Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

17.08.2011 10:26

Jón Sigurðsson er fluttur suður

     "Langtidsvarsel (langtímaspá) for Blönduós" er svona og svona; gæti verið betri en hún gæti líka verið verri. Ástæðan fyrir því að maður byrjar þessi skrif á norsku eru einfaldlega sú að hér er vitnað í norskan vefurvef sem sér svo miklu lengra fram í tíman en vefur veðurstofu Íslands og maður er ekkert sérstaklega ánægður með spánna. Hvað hefur maður ekki oft staðið sig að því að bölva þessum veðurspám í sumar og komið hefur fyrir að maður hefur sagt si svona  "Þetta vissi ég, það er ekkert að marka þessar veðurspár" þegar veður hefur orðið betra en spáð var og það er einmitt það sem blundar í vonarhorni sálarinnar. Þetta var skrifað í gær þegar leiðinda haustblær var á veðrinu en í dag skín sól og lognið er allt um liggjandi. En  langtidsvarsel for Blönduos er góð næstu daga en svo á aftur að kólna og fara að rigna. Langtidsvarsel fyrir Torremolinos er töluvert frábrugðin og þangað hef ég ákveðið að fara á laugardag og koma aftur heim um mánaðarmótin.


    Rakst á þessa hjólreiðakappa skammt vestan við Blönduós á leið austur um

          Sá atburður hefur gerst hér á Vesturbakkanum að þeir "feðgar" Stefán Hermannson og Jón Sigurðsson (Nonni) hundur eru fluttir suður til Reykjavíkur. Þeir fóru fyrir helgi en síðustu nóttina hér norðan heiða dvöldu þeir í tjaldi á lóðinni í blíðskapar veðri.  Eins og ég hef áður sagt á þessum vettvangi þá er sjónarsviptir af þessum einstöku einstaklingum. Þeir settu svip sinn á samfélagið, Þeir voru sérstök blóm í samfélagsflórunni eða kannski væri réttara að segja að þeir hafi verið ákveðinn tónn í spilverki samfélagsins. Einu gildir, en brotthvarf  þeirra rýrir heildarverkið og ég sé eftir þeim. Söknuðurinn er ekki harmþrunginn heldur er mannlífið fátækara í mínum huga eins og áður hefur komið fram. Við getum ekki lengur rætt um ferðalög þeirra feðga á milli bæjarhluta yfir Blöndubrú. Við verðum ekki lengur vitni að því þegar Nonni hundur dregur Stefán fyrirvarlaust inn í runna eða fellir félaga sinn með því að hlaupa nokkra hringi í kring um hann og vefja taumnum  um fætur hans. Ég heyri ekki lengur geltið í Nonna á morgnanna, gelt sem ég var löngu hættur að heyra. Núna heyri ég bara þögnina á hæðinni fyrir ofan sem mér finnst ágæt út af fyrir sig en ég sakna hljóðana úr Nonna sem ég heyrði ekki. Ég sakna þess að hafa misst persónur sem marg oft hafa komið fram í skrifum mínum. Ég segi bara: Stefán og Nonni hundur, farnist ykkur vel í höfuðborginni.

         "Blönduósingar eru hættir að koma í kaffi til mín nema örfáir" sagði Jónas á Ljóninu við mig í óspurðum fréttum og taldi upp hverjir það væru. "Hvernig stendur á því " sagði ég si svona. Ég fékk ýmsar skýringar en grunntónninn í þeim fannst mér vera að Jónas er ósáttur við yfirvöld bæjarins og að hann fengi ekki sanngjarna og eðlilega meðhöndlun varðandi sín mál. Þó Jónas hefði sitt lítið af hverju á hornum sínum var hann til þess að gera kátur og stutt í hans dillandi hlátur.  En það eru ekki bara bæjaryfirvöld og sýslumaður sem hann lítur hornauga heldur hefur hann skoðanir á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og finnur því flest til foráttu. Hann á sér nokkra skoðunarbræður í því máli þó svo ég sé ekki alltaf sammála honum; kannski væri réttara að segja: eiginlega aldrei.

          Oh what a beautiful morning,
          Oh what a beautiful day,
          I've got a wonderful feeling,
         Everything's going my way

          Þessar ljóðlínur úr söngleiknum Oklahoma komu upp í huga minn þegar ég var á leið til vinnu í morgun þannig að ég náði ekki hægri beygjunni á hrintorginu og hélt fram í Vatnsdal.  Það hafði snjóað í efstu fjallatinda í Víðidals-, Vatnsdals- og Svínadalsfjöllum en norðurfjöllin voru snjólaus.

Bjarnastaðir og Másstaðir hvíla undir Vatnsdalsfjallinu í morgunkyrrðinni. Fjallatoppurinn lengst til hægri er Jörundarfellið komið með hvíta húfu.


Bærinn Hnausar með Vatnsdalshóla og Víðidalsfjall í baksýn með hvítan koll

Mynd úr Þórdísarlundi í Vatnsdal

          Rúnar kom með fyrsta Glugga eftir sumarfrí og déskoti var hann rýr í roðinu, þ.e. Glugginn. Rúnari fylgdu líkt og venjulega eldfjörugir harmonikkutónar sem að þessu sinni komu frá Strákabandinu. Það var asi á Rúnari og gaf hann sér lítin tíma til að ræða málin og má segja að viðvera Rúnars hjá mér hafi verið í Gluggalíki þ.e.a.s. snubbótt en innihaldsrík. Rúnar kom og Rúnar fór og hér sit ég einn og þarf að höndla framhaldið einn og yfirgefinn.         
          Glugginn er sem sagt kominn út að nýju eftir sumarfrí. Þar ber að líta nokkrar auglýsingar sem greina okkur frá því sem er á döfinni. Skólinn er að byrja og sumarið ekki búið. Ég er einn af þeim sem skil ekki hvers vegna börnin eru kölluð inn í skólastofur meðan enn nýtur sumars og sólar en líkast til er ég gamall og fúinn í hugsun.
          Annað mætti nefna eins og væntanlega ferð eldri borgara hringinn í kring um Tröllaskaga og þá dapurlegu staðreynd að ekki er hægt að reka bakarí á Blönduósi en Domus gengið er á sínum stað.
          Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Rúnar á Skagaströnd og er í dýrari kantinum og er eitthvað á þessa leið í styttri útgáfu: Bakka, skakka, þakkar rakka.
          En samhengið stórbrotna sem sumir eiga erfitt með að koma auga á er ætíð til staðar og einungis til þess fallið að höndla það.

          Stanslaust gerast stórmerki og undur,
          sambönd myndast eða slitna í sundur.
          Vinir svarnir
          eru farnir
          Stefán Hermanns og Nonni hundur.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 36
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65024
Samtals gestir: 11618
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 07:53:20