Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

11.01.2012 13:31

Fallerí, fallera

Þegar veður eru válynd þá er gott að eiga þess kost að dvelja í góðu skjóli, þurfa ekki að fara neitt og hafa afsökun fyrir því að gera ekki neitt. Þá er gott að setjast niður og renna í gegnum gömlu dagbækurnar og rifja upp liðna tíð. Ekki er ætlunin að tína hér eitthvað sérstakt til annað en það að stílabók og penni geta gert kraftaverk. Þetta sannaðist best hjá mér þegar ég dvaldi í 11 daga á spítala Guðs Parísar í lok ágúst 1999. Eftir að hafa stöðvað járnbrautarlest með því að bregða mér milli brautarpalls og lestar var ég fluttur á spítala með brotin rifbein og samfallið lunga. Það er óþarfi að segja frá því að þarna hef ég líklega komist einna næst Guði mínum en aftur að pennanum og stílabókinni. Það fyrsta sem ég bað konuna um sem bjargaði veröldinni á þessum tímamótum, sem sagt konunni minni, var penni og stílabók. Í þessa bók sem "litli prinsinn" skreytti kápuna, færði ég í letur flest allt sem á dagana dreif. Ég mundi ekki nöfnin á öllu hjúkrunarfólkinu sem á vegi mínum varð en ég gat tengt það persónum heima, annaðhvort eftir framkomu eða útliti.   En þessi bók og penni var mikil sáluhjálp;  ég gat skrifað mig frá áfallinu, frá hinum "rómaða" franska spítalamat, að höltu dúfunni á spítalalóðinni.  Ég segi það satt að þegar fram var borinn matur á stálfati með kúptu loki úr sama efni og við blasti þegar lokinu var lyft, fuglslæri, þá var mér hugsað til höltu dúfunnar. En eftir stendur að ég er líkast til eini Íslendingurinn sem komið hefur til Parísar sem ekki hefur séð Effelturninn. Þetta sem hér að framan er ritað er veðrinu að kenna, ekki mér.


Rúnar kom með Gluggann eins og hann gerir venjulega á miðvikudögum og honum fylgdu harmonikkutónar eins og venjulega

Í morgun gerðist það sem ekki hefur gerst í vetur. Morgunblaðið var ekki komið í hús áður en ég hélt til vinnu. Allt í einu var kominn upp sú staða sem ég hef ekki oft þurft að glíma við. Hvað á ég eiginlega að gera meðan ég sötra teið og japla á rúgbrauðinu með skólaostinum? Ég fékk létt fráhvarfeinkenni; greip í Sunnudagsmoggann og var farin að lesa þar ýmislegt sem mér myndi aldrei til hugar koma að lesa við venjulegar kringumstæður. Þegar ég var búinn að fara aftur yfir það sem ég les alltaf eins og Reykjavíkurbréfið þá fór ég að lesa um íslenska konu sem farið hafði til S-Afríku, New York og Ítalíu og var í sambandi með ítölskum metsöluhöfundi, manni sem hún vissi ekki að var frægur þegar hún kynntist honum. Þegar ég var að hengja utan á mig vetrarklæðnaðinn fór ég að velta því fyrir mér af hverju Morgunblaðið hefði ekki komið um sexleitið. Erlendur G. Eysteinsson og hans ágæta kona Helga Búadóttir hafa staðið sig einstaklega vel að koma blaðinu til áskifenda undangengin ár. Hvað hafði tafið för þeirra? Reyndar varð Erlendur áttræður í gær og gæti hugsanlega verið þreyttur í morgun eftir afmælisveisluna. Nei, Elli lætur ekki eina afmælisveislu slá sig út af laginu enda kom það á daginn því vita kolófært var á vegum milli höfuðborgar og landsbyggðar í gær og nótt og það var að sjálfsögðu skýringin. Það að Morgunblaðið hafi ekki komist til skila er einfaldlega sönnun þess að veðrið hafi verið afspyrnu slæmt.


Pósturinn hún Anna Aspar kom með póstinn eins og hún gerir daglega og rann á harmonikkutónana

Jónas Skaftason kom norður um daginn en stoppaði stutt. Hann sagði mér að hann ætti áheyrnartíma í Innanríkisráðuneytinu í þessari viku. Það var asi á Jónasi svo lítið annað fór á milli okkar annað en komdu sæll, gleðilegt ár og vertu blessaður.  Þetta er í sjálfu sér alveg nóg og allt sem segja þarf í mannlegum samskiptum; sæll, gleðilegt og blessaður. Margir hafa sagt meira en uppskorið misskilning og tóm vandræði. Semsagt, Jónas kom og Jónas fór og kisan hans Bella var hamingjusöm í tvo daga.

Fallerí, fallera hljómaði úr Súkkunni hans Rúnars á stilltum og björtum miðvikudegi. Þessir töfrandi harmonikkutónar úr smiðju Gylfa Ægissonar náðu eyrum Önnu Aspar póstmanns og áður en Rúnar vissi af var hann farinn að dansa við póstinn Önnu. Þetta var gleðistund í Aðalgötunni; að sjá tvo dansandi útburði báða af Tröllatunguætt, er einstök upplifun, jafnast á við norðurljósinn. Að dansi loknum skiptust þau á útburði. Anna fékk Gluggann og Rúnar fékk póstinn sinn sem hann reyndar gleymdi hjá mér en sótti rétt í þessu.


Pósturinn Anna og Gluggaútburðurinn Rúnar bæði af Tröllatunguætt hringsnerust af gleði í einum allsherjar fallerítakti

Glugginn er kominn og þar má finna auglýsingu frá kvenfélaginu um þorrablótið þann 21. jan. Mig langar að segja "mér hlakkar" svo til því mér rímar svo vel við  harðfisk og smér, en ég geri það ekki en eftirvæntingin er mikil já mjög mikil.

Svæðafélög Vg (vinstri græn) í Húnaþingi og Skagafirði auglýsa fund með Jóni Bjarnasyni og Guðfríði Lilju á mánudaginn. Ég vona að það sé bara tilviljun en Heilbrigðisstofunin auglýsir að bæklunarlæknir verði á staðnum daginn eftir.

Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir eftir Önnu Árnadóttur sem þurfti fyrir skömmu að þola það að vera kennd vísa sem birtist í Feyki fyrir jól en er eftir mig, Jón nokkurn Sig. Önnu var skiljanlega brugðið en vonandi er hún búin að jafna sig á þessum mistökum Feykis en hún átti alla mína samúð þegar þessi misskilningur var í hæstum hæðum.

En nú er komið að því sem alltaf þarf að gera en það er að koma auga á hið flókna samhengi sem fylgir öllum sköpuðum hlutum.

 

Á óveðursdögum er legið í sögum,

ekkert er annað gera.

Því í þessum sögum á óveðursdögum

er ýmsilegt um að vera.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 93
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65081
Samtals gestir: 11656
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 17:45:39