Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

10.03.2010 15:21

Að eiga vin og forðast pytti

    Vertinn á Ljóninu gerði vart við sig í gær og leitaði frétta af Vesturbakkanum.  Eins og liggur í hlutarins eðli þá sagði ég honum fátt því lítið er að frétta. Ég sagði honum reyndar að þeir væru að æfa hljómsveitina "Ekkertmálbandið"  á sportbarnum þeir Ívar Snorri, Rúnar og Árni Þorgils og væru bara orðnir fjandi góðir. Það runnu nú tvær grímur á leigubílstjórann og vertinn á Ljóninu og fékk hann það á tilfinninguna að nú væri Árni og félagar að bregðast sér því fyrir dyrum um páskana stendur að halda mikið húllumhæ á Ljóninu og var hugmyndinn að Ekkertmálbandið væri uppistaðan í því. "Nei! Árni bregst mér ekki" sagði Jónas loksins og bætti  svo við. "Þær fara nú að gerast fréttirnar á Vesturbakkanum þegar ég sný heim á ný um páskana". "Ætlar þú að fara að atast eitthvað í bæjarstjórninni" sagði ég si svona og byggði á fyrri reynslu minni af Jónasi. "Það getur vel verið Jón, en fyrst og fremst ætla ég að einbeita mér að gleðinni og uppákomum á Ljóninu" sagði þessi  bjarthærði vert og bætti við áður en samtali lauk. "Ég ætla að fá mér kött fyrir afastelpurnar mínar með vorinu".

    Ég sagði frá því fyrir skömmu að ég hefði eignast leynivin nánast bara upp úr því að segja þurru. Þessi leynivinur virtist vera starfandi á Héraðshælinu og hann færði mér gjöf. Það verður bara að játast að þetta litla vinarþel úr óvæntri átt gladdi hreint ótrúlega mikið. Minn betri helmingur sem vinnur á sömu stofnun og leynivinur minn komst að því hver hann var og spurði mig við kvöldverðarborðið um daginn hvort ég hefði einhvern grun um hver minn leynivinur væri.  Ég hugsaði mig um í smástund og sagði síðan. "Þetta hlýtur að vera hún Bóta. "Hversvegna heldur þú það "  sagði kona mín og sá ég vegna áratuga reynslu á svipbrigðum hennar og hvað þar liggur á bak við að ég hefði farið nálægt sannleikanum. "Nú einfaldlega vegna þess að ég held að Bótu þyki pínulítið vænt um mig". Þetta var svo ekkert rætt frekar og ég fékk mér aftur á diskinn, þessa líka yndislegu gúllassúpu.

    En allar sögur hafa endi og þessi saga um leynivinin fékk skemmtilegan endi í gærdag. Ég var í óðaönn að gera ekki neitt þegar Bóthildur Halldórsdóttir, baráttukona og Húnvetningur ársins 2009  birtist í dyrunum sposk á svip. Til að gera langa sögu stutta þá sagði ég Bóthildi hvað ég hafði sagt minni konu og Bóthildur sagði einfaldlega að allt væri þetta satt og rétt hjá mér. Af þessu tilefni kveikti hún á einu kerti á skrifborðinu hjá mér og smellti á mig einum kossi, kvaddi og hvarf sömu leið og hún kom. Nú var leynivinurinn opinber og búinn að leggja væna fúlgu inn í gleðibanka minn. Ég er orðinn nokkuð viss um að svona lagað sé uppskrift að góðum degi. Gjöfin sem leynivinurinn færði mér og þið getið séð mynd af í pistlinum á undan hefur fengið sess við hliðina á Liverpoolkönnunni uppi á hillu fyrir ofan eldhúsvaskinn. Það er staður við hæfi því þá hefur maður góða  ástæðu til að lyfta höfðinu upp frá uppvaskinu og hleypa notarlegheitum inn í sálina.

    Litlu munaði að stórslys yrði þegar ég kom til vinnu eftir hádegið. Ég var örlítið seinn fyrir og þegar ég kom, beið mín bifreið frá Vörumiðlun og sat Sigurjón nokkur ættaður frá Rútsstöðum undir stýri með 7 kassa af víni með sér. Henti hann í mig bunka af Gluggum sem Rúnar hafði beðið hann fyrir í Aðalgötu 8. Hafði hann uppi þau orð við Rúnar að ég væri veikur heima og fór Rúnar heim til sín dapur í bragði  með þau tíðindi.  Ég lét það vera mitt fyrsta verka að hringja í Rúnar og kalla hann á minn fund því ég væri í fullu fjöri á skrifstofunni og miðvikudagshugvekjan biði . Ég hringdi í gemsann hans sem hann geymdi út í bíl náttúrulega  og heyrði því eðlilega ekkert í honum. Hringdi ég þá í góða gamla heimilissímann í Sólheimum og náði fyrir rest í skottið á Rúnari og hann kom kallinn líkt og byssubrenndur  og öllum á óvart hafði hann með sér "Höggeröd polkann" sem Familien Brix leikur af svo mikilli list. Það er þó eitthvað sem segir mér að ég hafi heyrt þetta lag áður á mildum miðvikudegi.

    Glugginn er með látlausu yfirbragði þessa vikuna en þó rákum við Rúnar augun í orðið "bætiefnafötur" fyrir ýmis húsdýr  á góðu verði. Yfir þessu veltum við vöngum smá stund og létum okkur detta í hug hvort ekki mætti fara að selja bætiefnadiska fyrir mannskepnuna því með því ynnist að minnsta kosti tvennt. Maður fengi vítamín í kroppinn og losnaði við uppvaskið.

    Það er mikið um að vera í Bæjarblóminu. Það hrúgast þar inn sálmabækur, gestabækur og von er á vorlaukunum  og E-listin hugsar sér til hreyfings en ekki í Bæjarblóminu það best við vitum.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og getum við Rúnar okkur þess til að hún sé eftir Sigríði Höskuldsdóttur á Kagaðarhóli.  Þetta er hlýleg vísa ort um tunglið og hreinleika þess í til þess að gera gruggugu umhverfi nútímans.

    En alvaran fer ekkert og samhengi lífsins  ekki heldur. Hérna sem við sitjum með gúlann fullan af pítsu sem Ríkis-Vignir færði okkur,  verðum við að koma auga á alvarleika lífsins og koma honum til skila til alþýðunnar.

Ætíð við forðumst  pyttinn þann fúla
sem felst í leiða og sút.
En yfir pítsu með gapandi gúla
úr gosflösku súpum af stút.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 180
Gestir í gær: 54
Samtals flettingar: 64291
Samtals gestir: 11441
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 20:07:04