Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

21.04.2010 14:18

Á síðasta vetrardegi

    Hún er undarleg mannskepnan svo ekki sé meira sagt. Núna heyrir maður ekki annað en hve gott sé að hafa norðanáttina  og menn finna varla nægilega falleg orð til að lýsa henni.  Ég man ekki hvort það var í fyrra eða hitteðfyrra þegar fólk bölvaði þessari sömu átt sem fyrr er greint frá. "Helv.... þurrakuldinn ætlar allt að drepa" og mörg fleiri álika orð hafði fólk uppi um hina hrollköldu norðanátt. Þessi sinnaskipti hjá okkur, fávísu mannskepnunni koma fram í fleiri myndum en hvað varðar veðrið. Núna getur maður sagt án þess að allt fari á hvolf  "Ótrúlegt hversu margir Baugfingur eru á einu og sömu hendinni". Svona geta hlutirnir breyst hratt og ræður þar mestu hvaðan vindar blása og hvað fylgir þeim.

    Það sem merkast hefur gerst hér á Vesturbakkanum  þessa síðustu daga er að grágæsin SLN er komin heim frá Skotlandi. Fyrir þá sem ekki vita þá var hún merkt hér á Blönduósi fyrir utan lögreglustöðina í júlí 2000. Hún hefur skilað sér heim á æskustöðvarnar í það minnsta síðast liðin 11 ár. Hún er vorboði, hún er sönnun þess að lífið heldur áfram sama hvað á dynur. Hún er tákn um þolgæði því líklega hefur hún flogið um 22. yfir hafið og heim. Hún hefur að öllum líkindum lifað þrennar sveitastjórnarkosningar, margar skotárásir  og svo mætti lengi telja.


    En í dag er síðasti vetrardagur samkvæmt dagatalinu og hann ber nafn með rentu. Úti er svalt og snjór yfir en veðurstofan lofar okkur að vorið komi um helgina og ekki síðar en á mánudaginn og að það verði horfið aftur á þriðjudaginn.  Það væri því við hæfi að Rúnar kæmi núna á eftir með Gluggann og "Snevalsen" og saman getum við síðan sest inn í horn  hjá mér og lokað vetrinum.

    Eftir að kólnaði þá höfum við hjónin fært þröstunum epli út í garð sem þeir hafa þegið með þökkum. Það er eftirtektarvert að fylgjast með þeim þegar þeir éta eplið.  Maður hefði haldið, eftir að "Skýrslan" kom út þá væru allir svo meðvitaðir um Guðsorð og góða siði, en það er greinilegt að þrestirnir hafa ekkert kynnt sér þau mál. 
    Það fer ekki mikið fyrir kærleikanum og hugtakið að skipta jafnt á milli þekkist ekki í orðabókum þrastana. Þeir eru eins og Mikki refur fyrir siðbót: "Ég ætla að fá allt eplið" og engin afsláttur gefin af því. Þessi hegðun getur komið sér vel fyrir Höskuld nágrannakött minn sem hefur áhuga á fuglum eins og ég. Ekkert veit hann skemmtilegra en sitja um bústinn skógarþröst þó svo hann hafi í sjálfu sér ekki neitt með hann að gera í næringarfræðilegu tilliti. Hann bara veiðir fuglinn af því að hann er þarna og er ekkert að flækja málið neitt frekar. Það virðist vera sama hvort þú sért skógarþröstur, Höskuldur köttur eða Hannes Smára, þú gleypir allt sem er bitastætt og kemur sér vel fyrir þig. Þannig er þetta nú allt saman þegar öllu er á botninn  hvolft.

    Núna birtist Rúnar í Aðalgötunni í sólskinsskapi en með algjöra nýjung undir geislanum í spilaranum á Súkkunni. Ég átti von á Snevalsen eða på gyngende gulv meðArnt Haugen, en nei! Kallinn kom á klassískum nótum og "Lækurinn"  í  flutningi Rökkurkórsins mætti hlákulæknum sem streymdi niður Sýslumannsbrekkuna  í sólbráðinni. Það er sem ég segi, Rúnar er óútreiknanlegur og er það hans helsti styrkleiki ef satt best skal segja.

