Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

26.10.2011 14:33

Öðruvísi mér áður brá

Klukkan 9:28 skreið sólin yfir þakbrúnina á Krútt húsinu og skein inn um gluggann hjá mér. Hafið var stillt en undirtónnin  þungur svona til að minna á mátt sinn. Sá sem hefur heyrt niðinn (sinfóníuna eins og Kristján frá Hvíteyrum segir) frá Atlantshafinu  þegar það brotnar við ströndina við botn Húnafjarðar veit hvað  ég meina.


 Spákonufellið séð frá Blönduósi

Ég á von á símtali frá honum Stefáni Hermannssyni eiganda Nonna hunds en þeir "feðgar" eru eins og flestum er kunnugt, fluttir suður í Breiðholtið. Stefán hringdi í mig í gærkvöldi en þá var ég upptekin á fundi og varð að samkomulagi að hann hringdi í dag. Bara svo það komi fram þá heyrði ég í Nonna hundi í bakgrunni samtals okkar Stefáns í gærkvöldi. Það gladdi mig að heyra í nafna mínum hundi í símanum því ég greindi að hann var sjálfum sér líkur þó svo hann væri kominn suður á mölina í allskonar fyrir alla.

Annar vesturbakkabúi hringdi í mig í gær til að leita frétta jafnframt því að segja fréttir af sér. Þetta var enginn annar en Jónas Skaftason vert á Ljóninu sem hringdi á milli "túra" í leigubílaakstri  í höfuðborginni. Hann sagði mér og það var ekki í trúnaði að lítið væri upp úr harkinu að hafa en hann væri nægjusamur og þyldi enn við. Ég spurði hann um skemmtibátinn Skafta Fanndal, hvort hann væri ekki í góðu yfirlæti í Reykjavíkurhöfn. "Nei" sagði Jónas "ég var svo heppinn að fá inni fyrir bátinn og nú er ég og sonur minn að mála fleyið, þannig að hann verður flottur þegar hann (báturinn) kemur norður næsta sumar og fer á sjóstöngina". "Þú veist að ég ætla að vera með restúrant næsta sumar" sagði Jónas við mig "og svo ætla ég að fá meiri nýtingu á smáhýsin" bætti hann við. "Já Jónas, þú varst búinn að segja mér frá þessu og ég er búinn að skrifa um þetta í pistli hjá mér" sagði ég að bragði. "Ég verð að fara að gera skurk í því að lesa pistlana þína, það er svoldið síðan ég las síðast" sagði Jónas í framhaldi af þessari athugasemd minni um umfjöllun mína um framtíðaráform Jónasar. "Heyrðu! ég kem norður um helgina og ætla að kveikja á græna ljósinu vinstra meginn við aðalinnganginn. Það verður sem sagt opið" sagði Jónas í óspurðum fréttum og ég sagði si svona: "Á ég ekki að segja frá þessu í pistli dagsins og bæta við að allir séu velkomnir meðan að húsrúm leyfir". "Alveg endilega, það væri frábært" sagði Jónas og kvaddi.

Ég var vart búinn að skrá ofanritað þegar Stefán Hermannson hringdi. Það lá ágætlega á honum og bað hann fyrir kveðjur norður sem ég hef hér með komið á framfæri. Stefán sagði einnig ágætar fréttir af nafna mínum hundi. Þeir félagar búa á jarðhæð í blokk í Austurberginu og helsta vandamálið með Nonna hund er að hann geltir svolítið á morgnanna en öðru leiti gengur ágætlega.

Rúnar kom með Gluggann að þessu sinni og honum fylgdu harmonikkutónar. Mikið fannst mér það nú skemmtilegra að fá Gluggann með harmonikkutónum heldur en að hirða hann af hurðarhúninum umkomulausann og töfrum sviftann. Reyndar þurfti Rúnar að ná í mig niður í fjöru því ég var að horfa á öldurnar og hlusta á ölduniðinn en allt um það Rúnar er kominn og úr Súkkunni hljómar snúningslipur polki "Lättvindig polka" sem þeir Lasse og Marco flytja af mikilli lipurð.


Það er kominn tími á það að birta mynd af Gluggastráknum honum Rúnari. Hér er hann í harmonikkutrans á leið sinni að sækja mig niður í fjöru

Glugginn í dag er svolítið litaður af því að rjúpnaveiðin er að hefjast. Landeigendur eru farnir að benda veiðimönnum á hvar ekki má veiði án leyfis. Líf veiðimannsins hefur breyst töluvert frá því ég í gamla daga gekk til rjúpna. Víða var hægt að fara og vera einn með sjálfum sér á fjöllum uppi. Bara við að skrifa þetta ræðst fram á svið, fortíðin og minningin um það þegar maður horfði ofan af Langadalsfjallinu yfir byggðir A-Hún hve við mennirnir erum smáir gagnvart veröldinni.

Lionsklúbbur Blönduóss auglýsir sviðamessu þann 11.11.11 en það er herrakvöld þar sem eins og nafnið bendir til, aðeins karlar koma saman og borða svið og skemmta sér. Þessi siður Lionsmanna á Blönduósi er áratuga gamall hefur ætíð verið hin besta skemmtun og ekki leitt til hjónaskilnaða svo vitað sé.

Vísa vikunnar er á sínum stað og merkilegt "nokk" eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd. Vísan er um listamanninn hér á Vesturbakkanum sem ég hef gefið loforð að skrifa ekki um. En þar sem vísan er opinber þá tel ég mig geta fjallað um hana án þess að svíkja nein loforð. En vísan er aðeins fjórar línur og skýrir sig að mestu sjálf, vegna þessa þarf ég svo sem ekki að fjalla neitt meira um hana og læt því hér með lokið.

Samhengi hlutanna er ekki öllum gefið að sjá. Þegar sögupersónur hverfa af vettvangi vesturbakkans með einum eða öðrum hætti getur verið snúið að segja sögur af Vesturbakkanum. Því persónur eru oftlega nokkuð stór þáttur í atburðarásinni. Gefa henni lit og tilgang. Samhengisvísan verður því einfaldlega svona og lái mér hver sem vill.


Öðruvísi mér áður brá,

allt hverfur í tímans hafi.

Senn get ég aðeins sagt ykkur frá

sólinni  og öldunnar trafi

 

Af  Vesturbakka söguslóð

sannlega  minnka  líkur,

að sögð verði einhver saga góð.

Því söguslóðin er komin til Reykjavíkur.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 41
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 88
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 64787
Samtals gestir: 11506
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 09:27:16