Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

23.09.2009 09:25

Vorfuglar og Kremlarfræði

    Nú eru fjallatopparnir orðnir eins og toppurinn á mér. Komið í þá haust, farnir að grána en eru  engu að síður fjallmyndalegir.

 
Þetta er víst gangur tímans og eins og skáldið sagði þá stöðvar enginn tímans þunga nið. Það er samt misjafnt hvað niður tímans hljómar sterkt í hlustum hvers og eins. Kúnstin er að að láta þennan nið hljóma eins og bæjarlækinn, eitthvað sem er sjálfsagt án þess að trufla.

    Húnahornið eða huni.is er frétta- og upplýsingaveita fyrir húnvetninga og hefur maður fyrir sið að líta þarna reglulega inn. Einn af föstu liðunum sem Húnahornið býður upp á eru tilfinningar Húsfrúarinnar. Inngangsorð Húsfrúarinnar hafa létt mér lundina lengi og munu líklega gera  það fram eftir hausti : " Þessa dagana skella á manni hinir ýmsu vorboðar og ósjálfrátt léttist brúnin."  Hvað er yndislegra en varðveita vorið í brjósti sér og um það stendur Húsfreyjan svikalaust vörð.

    Svona til að varpa hlýju ljósi á vesturbakkann áður en farið er í stríðsfréttirnar þá er rétt að byrja með mynd af húsi Jóhannesar og Sigrúnar á Blöndubyggðinni sem og gamla pósthúsinu sem nú gegnir hlutverki gistiheimilis. Það er Langadalsfjall sem er í baksýn og í forgrunni má greina horn af auglýsingaskilti Hafísseturins.
 

    Af Vesturbakkanum eru þær fréttir helstar að Bygginganefnd fjallar löngum stundum  um hin mörgu bréf Jónasar Skafta og skúrinn. Jónas Skafta sagði mér reyndar í óspurðum fréttum í gær að hann hyggðist flytja skúrinn eftir skamma stund á hlutlausa beltið milli hans og Hreins. Þegar ég kom til vinnu í morgun í suð suð austan 5 metrum á sekúndu og 5 stiga hita og skýjuðu veðri var skúrinn enn á sínum stað þannig að það hefur ekki gengið á með skúrum í gær en það var samt veður til að færa skúra. 
    
    Þessir dagar eru eitthvað svo undarlega rólegir á yfirborðinu að það hlýtur bara að enda með ósköpum. Það bara getur ekki gengið að allt gangi svona hægt og rólega fyrir sig. Þetta á eftir að hefna sín! 

    Bjössi smiður kom til mín líkt og Jónas gerði í gær og sagði mér frá því helsta í gagnavers-  og og sorphirðumálum á Norðurlandi. Bæjarstjórn kom líka saman saman til skyndifundar á Hótelinu í gær. Maður reyndi svona eins og góður Kremlarfræðingur að rýna í svip bæjarstjórnarmanna þegar þeir yfirgáfu fundinn. Er gagnaverið úti eða inni?  Kári Kára settist upp í bílinn og ók greitt af vettvangi en Gústi græni stjáklaði um stéttina fyrir framan hótelið og talaði í farsímann. Allt í einu sáum við bros á andliti hans og réðum við af því að gagnaverið væri enn inni í myndinni. Kári hefði ekki átt að aka svona hratt af fundarstað því óneitanlega skaut það manni smá skelk í bringu en brosið hans Gústa breytti dimmu í dagsljós, ljós vonar.
Þegar ég gekk heim frá vinnu í gær  þá varð hinn margumtalaði Jónas Skafta á vegi mínum. Var hann í óða önn að koma bát sínum Skafta Fanndal í stand fyrir veturinn því hann hyggst taka hann með sér suður til Reykjavíkur í vetur og sækja á góðviðriðsdögum út á sundin blá og veiða sér í soðið


Reykurinn sem umlykur bátinn stafar af því að Jónas gangsetti vélina. Ég get svarið það að ég beið í dágóðan tíma til að geta fangað augnablikið þegar Jónas mundi gægjast út yfir stjórnborðssíðuna en það gekk ekki eftir. 

    Nú fer að líða að Glugga. Skyldi Rúnar laumast með Gluggann til mín núna eins og hann gerði síðasta miðvikudag, eins og þjófur að nóttu eða koma í eiginn mynd með vísukorn í handraðanum og létta mér lífið.
Það fór sem mig grunaði. Ég sá í skósólana hjá Rúnari þar sem hann var að laumast inn til sín þegar ég kom til vinnu eftir hádegið. Ég þeytti bílflautuna látlaust og snaraði kappann við útidyrnar og náði honum inn til mín og hér sitjum við með Gluggann fyrir framan okkur.
    Þetta varð til út af þessu

Hann sá mig í fjarlægð og lagði á flótta.
Ég flautuna þeytti af heilmiklum þótta.
Þá breytti hann för
og þaut eins og ör
nú situr hann hjá mér með smákeim af ótta
 
 
    Eins og vísan segir þá var Rúnar var pínu skömmustulegur en tjáði mér að hann hefði beðið eftir mér í drjúga stund og leikið sem óður maður harmonikkupolkann "Hoppla-hej. Reyndar kom ég óvenju seint til vinnu eftir matinn en það skýrist af því að ég fór út í slátursölu til að kaupa mér lifur í matinn.

    En aftur að Glugganum sem býður ekki upp á stórbrotnar vangaveltur því Glugginn er eins og dagarnir, á rólegu nótunum en hvort þetta eigi eftir að hefna sín skal ósagt látið. Dýrt er kveðið í vísu vikunnar en gallinn er bara sá að ekki er getið höfundar þessarar dýru vísu.

    Farskólinn og umsóknir um styrki til atvinnusköpunnar frá Impru og vaxtarsamningi Norðurlands vestra taka töluvert pláss og Domus gengið er á sínum stað. Bólstrari býður þjónustu sína og aðalsafnaðarfundur kirkjunnar er á næstu grösum. 

    Lionsmenn eru að fara af stað með sína árlegu perusölu og fylgja í kjölfar Kára Kára og félaga sem farið hafa um bæinn með klósettpappír til sölu. Þetta skilja Lionsmenn því hvað er óþægilegra en að vera ljóslaus á salerninu með klósettpappír frá Hvöt í höndunum? Fátt!

    Þá er bara að slá botninn í þetta allt og finna hinn eina og sanna ljóðræna tón sem límir saman hin óborganlega hversdagsleika.

Það er lofsvert að líta til baka
því landið leggst brátt í klaka.
Ei dýrara sel
en mér líður svo vel
þegar vorfuglar húsfrúar kvaka. 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 27
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65015
Samtals gestir: 11611
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 05:43:14