Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

28.09.2011 15:23

Um hvað snýst málið

     Mannskepnan er merkilegt fyrirbrigði hafi það farið fram hjá einhverjum. Við erum  veður- og árstíðatengd dýrategund sem hefur komið sér upp mynstri sem stuðlar að því að komast af gegn um árstíðirnar að minnsta kosti andlega á þessu landi ljóss og myrkurs, landi andstæðnanna í öllu tilliti. Þegar maður er búinn að þreyja þorrann og góuna þá er vorið á næstu grösum og við bíðum og bíðum eftir því og loksins þegar það kemur eftir dúk og disk er það allt í einu farið, sumarið staldrar aðeins við og haustið svo mætt á svæðið. Það má þó segja um haustið að það hefur undangengin ár verið til friðs og gefið okkur marga góða daga og morguninn í morgun lofar virkilega góðu. Í mínum huga byggist öll okkar árstíðatengda hegðun að því að gera veturinn sem allra stystan. Við sleppum seint hendinni af haustinu og erum snemma farin að fagna vorinu.

  Dreif mig út til að taka mynd af haustlitunum í Kvenfélagsgarðinum áður en rokið sem spáð er feykir burt öllum haustlaufunum 

     Þegar ég fór til vinnu í morgun heilsuðu mér tugir auðnutittlinga sem leituðu sér í morgunsólinni að fæðu í birkitrjánum í garðinum. Um þetta er svo sem ekkert fleira að segja annað en það að þessir litlu fuglar eru fallegir, kvikir og ótrúlega þrautseigir og gott að hafa þá í nágenni við sig. Það er gott að staldra við og horfa á þá fljúga með ánægjutísti á milli trjágreina og tína upp í sig birkifræin. Hjá þeim er mikið að gera án þess að það virki þreytandi á mann, hópurinn heldur saman þó hver sé sjálfum sér næstur. Þegar ég hugsa um þessa fallegu þrautseigu fugla sem láta sig hafa það að þrauka af veturinn með okkur hinum dettur mér í hug vísa sem vinur minn Hafþór Örn sendi mér í febrúar árið 2009:

Kominn er Jón í klára stuð
klókur styrkir varnir.
Á hann líta eins og guð
auðnutittlingarnir.

Ég kýs að túlka seinni part vísu þannig að auðnutittlingar og Guð líta til með mér og fyrir það er ég þakklátur.

     Jónas Skaftason sem rekur Ljón norðursins er búinn að bæta umboðsmanni Alþingis á lista yfir þá sem ekkert skilja í honum. Eins og kannski sumir vita þá hefur Jónas átt í stappi við bæjaryfirvöld og sýslumann um rekstrarleyfi fyrir kaffihúsi og sendi Jónas í sumar eða vor, umboðmanni kvörtun vegna þessara mála. Þrátt fyrir miklar annir og sumarfrí þá gaf umboðsmaður sér tíma til að líta á mál Jónasar og sagði m.a. þetta (ef það er rétt eftir honum haft) í bréfi til bæjarráðs Blönduóss: Umkvörtunarefnið er ekki nægjanlega tilgreint og ekki stutt nægjanlegum gögnum til að vera tækt til umfjöllunar af hálfu Umboðsmanns Alþingis.

     Hvað gera menn nú er spurning sem enn er ósvarað en hvað sem öðru líður þá hefur Jónas veitingaleyfi (það segir hann) og getur gert það sem honum sýnist innan ramma laganna. Ég segi nú eins og umboðsmaður Alþingis  "um hvað snýst málið".


Kunnir kappar þeir Kristján Kristófers, Guðmundur frá Finnstungu og Bjarni Páls fjarlægja feyskinn ljósastaurinn hennar Siggu Gríms.  Sigga var ekki skilin eftir í myrkri því hún fékk nýjan úr varanlegra efni

     Glugginn er kominn og hann hékk á hurðahúninum eins og hjálparvana köttur uppi í tré. Engin Rúnar, engir harmonikkutónar en ég heyrði í Atlantshafinu sem gældi við fjöruna við botn Húnafjarðar.  Ég sá Magga málara og vinnumann hans hanga utan á Þorsteinshúsi með málningarpensla og ég sá Magnús fasteignamiðlara með  mynadvél á lofti í og við Aðalgötu 8, greinilega í "söluferlisundirbúningsferð". En ég sá ekki Rúnar og það þótti mér verra því þessi jafnaldri Davíðs Oddssonar var víðs fjarri og ég veit ekki hvar.

     En Glugginn er kominn og í honum helstu tíðindi sem við hér þurfum að vita. Rétt er að árétta að Sölufélagið minnir fólk á slátursöluna. Það verður seint of brýnt fyrir fólki að taka slátur og leggja til heimilisins ódýran og hollan mat.

     Bebbý á vísu vikunnar og er í henni hreinræktuð hauststemning og maður finnur keiminn af neftóbaki og vasapelainnihaldi blandast saman við haustlitina.

     Samhengið situr um mig nú sem endranær og undan því verður ekki komist. Það er að sjálfsögðu um hina endalausu sögu "Barátta alþýðumanns  á bakka Blöndu"  sögu sem margir eru búnir að tapa þræðinum í og er álíka spennandi og Leitandinn á RÚV.

 

Þótt í ausuna komið sé kálið

og karlmenni brýni hvasst stálið.

Þá er Jónas í þrasi

og eintómu brasi,

en um hvað, það snýst heila málið.

 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 62
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 211
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 64367
Samtals gestir: 11456
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 20:29:55