Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

17.03.2010 14:29

Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör

    Vorið er að koma á því leikur engin vafi. Þetta sést m.a. af því  að straumöndin er farin að leita úr brimrótinu  upp í Blöndu og farin að sjást í hópum við flúðirnar þar sem Kastionklöppin er mitt á milli austur- og vesturbakkans.  Annað merki þess að vorið er í nánd  er að álftirnar eru farnar að koma og það sem meira er þá er skógarþrösturinn farinn að syngja. Þetta finnst mér nú vera helst til of snemmt fyrir minn smekk því við hjónin erum vön því að skógarþrösturinn fari að syngja þann 31. mars ár hvert. Eitt er þó gott við þetta allt saman en það er að jörðin hún snýst og vorið kemur aftur í dal með öllum sínum fjölbreytileika  þrátt fyrir misgáfulegt veraldarbrölt okkar mannanna.

    "Yfirskegg eru eins og druslulegar mottur framan í andliti hins dæmigerða íslenska karlmanns. Hann verður fremur ófrýnilegur á að sjá og konur forðast að horfa lengi á andlit hans. Skyndilega verður ljóst að skegglausir karlmenn eru hin sönnu karlmenni. Það sést í andlit þeirra, sem skiptir óneitanlega máli. Og þetta eru yfirleitt fremur greindarleg og snotur andlit, ekki sauðarleg eins og andlit mottumannanna."  Þetta las ég í laugardagsmogganum mínum og ef satt skal segja fannst mér þetta ekki sérstaklega skemmtileg byrjun á annars meinlausum degi. Ekki bætti úr skák að konan hafði nýlega spurt mig hvort hún mætti ekki henda náttbuxunum mínum sem ég hef átt í 15 ár. Jánkaði ég því eftir töluverða eftirgangsmuni en þá sagði minn betri helmingur alveg upp úr þurru. "Það má nota buxurnar í klúta til að bóna bílinn. Þú ert svo gasalega duglegur við það". Ég átti víst að skilja sneiðina en ákvað að snúa mér alfarið að brauðsneiðinni sem ég var að borða með morgunteinu og skammast við Kolbrúnu Bergþórsdóttur  út af viðhorfum hennar til skeggvaxtar á efri vör karlmanna. 
    Það er með hreinum ólíkindum hvernig hægt er að leika einn sára saklausan karlmann á sextugsaldri við morgunverðarborðið, grátt og það á laugardegi.  Í stuttu máli stóð ég frammi fyrir því að vera álitinn fremur ófrýnilegur maður sem konur forðast að horfa lengi á og þar að auki slaklegur bónmaður. Látum það liggja milli hluta að vera talinn slakur með bóntuskuna en sauðarlegur og ófrýnilegur sem konur forðast að horfa á það er eitthvað sem þungbært má teljast. Ég hef borið mitt yfirskegg svo lengi sem ég man og alltaf talið mig vera augnayndi. Það sama hefur konan að mig minnir einhvern tíma sagt og gott ef dóttir mín ekki líka. En það verður ekki sagt um mig að ég láti erfiðleikana slá mig út af laginu og þennan laugardagsmorgun komst ég í gegnum eins og alla hina með Guðs og góðra manna hjálp en það skyldi Kolbrún hafa í huga þegar ég horfi á Kiljuna í kvöld að það er einn þarna úti með snotra mottu sem tautar fyrir munni sér. "Assskoti myndi Kolla fríkka ef hún safnaði skeggi".

    Í fundargerð bæjarstjórnar fyrir skömmu mátti lesa að Þórhalli Barðasyni var þakkað sérstaklega fyrir Húnahátíð.  Bókunin var svona "Bæjarstjórn þakkar Þórhalli Barðasyni gott starf við skipulagningu Húnahátíðar sumarið 2009. Samþykkt 7:0" Þeir sem eitthvað fylgjast með bæjarlífinu, já svona lífinu yfirleitt ráku í þetta augun og fóru að velta þessu fyrir sér. Hér hefur verið haldin Húnavaka undanfarin sumur en enginn sem ég þekki kannast við fyrirbrigðið Húnahátíð. Þetta gekk svo langt að rata í nokkra héraðsfréttamiðla og að minnsta kosti einn Baugsmiðil.  En það skemmtilega við þetta allt var það að þessi uppákoma varð til þess að Ágúst Þór Bragason bæjarfulltrúi fór að yrkja og sendi Auðni Húnahorni (huni.is) eftirfarandi vísu.

Villan þín ratar um víðan völl,
aðrir miðlar eftir taka.
Losum nú Húnahornið við þann hroll,
að vera úti að aka.

    Eigi skal vísu dæma heldur virða viljan fyrir verkið og er Ágúst hér með boðinn velkominn í hóp okkar sem látum allt flakka í þágu fögnuðar og frelsis.


    Núna rennir Rúnar í hlað á rennilegum jeppa og hefur í hendi fréttablað hvar í er engin kreppa. En Rúnar var samur við sig og úr bifreið hans hljómaði sem fyrr tónar frá Harmonikka drengene og spiluðu þeir aldrei þessu vant lagið "Snart er du mer end 17 år" sem er eldfjörugur polki sem Kristófer og Anna Gunna gætu hæglega snúist eftir og ef í harðbakkan mundi slá þá væri hægt að marsera eftir laginu.

    Fundir og kórsöngur eru farnir að setja svip sinn á allt mannlíf, enda vorboðar líkt og hækkandi sól og vaxandi fuglalíf. Um þetta má lesa í nýjasta Glugganum sem nú er kominn í hús eins og fyrr greinir.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og fjallar í stuttu máli um þá sem slöfruðu í sig gróða af mikilli fíkn og er þeim líkt við gufugleypa. Reyndar kemur Rúnar á Skagaströnd þessu fyrir í orðum á mun smekklegri hátt  í dýrt kveðinni vísu.

    Við Rúnar erum menn ábyrgðarinnar og festum ávallt hönd á samhengi hlutanna og í hlutarins eðli hlýtur það að felast að þessu sinni í skegginu á efri vörinni. En spurningar lífsins eru margar og er mörgum þeirra erfitt að svara eins og Ari komst að á sínum tíma.

Kunn er sú spurning er kraumar á vör,    
kemur hænan á undan egginu.
Þegar stórt er spurt er oft fátt  um svör,
sagði Jón og strauk eftir skegginu.

    En eins og flestir vita þá felst hamingjan í því að vita hvert skal halda og stjórna sinni för að mestu án þess að hlaupa eftir skoðunum og tískustraumum  misviturra manna. Hver er sinnar gæfu smiður og sá sem hefur sálarþrek að fara sína leið með sjálfsvirðingu og bjartsýni að leiðarljósi getur ráfað um meðal alþýðunnar með skegg á efri vör.

Það sannast og sýnist oft best,
að stýra sjálfur förinni.
Og vita að þinn styrkleiki sést
í skeggvexti á efri vörinni.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 173
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 180
Gestir í gær: 54
Samtals flettingar: 64267
Samtals gestir: 11429
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 14:47:39