Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

18.04.2012 15:19

Vandlega fyrir veturinn, auðmjúkur þakka

Nú er síðasti dagur vetrar runninn upp og framundan eru sumardagar sem enginn veit hvernig verða.  Þó höfum við yfir að ráða öflugum framtíðargreini sem felst í því hvernig vetur og sumar heilsast í veðurfarslegu tilliti og ræður þar hitastigð öllu. Ef frýs saman vetur og sumar þá á sumarið að vera gott og því þykkara sem skænið er á pollum, því betra. Hér við botn Húnafjarðar kveður vetur með sóma. Sólin heiðrar okkur með nærveru sinni og Húnafjörðurinn er sem spegill yfir að líta og æðarfuglinn í hundraða tali vaggar á dúnmjúkri undiröldunni við fjöruborðið. Það er friður yfir vetrarlokum líkt og vetur kveðji tilvist sína sáttur við Guð og menn.


Flóðið í Vatnsdal í vetrarlok

Fuglarnr hafa verið að streyma í heimahagana og eins og svo oft áður er það grágæsin sem er mest fyrirferðar. Ég er ekki frá því að gæsirnar séu fleiri í ár en í fyrra þannig að í sumar verða göngustígarnir með þykkari skítaskán og því meiri líkur á hálkublettum. Vinkona mín grágæsin SLN hefur enn ekki látið sjá sig og er farin að laumast smá kvíði inn í sálartetrið. Þessi ágæta gæs hefur látið sjá sig hvert einasta vor frá því sumarið 2000 þegar hún var merkt við lögreglustöðuna á Blönduósi það sama ár. Oftast hefur hún birst okkur við Héraðshælið og mjög oft í kringum vetrarlok. Ég bíð enn og vona og ég veit að eldri borgar sýslunnar sem búa í Flúðabakkanum bíða líka spenntir.


Helsingjarnir eru mættir í þúsundatali í Húnaþing. Gæsunum þykir grasið á Torfalæk gott. Spákonufell í baksýn

Þessi dagur er ákaflega þýðingarmikill í sögu íslenskra kvenna því þennan dag fyrir einhverjum hundruðum ára fékk kona ein austur undir Eyjafjöllum þá nýgift, lausn á nafnagátu sem hvíldi þungt á henni. Lausnina á hún eignmanni sínum að þakka og þessi lífsreynsla gerði þessa konu að iðju- og stjórnsamri konu. "Ekki vænti ég, að þú heitir Gilitrutt?" sagði þessi lánsama kona undir Eyjafjöllum á sumardaginn fyrsta og var laus allra mála.

Þetta hefur gerst áður og á sjálfsagt eftir að gerast aftur, Glugginn skilinn eftir umkomulaus á hurðarhúninum. Að vísu skein á hann sólin en hann var eins og hvítvoðungur sem skilinn hefur verið eftir á tröppunum sem ljósmóðirin á heima. Að sjálfsögðu bárum við hann inn og komum honum fyrir á þeim stað sem hann á að vera en umkomuleysið var algjört. Rúnar hefur nær alltaf fylgt Glugganum og haft í för með sér tónlist af ýmsum toga, oftast hamonikkutónlist sem familien Brix eða Arnt Haugen hafa borið ábyrgð á. Núna er sem sagt breyting á, það er asi á Rúnari sem er í hrópandi mótsögn við veðrið sem umvefur okkur ró og birtu.

En Glugginn er kominn með sínar upplýsingar um komandi daga. Það er keimur af sumri í Glugganum því forsíðuna prýðir aulýsing um sumarskemmtun krakkanna í Blönduskóla og á baksíðunni má sjá hvaða börn fermast á laugardaginn. Að öðru leiti er Glugginn uppfullur af aðalfundum en þó er rétt að minnast lítillega á hina árlegu vorferð kúabænda í A-Húnavatnssýslu en að þessu sinni ætla þeir að fara fyrir Tröllaskaga til Akureyrar. Og ef ég þekki mína menn rétt verður boðið upp á Hleðslu fyrir konur og karla meðan á ferð stendur.


Upp og niður svona eins og lífið. Grágæsir á flugi yfir Blöndu

Vísa vikunnar er komin til ára sinna og er að þessu sinni eftir Svein frá Elivogum og er svona: Hafðu ungur hóf við Svein/ Hreyfðu ei þungum nótum./ Eiturþrunginn á ég flein/ undir tungurótum. Ég er svolítið að velta því fyrir mér hversvegna þeir Gluggamenn kjósa að hafa þessa vísu frekar en eitthvert ljóð um sumarið og sólina. Hef ekki komist að niðurstöðu en velti enn vöngum.

En nú stend ég einn frammi fyrir samhenginu því eins og framan er ritað þá er Rúnar ekki til staðar þennan síðasta vetradag. Ef til vill er best að hafa samhengið eitthvað á þessum nótum:

 

Vandlega fyrir veturinn, auðmjúkur þakka,

í virðingu höfuð mitt bljúgur ég ljúflega hneigi

Á morgun svo opna ég sumarsins óræða pakka,

umvafin lífinu á sumarsins fyrsta degi.


Gleðilegt sumar!

 

 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 67
Gestir í gær: 9
Samtals flettingar: 64863
Samtals gestir: 11521
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 15:28:35