Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

01.12.2010 09:52

Ákaft og stöðugt lífið fram streymir

    Fullveldisdagurinn er í dag hafi það farið fram hjá einhverjum. Vonandi auðnast okkur að fagna honum um ókomin ár. Ég veit það líka að Guðbjartur Guðmundsson fyrrverandi ráðunautur, frú Þórhildur Ísberg og Júlíus Árni í Meðalheimi eiga afmæli í dag og fá þau árnaðaróskir frá mér. 
    Í mínum huga hefur þessi dagur lengi verið afar sérstakur og þá vegna fæðingar nýs bragarháttar sem kenndur er við Stóru - Giljá.  Ég þori ekki að nefna árið nákvæmlega en það eru um 30 ár síðan þessi landsfræga vísa var flutt á árshátíð hjá Lionsklúbbi Blönduós sem haldin var á Hótelinu einmitt þennan dag. Það vill þannig til eins og framan er skráð að Guðbjartur og frú Þórhildur Ísberg sýslumannsfrú eiga afmæli 1. desember og Erlendur G. Eysteinsson flutti þeim ljóð í tilefni dagsins á áðunefndri hátíð Lions. Þessi vísa er til í tveimur útgáfum og þori ég ekki að fara með það hvor þeirra er sú upprunalega en báðar útgáfurnar eru tær snilld og líkast til hefur það verið á þessari stundu sem ég gerði mér grein fyrir því að kveðskapur væri ekki fyrir fáa útvalda heldur væri sauðsvörtum almúganum nú tryggður frjáls og óheftur aðgangur að þessu tjáningarformi.

Vísurnar eru svona:

Afmæli eiga bæði tvö,
varla nokkur trúir þessu.
Guðbjartur er sjötíu og sjö
og sýslumannsfrúin eitthvað undir þessu.

Hin útgáfan er þessu lík:

Afmæli eiga bæði tvö,
það er framar öllum vonum.
Guðbjartur er sjötíu og sjö
en sýslumannsfrúin eitthvað undir honum.

    Tveir menn á Vesturbakkanum þeir Jónas Skafta og Ívar Snorri tjáðu mér áðan að þeir væru í hjarta sínu lukkulegir með Fullveldisdaginn en stæðu engu að síður í fullveldisbaráttu fyrir sig sjálfa. Jónas fær ekki fullveldi yfir sínum veitingarekstri og Ívar fær ekki fullveldi yfir  nýsmíðuðu "bíslagi" við heimili sitt. Höfuðandstæðingurinn hjá Jónasi eru bæjaryfirvöld og sýslumaðurinn en bæjaryfirvöld eru eini andstæðingur Ívars Snorra. Grun hef ég um það að hægt sé að leysa mál þessi ef þau verða tekin kærleiksríkum tökum og umvafin ást og kærleika og blandað saman við opin og jákvæðan huga. Það væri kannski reynandi fyrir þá að koma þessum baráttumálum sínum til Þorvaldar Gylfasonar og fá inni fyrir þau í stjórnarskránni.
    Óskar í Meðalheimi leit hér inn og lagði fyrir mig einfalda spurningu sem ég svaraði á einfaldan hátt. Síðan spurði ég hann einfaldlega hvort hann hefði ekki handa mér vísu því meðhjálpari minn hann Rúnar Gluggaútburður hefði einfaldlega skilið Gluggann eftir á hurðarhúninum hjá mér á Aðalgötunni án þess láta nokkurn mann vita eða  gera grein fyrir fjarveru sinni. Með þessu háttarlagi Rúnars hefði hann skilið mig eftir einan og umkomulausan í algjöru tómarúmi. Enginn vals eða polki frá Familien Brix eða Arnt Haugen kæmi til með að líða út í Fullveldisdaginn. Óskar svaraði þessari beiðni minni á einfaldan hátt: "Nei"
    
    En Glugginn er kominn út. Þar má sjá auglýsingu frá Halla á Grund þar sem hann auglýsir til sölu 6 fengnar kvígur. Alveg er ég viss um það að einhver grunlaus ungur maður hugsar með sér. Hvar eru þessar kvígur fengnar, eru þær illa fengnar? Eða eitthvað í þessum dúr en það skal upplýst fyrir þá sem ekki vita að fengnar kvígur eru kvígur sem hafa fengið það og eru með fangi (sem sagt kálfur kominn í kusu).
    Kveikt verður á jólatrénu sem vinir okkar í Moss gefa okkur. Nú líkt og í fyrra er norska tréð úr Gunnfríðarstaðaskógi og er afar líklegt að Páll Ingþór konungur skóganna hafi farið með stutta kveðju áður en tréð var fellt og fellt síðan nokkur tár í leiðinni.

    Að þessu sinni og kemur ekki á óvart er vísa vikunnar eftir Rúnar stórskáld á Skagaströnd og fjallar um kerfis narra og Gnarrinn og telur líklegt að hann sé ekki einn um að vita lítið í sinn haus.
    En nú er mál að linni og komið að samhengi hlutanna sem ég einn og yfirgefinn þarf að koma auga á.

Ekki ég öfunda þann sem mér gleymir
eigi kom Rúnar á hugmyndafund.
En ákaft og stöðugt lífið fram streymir
því sex eru fengnar kvígur frá Grund.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 28
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 246
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 64686
Samtals gestir: 11487
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 04:31:59