Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

03.10.2012 14:30

að draga andann

Hún bregst ekki hún Halldóra Björnsdóttir landsþjálfari í leikfimi. Ég var búinn að sitja lengi í þungum þönkum og reyna að finna upp á einhverju til að fjalla um í ritæfingu dagsins þegar þess heilsubætandi kona kallaði til mín gegnum útvarpstækið. "Dragðu andann djúpt og andaðu hægt frá þér". Ég hlýddi og viti menn, það opnuðust allar gáttir hugans og ég fór að hamast á lyklaborðinu.  Þegar Halldóra benti mér og landsmönnum öllum á að rétta vel úr sér og vera bein í baki og snúa höfðinu til hægri og svo til vinstri var ekki hægt að komast hjá því að sjá að það var hryssingslegt veður utandyra. Hægra meginn við mig er glugginn og vinstra meginn eru útidyrnar.  Og hvað er þar fyrir utan? Nú veðrið auðvitað og ég segi nú eins og íþróttafréttamaðurinn sagði einhverju sinni þegar íslendingar voru að tapa leik en ekki svo að til háðungar væri: "Þetta lítur ekki allt of illa út"  Það sama má segja um veðrið í dag, það lítur ekki allt of illa út.


Það er komið haust í Húnaþing. Horft yfir til Þingeyra

Það er svo sem ekki frá svo miklu að segja af vesturbakkanum þessa vikuna. Um leið og ég sló þessi orð inn á skjáinn fyrir framan mig þá spratt upp fyrir framan mig mynd af hræringum í gamla bakarínu Krútt. Þar er allt komið á fullt og stefnir í það að Sveitabakaríð flytji þar inn með Valdimar Trausta í fararbroddi. Trésmíðavélarnar sem voru í húsnæðinu eru farnar og inn streyma tæki sem ætlað er að baka ofan í okkur góðgæti hverskonar. Það er sem sagt að færast enn meira líf í Aðalgötuna og spennandi tímar virðast vera framundan.

Þegar ég var á ferðinni áðan og beygði af (án þess að beygja af)  Hnjúkabyggðinni inn á Aðalgötuna varð á vegi mínum Sveinn M. Sveinsson kappklæddur með hundana sína þrjá. Þá uppgötvaði ég strax að það var hundi út sigandi í norðan rigningakaldann. Það er góð regla þegar maður stöðvar bifreið sína á gatnamótum að líta til beggja hliða og það gerði ég og eins og fyrr greinir þá sá ég Svein á vinstri hönd en brotið garðstólbak, líklega ættað frá Kiljunni á þeirri hægri. Þetta stólbak kallaði fram ýmis hugrenningatengsl og datt mér fyrst í hug að Frikki vert hefði hallað sér helst til harklega á þennan græna garðstól sem svo sem vel gæti hafa gerst en bara alls ekki víst. Grænt garðstólbak á götunni getur valdið heilbrotum og gráupplagt að taka það inn í söguna.


Það næðir um menn og málleysingja en þessi mávur heldur ótrauður áfram mót norðaustanáttinni

Jónas á Ljóninu kom hér um daginn með "strætó" að morgni og fór með "strætó að kveldi. Hann var að sækja bókhaldið  sitt. Hann sagði mér að senn færu "sprengjur" að falla og átti hann við málsókn gegn yfirvöldum bæjarins og sýslumanni.  Hann sagði mér líka í óspurðum fréttum að hann ætlaði að opna Ljónið 1. maí og þá verður auk fyrri þjónustu, matur í boði. Mig minnir að hann ætli að hafa kjörorð ljónsins á vori komandi "Matur, kaffi, gisting" Hugsanlega gæti uppröðun orðana verið öðruvísi en það kemur út á eitt.

Rúnar er kominn með Gluggann og enn spilar hann Rangæingana út í eitt. Nú hljómaði úr Súkkunni hans lag sem ber það hlýlega nafn "trimmað á góunni" og veitti ekki af til að mæta norðannepjunni af fullri hörku. Þetta lag er af hljómdisk sem Harmonikkufélag Rangæinga gaf út árið 1999 og hefur að geyma 16 lög eftir ýmsa höfunda bæði íslenska og erlenda.

Glugginn er þunnur í októberbyrjun en ber þó með sér ýmsar haldgóðar upplýsingar til alþýðunnar. Má þar sérstaklega nefna auglýsingu frá búð Sölufélagsins en þar má gera góð kaup á innmat og öðrum kjötvörum. Enn og aftur hvet ég fólk til að skoða þessi kjarakaup og undirbúa sig með ódýran mat fyrir veturinn. Sjálfur keypti ég 7 kíló af eistum í morgun og fór með þau til tengdamóður minnar sem sér um að koma þeim í girnilegan þorrablótsbúning.

Samhengið á þessum miðvikudegi sem lítur ekki allt of illa út, liggur ekki í augum uppi en það er hverjum manni hollt að leita og eins og segir einhversstaðar: "leitið og þér munið finna"

Nú er kominn október

sem allan fjandann í sér ber.

En mikilvægast ætíð er,
          andann draga vel að sér

 

Hleypa síðan anda út,

eyða þar með eymd og sút.

Binda á sorgarsekkinn hnút
          og súpa vel á gleðikút.

 

 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 49
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65037
Samtals gestir: 11626
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 09:24:33