Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

10.10.2012 14:19

Nú verður hver að bjarga sér

"Það þýðir ekkert að spara og spara og spara svo ekki neitt" sagði Steingrímur heitin Davíðsson á sínum tíma. Þetta hefur skólastjórinn eflaust sagt þegar honum fannst ekki fara saman orð og efndir á hreppsnefndarfundi á Blönduósi fyrir margt löngu. Þessum orðum hef ég stundum velt fyrir mér hin síðari ár vegna þess að mér var innprentað í æsku að græddur væri geymdur eyrir (sjá myndir af sparimerkjabók).


Þessi merka bók var við lýði þegar ég var 7 ára og síðan eru liðin 53 ár

Þessi innræting frá æskuárunum hefur verið býsna lífseig í huga mínum og jaðrar á tíðum við flónsku. Þessi sparimerkjabók sem hér má sjá var sögð verðtryggð en var það bara alls ekki þegar á reyndi og þessi sparnaður æskunnar á árunum kringum 1960 var brenndur upp í verðbólgu og afhentur þeim sem tóku óverðtryggð lán á þeim sama tíma. Margir sem byggðu á sjöunda áratug síðustu aldar horfðu á lánin sín gufa upp í bankakerfinu og sparnaður okkar var notaður í það. Í dag eru í gangi svipuð vinnubrögð nema nú er bæði gengið á þá sem skulda og þá sem eiga inni sparnað þannig að niðurstaðan hlýtur að verða sú að það verður bráðum ekkert eftir inni í bönkunum til að lána út og hvað gerist þá? Reyndar er gengið harðar að þeim sem lagt hafa fyrir í gegnum tíðina og þeir rændir purkunarlaust allan sólarhringinn.  En þessi inngangur er svolítið stílbrot á þessum pistlum og læt ég honum lokið en ég er ekki sáttur við þróun mála.


Októbersólin hverfur ofan í gamla bæinn á Vesturbakkanum

Það gerðist hér á dögunum að Sigurður Ingi á S-Löngumýri setti dráttarvél sína á kaf í Blöndu og komst hvorki lönd né strönd. Með honum í vélinni voru hundurinn hans Glókollur og Sigurvaldi Sigurjónsson stundum kenndur við Kárastaði. Þegar þeir áttuðu sig á stöðu sinni, kölluðu þeir eftir hjálp úr landi, biðu í vélinni og var bjargað. Fyrir nokkrum árum lenti Björn bóndi í Ytri-Löngumýri líka í Blöndu á dráttarvél sinni. Hann hugðist stytta sér leið með því að fara Blöndu á ís en ísinn brotnaði undan vélinni. Með honum í för var hundurinn hans Lubbi, húsbóndaholl og vitur skepna. Þegar vatn nam við sæti dráttavélar áttar Björn bóndi  sig á alvarleika málsins  og lítur djúpt í augu hundsins og segir: "Jæja Lubbi minn nú verður hver að bjarga sér" og kastaði sér út í klakaruðninginn í ánni. Komst hann við illan leik heim að Ártúnum og fékk þar góða umönnun. Af hundinum Lubba er það að segja að hann horfði á eftir húsbónda sínum yfirgefa vélina og hverfa með jökulfljótinu. Hundurinn hugsaði með sér að best væri bara að bíða því vafalítið myndi Björn eða einhver annar koma  til bjarga vélinni. Þar reyndist Lubbi hafa rétt fyrir sér og sat hann rólegur í dráttarvélarsætinu þegar björgun barst. Björn sagði síðar að Lubba hefði orðið svo kalt á pungnum að hann hafi verið ófær að fara á milli bæja í nokkra daga. Þannig var nú það.


Lítil fjóla grær við fótspor mín. Þessar fjólur dafna vel við tröppurnar fyrir framan útidyrnar á heimili mínu

Það var suðaustan  hvassviðri með 8 stiga hita sem mætti manni í morgun. Ég varð samt ekkert var við stólbakið græna sem var staðsett langt fram eftir vikunni austast í Aðalgötunni. Ég sagði frá því í síðasta pistli og lét svona að því liggja að það væri ættað frá Kiljunni og að Friðrik vert hefði tekið bakföll í stólnum og skilið bak frá botni. Friðrik kom til mín í gær og bar af sér allar  sakir og sagði þetta vera verk Ný-Sjálendinga sem búa í Aðalgötunni meðan sláturtíð stendur. Ég tók Friðrik trúanlegan og hér með er stólbakið græna úr sögunni.

Rúnar kom ekki með Gluggann að þessu sinni heldur var það Óli Þorsteins sem birtist með aulýsingablaðið. Óli sagði mér að Rúnar lægi veikur heima og væri einhver flensa að hrjá hann. Sem sagt engir harmonikkutónar sem þenja sig mót sunnan vindinum þennan miðvikudaginn en ég sendi Rúnari mínar bestu batakveðjur. Já Glugginn er kominn og þeir sem ekki geta séð hann með eigin augum geta nálgast hann á huni.is.

Rúnar á Skagaströnd sendir hroka heimsins tóninn í vísu vikunnar og eitt er víst að hroki er leiðinda fyrirbrigði sem fer mönnum illa og getur komið óþægilega við þá sem ekki sjá í gegn um hann.

En samhengið verður að finna á þessum vindasama miðvikudegi og er nærtækast að sækja það í Guðslánið sem fylgir þeim Löngumýrar bændum. Það sem einnig réttlætir þá í þessum pistili er að þeir búa sömu megin við Blöndu og íbúar á Vesturbakkanum við ósinn.

Langt í frá hundurinn Lubbi var móður.
          Í lífháska lenti og varð ekki óður.
         Við Björn heyrðist klifa 
         "Mig langar að lifa,
         legg þú á djúpið, húsbóndi góður".

 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 33
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65021
Samtals gestir: 11616
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 06:54:16