Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

05.05.2010 14:27

Strikið í reikningnum

    Þegar litið er til sögunnar þá endurtekur sagan sig alltaf, það er víst segin saga. Þetta segir mér nú bara skógarþrösturinn sem er búinn að koma sér upp hreiðri á gerfihnattardisknum sem hangir utan á hótelinu. Þessi ágæti fugl gerir sér ekki hreiður á þessum stað vegna tryggrar afkomu sinnar heldur vegna þess að staðurinn er svo góður með í varnarlegu tilliti gagnvart náttúrulegum óvinum. Og þegar talað er um náttúrulega óvini þá er átt við ketti, hrafna og því um líkt en þröstur minn góði gleymir alltaf sínum versta óvini í náttúrulegu tilliti en það er vindurinn. Sumar eftir sumar höfum við sem störfum á Aðalgötu 8 horft upp á það að hreiðrið fjúki af stalli sínum og varpið misferst. Við horfum í angist og með tárum á þrastarfjölskylduna fljúga um í algjörri örvæntingu í leit að heimili sínu en án árangurs. En það má segja þessum ágætu þrastarhjónum til hróss að þau jafna sig til þess að gera fljótt og koma upp hreiðri í rennunni á húsinu nr  9 við Aðalgötuna.


    Krían er komin í ósinn og í mínum huga er það stór áfangi í að endurheimta vorið. "Hún var nú komin fyrir viku, ég hefði getað sagt þér það" sagði einn ágætur vinur minn sem ég hitti á röltinu í fyrradag þegar ég sá kríurnar fyrst. "En þú sagðir mér það ekki Mummi minn" sagði ég si svona án þess að meina neitt illt með því og bætti svo við einhverju inn í umræðuna  um að sumir gætu ekki greint í sundur kríu og hettumáv. Þessari umræðu lauk á kærleiksnótunum eins og alltaf þegar við Mummi ræðumst við vegna þess að ég þekki Mumma og Mummi heldur að hann þekki mig. Þetta segir manni bara það hvað það er mikilvægt að þekkja viðfangsefnin í lífinu og takast á við þau í samræmi við það.  Ef maður þekkir þau ekki er mikilvægt að viðurkenna það strax og horfast í augu við vanmátt sinn af æðruleysi og auðmýkt. 

    Ég læt hér fylgja með tvær gæsamyndir sem sýna annarsvegar hvernig þær lenda sínum málum sem og hversu mikla virðingu gæsamamma ber fyrir gæsapabba.




   
     Reyndar er ekki svo langt síðan ég stóð í þeim sporum að vita ekki hvað snéri upp eða niður þegar ég hlustaði á viðtal Svavars Halldórssonar fréttamanns við Má Guðmundsson seðlabankastjóra  í kastljósi um daginn. Í því viðtali breyttist launahækkun í launalækkun og niðurstaða viðtalsins varð sú a.m.k. hjá mér að ég var fjær sannleika málsins auk þess að skilja ekki nokkurn skapaðan hlut sem talað var um. Í kjölfarið kom svo viðtal við Jón Gnarr sem ég skildi ekki betur en viðtalið sem á undan fór. Jóhann Már söngvari frá Keflavík  söng svo yfir heila "klabbinu" í lokin og var að öðrum ólöstuðum hápunktur Kastjóssins þetta ágæta að ég held mánudagskvölds.

    Jónas Skafta er komin heim líkt óg krían og stendur núna vaktina á Ljóninu. Ég hef ekki hitt hann en séð hann úr fjarlægð. Hann er ekkert ósvipaður því eins og hann var í fyrra. Gráleitur eldri maður sem ber sig vel og sýnist klár í kaffið, kleinurnar og einn kaldann. Stefán og Nonni hundur er líka á ferðinni en mér finnst fara minna fyrir þeim en oft áður og getur það skýrst af því að Jón Sigurðsson hundur er orðin eldri og þroskaðri og gengur um dyr gleðinnar af meiri festu og agi er kominn í hans grófustu hreyfingar og raddbönd.

    Það er alltaf eitthvað um að vera á Aðalgötu 2 sem hér áður fyrr meir var kallað Sæmundsenhús. En hvað það er sem þar er að gerast veit ég lítið um. Lengi hefur verið talað um að þar ætti að opna einhverskonar sportbar og gistiaðstöðu en enn hefur ekkert verið upplýst hvenær það verður eða hvort nokkuð verði af því. Þannig er það nú bara.

    "Vegna bilunar í tækjabúnaði er óvíst að Glugginn komi út fyrir helgi. Unnið er að viðgerð og nánari upplýsingar koma síðar."  Þetta voru skilaboðin á huni.is núna í þessum skrifuðum orðum. Skyldi þetta leiða til þess að Rúnar komi ekki í heimsókn í dag. Verður þessi bilun til þess að Aðalgatan missi af hressilegum harmonikkutónum úr Súkkunni hans Rúnars. Skyldi þessi bilun verða til þess að ómögulegt verði að koma auga á samhengi hlutana. Verður þessi miðvikudagur bara miðvikudagur sem líður í aldana skaut eins og allir hinu dagarnir.

    Rúnar hringdi og sagði það sem ég óttaðist mest. "Glugginn er bilaður og ég kem ekki, sjáumst seinna." Þar höfum við það.  Bara svona skýjaður miðvikudagur og ég einn með mínum hugsunum. Enginn polki eða vals, engin vitleysisgangur út í bláinn. Núna heyri ég geltið í Nonna hundi og finn fyrir rakanum í þungbúnu miðvikudagsvorblíðunni. Núna finn ég að þetta er ekki eins og það á að vera.

    Núna veltir maður fyrir sér hverju maður hefur misst af. Ætli Jónas á Ljóninu hafi verið að auglýsa með áhrifaríkum hætti sumaropnun  og vélarnar hjá Hédda og Óla ekki þolað álagið. Nú eða vísa vikunnar verið svo dýrt kveðin að tölvukerfi Gluggans hafi hrunið. Hver veit svona lagað. Kannski hefur E-listinn verið að senda inn framboðslista sem er svo frumlegur að kerfi þeirra Gluggamanna  hafi ekki ráðið við hann. Það er svo margt sem getur sett þetta margfræga strik í reikninginn.



     Þessir ágætu menn sem báðir eru bæjarfulltrúar hvor fyrir sinn lista en samherjar í lífinu gætu hugsanlega verið með listann góða sem hugsanlega hefði átt að birta í Glugganum sem ekki kom út. Hér eru þeir heiðursmenn Jón Aðalsteinn Sæbjörnsson (Alli) og Ágúst Þór Bragason

    Svona getur maður lengi haldið áfram án þess að fá neinn botn í þetta. Kannski hefur Óli bara hlustað á viðtalið við seðlabankastjóra og tapað öllum áttum, það þarf ekki að vera flóknara.
    En lífið heldur áfram með eða án Glugga, með eða án Rúnars, það bara heldur áfram og það sem heldur hlutunum saman er hið gamla og góða samhengi sem að þessu sinni er ekki flóknara en þetta:


Í sál minni  hleypur nú gleðin í  hnút.
Hugurinn fyllist af trega og sút.
Því allt sem ég veit
og ei augunum leit
er í Glugganum góða sem ekki kom út.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 95
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 719
Gestir í gær: 392
Samtals flettingar: 65909
Samtals gestir: 12103
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 03:54:09