Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

12.09.2012 14:39

illskeyttur haustkálfur

Þá er haustkálfurinn genginn hjá og hvílíkur kraftur í skepnunni. Það er engu logið að elstu menn í Húnaþingi muna ekki annað eins veðuráhlaup jafn snemma hausts. Bændur urðu fyrir barðinu á þessum kálfi og eru öll kurl ekki enn komin til grafar. Ekki er meiningin að fjalla meira um þessar náttúruhamfarir því um þær hefur verið fjallað í fjölmiðlum undanfarið og verður en um sinn en vil aðeins koma því til skila að ég hugsa til þeirra sem barist hafa undanfarna daga við að grafa fé úr fönn. Og það sem verra er og sagt hafa mér grandvarir menn að tófan grafi sig niður á fenntar kindur og éti þær lifandi og séu um þetta nokkur dæmi á Sauðadalnum í gær. Líklegt má telja eftir þessar hamfarir að til sé nægur fæðuforði fyrir tófur norðan heiða í vetur.


Eylendið var eins og fjörður á að líta á mánudaginn en heldur var vatnið farið að sjatna þegar þessi mynd var tekin

Ég fjallaði fyrir skömmu um manninn sem dvalið hefur við skriftir í gömlu kirkjunni og kallaði hann ranglega Robertson. Þessi maður heitir réttu nafni Robinson Savary og er Argentínumaður búsettur í París. Hann hefur eins og komið hefur fram, dvalið hér í nágreni við mig í tvo mánuði og skrifað kvikmyndahandrit um gullgrafara í S-Ameríku seint á 18. öld. Gullgrafara ættaða frá Rúmeníu sem meðal annars höfðu sér dundurs að drepa indíána meðfram gullleitinni. Nú er þessi ágæti maður sem bjó við frekar frumstæðar aðstæður í gömlu kirkjunni, farinn suður á bóginn en þó ekki úr landi. Hann sagði mér ýmislegt rétt áður en hann fór og nefndi meðal annars að gott hefði verið að vera í kirkjunni en hún þarfnaðist viðhalds. Hann leyfði mér að taka af sér mynd fyrir framan kirkjuna og ég sagði svona í framhjáhlaupi hvort ég væri að taka mynd af frægum handritshöfundi. Hann svaraði því til að svo væri ekki enn, en það gæti komið að því.


Mr. Robinsson fyrir framan kirkjudyrnar daginn áður en hann hélt suður á bóginn

Robinson er farinn suður og ég tel víst að Jónas Skafta vert á Ljóninu sé líka floginn. Ég sá hann í mýflugumynd á föstudaginn var en síðan hef ég ekki séð hann og kann því ekkert frá honum að segja annað en það að þegar hann sá mig eftir hálfsmánaðar Spánardvöl hrökk út úr honum: "Hvað er þetta! Lágstu undir segli allan tímann." Þar sem ég er þroskaður maður og öllu vanur þá lét ég mér fátt um finnast um þessa athugasemd.

Glugginn er kominn og þar kennir nokkura grasa. Það var ekki Rúnar sem kom með Gluggann heldur hann Óli Þorsteins, maðurinn sem gifti sig sama dag og ég í sömu kirkju fyrir 36 árum og einum degi. Óli sagði Rúnar í fríi þannig að miðvikudags harmonikkutónar hans verða að bíða um sinn, eins og þeir eru nærandi og uppbyggjandi fyrir sálina.

Sölufélagið hefur opnað slátursöluna þetta haustið. Ég þreytist seint á því að benda fólki á að hægt er að gera kjarakaup í slátursölu Sölufélagsins. Bara til þess að nefna eitt dæmi þá kostar eitt kíló af lifur 182 krónur. Steikt lifur í brúnni sósu með kartöflum úr Selvíkinni er herramannsmatur. Svo er náttúrulega gráupplagt að taka slátur svo ekki sé nú talað um sviðin. Þetta er rétti tíminn til að afla ódýrra matvæla og eiga í kistunni. Svo er rétt að huga að því að koma pungunum og sviðasultunni í súr svo maður höndli þorrann með viðeigandi og gleðilegum hætti. Það er að mörgu að huga og margt í mörgu þegar kemur að hagkvæmum rekstri heimilisins. Hin hagsýna húsmóðir er gulls í gildi, hefur verið það og mun verða það meðan land byggist.


Geitaskarð og Holtastaðir í Langadal meðan Blanda sjávar leitar

Vísa vikunnar er á sínum stað og er eins og svo oft áður eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd. Nú kveður við nýjan tón hjá skáldinu út við ysta sæ. Hann er farinn að yrkja á ensku svo líklegt má telja að hann hyggi á útflutning á ljóðum sínum, með öðrum orðum, skáldið er komið í útrás. Þegar ég las vísu vikunnar rifjaðist upp fyrir mér að 12.05 2010 (pistill 12/5 2010)  orti ég þessa vísu þegar ég stóð frammi fyrir því hvort ég ætti að vísa erlendum ferðamönnum á tjaldsvæði Jónasar eða bæjarins; setti mig í spor ferðamannsins.

Whatever you are, poor or rich,
elderly grey or smiling kids.
Speculation the same old which?
Should I stay or cross the bridge

Þannig er nú það, þau þreifa víða "skáldin" í Húnaþingi.

En samhengið er vandfundið í þessari viku því vissulega má leggja út frá hamförum liðinna daga en lífið heldur áfram þrátt fyrir hrakfarir og áföll. Já lífið heldur áfram og því langar mig svona í lokin að rifja upp eina augnabliksmynd:

Í lífinu skiptast á skúrir og skin,

skammgóður vermir og trú.

Í mörkinni miklu er einstaka vin,

en miðdepill heimsins ert þú.

 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 68625
Samtals gestir: 12464
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 06:03:21