Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

15.08.2012 13:59

Private Robertson

    Lognið umlykur þennan dag meðan ríkissjóður innheimtir sinn toll af launum landsmanna. Jafnframt hangir í hlíðum fjalla og við sjóndeildarhring, þokuloft sem mér sýnist að sé á undanhaldi og framundan  virðist vera magnaður miðvikudagur tilvalinn til ýmissa verka.


Skólarnir eru að byrja og von bráðar byrjar fermingafræðslan. Grunnskólinn og kirkjan

 

Það er engum blöðum um það að fletta að það gengur á sumarið. Fuglarnir eru við það að skila ungviðinu út í lífið. Litlu sætu ungarnir eru orðnir fleygir og foreldrarnir kenna þeim ýmislegt sem kemur þeim að gagni í lífinu eins og til dæmis að fljúga saman í hóp og ýmis minstur í hópflugi. Þessi hugleiðing minnir mig í þessum skrifuðum orðum á línur úr lagi Benny Andersons "Svantes lykkelige dag :  Fuglene flyver i flok når de er mange nok." Þetta lag og texti er svo gott innlegg í lífið og tilveruna að það ætti að vera síðasta lag fyrir fréttir á rás 2 á hverjum degi.  Gæsirnar eru að mestu horfnar af túnum bæjarins yfir hádaginn því þá eru þær á berjamó. Það var svo notaleg tilfinning seinni partinn í gær þegar ísbíllinn fór um götuna heima og bjölluhljómurinn barst yfir hverfið þegar skyndilega með töluverðu gargi komu heilu hóparnir af gæsum fljúgandi yfir, pakksaddar af berjum. Þetta var svona sambland af því að þegar kirkjuklukkurnar hringja inn jólin í ríkisútvarpinu og andvarpi síðsumarsins, svona einskonar elífðarsamhljómur sem gefur sálinni frið.

Það er hér starfandi í gamla bænum rithöfundur ættaður frá Argentínu og hefur hann aðsetur í gömlu kirkjunni. Hann heitir að eftirnafni Robertsson en gengur venjulegast undir nafninu mr. Robertsson hjá þeim sem gleggst til hans þekkja. Hann er að skrifa kvikmyndahandrit er mér sagt um gullgrafara í S-Ameríku seint á 18. öld. Gullgrafara ættaða frá Rúmeníu sem meðal annars höfðu sér dundurs að drepa indíána meðfram gullleitinni.  Mr. Robertsson taldi sig hafa gott næði til verksins hér í hjarta gamla bæjarins en annað hefur komið á daginn. Vegna veðurblíðunnar hafa kirkjudyrnar oftast staðið opnar og þar sem eru opnar kirkjudyr þar má allt eins eiga von á Guðhræddu andliti í gervi ferðamanns. Það gefur auga leið að svona lagað getur ekki gengið til lengdar og þegar Guðhræddir ferðamenn  voru farnir að sjá mr. Robertsson sitjandi á altarinu starandi móti forvitnu andliti með svip sem minnti á svipinn á Jack Nicholson í kvikmyndinni"Shining" varð eitthvað að gera.


 Helstu hugsuðir í gamla bænum komu saman og sögðu " nú eru góð ráð mjög dýr" og útbjuggu í framhaldi af því skilti hvar á stóð "PRIVATE" og hengdu það á kirkjudyrnar. Þetta reyndist skammgóður vermir því sumir ferðamenn skildu þetta þannig að hér væri um snyrtingu að ræða og lögðust með það í huga á hurðarhún kirkjunnar. En tímar hafa liðið og ráðin hafa batnað og ég held að staðan núna sé öll miklu betri og handritsgerðin gangi til muna betur. Þessa ályktun dreg ég af því að þegar ég sá mr. Robertsson í morgun fyrir utan kirkjuna þá lá bara vel á honum og blístarði hann lítinn lagstúf út í þennan kyrrláta miðvikudag sem ber í sér blíðuna.

 

Ég ætlaði upphaflega að skrifa um um sparimerkjabók sem ég átti sem ungur maður í barnaskóla og einnig um uppeldi á ungviði mismunandi dýrategunda en varð fyrir óvæntri truflun líkt og handritshöfundurinn í kirkjunni svo það verður að bíða betri tíma en hvorutveggja er spennandi umfjöllunarefni.


Fallegar stúlkur á vesturbakkanum með kisuna Skottu

 

Go'Blonken heitir lagið sem Arnt Haugen hinn norski leikur af fingrum fram undir geislanum í Súkkunni hans Rúnars. Sem sagt Rúnar er kominn með Gluggann. Ég skoðaði kápuna utan af disknum með lögum Arnt Haugen og virti fyrir mér andlitsdrætti listamannsins. "Minnir þessi maður þig á einhvern hér um slóðir?" spurði ég Rúnar. Hann hugsaði sig lengi um og sagði síðan með hægð. "Hann er ekki ólíkur Kidda á Húnsstöðum". "Þú segir nokkuð" sagði ég og bætti við, "Það er svo miklu þægilegra fyrir fólk að átta sig á hlutunum ef það getur tengt það við eitthvað sem það þekkir." Arnt Haugen og Kristján á Húnsstöðum er svo sem ekkert vitlausara en hvað annað í andlitslegu tilliti.

 

          Vísa vikunnar er á sínum stað í Glugganum og Vörumiðlun ætlar að taka á móti dósum alla virka daga segir í auglýsingu. Fleira er að finna í Glugga en mál er að linni og komið að því að finna hið gullvæga samhengi.

                  Í kirkjunni ritar sögur, meistari Robertson
                  um rúmena í Ameríku í gullleitarvon.
                  Ef á túrhestunum þreytist
                  hann umhendis breytist
                  í leikarann Jack Nicholsson.


 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 35
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 68610
Samtals gestir: 12460
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 04:52:26