

Æ hvað það er gott að getað
gullna veginn stundum fetað.
Og farið síðan víða veginn,
værukær og rauðvínsleginn.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 174
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 79
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 64088
Samtals gestir: 11396
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 23:42:47