Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

12.05.2010 14:48

Hin blátæra kurteisi

    Hvernig skrifar maður þegar rignt hefur alla nóttina, komin suðvestan átt og skin er milli skúra. Loftið er hreint og það sem vakti sérstaka athygli mína þegar ég kom til vinnu í morgun að allar gæsirnar eru nánast horfnar. Líkt og jörðin hafi hreinlega gleypt þær eða þær skolast burt með rigningarvatninu. Nú, maður fer að velta vöngum yfir þessu öllu saman; hvað varð um rigninguna, gæsirnar? Það fer svo sem ekki langur tími í það að hugsa hvað varð um gæsirnar því þær hverfa alltaf á þessum tíma því þær eru byrjaðar að verpa og eru því ekkert á almanna færi. Þetta með rigninguna er snúnara viðfangsefni því hún kemur og fer og er misjafnlega þokkuð og fer það nokkuð eftir því hverra hagsmuna maður hefur að gæta. Mér fannst rigningin góð sem féll síðasta sólarhringin því hún kom áburðinum sem ég bar á blettinn minn og trén, betur  að rótarkerfinu.  Einnig hreinsaði hún loftið og síðast en ekki síst þá þvingaði hún ánamaðkana ofar í jarðveginn og fyrir það eru þrestirnir ákaflega þakklátir.  Það er víst einhvern veginn svona sem maður skrifar þegar rignt hefur alla nóttina. 
    Áður er lengra er haldið er rétt að birta hér mynd af henni Erlu Evensen og Alex. Á myndina vantar Mumma meiriháttar


    
    Það er mikill friður sem ríkir á Vesturbakkanum nú um stundir.  Samt er alltaf eitthvað að gerast á svæðinu.


    Jóhannes á Blöndubyggðinni er byrjaður að slá og held ég að ég geti fullyrt að hann sé fyrstur til að hefja þessa iðju á þessu ári.


    Svenni kirkjueigandi kom hér fyrir skömmu með hundinn sinn til að líta eftir gömlu kirkjunni.


    Erlendur Magnússon vinnur  af til að sinni skúlptúragerð bakatil á Brimslóðinni. Erlendur er ekki svo ólíkur Hrafni Gunnlaugssyni um margt. Til að mynda þá eru lóðamörk engin hindrun fyrir útbreiðslu listarinnar og svo eru skúptúrar ekki hefbundnar höggmyndir heldur eru hugmyndir sumar hverjar sóttar til Skagastrandar í formi samanpressaðs brotajárns. Erlendur fer ekki hefðbundnar leiðir í listsköpun sinni og  teldi ég það ekki vitlausa hugmynd að skella sér niður fyrir húsin á fjörukambinum og skoða herlegheitin. Ég veit að auðnutitlingarnir elska þessi verk og ég hef það á tilfinningunni að fleiri gætu fetað slóð hinna smæstu fugla himinsins.


    Það er í sjálfu sér óþarfi að minnast á Jónas á Ljóninu því hann er kominn og svo sjálfsagður hluti í veruleika Vesturbakkans og jafnvel þó víðar væri leitað. Það er þó eitt sem leitar á huga minn, því enn eru merkingar við þjóðveg nr 1 sem gefa til kynna að á Vesturbakkanum sé að finna tjaldsvæði . Ég veit núna að það er ekki neitt viðurkennt tjaldsvæði að finna á Vesturbakkanum þó svo reka megi niður tjaldhæla "hist og her". Hvað á ég að segja við erlenda ferðmenn sem álpast í gamla bæinn og spyrja um kaffi og tjaldsvæði.  Þetta rifjar upp ársgamla hugleiðingu um þetta  stórmerka mál en þá lenti ég í stökustu vandræðum sem ég leysti á eftirfarandi hátt "You have to cross the river" eða " find the elderly grey man witch could be the grandfather of the Beatles". Það er svo sannarlega úr vöndu að ráða eða eins og "skáldið" sagði á svo undur ljúfan hátt:

Whatever you are, poor or rich,
elderly grey or smiling kids.
Speculation the same old which?
Should I stay or cross the bridge

    Nú er Rúnar mættur með harmonikkutóna í gamla bæinn en svo illa vill til að þeir eru af disk sem hann hefur sjálfur brennt inn á efni og veit ekkert um lögin annað en að þau eru harmonikkulög. Lagið sem hljómaði um gamlabæinn að þessu sinni var eldfjörugur polki, svo fjörugur að þreyttir fætur tóku ósjálfrátt viðbragð og gátu vart sig hamið.

    Hvað segir Glugginn í dag, það er hin stóra spurning?  Framboðslistarnir sem ætla að bjóða fram hér í sýslu eru farnir að kynna sig. Það er skemmtileg tilviljun að Glugginn er þannig uppsettur að auglýsingar frá meindýraeyðum eru aldrei víðsfjarri. Hjalti meindýraeyðir er á bakinu á framboðslistum í Húnavatnshreppi en Árni meindýraeyðir er andspænis L- listanum á Blönduósi.

    Það vekur athygli okkar Rúnars að Hjalti spyr í auglýsingu sinni hvort allir vilji ekki eiga flugulaust sumar. Við félagarnir erum nokkuð vissir um að mættu fuglarnir og blómin mæla þá tækju þau ekki undir þessa spurningu Hjalta og myndu hiklaust svara neitandi.

    Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og er ekki sökum að spyrja, handbragðið er snoturt.  Málin leysast af sjálfu sér með því að gera ekki nokkurn skapaðan hlut því  með því móti deyja sjúklinarnir og engann þarf að lækna.

    Samhengi hlutana er eins og allir vita afar mikilvægt. Og við Rúnar erum einstaklega næmir á það. Þess vegna fær þetta sem á eftir fylgir að líða áreynslulaust út í ómælt djúp netsins. Reyndar kom Jónas, vertinn á Ljóninu inn í horn til okkar meðan á pistlaskrifum stóð og reyndi að hafa áhrif á gerðir okkar og hafði meira að segja í frammi þessa vísu:

"Seinna ég skáldabekkinn kannski vermi,
en þangað til fer með hægð.
Baða mig síðan í frægðarljóssins skermi
og öðlast allt í einu heimsfrægð."

    Og lét þau orð falla að ólíkir værum við Magnúsi frá Sveinsstöðum, því hann gerði alltaf athugasemdir við bragfræði sína.  Ekki hvarflar að okkur Rúnari að gera neitt slíkt enda eru menn frjálsir og óháðir í andanum og mikið talað um það þessa dagana " að hugsa út fyrir rammann" . Því segjum við  einfaldlega þetta:

Hann kom hérna og reyndi að beita okkur brögðum.
Af blátærri kurteisi báðir við sögðum.
"Þú mátt yrkja að vild
og telja það snilld"
Að þessu loknu báðir við þögðum.

PS. Það munaði engu að limran hefði endað "Að þessu loknu á flótta við lögðum"

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 700
Gestir í dag: 380
Flettingar í gær: 107
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 65795
Samtals gestir: 12044
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 21:37:48