Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

05.01.2011 10:47

Örlagadagur í lok litlu jóla

    Á morgun renna litlu jólin sitt skeið á enda. Ekki það að þau hafi verið neitt minni í hátíðleika eða gleði en önnur jól, heldur vegna þess að það voru svo margir virkir dagar sem fóru til spillis í vinnu.  Hjálmar Freysteinsson orðar þetta skemmtilega í Morgunblaðinu í dag:

Bensín og brennivín hækkar,
í buddunni stöðugt lækkar,
samt er það verst
sem hefur gerst
að frídögum stórlega fækkar.

Svo ég vitni svolítið meira í Moggann þá er ekki úr vegi áður en lengra er haldið að renna yfir stjörnuspánna mína fyrir daginn:
Vatnsberi Þú ert í vafa með áframhaldið, áttu að stökkva eða hrökkva? Settu vandamálið
bak við eyrað í nokkra daga og svarið kemur. Ég er með tvö, þrjú mál sem ég er í vafa um hvernig eigi að höndla en mitt mottó hefur nú oft verið að hika sé það sama og að tapa. En þar sem Mogginn lýgur ekki þá ætla ég aðeins að doka við.

   
     "Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla, kunningjar og velunnarar sérstaklega, Blönduóssbær og sýslumannsembættið. Ljón Norðursins, Blönduból og Jónas Travel group. Á eigin styrk" Svona hljómar ein nýjárskveðja í Glugganum í dag. Fyrir mig sem tíðindamann af Vesturbakkanum þá er þessi auglýsing gleðifrétt því ósjaldan hef ég greint frá núningi milli Ljónsins og embættanna tveggja sem hafa aðsetur á Hnjúkabyggð 33. Af framansögðu má greina að mér leiðast leiðindi. Rétt er að greina frá því að Jónas sjálfur greindi mér frá því á mánudaginn að Blönduósbær og sýslumaður væru á hröðu undanhaldi í málum sem varða hann og það sæist brátt fyrir endann á stóra leyfisveitingamálinu.
    Það var einhver vís maður hér í bæ sem lét þau orð falla fyrir jól að dagurinn í dag yrði mikil örlagadagur fyrir Blönduós. Ekki var ljóst í hverju þetta lá en 5. janúar 2011 verður dagurinn sem skiptir sköpum fyrir fyrir okkar litla og notalega samfélag. Samfélag sem hefur upp á allt að bjóða sem velgerður bæjarbúi hefur þörf fyrir. Nú verður spennandi að sjá hvað gerist eða verður tekin ákvörðun um varðandi bæinn okkar. Margir hafa látið sér detta í hug að ákvörðun verði tekin um gagnaver. Auðvitað er margt sem kemur til greina en eitt er víst að eitthvað gerist en það er bara óljóst hvað það er. Kannski verður gefið út leyfisbréf fyrir rekstur á Ljóni norðursins.
    Þegar þessi orð eru skrifuð þá rennur jafnframt upp bjartur og kaldur dagur og bíllinn minn er í smurningu uppi í Kjalfelli. Eftir að hafa rætt við einn af starfsmönnum Kjalfells sem ók mér til vinnu frá verkstæði, um bensínverðið og að sólin hækkaði stöðugt á himni fór ég að skoða Gluggann á netinu. Ég var fljótur að átta mig á því að vísa vikunnar var einkar vel gerð og svo merkilega sönn.

Í lífinu býrðu við súrt og við sætt
því samblandi af slíku er alls staðar mætt.
Og alltaf er ljóst að við ýmsu er hætt
en ef þú ert tryggður þá færðu það bætt !

    Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd hittir þarna naglann á höfuðið eins og svo oft áður og gaman að segja frá því að lokaorð vísunnar eru einmitt einkennisorð þessarar síðu.
    Ég get vart með orðum lýst hvað ég varð óumræðilega glaður í sálinni þegar ég sá auglýsingu frá kvenfélaginu Vöku á Blönduósi að þorrblótið yrði 22. janúar. Það er nefnilega alltaf það fyrsta sem ég geri þegar jólin eru búinn að ég fer að hlakka til þorrans og matarins sem honum fylgir. Það er eitthvað svo viðeigandi að byrja þessa gleði í Félagsheimilinu á Blönduósi með vinum og kunningjum. Það fer um mig sæluhrollur bara við að skrifa þetta.
Eitthvað er það sem tefur vin minn og andlega framlengingu, Magnús Rúnar Agnarsson. Hann er vanur að vera kominn um þetta leiti með Gluggann í prentuðu formi. Það vantar einhvern polka eða vals inn í þennan fyrsta miðvikudag ársins 2011. Inn í daginn sem á að verða svo örlagaríkur fyrir samfélagið. Kannski situr hann heima á óðali sínu og hlustar einn og sjálfum sér nægur á hinn óútreiknanlega örlagvals. Hver veit? Ekki ég.
En ég veit að æðarfuglinn, ein og ein brimdúfa ásamt nokkrum skörfum og einmana mávum synda í sjónum við botn Húnafjarðar innan um klakahröngl úr Blöndu. Og ég veit líka að um tíu gæsir hafa ekki nennt til Bretlandseyja í haust og halda sig á túninu fyrir neðan Brautarholt. 
En núna þegar klukkan er rétt að renna í tvö kemur karlinn Rúnar og með þennan líka fína polka eftir Bjarna Halldór Bjarnason. Þið vitið ekki hvað það er gott að hafa góðan polka í sálarfarteskinu. Vals er líka góður og skottís stendur alltaf fyrir sínu. En Rúnar er mættur og það er aðalatriðið og þá er ekkert annað eftir en að finna samhengið í þessu öllu og það munum við finna. Þetta gæti verið tilraun til þess.

Nú stundin er komin sem kveðinn skal bragur 
á kalsömum degi sem hreinn er og fagur.
En frægt er með daga
þeim fylgir oft saga
og því verður þess´einnig örlagadagur.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 54
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65042
Samtals gestir: 11630
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 10:48:12