Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

07.10.2009 15:37

Kornið sem fyllti mælinn er til sölu

    Eins og þeir vita sem heimsækja þessa síðu þá er ég titlaður stríðsfréttaritari á vesturbakka Blöndu. Það er ekki að ástæðulausu sem ég gegni þessu hlutverki, því þó hér búi til þess að gera friðsamt fólk eru engu að síður baráttuglaðir einstaklingar innan um sem ástæða er að fjalla um. Einn þessara seinþreyttu "stríðsmanna" er Jónas Skaftason sem nú hefur flutt sinn margumtalaða skúr af Einarsnesinu á hlutlausa beltið milli hans og Hreins Ingvarssonar á Blöndubyggðinni. Jónas hefur sagt mér ýmislegt um þessi mál í óspurðum fréttum og hef ég reynt að miðla því til alþýðunar svona þegar tækifæri og aðstæður leyfa.

    Það nýjasta í þessu máli er það að Jónas hefur óskað eftir fundi með bæjarstjórn til að ræða sín ferðamála mál, mál sem eiga sér upphaf en virðast engan endi ætla að taka. Jónas sagði mér á dögunum að hann hefði átt ágætt spjall við bæjarstjórann okkar hann Arnar Þór og hefði Arnar komist að þeirri niðurstöðu að sögn Jónasar að hann, sem sagt Jónas hlyti að hafa orðið fyrir einhverju í uppeldinu en Jónas þvertók fyrir það og vísaði því til föðurhúsana. Mér fannst þetta snjallt hjá Jónasi að vísa þessu til föðurhúsanna því hvar annarsstaðar liggur hinn uppeldislegi grunnur.

    Þessi mynd var tekin þegar ég var að ræða við Jónas um stöðu mála á Vesturbakkanum og sýnir konur sem hætta sér inn á "átakasvæði" Hér eru á ferðinni Ragnheiður Blöndal, Sigríður Helga, Ásta María og Anna Margrét


    Undirstöður Einarsnesskúrsins hafa líka verið fjarlægðar og eru núna komnar á lóðina hjá Ívari Snorra útgerðarmanni og eiga að gegna grunnhlutverki fyrir garðhýsi. Vonandi hefur Ívar Snorri sótt um leyfi fyrir garðhúsið til byggingarnefndar til að forðast frekari stríðsátök á vesturbakkanum.

    Samfylkingin hélt fund á hótelinu fyrir skömmu og mættu þar fyrir hönd Samfylkingar þau Róbert Marshall, Ólína Þorvarðardóttir og Guðbjartur Hannesson. Ekki gaf ég mér tíma til að mæta á þennan fund en eins og svo er um margt hjá hjá mér þá fékk ég upplýingar um fundinn í óspurðum fréttum. Samkvæmt heimildum mættu nú ekki mjög margir en vöskustu "stríðsmenn" vesturbakkans ásamt einhverjum eðalkrötum og einum íhaldspung sáu sér fært að mæta. Efir að hafa fengið óspurðar fréttir af fundinum þá dauðsá ég eftir því að hafa ekki mætt því Róbert hershöfðingi mun hafa flutt afar fróðlegt erindi um Davíð Oddsson og Ólína Þorvarðardóttir mun hafa fyllt upp í það erindi sem á vantaði hjá Róbert. Guðbjartur mun hafa talað um eitthvað annað en Davíð þannig að farið var yfir afar breitt svið.

    Svona áður en haldið er inn í Glugga vikunnar þá er rétt að geta þess að mér voru að berast í hendur bókin "Haukur á Röðli í fúlustu alvöru" ritaða af Birgittu Hrönn Halldórsdóttur. Bókin var árituð af skrásetjara og þeim sem afhenti mér bókina, Hauki sjálfum. Ég var glaður og þakklátur í hjarta þegar mér var færð bókin með hlýjum kveðjum og ég hlakka mikið til að leggjast yfir bókina og komast enn betur að því hvernig maður á að "lifa lífinu lauslega" eins og Haukur kemst svo skemmtilega að orði.

    Núna skoppar Rúnar í hlað undir svellandi polkatakti harmonikku Arnt Haugen og er það hvorki meira né minna en lagið "paa gyngende gulv" sem er grunnurinn í þessu öllu. Við höldum að þetta þýði "gólf sem svignar undan dansinum."

    Ragnar Þórarinsson birtist allt í einu í horninu hjá okkur Rúnari áður en við náðum okkur á strik og rukkuðum við hann umsvifalaust um vísu. "Vísu" sagði hann og "já" sögðum við. "Við yrkjum alltaf á miðvikudögum við Rúnar" sagði ég og þá sagði Ragnar. "Ef ég hefði vitað það þá hefði ég komið betur undirbúinn." "Það vita það nú allir húnvetningar á netinu að við yrkjum á miðvikudögum" sagði ég drjúgur með mig. "Ég á ekkert net ekki einu sinni silunganet" sagði Ragnar og þar með var málið útrætt.

    Glugginn í dag er af ýmsum toga. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Leið ehf blása til fundar í Húnaveri um málefni sem Blönduósingum, já og reyndar A-Húnvetningum öllum hefur verið svona heldur á móti skapi en það er breyting á legu þjóðvegar 1 fram hjá Blönduósi. Það vekur athygli okkar hversvegna fundurinn er haldinn í Húnaveri en ekki Blönduósi. Hugsanlega er ástæðan ekki önnur en sú að það er styttra í Húnaver en til Blönduóss frá Akureyri og um það snýst kannski heila málið

Hér kemur mynd í tilefni af haustinu og vísum vikunnar og dagsins

    Grösin fölna, grána fjöll,/ glöggt er haustsins letur./ Svona hverfa sumrin öll,/senn er kominn vetur. Segir Óskar í Meðalheimi í vísu vikunnar og víst er um að það er komið haust því kórarnir eru að fara af stað og styrktarsjóðsballið stendur fyrir dyrum. Allt saman einkenni um haustið. Sama má segja um inflúensubólusetninguna.

    Siggi á Hnjúki auglýsir korn til sölu. Þarna gefst mönnum einstakt tækifæri til að kaupa það sem þá helst vantar og lengi hafa beðið eftir en það er hið eina sanna korn sem getur fyllt mælinn. Svo lengi sem við munum hefur verið reynt að selja manni ýmsa hluti sem eiga að gegna því hlutverki að vera kornið sem fyllti mælinn. Ef ég færi að telja það upp þá væri ég farin að blanda hruninu mikla inn í pistilinn en við Rúnar reynum að forðast það eins og heitan eldinn. Nei hér er korn til sölu sem er korn og ekkert annað.

    Nú er bara eftir að ná sér í nokkurn korn til að fylla hinn ljóðræna miðvikudagsmæli, mæli sem mælir samhengi hlutanna í því óljósa samhengi sem við erum í.

    Við erum að hugsa um að byrja á hinni klassísku ljóðlínu " margt er það sem miður fer" en erum samt ekki allveg vissir. Réttast væri að segja, bara mjög óvissir en einhversstaðar þarf að byrja og einhverstaðar þarf að enda.

Margt var það sem miður fór
og mátti fara betur.
Bráðum kemur blautur snjór,
bráðum kemur vetur.

Sá sem þessar línur sér,
skráðar hér í letur.
Sér að mikið miður fer
og mætti fara betur.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 202
Gestir í dag: 44
Flettingar í gær: 180
Gestir í gær: 54
Samtals flettingar: 64296
Samtals gestir: 11442
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 21:09:46