Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

30.09.2009 14:27

Næstum því hér um bil satt

Miðvikudagur. - Og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
Manni finnst þetta skrítið, en samt er það satt,
Því svona hefir það verið og þannig er það.

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stýfið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. - Þannig er lífið.

    Þessi tvö fyrstu erindi í ljóði Steins Steinarrs "Miðvikudagur" eru sígild og varpa áreynslulaust, ljósi á hversdaginn. Það er ekki sjálfgefið að þvælast í gegnum lífið án þess að reka sig á. Það er misjafnt hvernig menn höndla þessa lífsgöngu en eins og segir í kvæði Steins þá göngum við líkast til flest um með sama svip og í gær. Þannig er lífið.

    Það er eins með haustið og miðvikudagana - lífið gengur sinn gang og þannig hefur það verið. Það kólnar og sólin lækkar á lofti.

    Ég ætlaði að vera svo déskoti hress í dag og geisla af gleði og hleypa léttu lundinni á sprett en ég datt bara allt í einu inn í þetta ljóð eftir Stein og sá þá bara, hversu hversdaglegir miðvikudagar eru, nákvæmlega eins og Guð sjálfur hefur í öndverðu hugsað sér. En sem betur fer er svo margt falið í hversdagnum sem vert er að gefa gaum og þessvegna gengur lífið sinn gang.

    Lífið hér um slóðir gengur í stórum dráttum út á það að bíða eftir því hvort verði af netþjónabúi eður ei. Menn þora ekki að nefna þetta hátt heldur nánast hvíslast á : "Hefur þú eitthvað heyrt af netþjónabúinu" "Nei en líkurnar eru töluverðar að það komi. Við erum sterklega inni í myndinni" svara þeir sem mest vit hafa á. Menn hvísla ósjálfrátt til þess að þetta heyrist ekki út fyrir héraðið og verkefninu verði stolið frá okkur. Við þekkjum söguna af lóunni sem var étin fyrir það eitt að hún söng svo hátt af gleði þegar kýrin skeit á hana, skítkalda. Kötturinn heyrði sönginn, rann á hljóðið, dró lóuna upp úr skýtnum og át hana. Þessa sögu þekkjum við og höfum vit á því að tala í hálfum hljóðum um þessi stóru tækifæri sem gætu verið handan við hornið. Við viljum helst ekki vera étin af kettinum sem ávallt vakir yfir bráð sinni.

    Árni Þorgilsson sem sumir kalla Árna ekkert mál og Erlendur Magnússon fóru í róður um daginn. "Það var steindauður sjór" sagði Erlendur mér. Það var engan fugl að sjá þegar komið var út frá ströndinni og hvergi lóðaði á fisk. Erlendur sagði að þeir félagar hefðu fengið einn titt sem var ekki stærri en þetta og hélt lófunum í lóðrétti stellingu svo ekki var meira en 25 cm á milli. "Við gáfum múkkanum hann" sagði Erlendur sem að öðru leyti var ánægður með sjóferðina þó svo honum fyndist Árni sigla full hratt upp í ölduna.

    Glugginn er kominn inn úr kuldanum eftir að hafa beðið mín á hurðarhúninum. Nei hver andskotinn hugsaði ég með mér. " Nú hefur Rúnar stungið af frá sinni miðvikudagsábyrgð" sagði ég við sjálfan mig en varla var ég búinn að sleppa þessu út í loftið þá birtist Rúnar með svelgjandi harmonikkutóna allt um lykjandi. Að þessu sinni var það polkinn "Fölungen" sem við höldum að þýði föli unginn eða hinn föli unglingur en hugsanlega er þetta dregið af danska orðinu fölelse sem þýðir tilfinning en við látum það liggja milli hluta.

    Glugginn er heilsusamlegur að þessu sinni og boðar m.a. aukna hreyfingu. Eldri sem yngri borgurum býðst nú að sækja leikfimi í vetur og Sunna Gests ætlar að koma frjálsíþróttafólki í gott form.

    Samfylkingin boðar til fundar undir heitinu sókn til betra samfélags ( nú eða leitin að Jóhönnu). Annars verður fróðlegt að vita hvað þetta fólk hefur að segja eftir nýjasta útspil Ömma frænda

    Enn og aftur bendum við fólki á að nýta sér slátursölu SAH því hvergi á íslensku byggðu bóli má fá ódýrari matvörur.

    Svæðisbundin matargerð er ofarlega í huga Nýsköpunamiðstöðvar Íslands. Er eitthvað hér á svæðinu sem teljast mætti sérstakt í matargerð fyrir Húnavatnsýslur. Einhver sagði að það væru skóhælar og því til sönnunnar væri það  þekkt fyrirbæri að narta í hælana á hinum og þessum en okkur kom saman um að þetta væri alþjóðlegur réttur. Blöndulaxinn er engum lax líkur og sjálfsagt að markaðsetja hann. Ekki má svo gleyma heimsins bestu sviðasultu sem framleidd er á Blönduósi. Frægir voru líka réttirnir sem fengust á Sauðaþjófnum sáluga (veitingasalur á hótelinu fyrir ári síðan) eins og Fjalla_Eyvindur í baði og fleira í þeim dúr en nóg um húnvetnska matargerð.

    Lionsklúbburinn og Hvöt dingla laus inni í miðjum Glugga og kalla eftir aðstoð. Lions vill fá fleiri félaga og Hvöt vill selja íbúum sinn hágæða WC pappír.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og fjallar hún um skattheimtu á Skagaströnd, tengdri köttum.

    Við Rúnar leggjum nú það sem okkur er mislagið að nota í bleyti og gerum hvað við getum til að færa þetta sem að undan er ritað í ljóðrænan búning.

Lífið er oftast nær hvikult og assskoti bratt.
Og alltaf í nánasta umhverfi sálar er statt.
Aldrei af okkur drögum
í vitleysu og sögum.
En allt sem við skrifum er næstum því hér um bil satt.

En um þetta kjaftæði má svo sem karpa og þæfa.
Kalla okkur asna sem réttast væri að kæfa.
En það breytir ei því
að við vinnum mest í
verkum sem teljum helst stundinni hæfa.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 54
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65042
Samtals gestir: 11630
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 10:48:12