Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

10.08.2011 16:29

Í dag var góður dagur

    "Sólin hún skín inn um gluggann til mín, aðeins nóttin fær slökkt þetta ljós" var ort á sínum tíma og eru orð að sönnu. Sólin skín sem aldrei fyrr inn um gluggann til mín og lítur út fyrir að hún muni gera það eitthvað fram eftir degi. "Hafið er skínandi bjart" eins og Jónas sagði forðum og er langt síðan ég hef séð Húnaflóann svona rólyndan að sjá. Það sem að framan er ritað er allt til þess fallið að slaka á líkt og Halldóra Björnsdóttir er að reyna að fá landsmenn til að gera í morgunleikfiminni í útvarpinu. "Fyllum lungun, lítum upp, drögum herðablöðin saman, höldum stöðunni og slökum á". Þetta er á við góða sólskinsstund í lognblíðu veðri. Halldóra er góður heimilisvinur landsmanna og hefur slakað mörgu stressbúnti niður í erli dagsins.


        

    Ég rölti niður í ós í morgun svona til að horfa og hlusta á náttútuna. Það var nokkuð hávaðasamt og töluðu kríurnar allar í einu. Margar kríur sá ég með síli í goggi færandi ungum sínum. Innan um kríurnar vöppuðu hettumávar svona eins og þingmenn á meðal kjósenda en tilgangurinn var sá að góma síli sem kríuungarnir misstu. Margar fullorðnu kríurnar voru greinilega á varðbergi og margoft sá ég þá gömlu grípa sílið sem unginn missti og fljúa upp og gera aðra tilraun til fóðrunar.

    Lífið hér á Vesturbakkanum er afar friðsælt. Þó virðist sem Stefán og Jón Sigurðsson hundur á hæðinni fyrir ofan mig séu að flytja eftir ekki svo langan tíma og nýjir íbúar komi í þeirra stað. Ég hef sagt það fyrr og get sagt það enn að þegar þessir tveir sem við köllum feðga, hverfa úr umhverfi okkar verður til tómarúm sem verður vandfyllt.

    Jónas á Ljóninu hef ég lítið séð eða heyrt og Ívari Snorra bregður vart fyrir. Jonni flugkapteinn virðist vera farinn suður á bóginn og kirkjueigendurnir Atli og Sveinn hafa lítið sem ekkert sést.

    Það eru alltaf einhverjir gestir á hótelinu og Kiljan er á sínum stað það best ég veit en lífið hér á Vesturbakkanum er lágstemmt í allri sinni hátign og það er bara gott.


Heyskapur á engjunum milli Hjallalands og Hnjúks. Vatnsdalshólar í baksýn og efst í vinstra horninu sést í Þórdísarlund en þar fyrir ofan kúrir Flóðvangur þar sem Noregskongur dvelur um þessar mundir   
  
    Ég skrapp í Vatnsdalinn eftir hádegið svona til að sjá hvernig liði heyskap hjá bændum. Það var mikið um að vera hjá bændum á Hnjúki og Hjallalandi því verið var að ljúka við að rúlla heyi á engjunum og var landið þakið heyrúllum svona líkt og ef maður lítur yfir æfingasvæði á golfvelli.

    Ég sá líka þegar ég ók fram hjá veiðihúsinu í Flóðvangi að norski báninn blakti við hún og er það ekki að ástæðulausu því norski kóngurinn er víst að veiða í Vatnsdalsá. Kóngsi kom um leið og Clapton fór. Það er og hefur verið erfitt að fóta sig í sýslunni fyrir höfðingjum og er það vel.
    En dagurinn í dag hefur verið góður og fer í sögubækur þessa sumar fyrir hvað norðaustan áttin fór hægt yfir.

Í dag var góður dagur
dagur sem nærði sál.
Á mann´ er allt annar bragur
en það er víst allt annað mál

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 45
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65033
Samtals gestir: 11623
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 08:45:53