Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

26.05.2010 14:05

"Léttblúsaður vorfílingur"

    Ég nenni ekki að skrifa mjög langan pistil í dag. Ég er hreinlega ekki í stuði til þess. Jónas Skafta sagði að síðasti pistill hafi verið  heldur leiðinlegur en þegar ég las hann upphátt fyrir hann og skýrði með nokkrum hnitmiðuðum orðum var eins og blessuð skepnan skildi. Það er eingöngu fyrir þessa þrautseigju mína að ég renni fingrum yfir lyklaborðið og kem einhverju frá mér í dag.

    Það er rétt að skella hér inn einni sólarlagsmynd svo hin rétta stemning komist til skila í pistlinum. Sólarlagsstemningin þegar sólin hnígur til viðar að loknu dagsverki. Húmið og kyrrðin leggst yfir og friður sest að í sálinni. Þetta er sólarlagsblús. Ég er viss um það að ef "Harmonikadrengene" semja einhvern tíma lag um þessa mynd þá komi það til með að heita "solen går ned og fuglene flyver í flok"

 

    Það á að kjósa fólk á laugardaginn til að stjórna sveitarfélögunum næstu fjögur árin. Það sem að mér snýr þá hefur bara gengið þokkalega  að stýra okkar samfélagi síðastliðin fjögur ár. Auðvitað má tína eitthvað til en svona  heilt yfir þá held ég að hlutirnir séu í lagi nema umferðarmerkingar á Hnjúkabyggðinni, Sýslumannsbrekkan og skópörin tvö sem hanga á rafmagnslínu yfir Blöndubyggðina. Ég gæti svo sem haldið eitthvað áfram en ég nenni bara ekki að vera leiðinlegur því það hefur sannast að það er betra að vera skemmtilegur en leiðinlegur ætli maður sér að ná eitthvað út úr lífinu. En það væri nú déskoti flott ef núverandi bæjarstjórn léti það verða sitt síðasta verk að fjarlægja skópörin af rafmagnslínunni sem áður er getið og leggja skóna á hilluna. 

    Það er hestur á beit inni á einni lóðinni hér á bakkanum en ég bara má ekki segja frá því eða réttara sagt ég hef lofað að segja ekkert frá því.

    Jónas tók á móti hópi fuglaskoðunarmanna fyrir nokkrum dögum sem voru himimlifandi yfir því að sjá straumöndina á Blöndu. Jónas á von á fleiri áhugamönnum um fugla áður en mjög langt um líður.  Ívar Snorra hef ég bara séð tilsýndar, ekkert við hann talað, einungis veifað honum. Jóhannes og Sigrún eru búinn að slá lóðina á Blöndubyggð 6b aðminnsta kosti tvisvar og svona mætti lengi telja. Eftir að ég skrifaði þetta þá hitti ég Ívar Snorra með varðhundinn sinn og tjáði hann mér að hann ætli ekkert í útgerð að sinni en að öðru leiti væri hann bara hress.

    Rúnar er kominn með Gluggann og "nikkunar óm" en það eru lög eftir Bjarna Halldór Bjarnason. Það var ómþýður vals sem Tatu Kantomaa lék og ber nafnið við fjörðinn. Það eru rólegheit yfir þessari komu sem mér finnst bara gott því eins og fram hefur komið og á eftir að koma fram þá kann ég vel að meta umhverfi sem áreitir sem minnst.

    Glugginn er kominn með þeim einkennum  sem einkenna Glugga á svona tímum en það eru væntanlegar kosningar. Það sem vekur mesta athygli í þessu sambandi  er að það verður KOSTNINGAVAKA í félagsheimilinu á laugardagskvöldið.  Ekki er að efa að hér er um stórmerkan atburð að ræða. Þarna hljóta þeir sem farið hafa á kostum í vetur og vor, svokallaðir kostningar  hafðir til sýnis og vakað yfir hverri þeirra hreifingu. Þær geta verið hreint kostulegar þessar kostningavökur og ætti engin maður að láta þær framhjá sér fara. En E-Listinn í Húnavatnshreppi ætlar hinsvegar að vera með kosningavöku í Húnaveri á sama tíma þannig að það verður ekki á allt kosið á þessum kostulega  kjördegi.

    Vísa vikunnar er eftir Rúnar skáld á Skagaströnd og dregur þar upp mjög skýra mynd af því pólitíska samfélagi sem hann lifir í

Kosið er í kringum okkur,

kröfugerðin rík.

En hér er auðvitað enginn flokkur

og engin pólitík !!

Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð.

    Samhengi hlutanna er stundum svo kostulegt en kvefpest, nefstíflur og annað  smálegt hefur truflað mig nokkuð að undanförnu og fara þeir sem næstir eru mér ekki varhluta af því. Ég er stuttur í spuna og á margan hátt ólíkur sjálfum mér og langt í frá að vera kostulegur en mér finnst ég eiga fárra kosta völ í bágindum mínum og bið menn sjá aumur á mér meðan þetta gengur yfir.

Særindi í hálsinum  stöðug nú hef.
Slen, hósta og hæsi og heilmikið kvef.
Í hendinni bólga
í iðrunum  ólga,
á nóttinni lítið sem ekkert ég sef.

    Rúnari þótti miður að gengi I-listans sem settur var saman hér á þessari síðu skildi ekki fá meira brautargengi í kosningabaráttunni og ortum við í sameiningu kveðju- , saknaðar og sorgarljóð um þetta framboð sem átti skilið að ná flugi en gerði það bara ekki. Hér kemur þessi lokahnykkur  frá okkur í blússtíl eins og þessi pistill allur er. Rúnar heldur að þið farið öll að gráta.

Margt er það sem miður fer
og mætti fara betur.
I - listann hér engin sér
því engin listann metur.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 155
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 107
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 65250
Samtals gestir: 11774
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 16:21:16