Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

24.03.2010 14:39

Súsanna, Sigríður og Berlína

    Núna er það staðreynd að dagurinn er lengri en nóttin og einmánuður er byrjaður. Við erum sem sagt búin að þreyja þorrann og góuna. Í gær var heitdagur sem mun vera áheitsdagur í vetrarlok þegar erfiðlega áraði. Þessi dagur var afnuminn með tilskipun árið 1744 sem ég held að hafi verið mistök því ég er viss um að gott hefði verið að eiga svona dag inni til þess að eygja einhverja von þegar stöðugleikasáttmálinn lekur út í buskann í skötuselslíki.

    En einmánuður er byrjaður og það þýðir bara eitt að sumarið nálgast og Jónas Skafta kemur norður með grágæsunum. Jónas vert á Ljóninu er á leiðinni og það er ávísun á stanslaust fjör á Ljóninu yfir páskana. Ég sá Jónas í skötulíki á mánudaginn og harmaði hann mjög fyrir hönd bæjarstjóra að þeir hefðu ekki hittst en það það koma víst aðrir dagar eftir þennan mánudag sagði minn maður.  Jónas bað mig sérstaklega að koma því á framfæri að hann yrði heima yfir páskana og gleðin og þjóðlegir siðir yrðu við völd  á Ljóninu á meðan dvöl hans stæði. Nefndi hann meðal annars að "Ekkert málbandið" myndi standa fyrir uppákomu á miðvikudagskvöldið fyrir skírdag. Ég spurði Jónas hvort Ívar Snorri væri í bandinu en hann sagði svo ekki vera því Ívar væri ekki enn kominn með bongótrommur og því væri ekkert pláss fyrir hann á Ljóninu með trommusettið.  Þannig að nú liggur ljóst fyrir að Ívar Snorri þarf að fara að fjárfesta í litlum trommum svo hann verði gjaldgengur skemmtikraftur á Ljóninu.

    Talandi um skemmtanir í gamla bænum þá flaug í gegnum hugann eina augnabliksstund hvort baðkarið sem stendur fyrir utan hjá Siggu Gríms eigi að gegna einhverju skemmtana hlutverki. Það var í gamla daga þegar við vorum ekki orðin eins meðvituð um hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft að sjá berrassaða konu og þá einkum og sér í lagi fyrir konur sem aldrei hafa séð karla horfa á berrassaðar konur. Mér kemur út af þessu í hug ein ágæt kona sem fór fáklædd um landið og baðaði sig. Mig minnir að hún hafi borið nafnið Súsanna og gert það bara nokkuð gott. 
    Já það er baðker fyrir utan hjá Siggu Gríms og þar sem fara núna í hönd miklir gleðidagar í gamla bænum í tengslum við viðveru Jónasar Skafta á Blönduósi yfir páskana er ekki ólíklegt að af þessu tilefni muni Sigríður baða sig á Brimslóðinni líkt og Súsanna forðum . Mér finnst nú allt í lagi að hugsa þetta upphátt því ég veit að þetta mundi vekja örlitla athygli en þegar maður fer að hugsa þetta lengra þá gæti þetta haft þær afleiðingar að Ejólfi bónda yrði stungið inn fyrir mansal því það er víst búið að banna allt svona með lögum.

    Þetta minnir mig á það að fyrir lifandis löngu þá kom hér fljóð sem kallaði sig Berlínu og fór að dansa léttklædd fyrir mig, Ella frá Giljá og þó nokkuð fleiri á hótelinu.  Einhverra hluta vegna voru nú eiginkonurnar ekki með og getur það stafað af því félgsstarfi sem við vorum viðriðnir. Berlína dansaði og fékk hún einn og einn út á gólfið til að dansa við sig. Sérstaklega man ég eftir einum sem dansaði af  slíkum fimleika að jafnvel Berlínu þótti nóg um, þá varð einum áhorfanda að orði:

Hún Berlína oss berlega kenndi
er blíðlega hendinni renndi
um malir og hupp
og allt lauslegt fór upp,
að gott væri að taka til hendi.

    En ekki meira um skemmtanahald í gamla bænum að sinni heldur er rétt að fara að snúa sér að alvöru lífsins því það er nú hún sem gefur gleðinni gildi.

    Þegar þessar línur eru ritaðar fer ég að velta því fyrir mér hverjir skyldu nú vera undir geislanum hjá Rúnari þegar hann kemur með Gluggann eftir hádegi. Harmonikka drengene,  Familien Brix eða einhverjir aðrir stórbrotnir listamenn? Þegar ég velti þessu fyrir mér þá er ég ekki frá því að fyrrnefndir harmonikkuleikarar hafi nær einokað geislaspilarann í Súkkunni hjá Rúnari undanfarna mánuði. Það verður spennandi að hlusta á eftir hvort kallinn bryddi upp á einhverri nýjung, hvort hann hafi fundið nýja listamenn til að auðga gleðina í gamla bænum. 
    Og viti menn, detta ekki allar dauðar lýs úr höfði mér. Hér er Rúnar mættur  með
"allra meina bót" eftir Bjarka Árnason í flutningi Bátsmansstríósins frá Siglufirði. Þetta kom virkilega skemmtilega á á óvart og og tengist því líklega að Rúnar er nýbúinn að eiga afmæli. Ég færði þetta í tal við hann og svaraði hann að bragði

Margt er það sem miður fer
og margir ættu að vita.
Einstakur ég alltaf er,
ég segi það og rita.

    En hvað segir Glugginn í dag? Tónleikar verða í kirkjunni á laugardaginn til styrktar orgelinu og leikfélagið verður þá búið að frumsýna leikritið "Á svið" Vísa vikunnar er á sínum stað og fjallar um meyjuna fríðu sem er farin full af blíðu og trega. Við Rúnar veltum því fyrir okkur hvort þetta tengist eitthvað baðinu hjá Siggu og nýsettum lögum um að ekki megi lengur dansa nakin.  En hvað vitum við um það aum karlrembusvínin sem ekkert sjáum nema naflan á okkur sjálfum. En hver er þessi T.S sem yrkir, það vitum við ekki með vissu en það má svo sem giska út í loftið. Við vörpum því svona fyrst í stað út að þetta sé vísa ættuð úr Svartárdal og Torfi sé höfundur hennar.

    En samhengið hangir  yfir okkur eins og hvolpafull tík svo ekki verður undan því komist. Samhengið að þessu sinni hlýtur að vera eitthvað á þessa leið um leið og við rennum niður gómsætri pítsunni frá honum Vigni í ríkinu.

Jónas er þannig úr garði gerður,
grár og fullur af allskonar gátum.
Í Ljóninu fögnuður vegna þess verður
að viðstöddu fjölmenni í gleðilátum.

 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 180
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 180
Gestir í gær: 54
Samtals flettingar: 64274
Samtals gestir: 11433
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 16:09:47