Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

24.10.2012 15:19

vandinn er ærin(n)

Við Rútsstaða Sigurjón erum búnir að innbyrða eitthvað á annað tonn af öli og brenndum drykkjum í morgun. Sigurjón var óvenju snemma á ferðinni þannig að ég rétt náði  að skrá mig inn á hin margvíslegu kerfi í tölvunni sem ég þarf á að halda yfir daginn áður en við fórum í ölföngin. Sigurjón var á frekar mikilli hraðferð þannig að ég hafði af honum til þess að gera lítið gagn í sagnfræðilegu tilliti en hann var samt nokkuð líkur sjálfum sér. Hann náði þó að segja mér að hann hafi séð hvíta tófu í morgun rétt á móts við Beinakeldu og hefur sú hvíta örugglega verið á leið í Sauðadalinn í leit að fenntu fé.


Veturinn er að hreiðra um sig í héraðinu. Stokkendurnar víkja sér fimlega undan fyrsta íshrönglinu í Blöndu á þessu hausti 

Talandi um hvíta tófu þá tók skaparinn upp á því í morgun að breiða hvíta slæðu á yfirborð jarðarinnar svo rétt til að minna okkur á að senn kemur vetur. Ég hef áður minnst á það að síðasti sumardagur er ekki hafður í eins miklum hávegum og síðasti dagur vetrar. Og vetradagurinn fyrsti er ekki sá dagur sem skátar arka um víðan völl und blaktandi fánum bláir af kulda líkt og á sumardaginn fyrsta. Hvað skyldi standa í veginum. Hitaveitur hafa fulla ástæðu til að halda upp á þessi tímamót sem og rafveitur, 66 gráður norður sem og félag umfelgunarmanna. Enski boltinn er allan veturinn og veit ég ekki betur en margir hlakki til að fylgjast með honum. Kvenfélög, kórar og ég veit ekki hvað og hvað hefja starfsemi sína af fullu. Jól, áramót og þorrablót eru yfirleitt á vetrum að minnsta kosti hér um slóðir. Hversvegna er ekki haldið upp á vetrardaginn fyrsta? Spyr sá sem ekki veit en ástæðan er ærinn.  Hér verður að vanda sig í stafsetningu og nægir að nefna í því sambandi  ályktun húsnæðisnefndar á þingi ASÍ fyrr í mánuðinum en þar hófst önnur málsgrein svona: "Vandi íslenskra heimila er ærin". Í þessu tilfelli skiptir eitt lítið ENN miklu máli nema að ASÍ hafi verið á sömu nótum og Herdís Þorvaldsdóttir í "heimildarmynd"  sinni um árásir sauðkindarinnar á Fjallkonuna.  En Ágúst Marinósson (Morgunblaðið 24/10 2012)  yrkir af þessu tilefni:

Skuldavandann skelfist ég

og skjálfa á mér lærin.

Þjóðin fetar vondan veg
          því veldur bannsett ærin.


Ró og friður er yfir hrossunum hans Kristjáns í Vatnsdalshólum, Jörunarfellið eitt af hæstu fjöllum A-Húnavatnssýslu gnæfir yfir

Bara svo Jónasi sé haldið til haga í pistli dagsins þá er von á honum í bæinn á morgun og mun eins og oft áður koma með strætó. Dvöl hans verður stutt nú sem fyrr og ekki líklegt að hann nái að hrella yfirvöld sem neinu nemur á þessum stutta tíma.

Mér er bæði ljúft og skylt að greina frá því þó ekki væri fyrir annað en það að greina ríkisendurskoðanda frá,  að ég fékk í gærkvöldi  að gjöf stein einn lítinn og fallegan, fólgin í skjóðu í fánalitunum. Þessi steinn ber í sér töframátt að sögn gefanda sem eru engar aðrar en Töfrakonunar  í Blöndudalnum þær Birgitta Hrönn,  Jóhanna Helga og svo Þuríður sem í nokkur ár bjó í Hvammi í Vatnsdal. Töfrakonunnar kalla þennan stein heilunarstein og fylgir honum vísa sem byrjar svona: "Nú heilunarsteini þú heldur á / og hugsar um draumana rætast þá." Steinnin er silkimjúkur og honum fylgja góðar óskir , þetta góður steinn, gefin af góðum hug og fer vel í lófa. Takk

Þá er Rúnar blessaður mættur með Gluggann.  Maður skynjaði komu hans inn á Aðalgötuna í gegnum þungan bassatakt Strákabandsins sem lék eldfjörugan polka í nýju Súkkunni hans. Og sem fyrr þá sáum við í huganum helstu samkvæmisdansara héraðsins snúast um í hamslausri gleði í takt við tónlistina. Rúnari fylgdi úrkoma sem ekki var búin að ákveða sig hvort heldur ætti að vera snjókoma eða regn en vindurinn hafði hægt um sig.


Ólafur Blómkvist og kona hans hún Jóna Stefánsdóttir á tali við einn af starfsmönnum sláturhússins en sá er frá Nýja Sjálandi. Þegar Ólafur áttaði sig á því að maðurinn væri af kynstofni Maóría frumbyggja Nýja-Sjálands sagði Óli að það væri fallegt fólk sem glögglega má greina á látbragðinu

Glugginn er með öðrum orðum kominn í hús og má þar detta um ýmsar auglýsingar. Má þar m.a. nefna að um miðjan nóvember er hugmyndin að menn fari að kveða og syngja kvæða og tvísöngslög í gömlu kirkjunni á Blönduósi  sem tengjast Vatnsdalnum.  Þar verður örugglega sungið "Farðu vel með Vatnsdæling" og svo framvegis og aðrar merkar stemmur.

Vísa vikunnar er á sínum stað og Rúnar á Skagaströnd opinberar uppgötvun sína  sem okkur Rúnari á Blönduósi hafði lengi grunað að heimskingjar finnast líka hér á meðal okkar í Húnaþingi en sannast sagna eru þeir afar fáir.

En nú er mál að linni og komið að því að finna hið snúna samhengi hlutanna og er okkur Rúnari ærinn vandi á höndum.

Sumar er farið og sést ekki meir,

senn gengur vetur í garð.

Vandinn er ærin(n) segja víst þeir 
          sem vit' ekki hvað af því varð.

 

 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 95
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 75
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 64983
Samtals gestir: 11587
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 23:38:46