Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

28.04.2010 14:34

Ekki lýgur spegillinn

    Það er svo margt að gerast í náttúrunni þessa dagana. Að rölta meðfram Blöndu og fylgjast með fuglalífinu á ánni er skemmtileg afþreying og maður fær alltaf besta sætið til að fylgjast með á leiksviði lífsins.  Það er hægt að hafa um það mörg orð hvernig fuglarnir helga sér svæði, verja sinn maka nú eða stíga í vænginn. Það er mikil umferð upp og niður ánna og eru straumendurnar þar fremstar í flokki. Það er stórbrotið að sjá til þeirra hvernig þær sleikja vatnsyfirborðið á miklum hraða með hröðum vængjaslætti, ýmist í átt til sjávar eða upp með ánni.  Þegar fer að líða á maímánuð þá er eins og allt líf hverfi af þessu svæði og upp úr 1. júní þá er eins og náttúran verði fyrir sprengingu því þá streyma gæsirnar með unga sína út á ánna og allt fyllist lífi á ný.
 

    En fyrst maður er að ræða um náttúruna á annað borð þá er vert að geta þess að samkvæmt áræðanlegum fréttum frá traustum heimildarmönnum á Brimslóðinni þá er krían komin í Ósinn. En ég segi nú eins og bóndinn sem sá hanann breytast í hænu (sjá síðar í pistli) " Ég trúi þessu nú varla" en ég fer núna fljótlega út úr húsi til að rannsaka þetta mál með eigin augum



    Apríl er mánuður átaka og ásta í lífríki fuglanna jafnframt því að vera mánuður aðalfunda, tónleika og fleira því um líku. Í dýraríkinu er grunninn lagður að en hjá mannfólkinu er skorið upp eftir margslungið vetrarstarf.

    Það hefur mikið verið hamrað á því þessa síðustu mánuði að menn eigi að vera heiðarlegir í allri framkomu og allt skuli vera uppi á náttborðinu. Vissulega er þetta allt saman góðra gjalda  og eftirbreytni vert svo langt sem það nær. En þegar maður sest niður í góðu næði og lætur hugan reika um lendur sannleikans þá verða á vegi manns ýmis álitaefni sem fá mann til að staldra við. Einhverju sinni þegar ég var einn með sjálfum mér að velta lífinu og tilverunni  fyrir mér var mér hugsað til þessara hjóna sem áttu þessi orðaskipti rétt fyrir svefnin.  Atburðarásin er einhvern veginn svona:  Kona á miðjum aldri stendur léttklædd fyrir framan spegilinn í svefnherberginu og dæsir til þess að gera mikið.
Eiginmaður hennar liggur uppi  í rúmi og er að lesa "alltaf sama sagan" eftir Þórarinn Eldjárn.
"-Almáttugur að sjá hvernig ég er orðin" segir hún, "brjóstin komin niður á maga, rassinn ofan í gólf, allt í appelsínuhúð og keppum! Æ Magnús minn segðu eitthvað jákvætt til að hressa mig við."-"Ja, þú ert allavega með góða sjón", segir hann.

    Vesturbakkinn er á sínum stað og vertinn á Ljóninu hefur látið þau boð út ganga að hann muni verða kominn norður þann 1. maí og hefja sumarstarfið að fullu. Ég veit að grágæsirnar eru byrjaðar á fullu í sínu sumarstarfi á Einarsnesinu, stað sem einu sinni var næstum því tjaldsvæði á vegum Ljónsins. Það er óskandi að vel gangi hjá vertinum í sumar og gestir og gangandi geti notið einstakrar náttúrufegurðar annaðhvort úr heita pottinum nú eða bara af pallinum hjá Jónasi vert.

    En núna fer að styttast í það að Rúnar komi með Gluggann til mín og upplýsi mig um helstu málefni líðandi stundar. Og sem ég segi þetta þá birtist hann með þróttmikinn karlakórsöng í farteskinu. "Fagra blóm" hljómaði úr fjölda karlmannsbarka og ef satt skal segja þá hafði Rúnar ekki hugmynd um það hverjir voru þarna að verki. Málið er nefnilega það að hann hefur halað þessum söng niður með einhvejum þeim hætti sem STEF kann lítt að meta og brennt hann á disk hjá sér.

    Við viljum vinna er yfirskrift 1. maí  hátíðarhalda hjá stéttarfélaginu Samstöðu. Þetta hef ég marg oft sagt á laugardögum þegar dregið er í lottóinu og leikjunum sem ég hef tippað á er lokið. En mér og mínum nánustu er farið að verða það ljóst að fyrir okkur á ekki að liggja að auðgast í gegnum happdrættisvélar heimsins heldur verðum við að vinna fyrir okkar. Við þökkum fyrir að hafa vinnuna sem það verkfæri til að komast af og veit ég að það er nákvæmlega þetta sem Samstaða á við í sinni yfirskrift.

    "Vorið góða vaknar brátt/vefur skjólið stráin" segir í vísu vikunnar sem er eins og svo oft áður eftir spurningarmerkið margfræga.  Þessi vísubyrjun kallar fram í huganum eilífðarspurninguna hvort kemur á undan eggið eða hænan.  En förum ekki nánar út í það hér, því ekki rímar spáin á móti skjólið, svo einfallt er það.

    Safnaðarfundir í sveitum héraðsins standa fyrir dyrum og kjörstjórnir eru farnar að auglýsa eftir framboðslistum  til sveitarstjórnarkosninga  sem verða þann 29. maí n.k ef það skildi nú hafa farið fram hjá einhverjum. Það hefur verið reyfað hér á þessum vettvangi að lítið framboð hafi verið á framboðum hér á Blönduósi í vor. Á þessu er orðin veruleg breyting því Samfylkingin hefur auglýst að hún muni leggja fram framboðslista í kvöld í sal Samstöðu.  Kjörorðin að þessu sinni eru : Félagshyggja - jöfnuður  - réttlæti og ef þau standa undir nafni þá þarf nú ekki fleiri lista í framboð.

    Jónas Travel Group á eigin styrk í 25 ár segir vertinn á Ljóninu óhræddur við heiminn og kemur því til skila með auglýsingu í Glugganum og bætir síðan við:  Hlægileg tilboð á barnum. Getur þetta nokkuð orðið skemmtilegra.

    En enginn stöðvar tímans þunga nið og því er mikilvægt að koma reglu á hlutina,  koma þeim í hið gullna samhengi. Samhengið er svo mikilvægt svo maður viti hvert eigi að stefna og hvað maður hefur lært af samtíma sínum. Þessvegna er bæði ljúft og skylt að láta þetta líða út í loftið

Flötinn þrífur þvegillinn,
þekur gólfið dregillinn.
Er þú háttar á kvöldin,
tekur sannleikur völdin,
því ekki lýgur spegillinn.

    Rúnar heyrði í "víðu og breiðu" á Rás1  í gær að refur hefði komist í hænsnabú og drepið þar  allar hænunar. Bóndinn sem átti búið sagði að haninn hefði lifað af og þegar honum hafi verið farið að leiðast þá hafi hann breyst í hænu og farið að verpa og legið á eggjum. Bóndinn sagði að vísu í lokin  " Ég trúi þessu nú varla" en svona er lífið og haninn segir okkur að leggja ekki árar í bát þegar öll sund virðast lokuð og leysa bara málin sjálfur.

Á lífsleiðinni  leynast margar sprænurnar
og ljúfar eru meðvitaðar  rænurnar.
Svo  er það víst vanin
breytist hænu í, haninn
Ef refurinn étur  hænurnar

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 68614
Samtals gestir: 12460
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 05:22:42