    Glugginn er sem sagt kominn og þar kennir nokkura grasa . Má þar helst nefna að fermingar verða á Blönduósi um helgina sem og sumarskemmtun sem nemendur í 1. -7. bekk grunnskólans hafa haldið á sumardaginn fyrsta frá því ég man eftir.

    Gummi Línu auglýsir ljósmynda- og ljóðasýningu á hótelinu og hið nýstofnaða fræðasetur Háskóla Íslands á Skagaströnd verður með opið málþing sem nefnist "Ísland í Evrópusambandið?". Á þessu málþingi verða flutt mörg erindi um samskipti Íslands við erlend ríki. Að loknu málþingi verður farið um Skaga vestanverðan og ýmsir staðir skoðaðir. Athygli vekur að að byrjað verður á Árbakka hjá Jakobi Guðmundssyni. Viss er ég um að þar verður töluð íslenska með stóru Í-i og þeir sem eru óákveðnir hvort inn skuli ganga í ESB eður ei taka þarna sína lokaákvörðun.  Þá verður farið í Hof á Skaga en þaðan er sá ágæti maður Jón Árnason sem safnaði saman þjóðsögunum á sínum tíma. Utar verður farið á Skaga og hið stórbrotna Króksbjarg og sögufræga og fallega Kálfhamarsvík verða skoðuð.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og þar fagnar Anna Árnadóttir komu gæsana. "Góðan morgun maddama gæs/ mikið er gaman að sjá þig" segir Anna og bara létt yfir henni.  Það er svo gott að vita til þess að það eru fleiri en ég sem hafa ánægju af komu þeirra. Kunnir Blönduósingar hafa látið þau orð falla að nú væru þær komar " þessir gangandi skítadreifarar". Það má til sanns vegar færa að töluvert skíta þær á göngustíga og jafnvel svo mikið að ástæða væri fyrir bæjaryfirvöld að vara við hálku þegar líður á sumarið. En þær setja svip á bæinn líkt og Blönduóslöggan og svo mætti líka hanna einhverskonar kúst sem hægt væri að fara með um göngustígana endrum og eins. Ég er viss um að Stebbi Páls gæti hannað einn slíkan.

    En nú eins og alltaf þarf að greina kjarnan frá hisminu, finna samhengi hlutanna sem er svo mikilvægt í nútíma samfélagi þar sem upplýsingaflæðið er slíkt að enginn veit hvað snýr upp eða niður nema fuglar himinsins og Höskuldur köttur.

Úti er sólskin en svalt.
Söngfuglum öllum er kalt.
En í sig mun hakka
hann Jakob á Bakka,*
Evrópusambandið allt
*Jakob Guðmundsson Árbakka

    Rúnar ruglaði mig svolítið í ríminu þegar hann bar mér Gluggann áðan í fylgd með Rökkurkórnum. Þetta er töluvert stílbrot og hægir mann töluvert niður þannig að maður fer ósjálfrátt að raula "hjá lygnri móðu" eða eitthvað því um líkt.

Með vorsöng að vopni hann kom hérna  snar
vitlaus,  það sannlega segi.
Nú  skorðaðir erum í sumarsins far,
á síðasta vetrardegi

Við höldum samt að vísan sé betri svona  a.m.k rökfræðilega séð:

Með kórsöng að vopni hann kom hérna snar
kátur,  það sannlega segi
Nú  skorðaðir erum í sumarsins far
á síðasta vetrardegi.

Að þessum vísum loknum hvarf Rúnar út í sólbjartan síðasta vetrardaginn, sprellandi kátur og lék í kveðjuskyni "på gyngende gulv" með Arnt Haugen.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 68625
Samtals gestir: 12464
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 06:03:21