Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

09.09.2009 19:02

Eins og ofsogin konubrjóst

    "Það verður enginn friður á Vesturbakkanum" sagði Jónas Skafta við mig í gær, nýkominn frá því að "transportera" með danska stútenta um landið á rútunni sinni. Ég hélt að Jónas hefði verið að ferðast með franskar hefðarmeyjar um landið og hef fyrir mér Himma Snorra í því. En hvað með það. Enginn friður á Vesturbakkanum eru ekki ný tíðindi. Í óspurðum fréttum sagði Jónas mér að hann hefði sent bæjarstjórn bréf um sín mál. Bréf sem gefur sterkt til til kynna hvar Davíð keypti ölið og hann skúrinn. Reyndar sá ég bifreið Erlendar Magg fyrir utan bæjarskrifstofurnar í fyrradag og reikna ég með því að hann líkt og Jónas Skafta hafi verið að herða starfsmenn bæjarskrifstofu. Rétt er þó að hafa í huga að þetta eru getgátur einar en mikilvægt innlegg í málefni vesturbakkans.
    
    Áður en lengra er haldið er rétt að birta hér mynd af austurbakkanum þar sem friðurinn einn ríkir. Hér má sjá á ferð eftir Bakkastíg, gönguhóp Kaupþings banka og er hópurinn staðsettur beint fyrir neðan hús formanns gönguhóps Sölufélagsins hennar Elínar.

    
    Eitt er það sem ég geri stundum fyrir konuna mína en það er að fara út í búð. Þetta geri ég þegar hún sér ekki fram á að komast í verslun fyrir lokun. Fyrir skömmu fór ég í búðina og hafði það verkefni að kaupa gulrófu. Ekki mjög stóra og ekki mjög litla. Þegar ég birtist í búðinni varð fljótt á vegi mínum ágæt vinkona til margra ára og varð henni að orði er hún sá mig. "Þú sést nú ekki oft hér." Ég átti ekkert svar betra en að segja. "Satt segir þú Hlíf mín." og bætti svo við. "Veistu hvar gulrófurnar eru í þessari verslun." Greiðlega gekk að finna rófurnar og þegar ég tók á þeirri rófu sem ég taldi að mundi henta okkur hjónum með kjötinu í karríinu fór um mig smá ónota tilfinning. Rófan var svo lin viðkomu og var ég nokkuð viss um að svona ættu gulrófur ekki að vera. Nú voru góð ráð dýr hugsaði ég með mér. Kallaði ég til að minnsta kosti þrjár vel þekktar og reyndar húsmæður og einn vátryggingamiðlara mér til aðstoðar. Eftir til þess að gera stutta rannsókn var mér ráðlagt að kaupa ekki þessa rófu. "Þessi rófa er eins og ofsogið konubrjóst" varð einni húsmóðurinni að orði og og náðist góð samstaða um þá niðurstöðu. En til þess að vera viss um að fá ekki skömm í hattinn fyrir að skila ekki gulrófu heim í búið greip ég til farsímans og hringdi í konuna og lýsti atburðum og einkum og sér í lagi niðurstöðunni að rófan væri eins og ofsogið konubrjóst.  Ég fékk leyfi til að fara tómhentur heim. Ég bætti upp þessa áranguslausu verslunarferð skömmu síðar þegar ég brá mér í búðina á leið í réttirnar og keypti mér kók og Prince Póló.

    Núna standa sem hæst göngur og réttir og því tilvalið að rifja upp smalaraunir Óskars Sigurfinnssonar í Meðalheimi


Ég labbaði af stað til að leita að fé
í leðurstígvélum upp að hné
og sólin hún skein milli skýja.
Með húfu og trefil og fleiri föt
og vettlinga næstum því nýja
og flösku af Finnlandía.

Ég gekk upp á margan grýttan hól,
gáði og raulaði heims um ból,
það glampaði á stígvélin bæði.
Það er svo gaman í góðri tíð
að ganga um landið í næði
og lifa á fljótandi fæði.

En dagurinn leið, það dimmdi af nótt
ég datt í polla og sagði ljótt
og stígvélin fóru að fyllast.
Ég forina óð í feikna ham
en færðin tók óðum að spillast,
ég hélt ég væri að villast.

Ég álpaðist loks út í fúafen,
þar fannst mér nú lyktin ekki pen,
ég hljóp eins og byssubrendur.
Að síðustu þarna ég seig á kaf,
sokkinn upp undir hendur.
Kannski dálítið kenndur.

Í svarta myrkri ég sá ekki neitt,
svangur og skítugur, vítt og breitt
um foraðið fór ég að sveima.
Loks þekkti ég staðinn sem stóð ég á
en staðnum ég helst vildi gleyma.
Ég var fastur í fjóshaugnum heima!

    Núna kemur blessaður drengurinn hann Rúnar með Glugga næstu 7 daga. Skyldi Glugginn hafa gildnað eitthvað? Skyldi hann hafa vísu vikunnar? Skyldi hann vera innihaldsríkur? Strekkbuksevalsinn ómar í eyrum og Glugginn er þunnur en kominn í hús. 

    Á forsíðu má lesa gleðitíðindi því slátursala SAH er hafinn. Við Rúnar hvetjum alla sem sláturafurðum geta valdið að nýta sér þetta tækifæri og gera góð kaup á hollum og góðum mat.
    
    Okkur Rúnari er létt því vísa vikunnar er á sínum stað og erum við að reyna að skilja hana í þessum rituðu orðum . "Skaðar víða skiptin hlý/ sköpuð vá með orðum" segir í byrjun.

    Kobbi í Léttitækni auglýsir hjálpartæki atvinnulífsins sem flest eru á hjólum eða stillt upp við vegg.
    
    Síðast en ekki síst þá leikur Sambandið en og aftur fyrir léttgeggjaða húnvetninga og í þetta skiftið á réttardansleik í Víðihlíð.
    
    Enn og aftur er sú stund upp runnin að setja hlutina í skáldlegt og ljóðrænt samhengi. Enn og aftur reynir á hæfileika okkar Rúnars til að skapa hið ómögulega.

    Nú húmar og haustar um norðurhvel,
    harðdrægt  í veraldar geimi.
    En Óskar í fjóshaugnum unir sér vel
    alsæll í Meðalheimi. 

    Núna stjáklar Rúnar út frá mér með hendurnar á kafi í  buxnavösunum staðráðinn í því að láta ekki gulrófur raska ró sinni.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 75
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 64977
Samtals gestir: 11581
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 21:47:18