Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

26.09.2012 15:11

litla barn

Miðvikudagarnir renna upp hver af öðrum og eiga ekkert sameiginlegt nema nafnið og það að þeir hverfa. Í dag heilsaði okkur hér við botn Húnafjarðar norðansúld með sex gráðu hita en heldur hefur birt í lofti eftir því sem liðið hefur á morguninn. Það er ekki hægt að neita því að haustið hefur heilsað og er farið að setja mark sitt á náttúruna alla. Gróðurinn hefur skipt litum og fuglunum fækkar líkt og laufblöðunum á trjánum. Það er eitt sem vakið hefur sérstaka athygli mína en það er hvað grágæsunum hefur fækkað á túnum bæjarins. Það er eins og norðanáhlaupið illræmda hafi feykt þeim í burtu. Það er aðeins eftir ein gæs sem ég rekst iðulega á þegar ég rölti heim eftir vinnu. Þegar ég sé þessa einmana gæs þá fæ ég alltaf smá sting í hjartað því það getur ekki verið gott að vera einmana gæs.  Það var alls ekki óalgengt að sjá þó nokkuð af gæs vel fram í október en nú virðist öldin önnur. Kannski eru þær búnar að uppgötva nýuppskorna kornakrana í nágreni bæjarins, hver veit.


Haustið er komið í Hrútey en Héraðshælið fölnar aldrei

Jónas Skaftason vert á Ljóninu er farinn líkt og gæsirnar en á veiðilendur höfuðborgarinnar vopnaður sinni Benz leigubifreið. Já haustið er komið og veturinn handan við hornið um það villist ekki nokkurt mannsbarn. Nóttin er orðin lengri en dagurinn og mun sá munur aukast allt fram til 21. desember. Svona er nú það, þetta er víst gangur lífsins og fáum við engu um það breytt.

Óli hótelstjóri er búinn að hafa nokkuð langa samfellda viðveru í Aðalgötunni í haust og hefu hýst margan ferðalanginn og eldað ofan í hann þjóðlegan og hollan mömmumat sem að uppistöðu er lambalæri með brúnni sósu, kartöflum sultu og grænum baunum og ís í eftirrétt með niðursoðnum ávöxtum í útáhelling. Þetta er gott hjá Óla það hef ég reynt og myndi ég flokka hann sem vin íslenska lambakjötsins.


Jóhann Ingvi Hjaltason

Börn eru ótrúlega hugmyndarík og einlæg í óþvinguðu umhverfi. Ég get ekki látið hjá líða að segja litla sögu af honum Jóhanni Ingva (Jói) sonarsyni mínum. Hann er á fimmta ári og frétti það nýverið hjá foreldrum sínum að hann ætti von á systkini. Jóa litla fannst mikið til koma en fann strax til ríkrar ábyrgðartilfinningar því nú yrði hann stóri bróðir. Þessari nýju frétt velti hann fyrir sér í nokkra daga og sýndi mikið æðruleysi. En það kom að því að hann þurfti að fá frekari upplýsingar um þetta allt saman. Einn daginn fyrir nokkru þegar hann og móðir hans áttu notalega stund saman þá segir Jói mjög ákveðinn við móður sína. "Mamma, opnaðu munninn", "Hvað meinarðu Jói minn?" sagði mamma hans en hann áréttaði bara spurninguna enn einbeittari en fyrr. "Mamma opnaðu munninn" og móðir hans varð við þessari einbeittu ósk drengsins. Það var sem við manninn mælt, Jói hallaði sér yfir móður sína og kallaði hárri röddu ofan í opinn munninn. "Litla barn!, litla barn! þetta er Jói, stóri bróðir þinn!" Eftir þetta ákall til litla ófædda barnsins kallaði Jói á föður sinn og spurði hann hvort hann vildi ekki líka ræða við litla barnið. Hvað er eðlilegra en hrópa ofan í móður sína sem er með barn í maganum til að ná sambandi. Maturinn fer jú sömu leið ofan í magann.

Rúnar er kominn með Gluggann. Reyndar þurfti hann að gera tvær tilraunir til að ná tengslum við mig því ég var í djúpum viðræðum í símanum við íbúa á Hvammstanga þegar hann kom fyrst. Í seinna skiptið þegar hann kom þá var ég kominn til míns sjálfs og þá heyrði ég Hérðasvökupolka hljóma um alla Aðalgötuna í flutningi harmonikkufélags Rangæinga. Rúnar sagðist hafa reynt í fyrra skiptið þegar hann kom að vekja athygli mína á komu sinni með að minnsta kosti þremur lögum en ég hafði verið gjörsamlega týndur. Þetta gerði í raun lítið til því þetta varð þess valdandi að par eitt frá útlöndum og einn bílstjóri frá Vörumiðlum dönsuðu af mikilli innlifun og gleði eftir tónum frá Rangæingunum.


Stararnir hópa sig saman og ræða málin í laufléttum trjám bæjarbúa

Já Glugginn er kominn með mynd á forsíðu af kaupélagsfólki að gera samning við Samkaup um afslátt fyrir félagsmenn kaupfélagsins. Glugginn segir frá ýmsu sem lesa má inni á huni.is og hún Bebbý (Elísabet Árnadóttir) á vísu vikunnar. Fjallar hún um beinar brautir Norðurárdals og ljómandi brekkur hans sem og ágætis fólk sem tengist dalnum.

En samhengi þessa dags hlýtur að fjalla um sakleysi barnsins og hve mikilvægt er að varðveita barnið í sér sem allra lengst.

Barnssál er hreinlynd og heið

og hugurinn leitar víða.

Um vélindað liggur leið
          að litla barninu blíða.

 

 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 68614
Samtals gestir: 12460
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 05:22:42