Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

19.09.2012 13:56

tilræði við geðvonskuna


Í gær fór sólin á skína og hamingjustuðullinn hækkaði til mikilla muna

Haustið hefur hafið innreið sína og hleypt kálfinum lausum svo eftir var tekið. Veðrið í september hefur farið í skapið á mér og rænt mig orku. Þetta er ekki ásættanlegt ástand og það fer í taugarnar á mér að láta ástand sem ég hef ekkert með að gera, stjórna geðslagi mínu. Ég hef reynt að spyrna við fótum svo þessi sálarógn nái ekki yfirhöndinni. Ég held að ég hafi náð hvað bestum árangri þegar ég gekk heim eftir vinnu í fyrradag í grenjandi norðanhraglanda. Þegar ég stóð í dyrunum heima blautur ytra en heitur og sæll innra fannst mér ég hafa unnið pínulítin sigur. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég beðið einhvern að sækja mig en ákvað í þetta skiptið að setja undir mig hausinn og takast á við leiðinda veðrið. Þegar upp var staðið og heim var komið var það í sjálfu sér ekkert svo mikið mál. Mér var á þessari stundu hugsað til góða dátans Sveiks sem sagði á örlagastundu þessu dásamlegu orð   "Hvort sem það hefur nú verið eins og það var eða var ekki, á einhvern hátt hefur það verið. Og aldrei hefur það verið þannig að það væri ekki á einhvern hátt." Þessi orð eru svo sönn án þess að segja nokkurn skapaðan hlut og hægt að grípa til þeirra nánast við hvaða tækifæri.


Tvær stúlkur úr gamla bænum nutu lífsins í blíðunni í gær og byggðu kastala úr fjörusandinum

Svo maður haldi sig áfram við veðrið þá fór sólin loksins að skína í gær í fyrsta sinn í þessum mánuði og þessi miðvikudagur lofar svo sannarlega góðu. Sólinni fylgdi líka hægur vindur og manni fór allt í einu að líða svo miklu betur í sálinni. Ég festi ekki yndi innan dyra í gær og rölti því niður í fjöru í leit að yndinu. Sjávarilmurinn fyllti upp í vitin og æðarungarnir frá í vor vögguðu á undiröldunni og létu sér fátt um finnast þó ég rölti í fjörunni. Ekki var ég búin að rölta lengi þegar á vegi mínum urðu tvær gæfulegar ungar stúlkur, berfættar í sandinum að byggja sandkastala. Þarna fann ég yndið; fann hvað sakleysið og áhyggjuleysið er dýrmætt. Að geta legið á hnjánum í sandinum, berfættur, byggja upp og leiða hugan langt fram hjá veraldarvafstri hinna fullorðnu. Þetta er í mínum huga bein tenging við almættið.

Af vesturbakkanum er allt gott að frétta. Ég er búinn að hitta Jónas á Ljóninu, Frikka vert á Kiljunni , Ívar Snorra og Óla Werners hótelstjóra. Þetta er ekki svo lítið og höfðu þessir menn frá ýmsu að segja. Jónas er senn á förum suður yfir heiðar með rútuna sína og ætlar að gista í henni í Laugardalnum í vetur. Kiljan er ekkert að fara að sögn og Óli hótelstjóri kemur og fer eins og hann hefur gert í gegn um tíðina. Óli er að fá hóp kínverja í heimsókn í hádeginu og ætlar að elda eitthvað ljúfengt fyrir þá. Ég spurði Óla hvort kínverjarnir ætluðu að kaupa af honum hótelið svona í leiðinni í golf á Grímsstöðum. Óli hvað svo ekki vera.


Sólin hefur töframátt og náði að töfra þá Ívar Snorra og Friðrik vert út á gangstétt til fundar við sig

Rúnar er kominn með Gluggann í glampandi sól og blíðu og honum fylgja að sjálfsögðu harmonikkutónar. Í dag bregður Rúnar verulega út af vananum og heldur til hlés öllum helstu listamönnum norðurlanda en dregur fram í dagsljósið Harmonikufélag Rangæinga. Lagið "Beint í æð" fyllir út í fallegt haustveðrið í Aðalgötunni, hressilegur polki sem Kristófer og Gunna væru fullsæmd af að dansa eftir

Glugginn er kominn með sínar auglýsingar. Það er alltaf hægt að lesa svolítið í sýslusálina með því að fletta Glugganum. Það kemur alltaf upp skrýtin tilfinning í huganum þegar maður sér að það er verið loka einhverri verslun eða hætta einhverri starfsemi. Ég held að þessi tilfinning eigi eitthvað skylt við söknuð. Það myndast tóm þegar eitthvað hverfur á braut og ekkert kemur í staðinn. Grunnstoðir samfélagsins veikjast og það er ekki gott. Líklega er þessi tilfinning spottinn af eigingirni en mér er bara alveg sama. Ef til vill segja svona hugleiðingar manni bara það að þörf er á hugsun og atferli barns sem getur legið berfætt á hnjánum í sandinum og byggt kastala.

Vísa vikunnar er eftir Rúnar Skagastrandarskáld og fjallar um hina miskunarlausu baráttu sem fram fer í hinni villtu náttúru.

Samhengið þessa vikunna er nokkuð augljóst og liggur í því að öll él birtir upp um síðir og aftur kemur vor í dal . Eitthvað sem við höfum ekki stjórn á má ekki raska ró okkar svo að til vandræða horfi því er við hæfi að vera svolítið viðkvæmur (væminn) og kasta fram þessari stöku sem kalla mætti "tilræði við geðvonskuna":

Himininn sólargeislunum  skartar,

sár undan veðrinu engin nú kvartar.

Þennan látlausa dag

alveg einstakt er lag,
          að líta til framtíðar bjartrar.

 

Ps: Þessi vísa er ekki tileinkuð neinu stjórnmálaafli

 

 

 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 68625
Samtals gestir: 12464
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 06:03:21